Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 574 . mál.


947. Fyrirspurn



til menntamálaráðherra um málskot úrskurða stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til menntamálaráðuneytisins.

Frá Bryndísi Hlöðversdóttur.



    Hversu mörgum úrskurðum stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið skotið til ráðuneytisins frá því að lög nr. 21/1992 tóku gildi?
    Í hversu mörgum tilvikum hefur ráðuneytið lagt efnislegt mat á ákvörðun stjórnar LÍN?
    Um hvaða mál er þar að ræða og hvenær kvað ráðuneytið upp úrskurð sinn?
    Í hve mörgum tilvikum á þessu tímabili hefur ráðuneytið breytt efnislega niðurstöðu stjórnar LÍN?
    Hvenær voru þeir úrskurðir kveðnir upp?
    Hve lengi hefur sú framkvæmd tíðkast, sem vitnað er til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, að ekki sé unnt að skjóta úrskurðum stjórnar LÍN til æðra stjórnvalds?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Í frumvarpi til laga um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (531. mál, þskj. nr. 885) sem nú liggur fyrir Alþingi er lögð til sú breyting á 5. gr. laganna að ekki verði lengur heimilt að skjóta úrskurðum stjórnar LÍN til æðra stjórnvalds. Núgildandi lög koma ekki í veg fyrir málskot en í athugasemdum með frumvarpinu segir að um þetta hafi ríkt venja sem nú er lagt til að verði lögfest. Með fyrirspurn þessari er leitað eftir frekari skýringum á því hvenær umrædd stjórnsýsluvenja hafi tekið að myndast enda er verið að leggja það til með umræddu frumvarpi að námsmenn séu sviptir þeim sjálfsögðu borgaralegu réttindum að geta skotið úrskurði lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds.