Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 371 . mál.


960. Viðbótarsvar



forsætisráðherra við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um kostnað af ráðstefnu einkavæðingarnefndar.

    Í fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um kostnað af ráðstefnu einkavæðingarnefndar (þskj. 649) hljóðar 3. liður svo:
    Hve mikið greiddu ráðuneyti og opinberar stofnanir í þátttökugjöld, sundurliðað eftir ráðuneytum og stofnunum?

    Í fyrra svari forsætisráðherra við fyrirspurninni (þskj. 744) var greint frá því hvernig staðið var að ráðstefnuhaldinu og þar kom fram að öll framkvæmd hennar var á hendi einkaaðila. Ekki lá því fyrir hjá forsætisráðuneytinu eða framkvæmdanefnd um einkavæðingu hverjir sóttu ráðstefnuna eða hverjir greiddu gjald fyrir þátttöku í henni.
    Þar sem sérstaklega hefur verið leitað eftir því að upplýst verði hve mikið einstök ráðuneyti og stofnanir greiddu í þátttökugjald hefur forsætisráðuneytið óskað eftir því við önnur ráðuneyti að þau láti því í té upplýsingar um framangreint.
    Upplýst skal að fulltrúar frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti (einn einstaklingur) og dóms- og kirkjumálaráðuneyti (tveir einstaklingar) sóttu ráðstefnuna og greiddu fyrir það sérstaklega. Að auki sóttu ráðstefnuna fulltrúar fjögurra annarra ráðuneyta, en ekki var greitt fyrir þá sérstaklega, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar (þskj. 744).
    Fulltrúar eftirtalinna stofnana í A-hluta ríkisreiknings sóttu ráðstefnuna: Vinnueftirlits ríkisins, Fasteigna ríkissjóðs, Flugmálastjórnar, Háskóla Íslands, Geislavarna ríkisins, sýslumannsins í Reykjavík, Fasteignamats ríkisins, Lánasýslu ríkisins, Ratsjárstofnunar, Iðntæknistofnunar, Ríkiskaupa, Þjóðhagsstofnunar, Pósts og síma hf., Ríkisendurskoðunar, Landmælinga Íslands, Námsgagnastofnunar, Ríkisspítala, Sjúkrahúss Þingeyinga og Vinnueftirlits ríkisins.
    Þátttökugjald var 14.600 kr. Nokkuð var um að þeir sem taldir eru upp hér að framan greiddu lægra gjald, enda sátu þeir ekki kvöldverðinn.