Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 540 . mál.


894. Frumvarp til laga



um lækkun fasteignaskatta og hlutdeild sveitarfélaga í virðisaukaskatti.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Svavar Gestsson.



I. KAFLI


Lækkun fasteignaskatta.


A. Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.


1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    2. mgr. orðast svo:
                  Stofn til álagningar fasteignaskatts skal vera fasteignamat eignarinnar.
    3. mgr. orðast svo:
                  Skatturinn skal vera allt að 1,12% af álagningarstofni. Undanþegin skatti eru íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd og jarðeignir sem ekki eru nytjaðar til annars en landbúnaðar, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.
    4. mgr. fellur brott.

2. gr.


    Í stað orðanna „sveitarstjórn“ og „sveitarfélaga“ í 3.–5. gr. laganna kemur (í viðeigandi beygingarföllum): ríkissjóður.

3. gr.


    4. og 5. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

4. gr.


    6. gr. laganna fellur brott.

5. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Árin 1997 og 1998 skal ríkissjóður bæta sveitarfélögum tekjutap sem leiðir af breyttum stofni til álagningar fasteignaskatts.

B. Breyting á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.


6. gr.


    Í stað 2. og 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Stofn til álagningar vatnsgjalds skal vera fasteignamat eignarinnar.

C. Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981.


7. gr.


    Í stað „1,2%“ í 83.gr. laganna kemur: 1,7%.

II. KAFLI
Hlutdeild sveitarfélaga í virðisaukaskatti.
Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
8. gr.

    Við 14. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Til sveitarfélaga renna 12% af þeirri fjárhæð sem ríkissjóður hefur í tekjur af virðisaukaskatti. Skal fjárhæðinni skipt milli sveitarfélaganna í hlutfalli við íbúafjölda þeirra. Skal hlutfallið þannig ákvarðað að ár hvert verður íbúafjöldinn í hverju sveitarfélagi miðaður við meðaltal síðustu þriggja ára á undan.

III. KAFLI


Gildistaka.


9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði b–c-liðar 1. gr., 2.–4. gr. og 7. og 8. gr. koma þó eigi til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1999.

Greinargerð.

    Hér er gerð tillaga um róttækar breytingar á skattkerfinu. Tilgangur frumvarpsins er fjórþættur.
    Í fyrsta lagi er lagt til að skattar almennings verði lækkaðir með því að lækka fasteignaskatta. Sú aðgerð lækkar húsnæðiskostnað fólks bæði í eigin íbúð og í leiguhúsnæði og má ætla að dreifing skattalækkunarinnar verði þannig að lágtekjufólk fái jafnvel meira í sinn hlut en yrði við almenna lækkun á tekjuskatti.
    Í öðru lagi er lagt til að afnumin verði skattlagning á annan álagningarstofn en fasteignamat, en það endurspeglar markaðsvirði eignarinnar. Í þriðja lagi er fasteignaskattur gerður að skatti til ríkissjóðs einvörðungu samhliða þeirri breytingu að fella saman að nokkru leyti eignarskatt til ríkissjóðs og fasteignaskatt til sveitarfélaga og að nokkru leyti fella niður fasteignaskattinn.
    Loks eru þau nýmæli að sveitarfélögum er ætlaður hlutur úr sköttum á vörur og þjónustu, en lagt er til að hluti af virðisaukaskatti renni til sveitarfélaga.

Skattalækkun tengd húsnæðiskostnaði í stað tekna.
    
Ákvæði frumvarpsins lækka fasteignaskatt í tveimur áföngum. Lækkun vegna breytinga á álagningarstofni tæki strax gildi, en gerð er tillaga um þá breytingu að álagning miðist við fasteignamat í stað þess að leggja skattinn á afskrifað endurstofnverð fasteigna margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Víða er mikill munur á þannig reiknuðum álagningarstofni og fasteignamati. Í dreifbýli getur munurinn verið á bilinu 50–75% sem þýðir að lagt er á t.d. 10 millj. kr. stofn í stað 2,5–5,0 millj. kr. Í þéttbýli er einnig víða mikill munur, oft 30–40%. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins er það einungis í fimm sveitarfélögum landsins sem fasteignamatið er gjaldstofn til fasteignaskatts. Í öðrum sveitarfélögum er fasteignamatið uppreiknað samkvæmt framangreindri aðferð. Þessi fimm sveitarfélög eru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Garðabær og Hafnarfjörður. Frumvarpið lækkar gjaldstofn til fasteignaskatts á mannvirki í öðrum sveitarfélögum en þeim fimm sem áður eru talin úr 433 milljörðum kr. í 309 milljarða kr. og miðað við áætlaða meðalálagningarprósentu 0,38 verður skattalækkunin tæplega 500 millj. kr. á ári. Samkvæmt þessum upplýsingum kemur einnig fram að að meðaltali er fasteignamat eigna hækkað um 40% til að fá út gjaldstofninn.
    Ef íbúðir og íbúðarherbergi eru athuguð sérstaklega kemur í ljós að fasteignamat þeirra er um 178 milljarðar kr. en gjaldstofninn liðlega 265 milljarðar kr. Þar er hækkunin liðlega 87 milljarðar kr. eða um 50%. Með öðrum orðum er að meðaltali lagður 50% hærri fasteignaskattur á íbúðareigendur í sveitarfélögum landsins, að frátöldum sveitarfélögunum fimm, en fasteignamat eignarinnar réttlætir. Með því að færa gjaldstofn til fasteignamats verður lækkunin að meðaltali um þriðjungur af núverandi fasteignaskatti hjá hverjum íbúðareiganda.
    Síðari áfanginn verður í upphafi árs 1999, en þá fellur niður fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði jafnhliða því að eignarskattur ríkisins hækkar úr 1,2% í 1,7% af eignarskattsstofni eins og hann er skilgreindur í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þessi breyting lækkar skatta á einstaklinga um 1.800 millj. kr, fasteignaskatturinn sem fellur niður er um 2.500 millj. kr. og hækkun eignarskattsins á móti er um 700 millj. kr.
    Þá er til viðbótar lagt til að fasteignaskattur á landbúnað sé alveg felldur niður og er áætlað að það nemi um 100 millj. kr. Stærstur hluti er vegna útihúsa á jörðum og ræktaðs lands.
    Þá er ákvæðum um álagningarstofn til vatnsgjalds breytt til samræmis við breytingar á álagningarstofni til fasteignaskatts og leiðir sú breyting til svipaðrar hlutfallslegrar lækkunar á vatnsgjaldi að óbreyttri álagningarprósentu. Lækkunin gæti numið um 150 millj. kr. en á það er að líta að vatnsgjald á að standa undir kostnaði sveitarfélags við rekstur vatnsveitu og leiði breytingin til þess að tekjur dugi ekki fyrir útgjöldum munu sveitarfélögin væntanlega hækka álagningarhlutfallið til að auka tekjurnar. Ekki er því gert ráð fyrir að til lengdar verði um neina lækkun að ræða vegna þessarar breytingar.
    Samanlögð áhrif af breytingunni eru að fasteignaskattur lækkar um 2.100 millj. kr. á einstaklinga og um 300 milljónir á atvinnurekstur, eða samtals um 2.400 millj. kr. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir að lækkun gjalda einstaklinga verði um 21 þús. kr. á ári að meðaltali um landið allt þegar breytingin er að fullu komin til framkvæmda. Lækkunin verður eðlilega meiri í sveitarfélögum sem í dag leggja á uppreiknað fasteignamat eða um 27 þús. kr. á ári.
    Af lækkuninni leiðir einnig að húsaleiga ætti að lækka sem nemur lækkun á rekstrarkostnaði húsnæðisins.

Afnumin skattlagning á skattstofn umfram verðmæti eignar.
    Á árinu 1990 var lögum um tekjustofna sveitarfélaga breytt þannig að í stað þess að leggja fasteignaskatt til sveitarfélaga á samkvæmt fasteignamati, sem endurspeglar mat á markaðsvirði eignarinnar, var tekin upp sú regla að miða við áætlað markaðsverð eignarinnar eins og það væri, ef eignin væri í Reykjavík. Með öðrum orðum var verðmæti eignarinnar ekki lengur álagningarstofninn heldur hærri tala. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að óeðlilegt hlýtur að teljast að mönnum sé gert skylt að borga eignarskatt af verðmætum sem þeir eiga ekki. Það hlýtur að koma mjög til álita hvort slík skattlagning hafi nokkurn tíma staðist ákvæði stjórnarskrár, ekki síst eftir að ákvæði jafnræðisreglu voru færð í stjórnarskrána fyrir tveimur árum. Má færa fyrir því gild rök að skattlagningu af þessu tagi svipi mjög til eignarupptöku.
    Skiljanlegt er að sveitarfélög telji sig þurfa svipaðar tekjur þar sem þau hafi sambærileg verkefni og útgjöld, en það er ekki réttlætanlegt að jafna tekjur sveitarfélaga með misháum eignarskatti. Benda má á að eignarskattur til ríkissjóðs samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt er lagður á raunverulegt matsverð eignarinnar, þ.e. fasteignamat og álagningarreglur gilda um land allt.

Fasteignaskattar verði einvörðungu ríkisskattur.
    Lagt er til í frumvarpinu að fasteignaskattur verði tekjustofn ríkissjóðs. Fyrir því eru gild rök. Eðlilegt er að skattar af fasteignum séu á einni hendi og þannig verði betra samræmi milli álagningarreglna og yfirsýn yfir það hverju skatturinn skilar. Þá er verðmæti fasteigna mjög mismunandi eftir því hvar á landinu eignin er og því skilar eignarskattur mismunandi miklum tekjum. Af þeim sökum eru skattar á fasteignir óheppilegur tekjustofn fyrir sveitarfélög.
    Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins fellur niður fasteignaskattur skv. a-lið 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga og annar fasteignaskattur flyst til ríkissjóðs. Þá er lagt til að eignarskattur einstaklinga hækki úr 1,2% í 1,7% af eignarskattstofni. Með þessari breytingu greiða einstaklingar einungis eignarskatt af eignum sínum samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Sú grundvallarbreyting verður þá að eignarskattur verður lagður á eignir samkvæmt markaðsvirði og að frádregnum skuldum, en telja verður afar óeðlilegt að lagður sé eignarskattur á hærra mat en markaðsvirði eignarinnar og auk þess án þess að skuldir séu dregnar frá eigninni eins og nú er gert með fasteignaskatti til sveitarfélaganna.
    Gert ráð fyrir að í framtíðinni verði núverandi eignarskattur og fasteignaskattur á atvinnurekstur samræmdir á sambærilegan hátt og lagt er til varðandi einstaklinga og verður auðveldara við það að eiga þegar báðir skattarnir eru orðnir ríkisskattar.

Sveitarfélög fá hlutdeild í sköttum af vörum og þjónustu.
    Samkvæmt núgildandi lögum eru tekjustofnar sveitarfélaga ekki tengdir almennum hagvexti í þjóðfélaginu beint heldur ráðast þeir að mestu af staðbundnum efnahagssveiflum auk launabreytinga samkvæmt kjarasamningum. Þannig hafa sveitarfélög, sem byggjast að mestu á sjávarútvegi, búið við verulegan samdrátt á undanförnum árum, sérstaklega þar sem stuðst er við botnfiskveiðar, á sama tíma og nokkur hagvöxtur varð almennt í efnahagslífi landsmanna. Þetta er mjög áberandi um þessar mundir þar sem umtalsverð uppsveifla er í hagkerfinu bæði vegna þess að uppsveiflan nær ekki til landsins alls og hins að tekjur af uppsveiflunni renna nær eingöngu í ríkissjóð. Telja verður eðlilegt að aukinn hlutur af tekjum sveitarfélaga komi af óbeinum sköttum en minni af staðbundnum tekjustofnum og þannig verði leitast við að jafna að nokkru um landið mismunandi efnahagslegum áhrifum eftir atvinnugreinum og landsvæðum.
    Í frumvarpinu er lagt til að 12% tekna af virðisaukaskatti renni til sveitarfélaga og er gert ráð fyrir að sú fjárhæð nú jafngildi tekjum sveitarfélaga af fasteignaskatti.

Fjármagnstekjuskatti verði varið til lækkunar á fasteignasköttum.
    Á næsta ári koma til hjá ríkissjóði tekjur af fjármagnstekjuskatti. Er áætlað að þær nemi um 700 millj. kr. fyrst í stað en geti orðið um 1.100 millj. kr. Þykir eðlilegt að verja þessum tekjum til þess að lækka skatta almennings af fasteignum. Slík skattalækkun skilar sér vel til almennra launþega og dreifing hennar verður þannig að stærri hluti skattalækkunarinnar fer til tekjulágra en við lækkun á skattprósentu til tekjuskatts.

Fjárhagsleg áhrif.
    
Á árinu 1997 er gert ráð fyrir að lækkun fasteignaskattsins nemi 250–300 millj. kr. og er þá miðað við að frumvarpið verði að lögum um mitt þetta ár. Á næsta ári nemur lækkunin um 500 millj. kr. Sveitarfélögunum verður bætt tekjutapið með greiðslu úr ríkissjóði bæði árin. Tekjur ríkisjóðs af fjármagnstekjuskatti á næsta ári sem áætlaðar eru um 700 millj. kr. gera það að verkum að ríkissjóður stendur jafnréttur eftir.
    Á árinu 1999 koma ákvæði frumvarpsins að fullu til framkvæmda, ef samþykkt verður. Skattalækkun verður um 3.100 millj. kr., um 300 millj. kr. á atvinnurekstur vegna lækkunar á álagningarstofni fasteignaskatts og afnámi skattsins á eignir í landbúnaði og um 2.800 millj. kr. vegna niðurfellingar fasteignaskatts á einstaklinga. Þá flyst fasteignaskattur á atvinnurekstur til ríkissjóðs. Fasteignaskattur hefur skilað sveitarfélögum um 5.800 millj. kr. og er lagt til að þeim verði það bætt með hlutdeild í virðisaukaskatti. Á móti þessu tekjutapi ríkissjóðs kemur í fyrsta lagi fasteignaskattur sem er áætlaður vera um 2.700 millj. kr., hækkun á eignarskatti einstaklinga um 700 milljónir kr. og áætlaðar tekjur af fjármagnstekjuskatti sem hér eru áætlaðar um 1.100 millj. kr. Samtals eru þetta um 4.500 millj. kr. og gera má ráð fyrir að nýjar tekjur ríkissjóðs af óbreyttum tekjustofnum vegna hagvaxtar skili 1.300 millj. kr. sem upp á vantar. Má í því sambandi benda á að í skattatillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lækkun skatta frá og með 1999 nemi liðlega 5.000 millj. kr. sem tekjur vegna hagvaxtar muni borga að mestu leyti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að álagningarstofn fasteigna verði fasteignamat þeirra og þar með fallið frá því að leggja fasteignaskattinn á annan og hærri stofn en markaðsverðs þeirra eins og Fasteignamat ríkisins metur það.
    Í b-lið er lagt til að aðeins verði eitt þrep í fasteignaskatti og lægra þrepið fellt niður. Þær eignir, sem verið hafa skattlagðar samkvæmt lægra þrepi, verða undanþegnar fasteignarskatti og auk þeirra eignir í landbúnaði. Gert er ráð fyrir að þessi breyting taki gildi í ársbyrjun 1999.

Um 2.–4. gr.

    Í þessari grein og c-lið 1. gr. eru gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga til þess að færa fasteignaskattinn til ríkissjóðs, svo og felld úr lögunum ákvæði sem verða þýðingarlaus við það og niðurfellingu fasteignaskatts á einstaklinga.

Um 5. gr.

    Kveðið er á um það að ríkissjóður skuli bæta sveitarfélögunum tekjutap þeirra árin 1997 og 1998 sem breytingin á álagningarstofni til fasteignaskatts hefur í för með sér. Er gert ráð fyrir að um beinar greiðslur verði að ræða til hvers og eins sveitarfélags.

Um 6. gr.


    Álagningarstofn til vatnsgjalds er breytt og verður fasteignamat eignanna svo sem verður varðandi fasteignaskatt.

Um 7. gr.

    Lagt er til að eignarskattur manna lækki úr 1,2% af eignarskattsstofni eins og hann er skilgreindur í lögum um tekjuskatt og eignarskatt í 1,7%. Þessi breyting verði samhliða niðurfellingu fasteignaskatts einstaklinga.

Um 8. gr.

    Í stað tekna af fasteignaskatti er sveitarfélögunum ætlaður hlutur af virðisaukaskatti og er miðað við að þau verði ekki af tekjum við breytinguna.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fasteignamat ríkisins:

Yfirlit um áætlað samanlagt fasteignamat og stærðir fasteigna í fasteignaskrá ársins 1996. Samtölur fyrir sveitarfélög 1603 til 8717.


Fjöldi

Flatarmál

Lóðarmat

Mat mannv.

Heildarmat

Gjaldstofn

Heildarst.




Íbúðir og íb.herbergi     
35.416
4.316.255 10.133.382 165.087.525 175.220.907 230.152.792 240.286.174
Bílskúrar, sérmetnir     
13.779
528.995 67.758 9.235.254 9.303.012 12.068.654 12.136.412
Sumarbústaðir     
8.597
367.354 2.202.648 9.331.309 11.533.957 13.388.433 15.591.081
Verslunar- og skrifst.     
1.895
443.092 1.171.278 11.110.586 12.281.864 15.452.716 16.623.994
Iðnaðarhús     
3.280
1.125.808 2.913.742 20.624.498 23.538.240 28.065.720 30.979.462
Vörugeymslur     
1.040
234.151 679.911 2.788.556 3.468.467 3.833.109 4.513.020
Sérhæfðar byggingar     
9.552
1.703.287 3.685.602 52.237.506 55.923.108 71.100.068 74.785.690
Önnur mannvirki     
968
79.237 42.720 750.335 793.055 876.916 919.636
Óbyggðar lóðir.     
5.920
0 3.149.414 0 3.149.414 0 3.149.414
Ræktað land²     
5.943
0 0 4.782.636 4.782.636 4.782.636 4.782.636
Óræktað land jarða     
7.108
0 1.973.101 0 1.973.101 0 1.973.101
Íbúðarhús á jörðum     
6.362
729.293 0 14.754.587 14.754.587 35.213.646 35.213.646
Útihús á jörðum     
32.373
2.868.175 0 12.826.366 12.826.366 12.826.366 12.826.366
Hlunnindi     
4.487
10.000 0 5.171.693 5.171.693 5.171.693 5.171.693
Samtals     
12.405.647 26.019.556 308.700.851 334.720.407 432.932.769 458.952.325

Alls eru 174.999 matseiningar í sveitarfélögunum. Rúmmál bygginga er samtals 51.504.087,0 m³.
. Alls eru 43.832 lóðir í sveitarfélögunum að stærð 122.639.050,9 m² og 49.278,2 ha.
² Ræktað land er alls 135.629,9 ha.

Yfirlit um áætlað samanlagt fasteignamat og stærðir fasteigna í fasteignaskrá ársins 1996. Samtölur fyrir landið allt.


Fjöldi

Flatarmál

Lóðarmat

Mat mannv.

Heildarmat

Gjaldstofn

Heildarst.




Íbúðir og íb.herbergi     
94.574
11.041.744 50.836.436 518.900.729 569.737.165 583.965.996 634.802.432
Bílskúrar, sérmetnir     
30.733
1.076.297 369.122 21.424.289 21.793.411 24.255.793 24.624.915
Sumarbústaðir     
8.982
376.306 2.368.769 9.513.699 11.882.468 13.571.893 15.940.662
Verslunar- og skrifst.     
4.927
1.657.027 9.924.517 48.793.408 58.717.925 53.135.538 63.060.055
Iðnaðarhús     
5.489
2.141.735 9.200.884 42.443.267 51.644.151 49.885.149 59.086.033
Vörugeymslur     
1.712
610.207 3.711.334 9.338.620 13.049.954 10.383.173 14.094.507
Sérhæfðar byggingar     
23.287
3.236.935 16.520.951 103.996.192 120.517.143 122.858.940 139.379.891
Önnur mannvirki     
1.000
88.467 103.007 953.040 1.056.947 1.079.621 1.182.628
Óbyggðar lóðir.     
8.370
0 11.832.797 0 11.832.797 0 11.832.797
Ræktað land²     
5.964
0 0 4.797.785 4.797.785 4.797.785 4.797.785
Óræktað land jarða     
7.127
0 1.981.624 0 1.981.624 0 1.981.624
Íbúðarhús á jörðum     
6.374
729.387 0 14.773.850 14.773.850 35.232.909 35.232.909
Útihús á jörðum     
32.427
2.868.237 0 12.832.601 12.832.601 12.832.601 12.832.601
Hlunnindi     
4.496
10.019 0 5.201.540 5.201.540 5.201.540 5.201.540
Samtals     
23.836.361 106.849.441 792.969.020 899.818.461 917.200.938 1.024.050.379

Alls eru 285.932 matseiningar í sveitarfélögunum. Rúmmál bygginga er samtals 94.242.589,0 m³.
. Alls eru 68.164 lóðir í sveitarfélögunum að stærð 159.955.114,3 m² og 85.890,3 ha.
² Ræktað land er alls 135.907,5 ha.