Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 520 . mál.


871. Tillaga til þingsályktunar



um innlenda metangasframleiðslu.

Flm.: Kristján Pálsson, Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að undirbúa breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og á tollalögum sem heimili að fella niður eða lækka aðflutningsgjöld og skatta á innlenda metangasframleiðslu úr safnhaugum og sorphaugum sorpeyðingarstöðva. Slík heimild nái einnig til almenningsfarartækja til nota í þéttbýli og sorpbíla sem nýta metangas í stað innfluttra orkugjafa.

Greinargerð.


    Þessi þingsályktunartillaga og tillaga um nýtingu metangass frá sorphaugum og framtíðarstefnu í sorpurðunarmálum eru lagðar fram samhliða og af sömu flutningsmönnum, þar sem önnur lýtur að söfnun metangass og skipulagningu á hráefnissöfnun en hin að nýtingarmöguleikum afurðarinnar (metangassins). Söfnun metangass úr sorphaugum á Álfsnesi er nú þegar orðin staðreynd og gas sem hægt væri að vinna 0,2 mW orku úr streymir úr söfnunarpípum þar og er brennt. Innan fárra mánaða mun gasframleiðslan nema um 1 mW og með virkjun Gufuneshauganna má fá í það minnsta 3,0 mW til viðbótar. Eftir árið 2010 þegar rotnun í Gufuneshaugunum er lokið gæti árleg framleiðsla numið um 2 mW.
    Þar sem umhverfisvernd hefur náð lengst erlendis og stefnt er að sjálfbærri þróun í sem mestum mæli hafa tilraunir sýnt að íbúðabyggð með um 20 þúsund manns getur með söfnun metangass úr sorphaugum sínum fullnægt allri eldsneytisþörf almenningvagna og farartækja opinberra stofnana á vegum sveitarfélagsins.
    Á Íslandi mætti heimfæra þetta upp á höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Árnessvæðið og Eyjaförð, svo dæmi séu tekin. Það samsvarar því að Strætisvagnar Reykjavíkur og Hagvagnar, sorpbílar og aðrir bílar í opinberri þágu sveitarfélaganna á þessum svæðum notuðu einungis metangas sem eldsneyti.
    Metangas mengar um 70% minna en venjuleg gasolía á bíla en auk þess dregur virkjun metangass úr sorphaugum mjög úr mengandi gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu þar sem metangasið mengar um 25 sinnum meira en venjulegt CO 2.
    Kostnaðarsamt er að skipta um bíla eða breyta þeim svo notast megi við metangasið sem orkugjafa og hafa Svíar farið þá leið að mæta auknum kostnaði með lækkun tolla og skatta á bæði eldsneytið og farartækin sem nýta þennan orkukost. Réttlæting slíkrar ákvörðunar er að umhverfisvernd kostar peninga en í þessu tilfelli er um litla peninga að ræða þegar horft er til annara aðgerða sem grípa þarf til svo að það markmið náist að halda í horfinu með mengandi lofttegundir í andrúmsloftinu eða minnka þær.
    Þegar lögð eru saman jákvæð áhrif minnkandi mengunar með brennslu metangassins, í stað þess að hleypa því út í andrúmsloftið, og minni mengunar af bílaumferð þá samsvarar það um 2 / 3 af koltvísýringi (CO 2) frá væntanlegu álveri á Grundartanga, eða 60 þúsund tonnum á ári.
    Íslendingum hefur til þessa þótt fjarlægt að hengja verðmiða á umhverfið þar sem vindar eru stöðugir hér og fjarlægð frá meginlöndunum mikil. Það er þó að koma betur og betur í ljós að við Íslendingar erum ekki betur settir en margar aðrar þjóðir hvað varðar sleppa gróðuhúsaloftegundum út í andrúmsloftið. Við hljótum því að horfa fram á mikinn kostnað á allra næstu árum við að uppfylla alþjóðasamþykktir um umhverfisvernd. Því eru slíkar aðgerðir sem hér eru lagðar til mjög hagkvæmar og réttlætanlegar á meðan ekki er lagður á sérstakur umhverfisskattur sem nýta mætti í aðgerðir sem þessa.
    Sjálfbær þróun er umhverfisverndarsinnuðum þjóðum mikið keppikefli og nýtur vinsælda og skilnings meðal almennings. Af hálfu Íslendinga hafa fyrstu skref verið stigin m.a. með flokkun sorps og endurvinnslu. Það er að frumkvæði stjórnar Sorpu að farið var að safna metangasi úr safnhaugum (sorphaugum) stöðvarinnar en um slík mál gilda engar reglur af hálfu íslenskra stjórnvalda enn sem komið er. Verðmætt frumkvöðulsstarf stjórnenda Sorpu hefur alla burði til að verða fyrsta skefið sem skilar okkur í átt að því að verða vistvæn þjóð á alvörustigi sjálfbærrar þróunar.