Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 539 . mál.


893. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu atvinnu- og þjónustusvæðanna á landsbyggðinni.

Flm.: Hjálmar Jónsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Egill Jónsson,
Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Hjálmar Árnason,
Sturla Böðvarsson, Vilhjálmur Egilsson.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að móta tillögur um það hvernig efla megi atvinnu- og þjónustusvæðin (vaxtarsvæðin) á landsbyggðinni í því skyni að jafna aðstöðu landsmanna í dreifbýli og þéttbýli.
    Kannað verði m.a. hvernig:
    fólki verður auðvelduð vinnusókn úr dreifbýli í þéttbýli, t.d. með því að aksturskostnaður verði frádráttarbær frá skatti,
    kostnaður vegna margvíslegrar sérfræðiþjónustu á vegum ríkisins verði jafnaður,
    bæta megi aðgengi fyrirtækja að stoðkerfi atvinnulífsins, svo sem helstu menntunar-, rannsóknar- og ráðgjafarstofnunum svo og fjárfestingarsjóðum,
    kostnaður landsmanna vegna húshitunar verði jafnaður, t.d. með því að arðgreiðslur Landsvirkjunar gangi til þess,
    reglur og vinnubrögð banka og sjóða um lánveitingar til atvinnulífsins og einstaklinga verði samræmdar þannig að þær mismuni ekki landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu.

Greinargerð.


    Samkvæmt „Ályktun Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–1997“ segir að meginmarkmið byggðastefnu séu:
—    Að treysta byggðina þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir lands og sjávar verði nýttar með hagkvæmum hætti.
—    Að efla byggð á svæðum þar sem hægt er að reka fjölbreytt og arðsamt atvinnulíf og veita þjónustu að kröfum nútímasamfélags.
—    Að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins þannig að mannvirki þjóðarinnar nýtist skynsamlega.
    Í þessu skyni er unnið að því að tengja þéttbýlisstaði og sveitir með öruggum samgöngum og efla samfelld atvinnu- og þjónustusvæði. Allt landið er eitt atvinnusvæði samkvæmt lögum sem taka gildi 1. júlí 1997. Þótt greina megi að aðgerðir hafi skilað nokkrum árangri er ljóst að enn þá fækkar fólki á landsbyggðinni og fólksflutningur á höfuðborgarsvæðið vex (sjá skýringarmyndir). Eðlilegt er að spurt sé í hversu mörgum tilvikum sá kostur sé nánast neyðarúrræði.
    Ljóst er að ýmsar leiðir eru færar til þess að jafna aðstöðu milli landshluta og innan vaxtarsvæðanna. Þar sem ekki er almenningssamgöngum til að dreifa er kostnaður verulegur af því að sækja vinnu um langan veg. Samdráttur í landbúnaði knýr bændafólk til að sækja vinnu frá heimilum sínum og bæta sér upp rýrnandi tekjur af landbúnaði eftir föngum. Þessa atvinnusókn er unnt að auðvelda og gera fólki kleift að búa áfram á jörðum sínum og nýta með því fasteignir sínar áfram þótt tekjur af búskapnum hafi dregist saman.
    Jafnframt því sem sveitarfélög og samtök þeirra geta markað atvinnustefnu á stærri svæðum og aukið samstarf sín á milli þarf að jafna aðstöðu fyrirtækjanna til uppbyggingar og atvinnuþróunar. Í því sambandi skal bent á að ferðakostnaður fyrirtækja á landsbyggðinni vegna þjónustu sérfræðinga og ráðgjafa er verulegur. Þetta veldur því að fyrirtækin nota sér ekki að fullu þá þjónustu sem í boði er. Evrópuverkefnið RITTS kemur til að mynda að betri notum við nýsköpun og atvinnuþróun verði þessi aðstöðumunur jafnaður.
    Margar og brýnar ástæður eru fyrir því að stjórnvöld landsins taki ákvörðun um markvissar aðgerðir til þess að styðja við búsetu fólks í byggðum landsins, eða taki meðvitaða afstöðu til þeirrar búsetuþróunar sem nú er að verða. Sú undirbúningsvinna sérskipaðrar nefndar sem hér er gerð tillaga um mun auðvelda þá ákvörðunartöku.


Fylgiskjal.

Byggðastofnun:





Mannfjöldi á Íslandi 1. desember 1996 og breyting frá 1986.






(kort)









Þróun mannfjölda á höfuðborgarsvæði og landsbyggð 1971–1996.





(línurit)