Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 570 . mál.


997. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Jóhannesdóttur um hækkun á skuldum heimilanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu mikið hækkuðu skuldir heimilanna í landinu við það eitt að brauð hækkuðu um 10% í síðasta mánuði?

    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er hlutur brauðs í grunni vísitölu neysluverðs 0,94%. Hækkun á brauði og korni í marsmánuði leiddi til 0,09% hækkunar vísitölunnar. Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands voru skuldir heimilanna við lánakerfið 349 milljarðar kr. um síðustu áramót, en þar af voru verðtryggðar skuldir 316,3 milljarðar kr., eða 90,6%. Verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu því um 285 millj. kr. vegna verðhækkunar á brauði og korni. Þess skal getið að vextir óverðtryggðra lána taka að jafnaði mið af verðlagsþróun og því gæti hækkun á brauðverði einnig valdið vaxtahækkun óverðtryggðra lána, ef ekki hefur þegar verið tekið tillit til hennar í verðbólguspám. Í þessu sambandi má geta þess að undanfarin ár hafa raunvextir á óverðtryggðum lánum banka og sparisjóða verið hærri en á verðtryggðum lánum og hefur munurinn verið um 2,5% síðustu tvö til þrjú ár.