Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 332 . mál.


999. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um hagsmunatengsl, stjórnargreiðslur, lífeyrisgreiðslur og ferða- og bílahlunnindi stjórnenda ríkisbankanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Í hvaða eftirfarandi stjórnum sjóða, fyrirtækja, stofnana og dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja Landsbankans, Búnaðarbankans og Seðlabankans hafa einstakir stjórnendur bankanna átt sæti, sundurliðað þannig að fram komi formennska eða önnur stjórnarseta, hve oft sami aðilinn átti sæti í hinum ýmsu sjóðum, fyrirtækjum eða félögum, hve háar einstakar árlegar greiðslur voru hjá hinum ýmsu sjóðum eða fyrirtækjum, sundurgreint eftir árunum 1994–96:
         
    
    fyrir Landsbankann: Landsbréfa, auk þriggja sjóða sem starfa á vegum Landsbréfa hf., Hamla hf., Lýsingar hf., Lindar hf., Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorta hf., Reiknistofu bankanna, RAS-nefndar, Sambands íslenskra viðskiptabanka, Fiskveiðasjóðs Íslands, Útflutningslánasjóðs, Þróunarfélags Íslands, dótturfélaganna Regins hf., Kirkjusands hf., Rekstrarfélagsins hf. og samninganefndar bankanna,
         
    
    fyrir Búnaðarbankann: Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorta hf., Reiknistofu bankanna, Lýsingar hf., Sambands íslenskra viðskiptabanka, samninganefndar bankanna, Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, Þróunarfélags Íslands hf. og Kaupþings hf.,
         
    
    fyrir Seðlabankann: Fiskveiðasjóðs Íslands, Verðbréfaþings Íslands, Reiknistofu bankanna, Tryggingarsjóðs innlánsdeilda kaupfélaga og samstarfsnefndar um bankaeftirlit?
                  Óskað er eftir að fram komi árlegar heildargreiðslur að viðbættum árlegum launagreiðslum hvers og eins á þessu tímabili, þar með taldar greiðslur fyrir setu í bankaráði, risnugreiðslur og aðrar greiðslur eða fríðindi.
    Er að mati ráðherra í einhverjum framangreindra tilvika um að ræða óeðlileg hagsmunatengsl sem brjóta í bága við samkeppnislög eða eðlilega viðskiptahætti bankanna?
    Hafa bankastjórar ríkisbanka og Seðlabanka sömu bílafríðindi og ráðherrar? Ef svo er, hversu margir bankastjórar hafa árlega sl. sex ár, sundurgreint eftir bönkum, nýtt sér kaup á eigin bifreið og hversu margir hafa afnot af bílum í eigu bankanna? Ef um er að ræða eigin bifreiðar, hvert var verðmæti þeirra bifreiða sem greitt var fyrir og af hvaða verðmæti var fyrning reiknuð?
    Hver var ferða- og dvalarkostnaður banka- og aðstoðarbankastjóra ríkisbanka og Seðlabanka, sundurliðað eftir bönkum, árunum 1994–96 og því hvort um er að ræða ferðir utan eða innan lands? Hvaða reglur gilda hjá einstökum bönkum um ferða- og dvalarkostnað og um dagpeninga maka bankastjóra?
    Hverjar voru meðallífeyrisgreiðslur og hæstu greiðslur á árunum 1995 og 1996 til stjórnenda Landsbanka, Búnaðarbanka og Seðlabanka sem komnir eru á eftirlaun? Hve margir þeirra nutu greiðslna úr öðrum lífeyrissjóðum, og þá hverjum, og hve háar voru heildarlífeyrisgreiðslur til hvers og eins þeirra á þessum árum?

    Svarið er að mestu byggt á upplýsingum sem fengist hafa frá Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Seðlabanka Íslands.
    Höfð er hliðsjón af sjónarmiðum um meðferð persónuupplýsinga með tilliti til almennra sjónarmiða þar um, sem m.a. koma fram í lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og í upplýsingalögum. Ekki þykir fært að veita umbeðnar upplýsingar með þeim hætti að í raun séu gefnar upplýsingar um einstaklingsbundin kjör einstakra stjórnenda bankanna heldur leitast við að gefa upplýsingar um almenn launakjör sem fylgja þessum störfum.
    Rétt er að taka fram að fyrr á þessum vetri svaraði ráðherra fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um starfskjör og lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna og Seðlabanka Íslands (þskj. 590). Fyrirspurnir þessar eru samþættar og er nokkrum atriðum sem spurt er um í þessari fyrirspurn svarað í hinni fyrri. Vísast því til hennar um þau svör.
    Litið hefur verið svo á að með stjórnendum banka sé í fyrirspurninni átt við bankastjóra og aðstoðarbankastjóra.

Seta í stjórnum sjóða, fyrirtækja, stofnana og dóttur- og hlutdeildarfyrirtækja og stjórnarlaun.
Landsbanki Íslands.
    Í stjórn Landsbréfa hf., Hamla hf., Regins hf., Kirkjusands hf. og Rekstrarfélagsins hf. hafa setið þrír bankastjórar á árunum 1994–96. Einn hefur gegnt formennsku. Ekki er greitt fyrir stjórnarsetu í dótturfyrirtækjunum, en það eru Reginn hf., Kirkjusandur hf. og Rekstrarfélagið hf.
    Tveir bankastjórar hafa setið í stjórn Sambands íslenskra viðskiptabanka á árunum 1994–96. Einn bankastjóri hefur setið í stjórn Lýsingar hf. (formaður), Kreditkorta hf., Fiskveiðasjóðs Íslands (formaður) og Samninganefndar bankanna (formaður).
    Á árinu 1994 átti einn bankastjóri sæti í stjórn Lindar hf. og RÁS-nefndar og gegndi þar formennsku.
    Einn aðstoðarbankastjóri hefur átt sæti í stjórn Lýsingar hf., Greiðslumiðlunar hf. (formaður), Landsbréfa hf., Reiknistofu bankanna (formaður), auk þriggja sjóða á vegum Landsbréfa hf. (formaður) og Lindar hf. (1994).
    Bankastjórar Landsbanka Íslands sitja ekki í stjórnum Landssjóðsins hf., Íslenska hlutabréfasjóðsins hf. og Íslenska lífeyrissjóðsins hf.
    Bankinn hefur ekki átt stjórnarmann í Þróunarfélagi Íslands hf. á þessu tímabili og eignarhlutur Landsbankans í Útflutningslánasjóði hefur verið seldur.
    Árleg stjórnarlaun fyrir setu í framangreindum stjórnum á árunum 1994–96 hafa verið sem hér segir, en fyrir formennsku hefur greiðslan verið tvöföld (upphæðir í kr.):

1994

1995

1996



Lind hf.     
484.800
0 0
Fiskveiðasjóður Íslands     
461.400
461.400 503.496
Landsbréf hf.     
419.575
419.575 524.459
Kreditkort hf.     
525.072
525.072 548.700
Samninganefnd bankanna     
498.672
486.384 569.472
Samband íslenskra viðskiptabanka     
488.892
488.892 536.544
Hömlur hf.     
523.939
523.939 523.939
Reiknistofa bankanna     
429.876
446.124 471.024
Lýsing hf.     
469.020
469.021 469.020
RÁS-nefnd     
484.116
484.116 0
Greiðslumiðlun hf.     
565.500
566.150 566.150
Landssjóður hf.     
335.010
393.341 393.341
Íslenski hlutabréfasjóðurinn hf.     
335.010
335.010 335.010
Íslenski lífeyrissjóðurinn hf.     
0
0 195.000


Búnaðarbanki Íslands.
    Þrír bankastjórar sitja stjórnarfundi Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Einn bankastjóri situr í stjórn Greiðslumiðlunar hf., Kreditkorta hf., Reiknistofu bankanna, samninganefndar bankanna, Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og Þróunarfélags Íslands hf.
    Tveir bankastjórar sitja í stjórn Lýsingar hf., Sambands íslenskra viðskiptabanka og Kaupþings hf.
    Formennsku gegndi bankastjóri í Lýsingu hf. 1994, í Sambandi íslenskra viðskiptabanka 1994 og 1995 og er greidd tvöföld þóknun þau árin.
    Aðstoðarbankastjórar sátu fundi Stofnlánadeildar þessi ár og höfðu stjórnarlaun öll árin, en sitja ekki fundi lengur.
    Árleg laun fyrir setu í eftirgreindum stjórnum árin 1994–96 eru sem hér segir (upphæðir í kr.):

1994

1995

1996



Stofnlánadeild landbúnaðarins     
516.720
641.160 664.560
Greiðslumiðlun hf.     
565.500
566.150 566.150
Kreditkort hf.     
525.072
525.072 548.700
Reiknistofa bankanna     
429.876
446.124 471.024
Lýsing hf.     
469.020
469.020 469.020
Samband íslenskra viðskiptabanka     
488.892
488.892 536.544
Samninganefnd bankanna     
498.672
486.384 569.472
Tryggingarsjóður viðskiptabanka     
258.375
267.815 282.919
Þróunarfélag Íslands hf.     
396.000
396.000 459.000
Kaupþing hf.     
506.272
506.272 126.568


Seðlabanki Íslands.
    Bankastjórar Seðlabankans eru í eftirfarandi stjórnum og nefndum á vegum bankans: Samkvæmt lögum tilnefnir Seðlabanki Íslands fulltrúa í stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands og er einn bankastjóranna varaformaður í stjórn sjóðsins og var einnig í stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka til júlí 1994. Samkvæmt lögum tilnefnir Seðlabankinn formann stjórnar Verðbréfaþings Íslands og er annar bankastjóri formaður hennar og var í stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka frá ágúst 1994 til júní 1996. (Samkvæmt lögum skipaði Seðlabankinn fulltrúa í stjórn Tryggingarsjóðsins, en lögunum var breytt á síðasta ári og á bankinn ekki lengur fulltrúa í stjórn hans.) Þriðji bankastjórinn er í stjórn Reiknistofu bankanna, samstarfsnefnd um bankaeftirlit frá maí 1994, samninganefnd bankanna og í stjórn Tryggingarsjóðs innlánsdeilda kaupfélaga sem Seðlabankinn tilnefnir fulltrúa í samkvæmt lögum.
    Aðstoðarbankastjóri situr ekki í neinni launaðri nefnd eða stjórn á vegum bankans, en er ritari bankaráðs.
    Þóknanir hafa verið sem hér segir (upphæðir í kr.):

1994

1995

1996



Fiskveiðasjóður Íslands     
461.400
461.400 503.506
Verðbréfaþing Íslands     
409.140
409.140 409.140
Reiknistofa bankanna     
307.590
478.243 505.219
Samstarfsnefnd um bankaeftirlit     
318.000
492.104 522.312
Samninganefnd bankanna     
497.800
500.000 563.250
Tryggingarsjóður viðskiptabanka     
272.590
267.815 130.578
Tryggingarsjóður innlánsdeilda kaupfélaga     
75.000 75.000


Hagsmunatengsl vegna setu í stjórnum, ráðum og nefndum.
    Samkvæmt 42. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, er bankastjórum óheimilt nema að fengnu leyfi bankaráðs að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan viðskiptabanka eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti, nema lög kveði á um annað eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem hlutaðeigandi stofnun á aðild að. Ákvæðið var fyrr sett með lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum segir að gert sé ráð fyrir að bankaráð tryggi að gætt verði þess megintilgangs ákvæðisins að hindra að aðrir hagsmunir en hlutaðeigandi stofnunar hafi áhrif á störf bankastjóra.
    Lög um viðskiptabanka og sparisjóði gera því ráð fyrir að bankastjórar geti átt sæti í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja sem viðkomandi banki á aðild að. Þetta er einnig í samræmi við almenn sjónarmið um rétt eiganda til að eiga aðild að stjórnum fyrirtækja. Þannig kýs hluthafafundur stjórn samkvæmt lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.
    Það er hins vegar skoðunaratriði hvort seta bankastjóra í stjórnum fyrirtækja á samkeppnismarkaði kunni að brjóta í bága við samkeppnislög þannig að um samkeppnishömlur geti verið að ræða. Í tilefni fyrirspurnarinnar óskaði ráðuneytið eftir áliti samkeppnisstofnunar á því hvort um óeðlileg hagsmunatengsl kynni að vera að ræða við stjórnarsetu í þeim tilvikum sem upplýst eru hér að framan. Í svari samkeppnisstofnunar kemur fram að Samkeppnisráð hafi ekki gripið til aðgerða gagnvart þessum stofnunum vegna þessa. Þá treystir samkeppnisstofnun sér ekki til þess að gefa álit sitt um tengsl sem spurt er um, án undangegninnar nákvæmrar skoðunar sem eftir atvikum yrði fylgt eftir með aðgerðum Samkeppnisráðs.
    Aðild Seðlabanka Íslands að stjórnum er í flestum tilvikum lögbundin. Þess ber þó að geta að aðild bankans að stjórnum Verðbréfaþings Íslands og Fiskveiðasjóðs Íslands orkar tvímælis þar sem eftirlit með þessum stofnunum er í höndum bankaeftirlits sem lýtur yfirstjórn bankastjórnar og bankaráðs Seðlabankans. Verði frumvarp til laga um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. að lögum fellur aðild Seðlabankans að stjórn Fiskveiðasjóðs niður. Þá er í gangi vinna sem lýtur að endurskoðun á eftirliti á fjármagnsmarkaði og vinna sem lýtur að endurskoðun á Verðbréfaþingi Íslands.
Bílafríðindi bankastjóra.
    Ríkisviðskiptabankarnir og Seðlabankinn taka ekki þátt í kostnaði vegna eigin bifreiða bankastjóra. Að öðru leyti vísast til svars ráðherra á þskj. 590 við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um sama málefni.

Ferða- og dvalarkostnaður.
Landsbanki Íslands.
    Bankastjórar fá greiddan ferða- og dvalarkostnað erlendis á sama hátt og ráðherra, sbr. 10. gr. reglna fjármálaráðuneytisins nr. 39/1992, um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Samkvæmt ákvæðinu skulu ráðherra greiddir fullir dagpeningar auk ferða- og gistikostnaðar, risnukostnaðar og símtala. Þá gilda tilvitnaðar reglur einnig um maka bankastjóra, en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglnanna fá makar ráðherra greitt fargjald og gistingu auk 50% dagpeninga ráðherra.
    Sömu reglur gilda um aðstoðarbankastjóra, en þeir fá 80% af dagpeningum bankastjóra. Ferðakostnaður innan lands greiðist samkvæmt framlögðum reikningum.
    Ferðakostnaður, þ.e. fargjöld, gistikostnaður og dagpeningar á ferðum erlendis, hefur verið sem hér segir árin 1994–96 (upphæðir í kr.):

Erlendis

Innan lands



1994          
11.514.540
203.058
1995          
12.561.950
589.774
1996          
12.389.970
386.772

    Ferðakostnaður erlendis, þ.e. fargjöld, gistikostnaður og dagpeningar, hefur verið sem hér segir árin 1994–96, sundurliðað eftir bankastjórum og aðstoðarbankastjórum (upphæðir í kr.):

Bankastjórar

Aðstoðarbankastjórar



1994          
7.087.572
4.426.968
1995          
6.776.797
5.785.153
1996          
6.741.277
5.648.693


Búnaðarbanki Íslands.
    Bankastjórar Búnaðarbankans fá greiddan ferða- og dvalarkostnað með sama hætti og bankastjórar Landsbankans. Aðstoðarbankastjórar Búnaðarbankans fá fulla dagpeninga greidda fyrir ferðir erlendis, en ekki hótelkostnað. Ferðakostnaður innan lands greiðist samkvæmt framlögðum reikningum en hann hefur enginn verið. Ekki er greiddur ferðakostnaður fyrir maka bankastjóra.
    Ferðakostnaður, þ.e. fargjöld, gistikostnaður og dagpeningar á ferðum erlendis, hefur verið sem hér segir árin 1994–96 (upphæðir í kr.):

Erlendis

Innan lands



1994          
4.527.189
0     
1995          
5.465.282
0
1996          
6.503.338
0

    Ferðakostnaður erlendis, þ.e. fargjöld, gistikostnaður og dagpeningar, hefur verið sem hér segir árin 1994–96, sundurliðað eftir bankastjórum og aðstoðarbankastjórum (upphæðir í kr.):

Bankastjórar

Aðstoðarbankastjórar



1994          
3.044.887
1.482.303
1995          
3.714.366
1.750.916
1996          
3.940.526
2.562.812


Seðlabanki Íslands.
    Reglur um greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga bankastjóra Seðlabankans á vegum bankans eru settar af bankaráði.
    Reglur um ferðalög bankastjóra erlendis eru eftirfarandi:
    Fargjöld á ferðalögum erlendis skulu greiðast eftir reikningi. Far með flugvélum miðast við betra farrými flugvéla. Far með skipum, lestum eða langferðabifreiðum miðast við 1. farrými ef við á.
    Bankastjórar fá greiddan kostnað við gistingu (með morgunmat), risnukostnað og símtöl eftir framlögðum reikningum og dagpeninga, sem skulu vera 80% af dagpeningum bankastarfsmanna. Tvisvar á ári er bankastjóra heimilt að fá greitt fargjald og gistingu fyrir maka, sem þá skulu jafnframt greiddir dagpeningar sem svara til helmings dagpeninga bankastjóra, þ.e. 40% af dagpeningum bankastarfsmanna. Ef sérstaklega stendur á er bankastjóra þó leyfilegt að fá oftar greitt fargjald og gistingu fyrir maka en ekki dagpeninga.
    Af dagpeningum ber að greiða allan venjulegan ferðakostnað, annan en fargjöld og þann kostnað sem greinir í 2. lið.
    Á þriggja mánaða fresti skal bankastjórn gera formanni bankaráðs grein fyrir utanferðum bankastjóra á vegum bankans í liðnum ársfjórðungi, tilefni ferða og öðru sem máli kann að skipta.
    Aðstoðarbankastjóri fær fargjöld greidd eftir reikningi vegna ferða erlendis auk þess sem hann fær greiddan kostnað við gistingu, símtöl eftir framlögðum reikningum svo og 65% af dagpeningum bankastarfsmanna.
    Kostnaður við ferðalög innan lands greiðist eftir reikningi, enda fylgi fullnægjandi frumgögn, svo sem farmiðar, gistihúsareikningar og kvittanir frá hlutaðeigandi greiðasölum.
    Af dagpeningum eru greiddir skattar í samræmi við reglur ríkisskattstjóra.
    Ferðakostnaður, þ.e. fargjald, gistikostnaður og dagpeningar á ferðum erlendis, hafa verið sem hér segir árin 1994–96 (upphæðir í kr.): 1

Erlendis

Innan lands



1994          
7.337.000
13.000
1995          
7.944.000
34.000
1996          
10.199.000
31.000


1 Rétt er að taka fram að á árunum 1994–95 fóru fram bankastjóraskipti í bankanum og voru bankastjórar færri en þrír á tímabili.

Lífeyrisgreiðslur.
    Ekki liggja fyrir í umræddum stofnunum upplýsingar um hve margir eftirlaunaþega nutu greiðslna úr öðrum lífeyrissjóðum, hvaða lífeyrissjóðum og hve háar lífeyrisgreiðslur eru til hvers og eins. Að öðru leyti vísast til sjónarmiða í inngangi um framsetningu persónuupplýsinga.
    Meðallífeyrisgreiðslur og hæsta lífeyrisgreiðsla til stjórnenda sem komnir eru á eftirlaun eru sem hér segir (upphæðir í kr.):

Meðallífeyrisgreiðslur

Hæstu lífeyrisgreiðslur



Landsbanki Íslands
    1995      3.828.858 5.337.666
    1996      3.827.631 5.337.666
Búnaðarbanki Íslands
    1995      3.171.161 5.415.000
    1996      3.551.448 5.415.000
Seðlabanki Íslands
    1995      4.227.194 5.454.888
    1996      4.780.278 6.121.699