Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 468 . mál.


961. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Kristjánssonar um rannsóknir Landsvirkjunar á virkjunarkostum á hálendinu norðan Vatnajökuls.

    Hvaða rannsóknir hafa farið fram á vegum Landsvirkjunar á virkjunarkostum á hálendinu norðan Vatnajökuls sl. fjögur ár?
    Í febrúar 1993 kom út skýrsla á vegum samstarfsnefndar iðnaðarráðuneytis og Náttúruverndarráðs um orkumál (SINO-nefndin svokallaða) sem fjallaði um samanburð á umhverfisáhrifum virkjunar Jökulsár á Fjöllum og Jökulsár á Brú. Þar voru bornir saman með tilliti til helstu umhverfisþátta ýmsir virkjunarkostir með því að veita ánum til Fljótsdals. Voru fengnir til verksins sérfróðir aðilar og kunnugir á svæðinu undir stjórn sérstaks verkefnisstjóra.
    Árin 1993–94 urðu grunnrannsóknir markvissari og beindust þær að þeim tilhögunum í skýrslu SINO-nefndarinnar sem voru taldar koma helst til greina með lilliti til þess að umhverfisáhrif yrðu sem minnst ef til þess kæmi að jökulánum yrði veitt til Fljótsdals. Þar má nefna almenna kortagerð og gróðurkortagerð, jarðfræðikortlagningu og gróðurfarsrannsóknir auk áætlana um hugsanlegar útfærslur á tilhögun þessara virkjunarkosta. Þá hófust reglubundnar myndatökur af fari hreindýra um Vesturöræfi að vorlagi til að geta metið þau áhrif sem hugsanlegt miðlunarlón í Jökulsá á Brú hefði á burð dýranna.
    Frá sama tíma hefur verið lögð aukin áhersla á vatnamælingar, jöklamælingar og einnig hefur verið gert átak í úrvinnslu vatnafræðigagna frá fyrri árum, þar á meðal aurburðarmælinga. Unnið var að gerð rennslislíkans fyrir Jökulsá á Brú til að geta betur metið orkugetu árinnar.
    Þá hafa verið gerðar ítarlegar mælingar á vatnsborði og rennsli Lagarfljóts til þess að kanna nauðsynlegar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir sveiflur eða hækkun vatnsborðs í Leginum umfram þær náttúrulegu sveiflur sem nú eru.
    Hafnar voru rannsóknir á breytingum á strandlínu Öxarfjarðar og Héraðsflóa á undanförnum áratugum og lagt var mat á áhrif hugsanlegrar veitu Jökulsár á Fjöllum til Fljótsdals og minnkandi aurburðar til sjávar af þeim sökum, með tilliti til strandrofs.
    Loks ber að nefna að hafnar voru mælingar á áhrifum ferskvatnsstreymis í Öxarfjörð á lífríki sjávar til að geta metið hugsanlegar breytingar á lífríkinu ef Jökulsá á Fjöllum yrði veitt til Fljótsdals, en rennsli árinnar til sjávar mundi minnka við það um u.þ.b. helming.
    Á árinu 1994 var tekin sú ákvörðun að beina rannsóknum í auknum mæli að virkjun Jökulsár á Brú þar eð talið var líklegra að virkjun hennar yrði að veruleika en virkjun Jökulsár á Fjöllum.
    Í ágúst 1994 kom út kynningarrit á vegum iðnaðarráðuneytisins, Virkjanir norðan Vatnajökuls. Upplýsingar til undirbúnings stefnumótun. Þar var gerð grein fyrir helstu rannsóknum og niðurstöðum sl. 25 ár og því lýst á hvern hátt hin miklu vatnsföll norðan Vatnajökuls yrðu best nýtt til raforkuframleiðslu með sem minnstri röskun á umhverfinu. Efnt var til funda á Norður- og Austurlandi haustið 1994 til kynningar á þeim virkjunarkostum sem fjallað er um í riti ráðuneytisins. Sjá mynd 1.
    Frá þeim tíma hefur verið haldið áfram ofangreindum langtímarannsóknum, m.a. á vatnafari og aurburði. Síritandi hitamælum hefur verið komið fyrir í jökulánum og einnig hafa farið fram hitamælingar í Leginum. Svæðið ásamt hugsanlegu lónstæði í Jökulsá á Brú sunnan Kárahnúka (Hálslóni) hefur verið kortlagt og eldri kort af svæðinu hafa verið færð á tölvutækt form, m.a. til að færa þar inn niðurstöður umfangsmikilla rannsókna fyrri ára. Á síðustu tveimur árum hefur enn fremur verið unnið að rannsókn á áhrifum virkjunarmannvirkja á samgöngur og ferðamennsku.
    Staðbundnar rannsóknir hafa einkum beinst að virkjun Jökulsár á Brú með gerð stíflu og miðlunarlóns sunnan við Fremri-Kárahnúka og veitu þaðan um jarðgöng til Fljótsdals. Rannsóknir hafa beinst að berglagagerð á jarðgangaleið og gæðum berglaga á stíflustæði Kárahnúkastíflu, m.a. með rannsóknarborunum. Þessar athuganir eru m.a. gerðar til þess að ganga úr skugga um hvort tæknilega sé unnt að grafa svo löng og víð göng þessa leið og hvort vandkvæði kunni að vera á að reisa jafn háa stíflu og hagkvæmast þykir við Kárahnúka. Þá hefur verið unnið að athugunum á byggingarefni til stíflugerðarinnar í nágrenninu til þess að geta metið heppilegustu og hagkvæmustu gerð hennar.
    Stefnt er að því að halda áfram öllum fyrrnefndum langtímarannsóknum vegna Jökulsár á Brú á þessu ári, m.a. þeim umhverfisrannsóknum er snerta veitu árinnar til Fljótsdals. Auk þess verður lögð áhersla á að rannsaka berglagagerð við fyrirhugað stíflustæði við Fremri-Kárahnúk og á hugsanlegri jarðgangaleið undir Fljótsdalsheiði. Sjá mynd 2.

    Munu þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hugsanlega leiða til breytinga á hönnun virkjunar Jökulsár í Fljótsdal, öðru nafni Fljótsdalsvirkjunar?
    Í niðurstöðum í skýrslu SINO-nefndarinnar frá 1993 segir í áliti verkefnisstjóra að verði dráttur á byggingu Fljótsdalsvirkjunar sé eðlilegt að líta á nýtingu allra jökulánna og áhrif þeirra á umhverfið í samhengi. Í kafla 3.4 í kynningarriti iðnaðarráðuneytisins frá ágúst 1994, Virkjanir norðan Vatnajökuls, er fjallað um möguleika á að draga úr eða fella niður miðlun á Eyjabökkum með því að samtengja fyrirhuguð aðrennslisgöng Fljótsdalsvirkjunar og Kárahnúkavirkjunar og virkja jökulsárnar í Fljótsdal og á Brú saman. Þar er þess getið að varla sé um aðra miðlunarmöguleika að ræða en að hækka Hálslón til að mæta miðlunarþörf Jökulsár í Fljótsdal. Að auki hefur verið reiknað með að verulegum hluta af vatnsmiðlun Hraunasvæðisins, austan við vatnasvið Jökulsár í Fljótsdal, yrði beint til Eyjabakkalóns og af þeim sökum þyrfti að hækka vatnsborð þess frá því sem gert er ráð fyrir í virkjunarleyfi Landsvirkjunar frá 1991 í þá hæð sem gert var ráð fyrir í frumvarpi til laga um raforkuver frá árinu 1981. Sjá mynd 3.
    Fljótsdalsvirkjun er enn í dag eini raunhæfi virkjunarkosturinn austanlands sem unnt er að ráðast í strax, og raunar voru framkvæmdir við virkjunina hafnar árið 1991. Auknar rannsóknir í ár og á næstu árum eiga að leiða í ljós í hvaða hæð er hagkvæmt og tæknilega mögulegt að gera ráð fyrir Hálslóni. Þessar rannsóknir munu e.t.v. geta svarað því að hvaða marki aukin miðlun í Hálsi ásamt vatni af Hraunum gæti mætt miðlunarþörf vegna virkjunar Jökulsár í Fljótsdal. Auknar og áreiðanlegri rennslismælingar af Hraunasvæðinu á næstu árum munu einnig gera betur kleift að meta virkjanlegt vatnsafl þar miðað við mismunandi miðlun á Eyjabökkum.
    Loks ber að nefna að þessi tilhögun er einungis hagkvæm, og sambærileg í hagkvæmni við virkjun jökulánna hvorrar í sínu lagi, að upphafsnýting orkunnar verði mikil vegna þess hve ónákvæmt er að skipta þessari virkjunartilhögun í áfanga.


Fylgiskjal.

Landsvirkjun:

(3 kort á myndum 1, 2 og 3)



Mynd 1.


Mynd 2.


Mynd 3.