Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 361 . mál.


959. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um starfsfólk sjúkrastofnana.

    Hversu margir einstaklingar voru á launaskrá sjúkrahúsa, sjúkrastofnana (þar með taldar öldrunarstofnanir og heilsugæslustöðvar) og annarra stofnana sem heyrðu undir heilbrigðisráðuneytið um síðustu áramót?
                  Óskað er sundurliðunar eftir einstökum stofnunum, starfsgreinum og kyni starfsmanna.

    Um síðustu áramót voru 8.372 starfsmenn starfandi í stofnunum sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Eru þá undanskildar stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir svo sem Tryggingastofnun ríkisins, Landlæknisembættið, héraðslæknar og Geislavarnir ríkisins. Um sundurliðanir vísast til fylgiskjala I og II.
    Á fylgiskjali I má sjá töflu yfir fjölda heilbrigðisstarfsmanna flokkaðan eftir tegund starfsemi. Enn fremur er fjöldi starfsmanna sýndur sem hlutfall af vinnuframboði, en með vinnuframboði er átt við mannafla á vinnumarkaði (16 ára og eldri) mældan í fjölda stöðugilda. Flokkurinn dvalar- og hjúkrunarheimili inniheldur störf á hjúkrunarheimilum og blönduðum dvalar- og hjúkrunarheimilum en ekki störf á hreinum dvalarheimilum. Í flokknum önnur þjónusta eru talin störf á ýmsum sérhæfðum stofnunum, svo sem endurhæfingarstofnunum og meðferðarheimilum.
    Á fylgiskjali II má sjá sömu upplýsingar og í fylgiskjali I nema að þessu sinni er flokkað gróflega eftir starfstegundum. Með öðrum heilbrigðisstarfsmönnum er átt við löggildar heilbrigðisstéttir aðrar en þær sem áður eru upp taldar. Örlítillar ónákvæmni kann að gæta á flokkun milli annarra heilbrigðisstarfsmanna og annars starfsfólks.
    Í báðum töflunum eru störfin sundurgreind eftir kynjum og atvinnusvæðum. Til höfuðborgarsvæðis teljast Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Garðabær, Hafnarfjörður, Bessastaðahreppur, Mosfellsbær, Kjalarneshreppur og Kjósarhreppur. Strandasýsla telst til atvinnusvæðis Norðurlands vestra.

    Hvert er hlutfall heilbrigðisstarfsmanna af vinnubærum mönnum í viðkomandi sveitarfélagi annars vegar og þjónustusvæðis stofnunar hins vegar?
    Sjá svar við 1. lið fyrirspurnar. Ekki eru tiltækar upplýsingar um nánari sundurliðun á því hvert er hlutfall heilbrigðisstarfsmanna af vinnubærum mönnum aðrar en þær sem skilgreindar eru í 1. lið eftir atvinnusvæðum.

    Hefur verið lagt mat á mikilvægi þessara þjónustustofnana í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga og áhrifa á það með tilliti til byggðastefnu? Hefur það verið gert í tillögum nefndar heilbrigðisráðherra um „hagræðingu í rekstri landsbyggðarsjúkrahúsa“?
    Markmið heilbrigðisþjónustunnar er að tryggja öryggi og góða þjónustu við íbúa landsins og er starfsemi heilbrigðisstofnana miðuð við það. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki lagt formlegt mat á mikilvægi þessara þjónustustofnana í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga enda eru atvinnu- og byggðamál ekki á forræði heilbrigðisyfirvalda. Hins vegar er fullur skilningur innan ráðuneytisins á því að taka þarf tillit til ýmissa sjónarmiða og hagsmuna í útfærslu hugmynda um endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar um landið.
Fylgiskjal I.



Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna og samanburður við vinnuframboð.
(Flokkað eftir tegund
starfsemi.)


Fylgiskjal II.


Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna og samanburður við vinnuframboð.


(Flokkað eftir tegund starfa.)