Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 350 . mál.


883. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um komugjöld sjúklinga.

    Hvaða breytingar hafa orðið á komugjöldum sjúklinga á sjúkrahús á árunum 1993–96?
    Fyrir 12. janúar 1993 var í gildi reglugerð nr. 194/1992, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þeirri reglugerð var greiðsla sjúkratryggðra fyrir sérfræðilæknishjálp, rannsóknir og röntgen sem hér segir:
—    Sjúkratryggðir, aðrir en elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta, sem leita til sérfræðings greiða fyrir hverja komu til sérfræðings fyrstu 1.500 kr. Elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta greiða fyrir hverja komu til sérfræðings 500 kr.
—    Sjúkratryggðir, aðrir en elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta, greiða fyrstu 1.500 kr. fyrir hverja komu á göngudeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa. Elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta greiða 500 kr.
—    Sjúkratryggðir, aðrir en elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta, greiða fyrstu 600 kr. af kostnaði við hverja komu til rannsóknar á rannsóknarstofu og vegna rannsókna á sýni sem sent er til rannsóknar á rannsóknarstofu. Elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta greiða 200 kr.
—    Sjúkratryggðir, aðrir en elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta, greiða fyrstu 600 kr. af kostnaði við hverja komu til röntgengreiningar. Elli- og örorkulífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta greiða 200 kr.
    Í reglugerð nr. 14/1993 var kveðið á um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna sérfræðilæknishjálpar, rannsókna og röntgen. Með reglugerðinni, sem tók gildi 12. janúar 1993, var ákveðið að taka upp hlutfallsgreiðslu fyrir komu til sérfræðings á stofu og á göngudeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa.
    Samkvæmt reglugerð nr. 68/1996, sem tók gildi 30. janúar 1996, urðu breytingar á greiðslu sjúkratryggðra fyrir sérfræðilæknishjálp, rannsóknir og röntgen.
    Á tímabilinu 1993–96 urðu eftirfarandi breytingar á komugjöldum sjúklinga á sjúkrahús, sbr. fyrrnefndar reglugerðir nr. 14/1993 og 68/1996:
    Fyrir komu til sérfræðings, á göngudeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa hefur hlutdeild sjúkratryggðra hækkað úr 1.200 kr. + 40% af umsömdu eða ákveðnu verði í 1.400 kr. + 40%. Hlutdeild lífeyrisþega og barna sem njóta umönnunarbóta hefur hækkað úr 400 kr. + 1/3 af 40% af umsömdu eða ákveðnu verði í 500 kr. + 1/3 af 40%.
    Gjald fyrir hverja komu á rannsóknarstofu og vegna rannsókna á sýni sem sent er til rannsóknarstofa hefur hækkað úr 900 kr. í 1.000 kr. Hlutdeild lífeyrisþega og barna sem njóta umönnunarbóta er óbreytt, 300 kr.
    Gjald fyrir röntgen hefur hækkað úr 900 kr. í 1.000 kr. Hlutdeild lífeyrisþega og barna sem njóta umönnunarbóta er óbreytt, 300 kr.
    Þá hefur sú breyting einnig orðið á tímabilinu að sjúkratryggðir á aldrinum 67–70 ára greiða nú sama gjald og aðrir sjúkratryggðir, þ.e. 1.400 kr. + 40%/1.000 kr., fyrir komu til sérfræðings, á göngudeild, slysadeild og bráðamóttöku, svo og fyrir komu á rannsóknarstofu og í röntgenrannsókn. Það gildir þó ekki um örorkulífeyrisþega, ellilífeyrisþega 67–70 ára sem nutu örorkulífeyris og ellilífeyrisþega 60–70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris,

    Hver er breytingin hlutfallslega milli ára á
         
    
    bráðamóttöku,
         
    
    slysadeild,
         
    
    röntgendeild,
         
    
    göngudeildum?

    Hlutfallsleg breyting greiðsluþátttökunnar er breytileg þar sem um er að ræða hlutfallsgjald sem þannig er út reiknað að sjúkratryggður greiðir fyrst fasta upphæð og síðan ákveðið hlutfall af því sem þá stendur eftir af umsömdu eða ákveðnu heildarverði. Gildir þetta um bráðamóttöku, slysadeild og göngudeild. Til skýringar skulu hér tekin nokkur dæmi.
—    Ef umsamið eða ákveðið heildarverð hefur verið 2.000 kr. er hækkunin 7,8%.
—    Ef umsamið eða ákveðið heildarverð hefur verið 3.000 kr. er hækkunin 6,2%.
—    Ef umsamið eða ákveðið heildarverð hefur verið 4.000 kr. er hækkunin 5,1%.
—    Ef umsamið eða ákveðið heildarverð hefur verið 5.000 kr. er hækkunin 4,4%.
    Til frekari upplýsinga um hlutfallslega breytingu á greiðslu sjúkratryggðra á tímabilinu 1993–96 má benda á að samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur var útreiknað meðalverð á slysastofu fyrir nýkomu 2.248 kr., sem hækkaði í 2.370 kr. á árinu 1996 eða um 5,4%. Greiðsla sjúkratryggðs fyrir endurkomu breyttist hins vegar ekki, var og er 1.200 kr.
    Sjúkratryggður greiddi almennt í upphafi árs 1993 900 kr. fyrir komu til röntgengreiningar en það gjald hækkaði í 1.000 kr. í upphafi árs 1996, eða um 11,1%. Ellilífeyrisþegar og börn sem njóta umönnunarbóta greiddu í upphafi árs 1993 300 kr. fyrir komu til röntgengreiningar og er það gjald óbreytt, með þeirri undantekningu þó að sjúkratryggðir á aldrinum 67–70 ára greiða nú fullt gjald, þ.e. 1.000 kr., að undanskildum örorkulífeyrisþegum, ellilífeyrisþegum 67–70 ára sem nutu örorkulífeyris og ellilífeyrisþegum 60–70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris.

    Eru sömu komugjöld á öllum sjúkrahúsum?
    Reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra gildir fyrir öll sjúkrahús í landinu og ber stjórnendum þeirra að innheimta samkvæmt henni, sem þýðir að komugjöld eru þau sömu á öllum sjúkrahúsum.
    Sjúkrahúsum og rannsóknarstofum voru sendar leiðbeiningar 19. janúar 1993 vegna reglugerðar nr. 14/1993 þar sem sagði m.a: „Ef koma á gjörgæsludeild, slysadeild og bráðamóttöku stofnar ekki til reikningsgerðar á sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins þannig að hlutfallsgjald er ekki unnt að greiða skal innheimta komugjald kr. 1.500 . . . 
    Samkvæmt bréfi dags. 13. október 1992 sem sjúkrahúsum var sent í framhaldi af setningu reglugerðar 340/1992, um ferliverk, er það forsenda fyrir innheimtu hjá sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins „að sjúkrahúsið sé búið að ganga frá samningi við viðkomandi sérfræðing um skiptingu teknanna milli þess og hans (algengasta hlutfall er u.þ.b. 40%–60%) og senda inn formlega tilkynningu til TR um fyrirhuguð umsvif sérfræðistarfanna.“
    Fyrrgreindar leiðbeiningar heilbrigðisráðuneytisins og þær forsendur um samning við Tryggingastofnun ríkisins sem lýst var í bréfi til sjúkrahúsa urðu til þess að hlutfallsgreiðslur samkvæmt reglugerð 14/1993 voru ekki teknar upp nema að hluta til á sjúkrahúsum. Það leiddi síðan til misræmis milli greiðslna sjúklinga sem fara til sérfræðings á stofu og þeirra sem fara til sérfræðings á sjúkrahúsi sem ekki vinnur samkvæmt samningi TR. Þá gátu greiðslur sjúklinga verið mismunandi eftir því til hvaða sjúkrahúss þeir leituðu.
    Vegna þess mismunar sem upp var kominn ritaði ráðuneytið öllum sjúkrahúsum bréf 25. júní 1996, en með bréfinu fylgdu leiðbeiningar vegna reglugerðar nr. 68/1996, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Í leiðbeiningunum er tekið fram að sjúkratryggðir skuli greiða hlutfallsgjald samkvæmt reglugerðinni, óháð því hvort koma stofnar til reikningsgerðar á sjúkratryggingadeild TR. Með bréfi ráðuneytisins var þeim sjúkrastofnunum sem tekið höfðu komugjald í stað hlutfallsgreiðslu falið að taka upp hlutfallsgreiðslur samkvæmt reglugerð nr. 68/1996.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um annað en að sjúkrahúsin fari nú öll eftir þeim leiðbeiningum sem þeim voru sendar á sl. ári og þar með á sá mismunur sem upp var kominn varðandi komugjöld á sjúkrahúsum að vera úr sögunni.
    Í ljósi þess sem að framan segir vill ráðuneytið benda á að reglur um afsláttarkort hafa ekki breyst á því tímabili sem um er spurt.
    Þá er og nauðsynlegt að benda á reglur um endurgreiðslu umtalsverðs lækniskostnaðar, sbr. reglur um breytingu á reglum nr. 231/1993, um endurgreiðslu á umtalsverðum útgjöldum sjúkratryggðra vegna læknishjálpar og lyfja, með síðari breytingum.