Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 415 . mál.


1074. Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um úrskurð um umhverfisáhrif landgræðsluverkefnis á Hólasandi.

    Hvaða stofnanir ráðuneytisins eiga að koma að mati á umhverfisáhrifum landgræðsluverkefnisins á Hólasandi og hvert er álit þeirra á úrskurði skipulagsstjóra frá 8. ágúst 1996? Er úrskurður ráðherra frá 25. febrúar sl. í samræmi við það álit? Ef ekki, á hverju byggist úrskurður ráðherra?
    Í lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, kemur ekki fram til hvaða stofnana skipulagsstjóri ríkisins skuli leita um álit áður en hann úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum. Það ræðst hins vegar af ákvæðum sérlaga um hverja stofnun fyrir sig. Samkvæmt náttúruverndarlögum hefur þó verið litið svo á að leita skuli álits Náttúruverndar ríkisins, áður Náttúruverndarráðs, í öllum tilvikum en að öðru leyti fari það eftir atvikum hverju sinni til hvaða stofnana er leitað. Þær stofnanir sem heyra undir umhverfisráðuneytið eru Hollustuvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands. Skipulagsstjóri ákveður til hvaða stofnana hann leitar. Í því tilviki sem hér um ræðir leitaði hann til Náttúruverndarráðs og Hollustuverndar ríkisins. Ráðuneytið getur ekki svarað því af hverju ekki var leitað til Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um álit áðurnefndra stofnana á úrskurði skipulagsstjóra og því er ekki hægt að svara því hvort úrskurður ráðherra sé í samræmi við álit þeirra.
    Úrskurður ráðuneytisins var kveðinn upp eftir umfjöllun skipulagsstjóra um kæruatriði og mati ráðuneytisins á þeim.

    Hvaða alþjóðlegt samstarf sem Ísland á aðild að og hvaða alþjóðlegir samningar sem undirritaðir hafa verið fyrir hönd Íslands varða þetta mál? Var tekið tillit til alþjóðlegra skuldbindinga við afgreiðslu málsins?
    Það eru einkum tveir fjölþjóðlegir samningar sem Íslendingar eru aðilar að sem hafa að geyma bein ákvæði sem tengjast uppgræðsluaðgerðunum á Hólasandi. Annars vegar samningur um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu, svokallaður Bernarsáttmáli og hins vegar samningurinn um líffræðilega fjölbreytni.
    Bernarsáttmálinn miðar að því að vernda tegundir og plöntur í Evrópu og lífsvæði þeirra tegunda sem samningurinn tekur til. Kjölfestan í samningnum er fjórir viðaukar sem kveða á um dýr og plöntur sem njóta skulu friðunar, dýr sem njóta skulu verndar en heimilt er að nýta og um veiðiaðferðir. Aðildarríkjum samningsins ber að vernda búsvæði villtra dýra og plantna, sérstaklega þeirra tegunda sem eru taldar upp í viðaukunum. Einnig skulu ríkin taka sérstakt tillit til þarfa fartegunda og takmarka innflutning og útbreiðslu útlendra tegunda.
    Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni felur m.a. í sér að hvert einstakt aðildarríki skuli marka sér stefnu á þessu sviði og semja áætlun um aðgerðir sem miða að vernd líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbærri nýtingu hennar. Áætlunin skal ná til allra þátta þjóðlífsins.
    Í Bernarsáttmálanum segir að hafa skuli strangt eftirlit með innflutningi útlendra tegunda auk þess sem almenn ákvæði kveða á um vernd tegunda, plantna, dýra og búsvæða. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni segir að koma skuli í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum og að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.
    Augljóst er að framkvæmdir á Hólasandi miðast við það að nota að hluta til erlendar tegundir plantna við uppgræðsluna. Flestar þeirra, ef ekki allar, hafa verið í landinu fyrir gildistöku þessara samninga hér á landi. Þar sem reglur um innflutning á plöntum hefur skort hér á landi hefur verið skipuð nefnd til að gera tillögur um hvernig tekið skuli á þeim málum m.a. vegna ákvæða í alþjóðasamningum um verndun lífríkisins.
    Hins vegar er mat ráðuneytisins að með þeim verndaraðgerðum sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu fyrir framkvæmdirnar á Hólasandi sé nægjanlega tryggt að útbreiðslu erlendra tegunda verði stjórnað þannig að innfluttar plöntur á landgræðslusvæðinu ógni ekki plöntusamfélögum utan svæðisins. Auk þess er framkvæmdaraðila gert skylt að fylgjast með útbreiðslu tegunda út fyrir framkvæmdasvæðið, gefa árlega skýrslu um ástandið og uppræta tegundir sem berast kunna út af svæðinu.
    Það er því mat ráðuneytisins að miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um framkvæmdir og framkvæmd þessara samninga og skuldbindinga samkvæmt þeim hafi verið tekið tillit til meginmarkmiða þeirra við afgreiðslu málsins.

    Hver er afstaða sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til úrskurðar skipulagsstjóra frá 8. ágúst 1996? Er úrskurður ráðherra frá 25. febrúar sl. í samræmi við það álit?
    Með bréfi oddvita Skútustaðahrepps, 24. september 1996, kærði Skútustaðahreppur úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 8. ágúst 1996. Kæran barst ekki innan lögboðins kærufrests og var því ekki tekin til efnislegrar umfjöllunar í úrskurði ráðherra. Kærubréfið er svohljóðandi:
    „Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur borist úrskurður skipulagsstjóra ríkisins vegna frumathugunar um „Mat á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 63/1993 vegna uppgræðslu Hólasands“.
    Með vísan til laga nr. 63/1993 kærir undirritaður f.h. sveitarstjórnar Skútustaðahrepps það skilyrði í úrskurðarorði skipulagsstjóra að ekki skuli sá lúpínu nær rofjöðrum Hólasands en sem nemur 200 metrum.
    Sveitarstjórn minnir á afgreiðslu sína um frummatsskýrsluna en þar lagði sveitarstjórn til að höfuðáhersla skyldi lögð á að stöðva rof í rofjöðrum Hólasands.
    Samkvæmt upplýsingum Landgræðslu ríkisins kostar það of fjár að koma upp 200 metra grasbelti með rofjöðrum Hólasands og því líklegt að slík krafa verði annaðhvort til að draga verulega úr forgangi þess að hefta rof í rofjöðrum sandsins eða jafnvel til að stöðva með öllu verkefnið.“
    Þegar ráðuneytinu höfðu borist allar kærur innan lögboðins kærufrests vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 8. ágúst 1996 voru kærurnar sendar Skútustaðahreppi til umsagnar, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, 21. október 1996, er svohljóðandi:
    „Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við framkvæmdaáætlunina og telur næga grein gerða fyrir umhverfisáhrifum.
    Sveitarstjórn leggur áherslu á að lokun rofjaðra hafi forgang, notaðar verði íslenskar trjá- og víðitegundir og áhersla lögð á að hafa eftirlit með sjálfsáningu lúpínu utan landgræðslusvæðisins.
    Sveitarstjórn telur að leyfa eigi uppgræðslu án frekari skilyrða er þar koma fram.“
    Samkvæmt framansögðu má ljóst vera að ráðuneytið kom að einhverju leyti til móts við sjónarmið Skútustaðahrepps með sama hætti og tekið var tillit til ýmissa atriða sem fram komu í öðrum kærum sem bárust ráðuneytinu.

    Hvers vegna úrskurðaði ráðherra ekki í málinu innan tilskilins tíma, þ.e. átta vikna frá því að kæra berst, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum?
    Eftir að ráðuneytinu höfðu borist allar þær kærur sem bárust innan tilskilins kærufrests voru öll kærubréfin send til umsagnar, en í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, segir að áður en umhverfisráðherra kveður upp úrskurð sinn skuli hann leita umsagnar skipulagsstjóra, framkvæmdaraðila, leyfisveitanda og sveitarstjórna sem hlut eiga að máli. Eins og ávallt tók nokkurn tíma að fá allar umsagnir framangreindra aðila eða rúmlega mánuð í þessu tilviki. Sá frestur sem ráðherra hefur til að kveða upp úrskurð samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er afar knappur, einkum þegar litið er til þess hversu stór, flókin og viðamikil kærumál út af mati á umhverfisáhrifum geta verið. Þá er einnig til þess að líta að ráðherra er skylt lögum samkvæmt að leita umsagnar margra aðila áður en hann kveður upp rökstuddan úrskurð. Slíkt getur verið tafsamt, en reynsla ráðuneytisins er sú að umsagnaraðilar fara gjarnan fram úr þeim tímamörkum sem ráðuneytið hefur sett. Afleiðingin verður sú að sá tími sem ráðuneytið hefur til þess að kveða upp rökstuddan úrskurð á grundvelli allra fyrirliggjandi gagna og umsagna er oft mjög stuttur.
    Þegar ljóst var að dráttur yrði á uppkvaðningu úrskurðar í Hólasandsmálinu var þegar haft samband við landgræðslustjóra og honum skýrt frá því að töf yrði á málinu vegna umfangs þess, eins og skylt er skv. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Féllst hann fyrir sitt leyti á að farið yrði fram úr hinum knappa átta vikna fresti. Það var því í fullu samráði við framkvæmdaraðila að farið var fram úr frestinum.

    Telur ráðherra að þörf sé á að stærri landgræðslu- og skógræktarverkefni fari alltaf í mat á umhverfisáhrifum áður en ráðist er í framkvæmdir? Ef ekki, hver geta rökin verið?
    Landgræðslu- og skógræktarverkefni eru ekki matsskyld skv. 5. gr. laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar getur umhverfisráðherra skv. 6. gr. laganna ákveðið að aðrar framkvæmdir en taldar eru upp í 5. gr. fari í mat, kunni þær að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Áður skal ráðherra leita álits skipulagsstjóra ríkisins. Hvort einstök verkefni, stór eða smá, fara í mat er því háð líklegum áhrifum þeirra á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Þar geta komið til álita atriði eins og hversu stórt landsvæði á að leggja undir, lífríki og náttúrufar svæðisins, svo sem hvort um votlendi er að ræða. Útilokað er að gefa út yfirlýsingar um það fyrir fram hvernig ráðherra hyggst beita áðurnefndri 6. gr. gagnvart einstökum verkefnum.
    Rétt er að taka fram að skiptar skoðanir eru um hvort aðgerðir af þessu tagi eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, eru að fara í endurskoðun og mun þetta álitaefni tvímælalaust koma til sérstakrar athugunar við þá endurskoðun.