Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 397 . mál.


921. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um reglugerðir á grundvelli laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða reglugerðir hafa verið settar á grundvelli 7. gr. laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur?
    Útgefnar reglugerðir samkvæmt þeirri grein óskast birtar með svarinu.


    Engar reglugerðir hafa verið settar á grundvelli 7. gr. laga nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, en lögin öðluðust gildi fyrir tæpu ári. Kemur þar tvennt til; annars vegar er hér um að ræða mjög flókin mál og hins vegar hefur nýlega, skv. 6. gr. laganna, verið skipuð ráðgjafarnefnd eins og umhverfisráðherra hefur þegar gert grein fyrir í munnlegu svari við fyrirspurn á þingskjali nr. 689 um ráðgjafarnefnd um erfðabreytingar á lífverum.
    Samkvæmt lögum skal ráðgjafarnefndin veita umsagnir um atriði er snerta málaflokkinn og veita eftirlits- og framkvæmdaraðilum ráðgjöf um framkvæmd laganna. Það er því nauðsynlegt að hún fjalli um þær reglugerðir sem settar verða samkvæmt lögunum og komi að undirbúningi þeirra. Það verk er að hefjast.
    Því verður ekki neitað að langan tíma tók að skipa í nefndina en skýringin er sú að það reyndist hvorki auðvelt að finna hæfa aðila til setu í nefndinni né að fá þá til þátttöku enda eins og áður segir um flókin mál að ræða. Auk þess mun mikil vinna lenda á nefndarmönnum varðandi þær reglur sem nauðsynlegt er að setja til að framfylgja lögunum.