Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 238 . mál.


952. Nefndarálit



um frv. til l. um almenningsbókasöfn.

Frá menntamálanefnd.



    Menntamálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Gunnarsson, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu, Sigrúnu Klöru Hannesdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, Einar Sigurðsson landsbókavörð, Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrafn Harðarson frá Bókavarðafélagi Íslands, Þorbjörgu Karlsdóttur frá Félagi um almennings- og skólasöfn og Margréti Ásgeirsdóttur frá Félagi bókasafnsfræðinga. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Bæjar- og héraðsbókasafninu á Ísafirði, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Félagi bókavarða rannsóknarbókasafna, Félagi bókasafnsfræðinga, Bókasafni Grindavíkur, Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi, Bókavarðafélagi Íslands, Háskóla Íslands, Bókasafni Garðabæjar, Bókasafni Reykjanesbæjar, Félagi um almennings- og skólasöfn, Bókasafni Vestmannaeyja, Bókasafni Seltjarnarness, Bæjarbókasafni Dalvíkur, héraðsnefnd Skagfirðinga, Héraðsbókasafni Austur-Húnavatnssýslu, Héraðsbókasafni Rangæinga, héraðsnefnd Vestur-Húnavatnssýslu, Bæjar- og héraðsbókasafninu á Akranesi, Amtsbókasafninu á Akureyri, Þjóðminjasafni Íslands, Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandi vestra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um almenningsbókasöfn sem eru frá árinu 1976. Aðstæður hafa breyst mjög mikið á þessum tíma og er þar helst að telja gífurlegar framfarir í upplýsingatækni sem hafa víðtæk áhrif á starfshætti bókasafna. Einnig hefur sameining sveitarfélaga breytt rekstrargrundvelli almenningsbókasafna. Helstu breytingar, sem frumvarpið hefur í för með sér, eru að flokkun almenningsbókasafna er einfölduð og búið er í haginn fyrir skipulag sem stuðla á að myndun öflugri umdæmissafna, en gert er ráð fyrir að eitt safn í hverju bókasafnsumdæmi gegni hlutverki umdæmissafns og ræki þjónustu við önnur söfn í umdæminu. Þá er lagt til að afnumin verði lagaákvæði um lágmarksframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna, en mælt fyrir um að framlög skuli ákveðin í fjárhagsáætlun sveitarfélags. Þá er í samræmi við ákvæði laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn kveðið á um ráðgjafar- og samstarfshlutverk safnsins gagnvart almenningsbókasöfnum. Einnig er fellt niður ákvæði um embætti bókafulltrúa í menntamálaráðuneytinu, en eftir sem áður mun ráðuneytið fara með yfirstjórn og eftirlit með þessum málum. Þá er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði næstu fimm árin og er framlaginu ætlað að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímatækni og til
að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet.
    Í ábendingum sem nefndinni bárust kom fram að eðlilegt væri að umdæmissöfn fengju allt prentað efni sem gefið væri út af opinberum aðilum. Leggur nefndin til að þetta atriði verði skoðað sérstaklega við endurskoðun laga um skylduskil til safna, en ljóst er að þau þarf að endurskoða. Þá leggur nefndin til að 14. gr. gildi aðeins þar til frumvarp til laga um Bókasafnssjóð höfunda tekur gildi, en í því frumvarpi er fjallað um Bókasafnssjóð höfunda sem ætlað er að taka við af Rithöfundasjóði Íslands. Leggur menntamálanefnd til að frumvörpin verði afgreidd á sama tíma. Miðað er við að frumvarpið um Bókasafnssjóð höfunda taki gildi 1. janúar 1998.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali, en þær eru helstar:
    Lagt er til að eitt af markmiðum almenningsbókasafna verði að stuðla að símenntun, en í mörgum umsögnum sem nefndinni bárust komu fram ábendingar um að ákvæði þess efnis vantaði inn í 1. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að sérstök tilvísun í ferðamál verði felld út úr 6. gr., en ekki þykir ástæða til að nefna eina grein atvinnulífsins umfram aðrar í ákvæði þar sem mælt er fyrir um að kappkosta skuli að koma á upplýsingaþjónustu eða deildum við almenningsbókasöfn sem tengist atvinnulífinu.
    Þá leggur nefndin til að orðin „leitast við að“ í 8. gr. frumvarpsins falli brott, en í greininni er m.a. fjallað um menntunarkröfur sem gerðar eru til starfsfólks almenningsbókasafna. Nefndarmenn eru sammála um að mikilvægt sé að starfsmenn og forstöðumenn almenningsbókasafna hafi lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði, en benda jafnframt á að ekki er alltaf mögulegt að fá fólk með slíka menntun til starfa og því þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki í menntunarkröfum þeim sem settar eru í lög. Þó vill nefndin taka fram að með jafngildu námi er átt við háskólanám í greinum sem eru sambærilegar bókasafns- eða upplýsingafræði, en ekki annars konar nám er veitir BA-gráðu.
    Einnig leggur nefndin til að tilvísun til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verði felld út úr 12. gr., en menntamálaráðuneytið fái þess í stað opna heimild til að fela aðilum utan ráðuneytisins skýrslugerð og úrvinnslu gagna um fjármál og starfsemi almenningsbókasafna. Þessi verkefni hafa hingað til heyrt undir bókafulltrúa þann sem starfað hefur í menntamálaráðuneytinu, en verkefnin þykja þess eðlis að hentugt kynni að vera að fela þau öðrum aðilum og koma þar til greina jafnt opinberar stofnanir og einkaaðilar. Í þessu sambandi hefur einkum verið nefnt að Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Hagstofa Íslands eða Þjónustumiðstöð bókasafna kæmu til greina við vinnslu slíkra verkefna, en ekki þykir rétt að nefna einn aðila umfram annan í lögum.
    Ólafur Örn Haraldsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 1997.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Hjálmar Árnason.

Svanfríður Jónasdóttir.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Sigríður Jóhannesdóttir,

Arnbjörg Sveinsdóttir.


með fyrirvara.



Guðný Guðbjörnsdóttir,


með fyrirvara.