Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 605 . mál.


1131. Skýrsla



félagsmálaráðherra um 83. og 84. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf 1996 .

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)




I. INNGANGUR

    Þau ákvæði, sem lágu til grundvallar stofnun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) árið 1919, er að finna í friðarsamningunum sem voru undirritaðir í Versölum 28. júní 1918. Í XIII. kafla Versalasáttmálans er kveðið á um það að komið skuli á fót sérstakri stofnun er hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða og aðeins verði sigruð með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna. Sérstaklega er tekið fram að varanlegur friður verði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti sé fyrst komið á innan þjóðfélaganna sjálfra vegna þess að vísirinn að árekstrum, sem leiða til styrjalda þjóða í milli, leynist í því félagslega ranglæti sem milljónir manna búi við í hinum ýmsu löndum. Um markmið ILO segir í þingsályktunartillögu frá árinu 1944 að það sé að efla félagslegt réttlæti í öllum löndum heims. Í því skyni viði stofnunin að sér upplýsingum um atvinnumál og ástand í félagsmálum, ákveði lágmarkskröfur og samræmi þær í hverju landi eftir aðstæðum þess og þörfum.
    Við upphaf nýrrar aldar virðist framangreint eiga lítið erindi. Annað kemur þó í ljós þegar viðfangsefni félags- og vinnumála eru brotin til mergjar. Iðnbyltingin leiddi af sér róttækari þjóðfélagsumbyltingu en mannkynið hafði fram að þeim tíma upplifað. Um þessar mundir á sér stað enn róttækari breyting. Rafeinda- og tölvutækni hefur breytt störfum og starfsgreinum. Samskipti á vinnumarkaði þarfnast endurskoðunar. Samtök aðila vinnumarkaðarins þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum og taka mið af nýjum þörfum félagsmanna. Við hlið hins hefðbundna daglaunastarfs er að skapast ný tegund starfs þar sem verk er unnið utan starfsstöðvar atvinnurekandans, jafnvel á heimili launamannsins. Skipulag og starfshættir fyrirtækja hafa tekið stakkaskiptum. Það hefur einnig áhrif á samskiptareglur á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er hlutskipti milljóna manna í heiminum. Hlutverk ríkisins við að jafna framboð og eftirspurn eftir vinnuafli er að breytast. Þetta gildir einnig um viðfangsefni þess sem atvinnurekanda. Breyting á viðhorfum til þátttöku kvenna í atvinnulífinu og jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins leggur ríki og sveitarfélögum nýjar skyldur á herðar. Þjónustustofnanir samfélagsins verða að taka meira tillit til þarfa starfsmanna með fjölskylduábyrgð.
    Gjaldþrot áætlunarbúskapar í efnahagsmálum hefur umbylt fjármálasamskiptum heimsins. Afnám tolla og viðskipahindrana hefur gert heiminn að einu markaðssvæði. Frelsi í flutningi fjármagns og vinnuafls opnar ný tækifæri en hefur í sér fólgnar hættur. Fjármagnið virðist hafa forgang á kostnað velferðarkerfisins. Áherslum verður að breyta. Setja þarf fólk að nýju í fyrirrúm.
    Þegar litið er yfir aðstæður nú á tímum blasa viðfangsefnin við. Búa þarf fólki mannsæmandi lífskjör, bæta þarf aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, fátækt þarf að uppræta og tryggja þarf félaga- og tjáningarfrelsi. Á ný þarf að hefja til virðingar kjörorðið um atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur. Niðurstaðan árið 1919 var stofnun Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það er ljóst að hún hefur enn verk að vinna í byrjun 21. aldar. Miklu skiptir að vandamálin séu rædd og á þeim fundnar lausnir. ILO hefur verið kjörinn vettvangur fyrir skoðanaskipti fulltrúa ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Lausnirnar felast meðal annars í fjölda alþjóðasamþykkta og tillagna sem hafa að markmiði að tryggja lífsafkomu og rétt til andlegs og líkamlegs frelsis.
    Árið 1996 var viðburðarríkt í sögu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Á árinu voru haldin tvö vinnumálaþing. Reglulegt þing var haldið dagana 4.–20. júní og var það hið 83. í röðinni. Aukaþing, 84. Alþjóðavinnumálaþingið, sem helgað var málefnum skipverja, var haldið dagana 8.–22. október 1996.
    Að venju var athugun á framkvæmd aðildarríkjanna á samþykktum og tillögum ILO umfangsmesta viðfangsefni 83. Alþjóðavinnumálaþingsins. Þótt merkja megi framfarir og umbætur í mörgum ríkjum eru grundvallarréttindi á sviði félags- og vinnumála fótum troðin í allt of mörgum ríkjum. Umræður á þinginu um aðstæður í Mayanmar (Burma) eru minnisstæðar. Norðurlöndin tóku virkan þátt í þeim. Þegar þingfulltrúar voru að tygja sig til heimferðar birtu fjölmiðlar frétt um andlát ræðismanns Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar í fangelsi stjórnvalda Mayanmar. Þar sat hann vegna ásakana um að hafa haft of margar ljósritunarvélar í ræðismannsbústaðnum. Þátttakendum og öðrum sem fylgdust með umræðum á þinginu brá nokkuð við þessi tíðindi.
    Þingið afgreiddi nýja alþjóðasamþykkt og tillögu um aðstæður þeirra sem stunda það sem hlotið hefur nafnið heimastörf. Það tekur m.a. til þess þegar launamaður vinnur tiltekin verkefni fyrir atvinnurekanda á heimili sínu. Markmiðið er að gera stöðu heimastarfsmanna sem líkasta stöðu annarra starfsmanna. Þetta gildir einkum að því er varðar réttinn til að skipuleggja sig í samtökum, þess að njóta öryggis og heilbrigðis á vinnustað og rétt til lögbundinnar tryggingaverndar, ákvæði um lágmarksaldur til vinnu, tækifæri til starfsmenntunar o.fl. Þetta ber að gera í samvinnu við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks. Í aðfaraorðum samþykktarinnar er á það minnt að alþjóðasamningar og tilmæli um aðbúnað fólks á vinnustöðum geti einnig átt við fólk sem starfar heima.
    Stefna í atvinnumálum var til almennrar umræðu á þinginu. Helstu niðurstöður felast í ábendingum til aðildarríkja ILO um að halda áfram að efla starfsmenntun með það að markmiði að auka hæfni vinnuaflsins til að nýta ný tækifæri í atvinnulífinu sem aukinn hagvöxtur skapar. Einnig sé nauðsynlegt að bæta rekstrarskilyrði smárra og meðalstórra fyrirtækja. Hyggja þarf að aðgerðum í þágu þeirra hópa sem lakast eru settir á vinnumarkaðinum. Enn fremur ber að kanna þörf á endurskoðun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks.
    Eins og áður segir fjallaði 84. Alþjóðavinnumálaþingið um málefni skipverja. Þetta var í 11. skiptið sem þingið fjallar sérstaklega um málefni þeirra. Í ávarpi forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, kom m.a. fram að á sl. þremur árum hafa farist 180 skip og með þeim 1.200 skipverjar og farþegar. Á fyrstu sex mánuðum ársins 1996 höfðu helmingi fleiri farist í sjóslysum en samtals á öllu árinu 1995. Hann benti á að miklar breytingar hefðu orðið í útgerð sl. 25 ár. Of stór skipastóll hafi valdið skipulagsbreytingum á níunda áratugnum. Aukin samkeppni hafi knúið útgerðarmenn til að leita allra leiða til að lækka útgerðarkostnað, m.a. með því að skrá skip í svonefnda alþjóðlega skipaskrá eða opna skipaskrá sem hafi heimilað fleiri frávik frá viðteknum reglum m.a. að því er varðar skattlagningu, öryggismál, mönnun, eftirlit og rekstur. Notkun milliliða að því er varðar ráðningar og rekstur hafi gert útgerð flóknari bæði frá rekstrarlegu og lagalegu sjónarhorni. Þetta hafi kallað á endurskoðun eldri samþykkta ILO sem fjalla um aðbúnað skipverja og setningu nýrra sem taki mið af breyttum aðstæðum.
    Afgreiðsla aukaþingsins á samþykkt um vinnueftirlit um borð í skipum markar viss tímamót. Hér er um að ræða fyrstu alþjóðasamþykktina um þetta efni. Í ákvæðum um gildissvið samþykktarinnar segir að hún taki til allra haffærra skipa í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem skráð eru í einhverju þeirra aðildarríkja samþykktarinnar sem stunda vöru- eða farþegaflutninga í atvinnuskyni eða eru notuð á annan hátt í ábataskyni. Ef hlutaðeigandi skip er skráð í tveimur aðildarríkjum skal það teljast á skrá í því ríki sem leggur því til fána.
    Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mönnun skipa frá árinu 1958 var endurskoðuð með nýrri samþykkt. Með henni eru settar ákveðnar viðmiðunarreglur um daglegan og vikulegan vinnutíma eða daglegan og vikulegan hvíldartíma sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir ofþreytu vegna of mikillar vinnu. Í henni er lögð áhersla á að skipverjar njóti grundvallarreglunnar um átta klukkustunda vinnudag og einn frídag á viku. Þar að auki er kveðið á um það að hámarksvinnutími skuli ekki fara fram úr 14 klst. á sólarhring og 72 klst. á viku. Aðildarríkjum er með sama hætti heimilt að takmarka vinnutíma með ákvæðum um lágmarkshvíldartíma. Ef sú leið er valin skal kveða á um 10 klst. hvíld á sólarhring eða 77 klst. á viku.
    Í tillögu nr. 187, um laun, vinnutíma og mönnun skipa, er fjallað um endurgjald fyrir aukavinnu og ýmiss konar aukagreiðslur. Markmið tillögunnar er að gera launamál einfaldari og skýrari bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn og koma þannig í veg fyrir ágreining. Í henni er miðað við lágmarksviðmiðunarlaun ILO. Í siglingamálanefnd stofnunarinnar náðist samkomulag um að lágmarkslaun háseta verði hækkuð 1. janúar 1998 úr 385 Bandaríkjadölum á mánuði í 435 Bandaríkjadali.
    Með vísan til 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um 83. og 84. Alþjóðavinnumálaþingið og birtar alþjóðasamþykktir og tillögur sem þingin afgreiddu.

2. 83. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 1996
2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    Árlegt þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Alþjóðavinnumálaþingið, hið 83. í röðinni, var formlega sett miðvikudaginn 4. júní 1996. Samtals tóku þátt í þinginu 2.762 fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekanda og launafólks. Fleiri aðildarríki sendu fulltrúa til þingsins en nokkurn tíma áður eða samtals 173. Ástæðan er fjölgun aðildarríkja. Þinghaldið fór að mestu fram í Þjóðabandalagshöllinni í Genf. Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta, sem er fjölmennasta nefnd þingsins, hélt fundi í höfuðstöðvum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, alþjóðavinnumálaskrifstofunni.
    Forseti þingsins var kjörinn Saif Ali Al-Jarwan, félags- og vinnumálaráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Kjörnir voru varaforsetar úr röðum þeirra þriggja hópa sem eiga fulltrúa á þinginu. Kosnir voru David S. Boateng, félags- og vinnumálaráðherra Gana, Jorge De Regil Gómez Muriel, fulltrúi atvinnurekenda í Mexíkó, og Madia Diop, fulltrúi launafólks í Senegal.
    Sendinefnd Íslands skipuðu eftirtaldir:
    Frá félagsmálaráðuneyti: Páll Pétursson félagsmálaráðherra og Gylfi Kristinsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu. Frá utanríkisráðuneyti: Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf. Varamenn voru: Haukur Ólafsson sendiráðunautur og Guðmundur B. Helgason sendiráðsritari. Fulltrúi atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands (VSÍ). Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur VSÍ. Fulltrúi launafólks: Ástráður Haraldsson, lögræðingur Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Varamaður hans var Hervar Gunnarsson, 1. varaforseti ASÍ. Fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skiptu með sér þátttöku í þinginu þannig að varamaður leysti aðalmann af hólmi þegar u.þ.b. helmingur þingtímans var liðinn.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
    Skýrsla forstjóra og stjórnarnefndar.
    Framkvæmd fjárhags- og framkvæmdaáætlun.
    Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna.
    Drög að alþjóðasamþykkt um heimastörf (síðari umræða).
    Stefna í atvinnumálum (almenn umræða).
    Þríhliða samráð á landsvísu um efnahags- og félagsmál (almenn umræða).
    Tillögur til þingsályktunar.
    Kjörbréf.
    Fyrirkomulaginu, sem tekið var upp á 79. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1992, var haldið þetta þing. Í því felst að fulltrúar þeirra þriggja hópa, sem aðild eiga að þinginu, komu saman til óformlegra funda daginn fyrir formlega setningu Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í þingnefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna, nefndar sem fjallaði um drög að alþjóðasamþykkt um hollustu og öryggi námuverkamanna, þingskapanefndar og nefndar um framvindu þingsins. Fulltrúar Íslands tóku þátt í nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta og fjárhagsnefnd.
    Sérstakur heiðursgestur forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, og Alþjóðavinnumálaþingsins var forseti Frakklands, Jacques Chirac.

2.2. ALMENNAR UMRÆÐUR

    Fyrirkomulag á almennum umræðum á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu var nokkuð annað en undanfarin ár. Venjulega hefur forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar lagt fyrir þingið tvær skýrslur. Önnur hefur fjallað almennt um starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í hinni hefur verið brotið til mergjar eitthvert ákveðið viðfangsefni á sviði félags- og vinnumála. Að þessu sinni lá einungis fyrir þinginu skýrsla um starfsemi ILO. Auk þess var fundartími skorin niður um helming, þ.e. úr 10 mínútum í fimm mínútur. Þess má geta að fyrir fimm árum var ræðutíminn 15 mínútur. Þetta var gert með það að markmiði að stytta þingið og draga þannig úr kostnaði við þinghaldið. Þetta olli nokkurri óánægju ræðumanna.
    Margir ræðumenn gerðu að umtalsefni víðtæka samninga um afnám tolla og aukið viðskiptafrelsi í heiminum. Látnar voru í ljós áhyggjur af því að þessi þróun gæti leitt til aukins atvinnuleysis og að dregið yrði úr efnahags- og félagslegu öryggi, einkum á Vesturlöndum. Ýmsir töldu nauðsynlegt að tengja saman aukna markaðsaðild og mannréttindi. Ókleift væri að opna markaði fyrir ríkjum sem virtu ekki lágmarksmannréttindi og létu jafnvel nauðungarvinnu viðgangast. Í þessu sambandi var oft rætt um verkaskiptingu á milli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Sumir ræðumanna lýstu andstöðu sinni við að tengja saman viðskiptasamninga og mannréttindamál. Þessir fulltrúar töldu nauðsynlegt að fjölga fullgildingum ILO-samþykkta. Á þann hátt geti stofnunin betur gegnt hlutverki sínu sem eftirlitsaðili með því að lágmarksréttindi á sviði félags- og vinnumála séu virt.
    Fjölmargir ræðumenn gerðu að umtalsefni vinnuvernd barna og ungmenna. Á undanförnum árum hefur Alþjóðavinnumálastofnunin staðið fyrir margvíslegum aðgerðum í því skyni að draga úr vinnuþrælkun barna. Árið 1995 gaf hún út bókina „First things first in child labour“ þar sem teknar eru saman athyglisverðar upplýsingar um vinnu barna víðs vegar í heiminum. Þess má geta að í inngangi bókarinnar er að finna tilvitnun í orð Alberts Tomas, fyrsta forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf. Hún er á þann veg að alvarleg tilraun til að setja lög um félagsleg réttindi byrji ætíð á löggjöf um vernd barna. Þetta eru orð að sönnu að því er varðar Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO). Á fyrstu starfsárum hennar afgreiddi Alþjóðavinnumálaþingið alþjóðasamþykktir sem höfðu afgerandi áhrif á viðhorf til þessara mála. Þessar samþykktir hafa haft áhrif á samninga og samþykktir annarra alþjóðastofnana og löggjöf fjölmargra ríkja. Fulltrúar lýstu yfir stuðningi við viðleitni alþjóðavinnumálaskrifstofunnar og forstjóra ILO að fjölga fullgildingum á grundvallarsamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnuvernd barna. Hér er um að ræða alþjóðasamþykkt ILO nr. 138, um lágmarksaldur við vinnu. Samþykktin var afgreidd af 58. vinnumálaþinginu sem haldið var í Genf árið 1973. Henni var ætlað að koma smám saman í stað allra þeirra samþykkta sem snerta vinnu barna og höfðu verið afgreiddar af fyrri þingum og er markmiðið að útrýma algjörlega vinnu barna.
    Meðal annarra málefna, sem ræðumenn gerðu að umtalsefni, má benda á stuðning ILO við þróunarríki, samningu og endurskoðun alþjóðasamþykkta og endurskipulagning stofnunarinnar.

2.3. UMRÆÐUR UM KJÖRBRÉF

    Í kjörbréfanefnd eiga einungis sæti þrír fulltrúar. Hún er þar með fámennasta nefnd þingsins. Á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu áttu eftirtaldir sæti í nefndinni: Bernard A. B. Goonetilleke, ríkisstjórnarfulltrúi frá Sri Lanka, formaður, Daniel Funes de Rioja, fulltrúi atvinnurekenda í Argentínu, og Charles Grey, fulltrúi launafólks í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
    Að þessu sinni fjallaði nefndin um fjölmargar kærur vegna fulltrúa í sendinefndum á þinginu.
    Yfirleitt fjalla kærurnar um það að ekki hafi verið rétt staðið að vali fulltrúa í sendinefndirnar. Í stofnskránni er kveðið á um rétt helstu samtaka atvinnurekenda og launafólks til að senda fulltrúa á þingið. Stundum er ekki ljóst hvaða samtök geta gert tilkall til að eiga fulltrúa í sendinefndum á Alþjóðavinnumálaþinginu og verður það tilefni deilna.
    Nefndin varð sammála um að telja öll fram komin kjörbréf gild. Þegar nefndin er sammála er niðurstaða hennar afgreidd án umræðu af allsherjarþinginu.

2.4. FJÁRMÁL

    Fjárhagsnefnd fjallar um fjármál Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í henni eiga aðeins sæti fulltrúar ríkisstjórna. Á fundum nefndarinnar á 82. vinnumálaþinginu 1995 var fjallað um fjárhagsáætlun fyrir árin 1996 og 1997. Fundir nefndarinnar voru stormasamir og var lagt hart að forstjóra og stjórnarnefnd að koma með tillögur um niðurskurð á áætluninni. Eftir umtalsverðar deilur samþykkti þingið að lokum fjárhagsáætlun að upphæð 579,5 milljónir Bandaríkjadala. Þetta jafngildir 672.220.000 svissneskum frönkum með gengishlutfallinu 1,16.
    Starf fjárhagsnefndarinnar á 83. þinginu var friðsamt í samanburði við árið á undan. Nefndin hélt einungis þrjá stutta fundi þar sem fjallað var um minni háttar málefni. Fram kom að bjartara er yfir fjárhag ILO en mörg undanfarin ár. Þetta má meðal annars þakka sparnaðaraðgerðum stjórnarnefndarinnar undanfarin ár.
    Á það má minna að framlag Íslands til ILO á árinu 1996 nam 0,0296% en það svarar til 99.197 svissneskra franka. Á árinu 1997 verður hlutfallslegt framlag Íslands til stofnunarinnar það sama og það hafði verið fyrir árið 1996, þ.e. 0,03%. Í því felst að hlutur Íslands á að vera 100.833 svissneskir frankar. Veittur er afsláttur af árgjaldinu vegna skilvísrar greiðslu fyrri árgjalda þannig að það verður 98.331 svissneskur franki.

2.5. FRAMKVÆMD SAMÞYKKTA OG TILLAGNA

    Nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta er fjölmennasta nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins. Á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu sátu í nefndinni 207 fulltrúar með atkvæðisrétti; 115 fulltrúar ríkisstjórna, 20 fulltrúar atvinnurekenda og 72 fulltrúar launafólks. Auk þess sátu 165 áheyrnarfulltrúar fundi nefndarinnar. Þannig sátu oft á tíðum um 372 fulltrúar nefndarfundi.
    Formaður var kosinn Jean-Jacques Elmiger, fulltrúi ríkisstjórnar Sviss. Þetta var í fjórða skipti sem hann gegndi þessu vandasama hlutverki. Áður hafði Jean-Jeacques Elmiger gegnt formennsku í nefndinni árið 1989 á 76. þinginu, árið 1991 á 78. vinnumálaþinginu og á 81. þinginu árið 1994.
    Varaformenn voru kosnir þeir sömu og undanfarin vinnumálaþing: Alfred Wisskirchen, fulltrúi atvinnurekenda í Þýskalandi, og Willy Peirens, fulltrúi launafólks í Belgíu.
    Af hálfu Íslands sátu í nefndinni Ástráður Haraldsson og Hervar Gunnarsson frá ASÍ, Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon frá VSÍ og Gylfi Kristinsson sem var fulltrúi ríkisstjórnar Íslands.

Hlutverk nefndarinnar.

    Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með því að aðildarríkin standi við skuldbindingar sem þau undirgangast með fullgildingu alþjóðasamþykkta ILO. Skýrslur og yfirlýsingar aðildarríkjanna og athugasemdir og álitsgerðir sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd samþykkta og tillagna er það efni sem liggur til grundvallar starfi nefndarinnar. Skýrsla sérfræðinganefndarinnar til 83. þingsins var 450 þéttskrifaðar blaðsíður. Allmörg ríki voru beðin um að mæta á fund þingnefndarinnar veita nánari upplýsingar um einstök atriði. Formaður sérfræðinganefndarinnar, Sir William Douglas, tók þátt í fyrstu nefndarfundunum sem áheyrnarfulltrúi.

Nefndarstörf.

    Nefndin hélt samtals 17 fundi. Að venju var byrjað á almennum umræðum um ýmis mál í tengslum við eftirlitskerfi ILO. Síðan fjallaði nefndin sérstaklega um skýrslu sérfræðinganefndarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykktar nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs. Því næst ræddi nefndin að hve miklu leyti einstök ríki hefðu fullnægt skyldum sínum samkvæmt fullgiltum samþykktum. Síðastnefndu umræðurnar, sem snúast um mikilvægasta hlutverk nefndarinnar, voru tímafrekastar.

Almenn umræða um framkvæmd alþjóðasamþykkta.

    Almennar umræður í nefndinni byggja á skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Í skýrslunni gefur sérfræðinganefndin yfirlit yfir framvindu mála varðandi framkvæmd samþykkta og tillagna sem hafa verið afgreiddar af alþjóðavinnumálaþinginu. Stærsti hluti skýrslu sérfræðinganefndarinnar fjallar um framkvæmd einstakra aðildarríkja á samþykktum sem þau hafa fullgilt. Einnig er að finna upplýsingar um það hvernig aðildarríkin uppfylla aðrar skuldbindingar, t.d. þá að kynna fyrir löggjafarsamkomu samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins og hvort alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf hafa borist skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta eins og áskilið er í stofnskrá ILO.
    Störf þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta hefst á umræðum um almenna hluta skýrslu sérfræðinganna. Yfirleitt eru fulltrúar ríkisstjórna í meiri hluta ræðumanna sem taka þátt í þessum hluta nefndarstarfsins. Flestir gerðu að umtalsefni skoðanaskipti sem hafa orðið um hlutverk annars vegar þingnefndarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og hins vegar sérfræðinganefndar ILO. Einnig var fjallað um fjölda fullgildinga, skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta og nokkur önnur atriði sem fram koma í almenna hluta skýrslunnar. Í þessum hluta nefndarstarfsins var enn fremur rætt um úttekt sérfræðinganna á framkvæmd alþjóðasamþykktar, nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs. Að afloknum umræðum um þessi atriði hófst athugun á framkvæmd einstakra aðildarríkja á fullgiltum alþjóðasamþykktum.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Danmerkur í nefndinni hafði að þessu sinni orð fyrir fulltrúum ríkisstjórna Norðurlandanna í almennum umræðum. Í ræðunni var lýst yfir stuðningi við stefnu ríkisstjórnarfulltrúa í stjórnarnefndinni að því er varðar forgangsröðun verkefna í framkvæmdaáætlun áranna 1998–99. Samkvæmt henni er lögð megináhersla á aðgerðir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við að framfylgja mannréttindum í heiminum. Ítrekuð var sú afstaða Norðurlanda að stefna bæri að endurskoðun gildandi alþjóðasamþykkta frekar en samningu nýrra samþykkta, nauðsynlegt væri að einfalda þær og gera sveigjanlegri þannig að auðveldara verði fyrir aðildarríkin að fullgilda og framkvæma þær.
    Í niðurlagi ræðunnar var lýst yfir ánægju með breytingu sem hefur verið gerð í sambandi við fyrirkomulag á skýrslugjöf um framkvæmd samþykktanna. Með breytingunni hefur verið fallist á tillögu sem m.a. Norðurlöndin settu fram á sínum tíma. Samkvæmt nýju fyrirkomulagi er óskað eftir að skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta komi fyrr en áður. Að öllu jöfnu er óskað eftir skýrslum á tveggja ára fresti um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta. Þessu hefur verið breytt þannig að fleiri samþykktir hafa verið settar í þann flokk þar sem einungis er krafist skýrslna á fjögurra ára fresti. Þetta dregur úr vinnu aðildarríkjanna í sambandi við skýrslugerð um framkvæmd alþjóðasamþykkta.
    Önnur atriði, sem nefnd voru í ræðum fulltrúa við almenna umræðu, voru túlkun alþjóðasamþykkta, skýrslugerð aðildarríkjanna, efling eftirlitskerfis ILO, fullgildingar, kynning nýrra samþykkta fyrir löggjafarsamkomu, endurskoðun tilmæla, sérfræðiaðstoð og hlutverk alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, fullgilding samþykkta sem snerta grundvallarmannréttindi, evrópskir samningar um félags- og vinnumál, tengslin á milli stefnu í atvinnumálum og alþjóðlegra gerða á sviði félags- og vinnumála, félagslegt öryggi og alþjóðavæðing efnahagsmála.
    

Umfjöllun um framkvæmd einstakra aðildarríkja á alþjóðasamþykktum.

    Þingnefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta ver mestum hluta starfstíma síns í að ræða framkvæmd aðildarríkjanna á alþjóðasamþykktum og athugasemdir sem sérfræðinganefndin gerir við framkvæmd aðildarríkjanna á ákvæðum í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða í samþykktum sem hafa verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþinginu. Athugasemdirnar eru í áðurnefndri ársskýrslu sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins. Þar sem athugasemdirnar eru mun fleiri en nokkur kostur er að taka til umfjöllunar á þinginu vinnur þingnefndin eftir skrá yfir mál sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins leggja sameiginlega til að tekin verði til athugunar og umræðu í nefndinni. Þessi skrá hefur lengst með hverju ári. Á 83. þinginu voru tæplega 60 mál á skránni. Athugasemdirnar eru af ýmsu tagi. Vel er fylgst með því að nýjar alþjóðasamþykktir séu kynntar löggjafarsamkomum aðildarríkjanna innan tilskilins frests sem er eitt ár og í undantekningartilvikum 18 mánuðir. Aðildarríkin eru krafin skýringa á því ef um óhóflegan drátt er að ræða á samningu skýrslna um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta. Sérstök áhersla er lögð á skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta nr. 87, um félagafrelsi, og nr. 98, um samningafrelsi, en þær eru taldar meðal grundvallarsamþykkta ILO.
    Enda þótt flestar athugasemdirnar í skýrslu sérfræðinganna séu neikvæðar er þess getið sem vel er gert. Í skýrslunni er ætíð birt skrá yfir ríki sem hafa sýnt í verki að þau hafa tekið tillit til ábendinga sérfræðinganna. Að þessu sinni voru á skránni 26 aðildarríki. Þessi skráning hófst árið 1964. Frá þeim tíma hafa verið skráð 2.107 tilvik þar sem tekið hefur verið tillit til ábendinga eða gagnrýni sérfræðinganefndarinnar.

Sérstakar ábendingar.

    Ýmsum viðurlögum er beitt í þingnefndinni til að freista þess að fá aðildarríkin til að sjá að sér og bæta framkvæmd á ákvæðum alþjóðasamþykkta sem þau hafa brotið. Alþjóðavinnumálastofnunin getur ekki þvingað aðildarríkin með valdi til að fara eftir ábendingum sínum. Þess í stað er höfðað til heiðurs hlutaðeigandi og skapað viðhorf meðal annarra aðildarríkja til verknaðarins. Hörðustu viðurlögin felast í því að aðildarríkis er getið í svonefndum sérstaka hluta skýrslu nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta til allsherjarþings vinnumálaþingsins. Á þinginu 1996 hlutu eftirtalin ríki þennan vafasama heiður: Iran, Myanmar (Burma) og Nígería.

Íran.

    Nefndin samþykkti að geta Írans í sérstaka hluta skýrslu sinnar til allsherjarþingsins vegna alvarlegra brota á alþjóðasamþykkt nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs.

Myanmar (Burma).

    Í Mayanmar (Burma) eru sennilega framin um þessar mundir alvarlegustu mannréttindabrotin í heiminum. Málefni landsins hafa undanfarin ár verið reglulega til umfjöllunar á vettvangi Alþjóðavinnumálaþingsins. Það er fyrst og fremst framkvæmd og meint brot á alþjóðasamþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu, sem hafa valdið áhyggjum. Fátt nýtt kom fram í máli fulltrúa ríkisstjórnar Mayanmar sem endurflutti svo til óbreytta ræðu sem hann hélt á 82. þinginu 1995.
    Nefndin samþykkti að geta Myanmar í sérstaka hluta skýrslu sinnar til allsherjarþingsins vegna brota á þessari grundvallarsamþykkt. Þetta er sjötta árið í röð sem það gerist.
    Þess skal getið að sá sérstaki atburður gerðist á þinginu að 24 fulltrúar launafólks sendu forstjóra ILO kæru vegna brota Mayanmar á samþykkt nr. 29 á grundvelli 26. gr. stofnskrárinnar. Slík kæra getur leitt til þess að stofnunin ákveði að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að kanna málavexti. Þetta sýnir að aðstæður í Mayanmar eru taldar með öllu óviðunandi.
    Nefndin ræddi að nýju framkvæmd Myanmar á samþykkt nr. 87, um félagafrelsi og vernd réttar til að stofna félög, frá 1948. Ekki var hægt að merkja að neinar umbætur hafi átt sér stað að þessu leyti frá umræðum á 82. þinginu. Enn er ókleift að stofna frjáls og óháð stéttarfélög.
    Fulltrúi norsku ríkisstjórnarinnar hélt ræðu fyrir hönd ríkisstjórna Norðurlandanna fimm um málefni Mayanmar. Líkt og í fyrri ræðum árin 1994 og 1995 lýsti hann yfir þungum áhyggjum ríkisstjórnanna vegna mannréttindabrota og vanefnda ríkisstjórnar Maynmar á gefnum loforðum um úrbætur á framkvæmd samþykkta nr. 29 og 87.

Nígería.

    Langar umræður áttu sér stað í nefndinni um framkvæmd Nígeríu á samþykkt nr. 87, um félagafrelsi og vernd þess. Sérfræðinganefnd ILO kemst að því í skýrslu sinni til Alþjóðavinnumálaþingsins að verulega skortir á að borgarar Nígeríu njóti þeirra réttinda sem felast í samþykktinni. Í gildi eru lög sem takmarka starf stéttarfélaga við einungis eitt félag. Komið er í veg fyrir starfsemi annarra stéttarfélaga með öllum tiltækum ráðum, löglegum og ólöglegum. Þetta eina félag hefur þar að auki orðið að þola afskipti ríkisvaldsins af innri málum sínum. Fulltrúi Norðurlandanna tók til máls í umræðum um framkvæmd Nígeríu á samþykkt nr. 87. Hann minnti á að þetta málefni hefði verið rætt á 82. þinginu sem hefði samþykkt að geta þess í sérstaka hluta skýrslu sinnar til þingsins. Hann lét einnig í ljósi áhyggjur ríkisstjórna Norðurlanda yfir alvarlegu ástandi mannréttindamála í landinu.
    Niðurstaða nefndarinnar var sú sama og árið áður. Samþykkt var einróma að geta þessa máls í sérstaka hluta skýrslu hennar til allsherjarþingsins.

Athugasemdir við framkvæmd Íslands á fullgiltum alþjóðasamþykktum.

    Í skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til 83. vinnumálaþingsins er fjallað um framkvæmd Íslands á einni alþjóðasamþykkt, þ.e. samþykkt nr. 98, um réttinn til að semja sameiginlega. Hér fer á eftir efnisleg samantekt á helstu athugasemdum sem fram koma í skýrslunni:
    Í skýrslunni segir að nefndin gefi gaum að skýrslu ríkisstjórnarinnar. Hún kveðst einnig veita athygli niðurstöðum nefndar um félagafrelsi í máli nr. 1768 [299. skýrsla nefndarinnar sem samþykkt var á 263. fundi stjórnarnefndar ILO í júní 1995].
    Nefndin vísar til fyrri athugasemda um nauðsyn þess að ríkisstjórnin forðist að grípa inn í kjarasamninga sem hafi verið gerðir með frjálsum samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins þar sem slíkt skerði rétt launafólks og atvinnurekenda til að semja um kjör og vinnuskilyrði. Fram kemur að skipun vinnuhóps um samskiptareglur á vinnumarkaði 4. október 1994 hafi vakið athygli nefndarinnar. Skipunin hafi að hluta til byggst á ábendingum sérfræðinganefndarinnar. Hlutverk vinnuhópsins sé að fara yfir samskiptareglur á vinnumarkaði og afla upplýsinga um slíkar reglur í nágrannalöndunum. Fyrir hópinn sé lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kemur nauðsyn breytinga á íslenskri löggjöf er hópunum falið að setja fram tillögur um það efni. Sérfræðingarnir óska eftir því að ríkisstjórnin veiti upplýsingar um niðurstöður af athugun vinnuhópsins, einkum ef settar verða fram tillögur um breytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði.
    Sérfræðinganefndin kveðst enn fremur gefa því gaum að með kjarasamningum, sem gerðir voru á árinu 1995, hafi verið gert þríhliða samkomulag með aðild ríkisstjórnarinnar líkt og áður hafi verið gert. Samningar hafi verið gerðir 21. febrúar 1995 á milli samtaka atvinnurekenda og launafólks til tveggja ára. Meginmarkmið samninganna sé að breyta launadreifingunni til hagsbóta fyrir hina lægstlaunuðu samtímis því sem stefnt sé að því að halda heildarlaunabreytingum á svipuðu stigi og í nágrannalöndunum. Gert sé ráð fyrir að samningarnir feli í sér að launabreytingar verði 3,6% 1995 og 3,1% 1996. Ríkisstjórnin bendir á að samningarnir gildi til ársloka 1996 en þeir séu uppsegjanlegir frá 31. desember 1995 ef verðlagsþróun verður í verulegum mæli önnur en í helstu samkeppnislöndum Íslands. Ef samningum er sagt upp komi kauphækkanir á árinu 1996 ekki til framkvæmda.
    Í þessu sambandi kveðst nefndin vilja minna ríkisstjórnina á það álit sitt að það sé andstætt grundvallarreglum samþykktar nr. 98 að afnema ákvæði í kjarasamningi á þeirri forsendu að það sé ekki í hátt við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Sérfræðingarnir segjast treysta því að umsamdar launahækkanir í samningunum frá árinu 1995 komi til framkvæmda. Hún óskar þess að ríkisstjórnin veiti upplýsingar um framvindu mála í næstu skýrslu sinni um framkvæmd samþykktarinnar.

2.6. RÉTTINDI ÞEIRRA SEM VINNA HEIMASTÖRF

    Á dagskrá þingsins var síðari umræða um drög að nýrri alþjóðasamþykkt um félagslegar aðstæður og réttindi þeirra sem vinna það sem kalla má heimastörf, þ.e. þegar launamaður vinnur tiltekin verkefni fyrir atvinnurekanda á heimili sínu.
    Fjallað var um drögin að samþykktinni í þingnefnd. Formaður nefndarinnar var kjörinn ríkisstjórnarfulltrúi Kýpur, Lenia Samuel. Varaformenn voru kosnir A. Wild, fulltrúi atvinnurekenda frá Stóra-Bretlandi, og I. Van den Burg, fulltrúi launafólks í Hollandi.
    Nefndin hélt 11 fundi á meðan á þinginu stóð, einkum síðdegisfundi, þar eð fulltrúar ríkisstjórna ESB-ríkja og IMEC-hópsins (samráðshópur vestrænna ríkja) héldu samræmingarfundi árdegis. Umræður byggðust fyrst og fremst á skýrslum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar: Home Work IV(1), IV(2A) og IV(2B).
    Helstu viðfangsefni nefndarinnar við þessa síðari umræðu voru: Hvers eðlis afgreiðsla þingsins ætti að vera, skýring orðanna heimastörf, heimastarfsmaður, atvinnurekandi og milligöngumaður og eftirlit og viðurlög.
    Í skýrslu félagsmálaráðherra um 82. Alþjóðavinnumálaþingið kemur fram að mikill ágreiningur varð við fyrri umræðu á milli fulltrúa atvinnurekenda og launafólks. Erfitt reyndist að finna skilgreiningar á heimavinnu og heimavinnandi fólki sem aðilar vinnumarkaðarins gátu sætt sig við, svo og fulltrúar stjórnvalda hinna ýmsu landa. Vandinn var einkum fólginn í því að finna orðskýringu sem greindi á milli heimastarfsmanns og sjálfstætt starfandi einyrkja. Fulltrúar launafólks höfðu hug á að hafa skilgreiningarnar nógu víðtækar til að þær næðu til sem flestra aðstæðna. Niðurstaðan varð sú að samin var skilgreining þar sem tilgreint var hvað felast skyldi í hugtakinu heimavinna og lítið tillit tekið til mismunandi notkunar orðsins launamaður í mismunandi löndum. Á þessum grunni var byggt á 83. vinnumálaþinginu.
    Spurningin um afgreiðslu alþjóðasamþykktar eða tillögu er viðvarandi deiluefni á milli fulltrúa atvinnurekenda og launafólks á Alþjóðavinnumálaþinginu. Um þetta var deilt að því er varðar aðstæður heimastarfsmanna. Fulltrúar launafólks lögðu áherslu á að þingið afgreiddi samþykkt sem yrði nánar útfærð í tillögu. Fulltrúar atvinnurekenda lögðust gegn þeirri hugmynd. Þeir töldu óæskilegt að afgreiða alþjóðasamþykkt um þetta málefni og vöktu athygli á því að slíkar samþykktir, sem taka til ákveðinna greina eða hópa á vinnumarkaði, hafi ekki hlotið undirtektir hjá aðildarríkjunum. Fáar fullgildingar séu til vitnis um þetta. Þeir héldu því enn fremur fram að drögin að alþjóðasamþykktinni miðist fyrst og fremst við hefðbundin heimastörf en ekki hin nýju störf sem mest eru til umfjöllunar og unnin eru með fjarvinnslutækni. Ekki væri tímabært að setja reglur um þessa starfsemi. Hins vegar lýstu þeir sig reiðbúna að taka þátt í samningu tillögu um hefðbundin heimastörf.
    Flestir fulltrúar ríkisstjórna tóku undir nauðsyn þess að settar yrðu reglur um heimastörf. Ekki var samstaða um það hvort stefna ætti að alþjóðasamþykkt eða tillögu.
    Það vakti nokkra athygli að í þessu máli komu aðildarríki Evrópusambandsins fram sem ein heild. Á þessum tíma gegndu Ítalir formennsku í ESB og fór ítalski fulltrúinn fyrir hópunum í þingnefndinni.
    Við almennar umræður lýstu fulltrúar atvinnurekenda því yfir að enda þótt meiri hluti væri fyrir afgreiðslu alþjóðasamþykktar um heimastörf mundu þeir ekki taka þátt í samningu slíkrar samþykktar í nefndinni. Þeir mundu mæta á fundi nefndarinnar en hvorki taka þátt í umræðum, né flytja breytingartillögur eða taka þátt í atkvæðagreiðslum. Hins vegar tækju þeir þátt í vinnu við samningu tillögu þegar hún yrði tekin til umfjöllunar. Atkvæðagreiðslur í nefndinni leiddu í ljós að meiri hluti var fyrir afgreiðslu samþykktar og tillögu. Atvinnurekendur sátu við sinn keip og tóku ekki þátt í umfjöllun um alþjóðasamþykkt. Fulltrúar launafólks og ríkisstjórna lýstu yfir vonbrigðum sínum með þessa afstöðu fulltrúa atvinnurekenda. Í framhaldinu fóru fram umræður um skipulag nefndarstarfsins. Þessi atburður er einstæður af þeirri ástæðu að þetta er í fyrsta skipti í sögu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem einn hinna þriggja aðila hefur neitað að taka þátt í nefndarstarfi. Afleiðingin varð sú að sjónarmið atvinnurekenda voru ekki til umræðu við umfjöllun nefndarinnar um drögin að alþjóðasamþykktinni.
    Talsmaður fulltrúa launafólks lýsti yfir ánægju með þau drög að alþjóðasamþykkt sem lágu fyrir nefndinni. Þó væri ljóst að enn væru nokkur atriði óleyst. Hann kvaðst reiðubúinn að finna lausn á þeim í samvinnu við fulltrúa ríkisstjórna þannig að niðurstaðan gæti orðið texti sem aðildarríkin gætu sætt sig við og fullgilt.
    Niðurstaðan varð sú að fulltrúar atvinnurekenda treystu sér hvorki til að styðja afgreiðslu alþjóðasamþykktar né tillögu um heimastörf.

Helstu atriði alþjóðasamþykktarinnar.

    Höfuðskuldbinding aðildarríkja, sem fullgilda samþykkt nr. 177, um heimastarfsmenn, kemur fram í 3. gr. Samkvæmt henni skal sérhvert aðildarríki setja, framkvæma og endurskoða stefnu ríkisins varðandi heimastörf. Markmiðið er að gera stöðu þeirra sem líkasta stöðu annarra starfsmanna. Þetta ber að gera í samvinnu við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks. Í aðfaraorðum samþykktarinnar er á það minnt að alþjóðasamningar og tilmæli um aðbúnað fólks á vinnustöðum geti einnig átt við fólk sem starfar heima. Heimastörf séu sérstakt svið og því beri að aðlaga þessar reglur þörfum heimastarfsmanna og setja viðbótarreglur sem taka sérstakt tillit til sérstöðu slíkra starfa.
    Fyrsti hluti samþykktarinnar fjallar um orðskýringar og gildissvið. Hann hefur enn fremur að geyma ákvæði sem bæði eru almenns eðlis og taka mið af sérstökum kröfum um að stefna að og koma á eins og kostur er jafnrétti á milli heimastarfsmanna og þeirra sem kalla má hefðbundna starfsmenn. Þetta skal taka til allra sviða atvinnulífsins. Sérstaklega er nefndur rétturinn til að skipuleggja sig í samtökum, réttur til öryggis og heilbrigðis á vinnustað, réttur til lögbundinnar tryggingaverndar, lágmarksaldur til vinnu, tækifæri til starfsmenntunar o.fl.
    Í samræmi við lög og venjur skal aðildarríki samþykktarinnar koma upp eftirlitskerfi sem taki til heimastarfsmanna með sama hætti og annarra starfsmanna. Þannig njóti þeir lög- og samningsbundinna réttinda.
    Við fyrri umræðu var þess freistað að greina sérstök vandamál og leita lausna á þeim. Þetta tókst ekki að öllu leyti. Það gilti t.d. um skýringu á orðum í 1. gr. samþykktarinnar. Einkum var vandasamt að finna orðskýringu sem greini á milli heimastarfsmanns og sjálfstætt starfandi atvinnurekanda (einyrkja). Þetta verður ljóst ef litið er á texta iii-liðar í a-lið 1. gr. Þar segir m.a. að í heimastarfi felist að til verði framleiðsluvarningur eða þjónusta sem atvinnurekandi skilgreinir, óháð því hver leggur til búnað, efni eða annað sem notað er. Í lögum og reglum margra landa ræður eignarhald á búnaði og efni því hvort um sé að ræða starfsmann eða sjálfstæðan einyrkja. Fulltrúar launafólks og nokkurra ríkisstjórna vildu þrátt fyrir þetta halda orðskýringunni. Að öðrum kosti gæti einstaklingur, sem í raun er heimastarfsmaður, aðveldlega verið talinn sjálfstæður atvinnurekandi og jafnvel verktaki. Hann nyti þar með ekki verndar samkvæmt samþykktinni.
    Fulltrúar ríkisstjórna lögðu fram tillögu sem fól í sér að gera greinarmun á heimastarfsmönnum og þeim sem tilfallandi taka verkefni heim með sér og vinna þau þar. Tillagan hlaut undirtektir og náði fram að ganga sem b-lið 1. gr.
    Orðið milligöngumaður var tilefni til umræðna. Fullyrt var að skýring þess fæli í sér að litið yrði á milligöngumanninn sem atvinnurekanda. Einnig kom fram að þetta orð væri óþekkt í vinnurétti nokkurra landa og í öðrum væri starfsemi þeirra bönnuð. Niðurstaðan í nefndinni varð sú að geta milligöngumanns í texta samþykktarinnar jafnvel þótt starfsemi þeirra sé bönnuð að gildandi lögum aðildarríkis.
    Um eftirlit og hugsanleg viðurlög við brotum á ákvæðum samþykktarinnar er fjallað í 9. gr. Meiri hlutinn í nefndinni var samþykkur því að taka upp ákvæði um eftirlit með heimastörfum sem samræmist lögum eða venju hlutaðeigandi aðildarríkis. Þess má geta að ekki eru í gildi á Íslandi ákvæði í lögum sem heimila vinnueftirlit inni á heimilum með sama hætti og á vinnustöðum.
    Samþykktin er birt í heild sem fylgiskjal I.

Tillagan.

    Tillaga nr. 184, um heimastörf, hefur að geyma ítarlegri ákvæði um útfærslu og réttindi heimastarfsmanna. Atvinnurekendur tóku þátt í umfjöllun nefndarinnar um hana. Upp komu hefðbundin ágreiningsefni á milli talsmanna þeirra og fulltrúa launafólks. Fulltrúar atvinnurekenda lögðu fram nýja tillögu um skýringu á orðunum heimastarfsmaður, heimastarf og atvinnurekandi. Þeir héldu því fram að ekki væri nauðsynlegt að orðskýringar í tillögunni væru samhljóða skýringum í samþykktinni. Tillagan hlaut ekki undirtektir í þingnefndinni. Fulltrúar atvinnurekenda vildu einnig fá aukinn rétt atvinnurekanda til aðgangs að heimili heimastarfsmanns. Þeir bentu á að samkvæmt tillögunni hvíldi á þeim ábyrgð á vinnuumhverfi og öryggi heimastarfsmanns. Án aðgangs að heimili starfsmannsins gætu þeir ekki staðið undir þessari ábyrgð. Ekki var meiri hluti fyrir því að veita einkaaðilum aðgang að heimilum heimastarfsmanna. Hins vegar var bætt við tillögutextann ákvæði sem takmarkar ábyrgð atvinnurekenda við að upplýsa heimastarfsmann um hættu sem þeim er kunnugt um eða ætti að vera kunnugt um að tengist starfi starfsmannsins.
    Tillagan er birt í heild sem fylgiskjal V.

Niðurstaða.

    Eftir umræður og samninga í þingnefndinni varð niðurstaðan sú að fulltrúar atvinnurekenda gátu hvorki stutt drög að samþykkt né tillögu um heimastörf. Atvinnurekendur unnu markvisst að því að koma í veg fyrir að þessar tvær gerðir fengju lágmarksstuðning á allsherjarþinginu (samkvæmt reglum ILO þarf lágmarksfjöldi að taka þátt í atkvæðagreiðslu með því að greiða tillögu atkvæði sitt eða greiða atkvæði gegn henni). Úrslit atkvæðagreiðslu um alþjóðasamþykkt voru þau að 246 voru samþykkir, 14 á móti og 152 sátu hjá. Lágmarkstala greiddra atkvæða var 248. Þess skal getið að samþykktin hefði fallið hefðu þeir setið hjá sem greiddu atkvæði á móti. Tillagan hlaut hins vegar stuðning meiri hluta þingfulltrúa.

2.7. STEFNA Í ATVINNUMÁLUM

    Á allra síðustu árum hafa áhrif af afnámi viðskiptahindrana og aukið efnahagssamstarf í heiminum á atvinnustigi verið viðfangsefni alþjóðastofnana, t.d. OECD. Um þetta efni hefur einnig verið fjallað í skýrslum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, einkum og sér í lagi í nýrri ritröð ILO um atvinnumál í heiminum (World Employment). Með hliðsjón af sífellt auknu atvinnuleysi í heiminum, viðvarandi miklu atvinnuleysi í iðnríkjunum og fjöldaatvinnuleysi í ríkjum Austur-Evrópu þótti tímabært að taka stefnu í atvinnumálum til sérstakrar umræðu á Alþjóðavinnumálaþinginu, ekki síst með tilliti til ábendinga ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þróun félagsmála sem haldin var í Kaupmannahöfn í mars 1995 þar sem þessum vandamálum var beint til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Um þetta efni var fjallað í sérstakri þingnefnd. Formaður hennar var kosinn A. P. Zanou, fulltrúi ríkisstjórnar Benin. Varaformenn voru E. Potter, atvinnurekendafulltrúi frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, og K. Douglas, fulltrúi launafólks á Nýja Sjálandi.
    Fyrir þingnefndinni lá skýrsla sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði samið. Skýrslunni var skipt í fimm kafla. Fyrsti kaflinn fjallar um þau mörk sem framvinda efnahagsmála í heiminum setur stefnu í atvinnumálum. Í öðrum kaflanum er fjallað um það hvort full atvinna er enn raunhæft markmið. Fjórði kaflinn hefur að geyma tillögur um stefnu í atvinnumálum iðnríkja, þróunarlanda og landa sem áður bjuggu við miðstýrðan áætlunarbúskap.
    Í umræðum í þingnefndinni kom fram gagnrýni á skýrslu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Hún þótti leggja of mikla áherslu á hlutverk ríkisins í því að auka eftirspurn að hætti Keynes. Bent var á að sé þess freistað að draga úr atvinnuleysi með aukinni eftirspurn hafi reynslan sýnt að erfitt kunni að vera að hafa hemil á verðbólgu. Fulltrúar launafólks tóku ekki undir þessa gagnrýni og studdu tillögur sem settar voru fram í skýrslunni.
    Í niðurstöðum nefndarinnar er vakin athygli á umfangsmiklu atvinnuleysi í öllum heimshlutum. Á 9. áratugnum hafi fátæk lönd orðið enn fátækari. Atvinnuástand hafi verið slæmt í þessum löndum en það hafi orðið enn verra. Í Austur-Evrópu hafi brostið á fjöldaatvinnuleysi samfara breytingu frá miðstýrðum áætlunarbúskap yfir í markaðsbúskap. Viðvarandi mikið atvinnuleysi sl. tvo áratugi hafi verið einkenni á stöðu vinnumála í iðnríkjunum. Við atvinnuleysið bætist vandi sem felst í því að þeim launamönnum fjölgar sem ekki geta framfleytt sér og sínum af greiddum launum. Einnig hafi launamunur aukist í mörgum löndum.
    Lögð er áhersla á stefna beri að fullri atvinnu. Full atvinna er skilgreind þannig að allir sem eru tiltækir á vinnumarkaði, hafa verkgetu og eru í raun að leita að starfi fái vinnu. Þessu takmarki sé unnt að ná þrátt fyrir hraða tækniþróun og aukna viðskiptasamvinnu í heiminum. Ef rétt sé á haldið geti hvort tveggja aukið hagvöxt sem er forsenda fjölgunar starfa.
    Helstu ábendingar eru:
—    áhersla á starfsmenntun til að auka hæfni vinnuaflsins til að nýta ný tækifæri í atvinnulífinu sem aukinn hagvöxtur skapar,
—    að bæta skilyrði smárra og meðalstórra fyrirtækja,
—    sérstakar aðgerðir í þágu þeirra hópa sem lakast eru settir á vinnumarkaðinum,
—    að kanna beri þörf á endurskoðun reglna á vinnumarkaðinum.

2.8. ÞRÍHLIÐA SAMSTARF UM STEFNU Í EFNAHAGS- OG FÉLAGSMÁLUM


    Samstarf ríkisvaldsins, samtaka atvinnurekenda og launafólks um stefnu í efnahags- og félagsmálum var til almennrar umræðu á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu. Um þetta málefni var fjallað í einni af nefndum þingsins. Hún naut formennsku fulltrúa ríkisstjórnar Rúmeníu. Varaformenn voru kosnir fulltrúi atvinnurekenda í Nígeríu og fulltrúi launafólks á Barbados.
    Skýrsla alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um þetta málefni (Report VI, Tripartite consultation at the national level on economic and social policy) var grundvöllur umræðna í nefndinni. Skýrslan hefur að geyma almenna lýsingu á því hvernig þríhliða samstarf á þessi sviði hefur þróast, tækifæri sem það gefur og vandamál sem upp kunna að koma. Í almennum umræðum kom m.a. eftirfarandi fram:
    Allir ræðumenn, sem tóku til máls, virtust sammála um að samstarf framangreindra þriggja aðila að því er varðar stefnumörkun í efnahags- og félagsmálum væri viðunandi. Samstarf af þessu tagi væri að eflast. Nokkrir töldu hættu á að þessi þróun stefndi fulltrúalýðræðinu í hættu. Ríkisvaldið og aðildar vinnumarkaðarins færu að hlutast til um viðfangsefni sem ættu að vera á verksviði löggjafarvaldsins. Á það var lögð áhersla að fulltrúalýðræðið væri grunnurinn en þríhliðasamstarfið mikilvæg viðbót sem hefði hlutverki að gegna á afmörkuðum sviðum þjóðlífsins. Almenn samstaða var um að samstarf af þessu tagi gæti einungis þrifist í lýðræðisþjóðfélagi þar sem stundaður væri markaðsbúskapur og að því tilskildu að það byggðist á jafnræði aðila.

2.9. ÞINGSÁLYKTANIR


    Á Alþjóðavinnumálaþinginu er heimilt að leggja fram tillögur til þingsályktunar um önnur málefni en þau sem eru á dagskrá enda fjalli þau um viðfangsefni sem snerta starfssvið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Tillögur til þingsályktunar eiga að berast forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar 15 dögum fyrir þingsetningu. Um þessar tillögur var fjallað í ályktunarnefnd (Resolutions Committee) sem var ein af fastanefndum þingsins. Spenna í alþjóðamálum hefur oftar en ekki sett svip sinn á starf nefndarinnar. Undanfarin tvö ár hefur það verið átakalítið og aðildarríki hafa ekki lagt jafnmikla áherslu á þátttöku í starfi nefndarinnar sem jafnan var með þeim fjölmennari. Fyrir þremur árum voru samþykktar tillögur sem höfðu að markmiði að draga úr kostnaði við þinghaldið. Þar á meðal var tillaga um að ályktunarnefndin starfaði annað hvert ár, þ.e. það ár sem ekki væri fjallað um fjárhags- og starfsáætlun. Af þessu leiddi að nefndin starfaði ekki á 82. þinginu. Nefndin kom hins vegar saman á 83. Alþjóðavinnumálaþinginu. Yfirleitt sátu fundi hennar 134 fulltrúar. Fulltrúar ríkisstjórna voru 62, fulltrúar atvinnurekenda voru 24 og 48 voru fulltrúar launafólks.
    Formaður ályktunarnefndar var kosinn fulltrúi ríkisstjórnar Úrúgvæ, Maria Carmen Ferreira. Varaformenn voru Steve Marshall, atvinnurekendafulltrúi frá Nýja Sjálandi, og Kari Tapiola, fulltrúi launafólks í Finnlandi. Gylfi Kristinsson tók þátt í starfi nefndarinnar af hálfu Íslands.
    Nefndinni bárust samtals 13 tillögur til þingsályktunar. Ekki var mælt fyrir einni tillögu og var litið svo á að hún hefði verið dregin til baka. Fjórar tillögur fjölluðu um vinnu barna. Samstaða tókst um að sameina þessar tillögur í eina. Einnig tókst samkomulag um að sameina tillögur um framtíðarhlutverk ILO í að stuðla að félagslegu réttlæti í heiminum. Ástandið í Mið-Austurlöndum hefur um árabil verið eitt helsta deiluefni í nefndinni. Að þessu sinni komu fram þrjár tillögur um það efni. Samkvæmt verklagsreglum nefndarinnar voru greidd atkvæði um það í hvaða forgangsröð tillögurnar yrðu afgreiddar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er mikilvæg þar sem nefndin kemst einungis yfir að afgreiða takmarkaðan fjölda. Úrslit fóru þannig:
    Afnám barnaþrælkunar (tillagan hlaut 117.654 vegin atkvæði).
    Framtíðarhlutverk ILO við að stuðla að félagslegu réttlæti (87.529 vegin atkvæði).
    Vernd réttinda einstaklinga sem eiga rót að rekja til ráðningarsambands (61.239 vegin atkvæði).
    Atvinnuleysi og félagsleg útskúfun vegna veraldarvæðingu vinnumarkaðarins (51.447 vegin atkvæði).
    Efling ILO til að takast á við viðfangsefni á heimsvísu (49.516 vegin atkvæði).
    Sátt var um niðurstöðuna. Ljóst var að náðst hafði breið samstaða um að leggja megináherslu á vinnuvernd barna og unglinga. Einnig leiddi niðurstaðan í ljós vilja þingfulltrúa til að sniðganga málefni sem voru líkleg til að valda deilum eins og tillögur um ástandið í Miðausturlöndum hefðu vafalaust gert.
    Skipaður var vinnuhópur fulltrúa þeirra aðila sem stóðu að flutningi tillagnanna um vinnuvernd barna og unglinga. Vinnuhópurinn vann ötullega að því að ná samstöðu um texta nýrrar tillögu um þetta mikilvæga málefni. Skipar skoðanir voru í vinnuhópnum um orðanotkun og heiti tillögunnar. Samkomulag tókst um yfirskrift: Tillaga varðandi afnám barnavinnu. Í meginmáli hennar er m.a. lögð áhersla á að vinna barna sé óásættanleg og hana beri að afnema markvisst. Einnig kemur fram í textanum að viss tegund barnavinnu sé með þeim hætti að hana verði að leggja af án tafar. Þetta gildi fyrst og fremst þar sem börn séu í þrælkunar- eða nauðungarvinnu eða búi við lífshættulegar aðstæður eða umhverfi sem hefur skaðleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra.
    Fram komu 34 breytingartillögur við þau tillögudrög sem vinnuhópurinn lagði fram. Ríkisstjórnir Bangladess, Filippseyja, Indlands, Indónesíu, Malasíu og Pakistan stóðu að flestum breytingartillögunum. Þessar ríkisstjórnir tóku mjög einstrengislega afstöðu til þess tillögutexta sem vinnuhópurinn lagði fram. Þær eiga það sameiginlegt að hafa um árabil verið skotspónn alþjóðastofnana sem hafa unnið að barnaverndarmálum. Þeim tókst að vinna til fylgis við sig fulltrúa frá nokkrum öðrum ríkjum í Suðaustur-Asíu. Niðurstaðan varð sú að nokkurt tillit var tekið til sumra breytingartillagnanna en flestar voru dregnar til baka. Samkomulag tókst um að halda nær öllum atriðunum sem voru í upphafalega textanum. Frá sjónarhóli þeirra sem lögðu mesta áherslu á þetta málefni var tillagan ásættanleg. Mikilvægt væri að skapa breiða samstöðu og þannig skapa forsendur fyrir víðtækum aðgerðum á þessu sviði.
    Sátta- og samningafundir um tillöguna um vinnu barna urðu það tímafrekir að nefndinni tókst ekki að afgreiða að þessu sinni fleiri tillögur til allsherjarþingsins. Hins vegar var þessi eina tillaga afgreidd einum rómi til þingsins og afgreidd þar án mótatkvæða. Það er sérstakt ef ekki einstakt í sögu Alþjóðavinnumálaþingsins.

2.10. SAMSTARF VIÐ VESTRÆNAR OG NORRÆNAR RÍKISSTJÓRNIR


    Bein aðild fulltrúa atvinnurekenda og launafólks auk fulltrúa ríkja sem eiga aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni skapar Alþjóðavinnumálaþinginu sérstöðu í samanburði við þing annarra sérstofnana Sameinuðu þjóðanna. Þau eru mun fjölmennari og skoðanaskipti lífleg. Fámenn sendinefnd frá einu minnsta aðildarríkinu á því fullt í fangi með að fylgjast með öllu sem fram fer. Þess vegna skiptir samstarf við aðra miklu máli. Þar vega þyngst vikulegir samráðsfundir fulltrúa ríkisstjórna Norðurlandanna. Á þeim fer fram kynning á stöðu málefna í einstökum nefndum og lögð eru á ráðin um sameiginlegt ræðuhald Norðurlandanna á allsherjarþinginu og í nefndum.
    Annað atriði, sem er til þess fallið er létta sendinefndinni þingstörfin, er samráðsfundir fulltrúa vestrænna iðnríkja. Þessir fundir eru haldnir daglega og á þeim er farið yfir þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni. Með þátttöku í þessum fundum má fá gott yfirlit yfir það sem er að gerast að þessu fjölmenna alþjóðaþingi.

3. 84. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 1996


3.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA


    84. Alþjóðavinnumálaþingið var haldið í Genf dagana 8.–22. október 1996. Þingið fór að mestu fram í höfuðstöðvum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að undanteknum setningar- og lokaathöfnunum sem haldnar voru í Þjóðabandalagshöllinni. Hér var um að ræða aukaþing sem var helgað málefnum skipverja. Þetta var í 11. skiptið sem þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) fjallaði sérstaklega um aðbúnað og vinnuskilyrði þeirra.
    Samtals tóku þátt í þinginu meira en 800 fulltrúar ríkisstjórna, útgerðarmanna og samtaka sjómanna, alls frá 85 aðildarríkum.
    Forseti þingsins var kjörinn Michael Hubbard, fulltrúi ríkisstjórnar Kanada. Varaforsetar voru kjörnir úr röðum þeirra þriggja hópa sem eiga fulltrúa á þinginu. Kosnir voru ríkisstjórnarfulltrúi Indónesíu, Payaman Simanjuntak, fulltrúi atvinnurekenda á Indlandi, B. M. Ghildiyal, og fulltrúi launafólks í Japan, Shosiro Nakanishi.
    Sendinefnd Íslands skipuðu eftirtaldir: Frá samgönguráðuneyti: Jósef H. Þorgeirsson. Frá utanríkisráðuneyti: Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands hjá alþjóðastofnunum í Genf. Varamenn voru: Haukur Ólafsson sendiráðunautur og Guðmundur Björgvin Helgason sendiráðsritari. Fulltrúi atvinnurekenda: Jón H. Magnússon, lögfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands. Fulltrúi launafólks: Borgþór S. Kjærnested, starfsmaður Sjómannafélags Reykjavíkur.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin atriði:
    Endurskoðun tillögu nr. 28, um vinnueftirlit um borð í skipum, frá árinu 1926.
    Endurskoðun samþykkar nr. 109, um vinnutíma og mönnun skipa, frá árinu 1958.
    Endurskoðun samþykktar nr. 9, um vinnumiðlun farmanna, frá árinu 1920.
    Endurskoðun samþykktar nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum, frá árinu 1976.
    Skipaðar voru þrjár nefndir til að fjalla um dagskrármálefni þingsins. Málefni 1. og 4. voru rædd sameiginlega í einni nefnd og hver nefndanna fjallaði um 2. og 3. dagskrárefnið. Fulltrúar Íslands sátu í öllum fjórum nefndunum.

3.2. ÞINGSETNING


    Formaður stjórnarnefndar ILO, Arrate Mac Niven, setti þingið með ítarlegri ræðu. Í henni kom fram að vegna fjárhagsörðugleika hefði reynst nauðsynlegt að fresta þessu aukaþingi en fyrirhugað var að halda það árið 1995. Stjórnarnefndin hafi litið svo á að vinnuaðstæður skipverja hafi tekið svo miklum breytingum á allra síðustu árum að ekki hafi verið undan því vikist að taka málefni þeirra til sérstakrar umfjöllunar. Hann minnti á að þetta væri í 11. skipti sem Alþjóðavinnumálaþingið fjallaði um vinnuskilyrði til sjós. Þingin hefðu samtals afgreitt 36 samþykktir og 27 tillögur sem væru fyrirmynd alþjóðareglna á þessu sviði.
    Niven vakti athygli á því að frá síðasta aukaþingi, sem haldið var fyrir níu árum, þ.e. árið 1987, hefði ýmislegt gerst sem hefði haft djúpstæð áhrif á framvinduna á sviði útgerðar og sjómennsku. Meðal þess sem hann nefndi var ný tegund skipaskráa, skráning skipa í svonefnda alþjóðlega skipaskrá eða opna skipaskrá, stöðug umskráning skipa og flutningur í alþjóðlega skipaskrá, rekstur þriðja aðila á skipum og tækniframfarir. Afleiðingin hafi orðið fækkun mannafla um borð í skipum og almenn fækkun farmanna í heiminum. Þar að auki hafi orðið miklir mannskaðar í alvarlegum sjóslysum. Mikilvægt viðfangsefni þingsins væri að ræða aðgerðir til að bæta öryggi skipverja.
    Í ræðu formanns stjórnarnefndarinnar kom fram að aukaþingið, sem haldið var árið 1987, hafi samþykkt tillögu þar sem talin voru upp málefni sem talið var nauðsynlegt að taka til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu. Þessi málefni hafi verið rædd á 26. fundi siglingamálanefndar ILO árið 1991. Nefndin mælti með því að á næsta aukaþingi ILO um málefni skipverja yrði sett á dagskrá endurskoðun fimm gerða á þessu sviði. Árið 1994 hafi verið haldinn þríhliða fundur sem í raun hafi verið eins konar undirbúningsþing. Á því hafi farið fram fyrsta umræða um nauðsynlegar breytingar og umbætur á gildandi reglum.
    Kosning þingforseta fór fram að aflokinni þingsetningarræðunni. Kosningu hlaut fulltrúi ríkisstjórnar Kanada, Michael Hubbard. Hann flutti stutta ræðu þegar hann tók við þessu ábyrgðarstarfi. Í henni voru dregin fram atriði sem skapa útgerð og skipverjum sérstöðu í samanburði við landverkafólk. Um er að ræða flóknar skráningarreglur, sérreglur um útgerðarmenn og ábyrgð þeirra, reglur um mönnun skipa, vinnuaðstæður og aðbúnaður skipverja o.fl. Öll þessi atriði kalla á sérstakar lausnir sem taka mið af vinnuumhvefi sem er ólíkt því sem gerist í landi.
    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, Michel Hansenne, ávarpaði þingið. Í máli hans kom m.a. fram að frá því að þríhliðafundurinn um málefni skipverja var haldinn árið 1994 hefðu farist 180 skip og með þeim 1.200 skipverjar og farþegar. Á fyrstu sex mánuðum ársins 1996 hefðu helmingi fleiri farist í sjóslysum en samtals á öllu árinu 1995.
    Forstjórinn gerði að umtalsefni breytingar sem hafa átt sér stað í útgerð sl. 25 ár. Of stór skipastóll hafi valdið skipulagsbreytingum á níunda áratugnum. Aukin samkeppni hafi knúið útgerðarmenn til að leita allra leiða til að lækka útgerðarkostnað, m.a. með því að skrá skip í svonefnda alþjóðlega skipaskrá eða opna skipaskrá sem hafi heimilað fleiri frávik frá viðteknum reglum, m.a. að því er varðar skattlagningu, öryggismál, mönnun, eftirlit og rekstur. Notkun milliliða að því er varðar ráðningar og rekstur hafi gert útgerð flóknari bæði frá rekstrarlegu og lagalegu sjónarhorni.

3.3. EFTIRLIT MEÐ AÐBÚNAÐI OG VINNUSKILYRÐUM SKIPVERJA


    Ákvæði um eftirlit með aðbúnaði og vinnuskilyrðum skipverja voru hert með afgreiðslu samþykktar nr. 178, um vinnueftirlit um borð í skipum. Hér er um að ræða fyrstu alþjóðasamþykktina um þetta efni. Í ákvæðum um gildissvið samþykktarinnar segir að hún taki til allra haffærra skipa í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem skráð eru í einhverju þeirra aðildarríkja samþykktarinnar sem stunda vöru- eða farþegaflutninga í atvinnuskyni eða eru notuð á annan hátt í ábataskyni. Ef hlutaðeigandi skip er skráð í tveimur aðildarríkjum skal það teljast á skrá í því ríki sem leggur því til fána.
    Aðildarríki samþykktarinnar skal halda uppi kerfi til eftirlits með aðbúnaði og kjörum skipverja. Eftirlit skal eiga sér stað ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti en mælt er með því að það fari fram árlega. Ef aðildarríki berst kvörtun eða fær sannanir fyrir því að skip, skráð á yfirráðasvæði þess, fullnægi ekki lögum og reglugerðum um aðbúnað og kjör skipverja skal aðildarríkið gera ráðstafanir til þess að skipið verði skoðað svo fljótt sem því verður við komið. Kyrrsetja skal skip í höfn ef ástæða er til að ætla að ágallar feli í sér verulega hættu fyrir heilsu og öryggi sjófarenda uns nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar. Þetta skal gera án þess þó að tafir verði á siglingu skipsins eða ferðum þess sé seinkað óhóflega lengi. Heimilt skal að kæra kyrrsetninguna til dómsyfirvalda eða stjórnsýsluaðila.
    Heimilt er að láta ákvæði samþykktarinnar taka til skipa sem stunda fiskveiðar í ábataskyni ef litið er svo á að því verði við komið. Slíka ákvörðun skulu hlutaðeigandi stjórnvöld taka að höfðu samráði við fulltrúa samtaka útgerðarmanna og sjómanna.
    Þingið afgreiddi tillögu sem hefur að geyma ábendingar um nánari útfærslu á ákvæðum samþykktarinnar. Í henni er einkum fjallað um samræmingu og skipulag eftirlitsaðila sem og heimildir sem þeir hafa til að rannsaka skip. Þingið afgreiddi einnig ályktunartillögu þar sem mælt er með samningu sérstakra leiðbeiningarreglna fyrir eftirlitsmenn.
    Samþykkt nr. 178 og tillaga nr. 185 eru birtar í heild sem fylgiskjöl II og VI.

3.4. VINNUTÍMI OG MÖNNUN SKIPA


    Vinnumálaþingið endurskoðaði samþykkt nr. 109, um vinnulaun, vinnutíma og mönnun skipa. Það afgreiddi nýja samþykkt, nr. 180, um vinnutíma og mönnun skipa. Með henni eru settar ákveðnar viðmiðunarreglur um daglegan og vikulegan vinnutíma eða daglegan og vikulegan hvíldartíma sem hafa að markmiði að koma í veg fyrir ofþreytu vegna of mikillar vinnu.
    Samkvæmt samþykktinni skal aðildarríki viðurkenna að venjulegur vinnudagur sjómanna miðist við átta klukkustundir og einn frídag á viku. Þar að auki er kveðið á um það að hámarksvinnutími skuli ekki fara fram yfir 14 klst. á sólarhring og 72 klst. á viku. Aðildarríkjum er með sama hætti heimilt að takmarka vinnutíma með ákvæðum um lágmarkshvíldartíma. Ef sú leið er valin skal kveða á um 10 klst. hvíld á sólarhring eða 77 klst. á viku. Töflu yfir vinnufyrirkomulag áhafnar skal komið fyrir á aðgengilegum stað um borð í skipi. Halda skal skrá yfir daglegan vinnu- og hvíldartíma. Eftirlitsaðili skal fara yfir og árita skrána með hæfilegu millibili þannig að gengið sé úr skugga um að reglum á þessu sviði sé fylgt. Ef í ljós koma brot á ákvæðum um vinnu- og hvíldartíma skal hlutaðeigandi stjórnvald fara fram á að gerðar verði ráðstafanir til úrbóta, m.a. að mönnun skipsins verði endurskoðuð.
    Ákvæði nýju samþykktarinnar hafa verið tekin upp í sérstaka bókun við samþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum. Verði hún fullgilt af tilskildum fjölda aðildarríkja mun hún verða hluti af hafnareftirliti.
    Í tillögu nr. 187, um laun, vinnutíma og mönnun skipa, er fjallað um endurgjald fyrir aukavinnu og ýmiss konar aukagreiðslur. Markmið tillögunnar er að gera launamál einfaldari og skýrari bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn og koma þannig í veg fyrir ágreining. Í henni er miðað við lágmarksviðmiðunarlaun ILO. Í siglingamálanefnd náðist samkomulag um að lágmarkslaun háseta verði hækkuð 1. janúar 1998 úr 385 Bandaríkjadölum á mánuði í 435 Bandaríkjadali.
    Samþykktin er birt sem fylgiskjal IV, tillagan sem fylgiskjal VIII og bókunin sem fylgiskjal IX.

3.5. RÁÐNING SKIPVERJA Í SKIPRÚM


    Meðal elstu gildandi samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er samþykkt nr. 9, um ráðningu farmanna í skiprúm. Samþykktin er frá árinu 1920 og hún var endurskoðuð með nýrri samþykkt sem 84. Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi.
    Við almennar umræður í nefndinni sem fjallaði um drög að samþykktinni kom m.a. fram í máli fulltrúa alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að markmiðið með endurskoðun samþykktarinnar frá árinu 1920 væri að breyta orðanotkun til samræmis við það sem tíðkast í nýrri samþykktum. Hann lagði einnig til að þingið tæki til umfjöllunar bótaábyrgð vinnumiðlunar vegna mistaka við ráðningar.
    Talsmaður útgerðarmanna lagði áherslu á afgreiðslu samræmdra reglna sem komi í veg fyrir að vinnumiðlanir og önnur fyrirtæki sem annast ráðningarþjónustu misnoti eða féfletti farmenn.
    Af hálfu fulltrúa farmanna var vakin athygli á skipulagsbreytingum á þessu sviði atvinnulífsins. Þær birtist með ýmsum hætti, m.a. með skorti á hæfum starfsmönnum sem hafi fengið nægilega góða þjálfun, hækkandi aldri skipastólsins, tíðum skipsköðum og skorti á öryggiseftirliti. Hann sagði það skoðun farmanna að þetta ætti sér m.a. orsakir í óheiðarlegri samkeppni sem þrifist í skjóli hentifánalanda.
    Nýja samþykktin, nr. 179, um skráningu og ráðningu skipverja í skiprúm, heimilar starfsemi vinnumiðlana á vegum einkaaðila. Á vettvangi ILO hefur verið fyrirstaða gegn einkareknum vinnumiðlunum. Dregið hefur úr andstöðunni á seinustu árum að því tilskildu að þær lúti ákvæðum laga sem m.a. kveði á um starfsemi og eftirlitshlutverk stjórnvalda. Í nýju samþykktinni er tekið fram að starfsemi ráðningarþjónustu á vegum einkaaðila sé einungis heimil samkvæmt sérstöku leyfi og eftirliti hlutaðeigandi stjórnvalda. Hún verði að vera farmanni algjörlega að kostnaðarlausu. Hlutaðeigandi stjórnvald skal enn fremur fylgjast með starfsaðferðum og gerist þess þörf hafa tækifæri til að rannsaka kvartanir vegna starfseminnar. Stjórnvöld skulu gera það að skilyrði fyrir starfsemi ráðningarþjónustu að hún gangi úr skugga um að útgerðarmaður sé í stakk búinn til að varna því að skipverjur verði strandaglópar í erlendri höfn. Þær skulu enn fremur halda skrá yfir allar ráðningar og hafa tiltæka ráðningarsamninga sem farmenn hafi aðgang að fyrir og eftir ráðningu í skiprúm. Þetta eru mikilvæg tryggingarákvæði sem hafa að markmiði að draga úr líkum á misskilningi að því er varðar kaup og önnur kjör. Koma skal upp skipulagi sem gerir farmönnum kleift að sækja rétt sinn sé á þeim brotið.
    Í tilskipuninni, sem er nánari útfærsla á samþykktinni, er að finna leiðbeiningarreglur um samstarf fyrirtækja og stofnana sem annast milligöngu um ráðningar í skiprúm, útgerðarmanna og samtaka farmanna. Samkvæmt henni skulu stjórnvöld beita sér fyrir samþykkt og útgáfu reglna um starfsemi vinnumiðlana og hvetja til þess að þeim séu settar vinnureglur.
    Samþykkt nr. 179 er birt í heild sem fylgiskjal III og tillaga nr. 186 sem fylgiskjal VII.

3.6. BÓKUN VIÐ SAMÞYKKT NR. 147,


UM LÁGMARKSKRÖFUR Á KAUPSKIPUM


    Árið 1976 afgreiddi 62. Alþjóðavinnumálaþingið samþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum. Með samþykktinni var safnað saman á einn stað ákvæðum um ýmis grundvallarréttindi farmanna sem var að finna í eldri samþykktum ILO. Enn fremur voru í samþykktinni tekin upp atriði sem þóttu nýmæli á þeim tíma, t.d. ákvæði um skyldur aðildarríkja til að hafa í lögum ákveðnar reglur um öryggi, vinnuskilyrði og aðbúnað um borð í skipum og að tryggja það að slíkum reglum sé fylgt. Þessar öryggisreglur skyldu taka til m.a. vinnutíma, stærðar áhafnar og hæfniskrafna. Enn fremur voru settar kröfur um eftirlit með ráðningu eða skráningu í skiprúm og rannsókn á kærum sem upp koma í því sambandi. Í viðauka við samþykktina eru taldar upp samþykktir sem höfðu gengið í gildi á þeim tíma og höfðu að geyma ákvæði um framangreind atriði. Frá árinu 1976 hafa 35 ríki fullgilt samþykkina. Ákvæði hennar eru nú talin lágmarksákvæði að því er varðar hollustu og öryggi, félagsleg réttindi, aðbúnað og vinnuskilyrði skipverja.
    84. Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi valfrjálsa bókun við samþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum. Líta skal á bókunina að því er varðar fullgildingu og gildistöku sem sjálfstæða gerð. Samkvæmt 2. gr. geta einungis þau aðildarríki sem hafa eða samtímis fullgilda samþykkt nr. 147 fullgilt bókunina. Við fullgildingu skuldbindur aðildarríki sig til að hafa löggjöf sem tryggir framkvæmd á ákvæðum í samþykktum sem taldar eru upp í aukaviðauka. Í A-hluta hans er tvær samþykktir, þ.e. samþykkt nr. 133, um vistarverur skipverja, og nr. 180, um vinnutíma og ráðningar farmanna. Í B-hluta eru fjórar samþykktir, þ.e. nr. 108, um persónuskírteini sjómanna, nr. 135, um vernd og aðstöðu trúnaðarmanna verkamanna á vinnustöðum, nr. 164, um heilsuvernd og læknishjálp skipverja, og nr. 166, um heimsendingu skipverja. Í þessu felst að ákvæði í a-lið 2. gr. samþykktar nr. 147 er gert víðtækara en jafnframt skýrara. Við umræður um bókunina var einkum deilt um það hvaða samþykktir skyldu taldar upp í aukaviðaukanum, enn fremur hvort skylda ætti aðildarríki til að taka upp ákvæði í löggjöf sína sem væru jafngild ákvæðum í einni eða öllum samþykkunum í viðaukanum. Niðurstaðan varð sú að aðildarríki skyldi bæta við viðauka samþykktar nr. 147 samþykktum sem taldar eru upp í A-hluta aukaviðaukans. Hins vegar getur hlutaðeigandi ríki ákveðið hvort það kýs að undirgangast skuldbindingar samkvæmt einhverri eða öllum samþykktunum sem taldar eru upp í B-hluta.
    Ákvæði bókunarinnar um gildistöku olli deilum. Samkomulag náðist um það að hún gangi í gildi 12 mánuðum eftir að fimm aðildarríki hafa látið skrá fullgildingar sínar, þar af skulu þrjú hafa hvert um sig á skrá skip sem samtals eru a.m.k. ein milljón brúttótonn.
    Bókunin er birt sem fylgiskjal IX.

3.7. ÞINGSÁLYKTANIR


    Nokkrar ályktunartillögur voru afgreiddar á 84. Alþjóðavinnumálaþinginu.
    Þingið samþykkti ályktun sem felur í sér tilmæli til hlutaðeigandi stjórnvalda um að ákvæðum í nýju samþykktinni nr. 180, um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm, skuli beitt að því er varðar fiskimenn eða sjómenn sem stunda vinnu á hreyfanlegum pöllum og prömmum á hafi úti.
    Einnig var afgreidd ályktun um ráðningu og vinnumiðlun sjómanna. Í henni er lögð áhersla á sérstakar vinnuaðstæður sjómanna. Vakin er athygli á því að ráðning í skiprúm fellur utan gildissviðs samþykktar nr. 96, um vinnumiðlanir sem taka gjald fyrir þjónustu sína, en endurskoðun hennar er á dagskrá 85. Alþjóðavinnumálaþingsins sem haldið verður í júní 1997. Því er beint til 85. vinnumálaþingsins að ráðningum í skiprúm verði áfram haldið utan gildssviðs endurskoðaðrar gerðar samþykktar nr. 96 þar sem 84. þingið hafi þegar endurskoðað reglur sem gildi um þetta efni að því er varðar farmenn.



Fylgiskjal I.


Samþykkt nr. 177, um heimastörf.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 83. þingsetu sinnar í Genf 4. júní 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    minnist þess að margar alþjóðlegar samþykktir og tillögur, þar sem kveðið er á um almenna staðla varðandi aðbúnað fólks á vinnustöðum, geta einnig átt við fólk sem starfar heima, og
    gefur gaum að því að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem einkenna heimastörf er æskilegt að aðlaga þessar samþykktir og tillögur betur þörfum fólks sem starfar heima og bæta inn í þær stöðlum sem taka tillit til sérstöðu slíkra starfa, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar varðandi heimastörf, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 20. júní 1996, eftirfarandi samþykkt sem nefna má Samþykkt um heimastörf, 1996.
    

1. gr.


    Í þessari samþykkt:
    táknar hugtakið „heimastörf“ störf sem svonefndur heimastarfsmaður innir af hendi og eru unnin:
         i.        innan veggja heimilisins eða á einhverjum öðrum stað, sem hlutaðeigandi heimastarfsmaður kýs sér sjálfur, utan vinnustaðar atvinnurekanda;
         ii.    gegn endurgjaldi;
         iii.    með þeim árangri að til verður vara eða þjónusta sem atvinnurekandi skilgreinir, óháð því hver leggur til búnað, efni eða annað sem notað er,
        nema hlutaðeigandi hafi svo mikið sjálfsforræði og fjárhagslegt sjálfstæði að hann geti, samkvæmt landslögum, reglugerðum eða dómsúrskurði, talist sjálfstæður starfsmaður;
    verða þeir sem hafa stöðu atvinnurekanda ekki heimastarfsmenn í skilningi þessarar samþykktar þótt þeir sinni einhverjum störfum heima hjá sér stöku sinnum fremur en á sínum venjulega vinnustað;
    táknar hugtakið „atvinnurekandi“ aðila, einstakling eða lögaðila, sem í krafti starfsemi sinnar felur mönnum að vinna heimastörf, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu annars manns, hvort sem gert er ráð fyrir slíkum milligöngumanni í landslögum eða ekki.

2. gr.


    Þessi samþykkt tekur til allra sem stunda heimastörf í þeirri merkingu sem fram kemur í 1. gr.

3. gr.


    Sérhverju aðildarríki, sem hefur staðfest þessa samþykkt, ber að samþykkja, framkvæma og endurskoða reglulega stefnu ríkisins varðandi heimastörf, með það fyrir augum að bæta aðstöðu heimastarfsmanna, í samráði við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks, þar sem slík samtök eru fyrir hendi, við hagsmunasamtök heimastarfsmanna og við samtök atvinnurekenda heimastarfsmanna.

4. gr.


         1. Opinber stefna varðandi heimastörf skal, eins og mögulega er unnt, stuðla að því að heimastarfsmenn njóti jafnréttis á við aðra starfsmenn, og skal þá taka tillit til sérstöðu starfsins og, þar sem við á, aðbúnaðar þeirra sem vinna sama eða sambærilegt starf í fyrirtækinu sjálfu.
         2. Stuðla skal að jafnrétti, einkanlega hvað varðar:
    rétt heimastarfsmanna til að stofna eða ganga í samtök að eigin vali og taka þátt í starfsemi slíkra samtaka,
    vernd gegn mismunun í ráðningu og starfi,
    öryggi og heilbrigði á vinnustað,
    laun,
    lögbundna almannatryggingavernd,
    aðgang að þjálfun,
    lágmarksaldur til aðgangs að vinnu, og
    mæðravernd.

5. gr.


    Stefna á sviði heimastarfa skal framkvæmd með lögum og reglugerðum, heildarsamningum, gerðardómsúrskurði eða öðrum þeim hætti sem samræmist venjum hvers ríkis.

6. gr.


    Gerðar skulu ráðstafanir til að koma heimastörfum inn í opinberar tölur um atvinnumál að svo miklu leyti sem það er hægt.

7. gr.


    Lög og reglugerðir hvers ríkis um öryggi og heilbrigði við vinnu skulu taka til heimastarfa, þannig að tekið sé fullt tillit til sérstöðu þeirra, og skulu skilgreina skilyrði sem réttlæta að tilteknar tegundir vinnu og notkun tiltekinna efna sé bönnuð af öryggis- og heilbrigðisástæðum.

8. gr.


    Þar sem heimilt er að notfæra sér milligöngumenn í heimastörfum skal kveðið á um ábyrgð atvinnurekenda annars vegar og milligöngumanna hins vegar í lögum og reglugerðum eða með dómsúrskurðum, í samræmi við lög og venjur hvers ríkis.

9. gr.


         1. Með eftirlitskerfi, sem samræmist lögum og venjum hvers ríkis, skal tryggja að farið sé að þeim lögum og reglugerðum sem taka til heimastarfa.
         2. Sé brotið gegn þessum lögum og reglugerðum skal sjá svo um að til séu úrræði, m.a. refsingar þar sem þær eiga við, og að þeim sé beitt á skilvirkan hátt.

10. gr.


         Samþykkt þessi hefur ekki áhrif á hagstæðari ákvæði sem taka til heimastarfsmanna samkvæmt öðrum alþjóðlegum samþykktum á sviði atvinnumála.

11. gr.

         Formlegar fullgildingar samþykktar þessarar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

12. gr.


    1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.
    

13. gr.


    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en getur síðan sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar

14. gr.


    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gangi í gildi.
    

15. gr.


    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.
    

16. gr.


    Þegar stjórn alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir Allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd samþykktar þessarar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.
    

17. gr.


    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt að öllu eða nokkru leyti, og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg, skal:
    fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, þrátt fyrir ákvæði 13. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist;
    aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.
    

18. gr.


    Enskur og franskur texti þessarar samþykktar eru jafngildir.



Fylgiskjal II.


Samþykkt nr. 178, um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að eðlisbreytingum í skipaútgerð og þeim breytingum sem þar af leiðandi hafa orðið á aðbúnaði skipverja frá því að Tillaga um vinnueftirlit með sjómönnum var samþykkt, árið 1926, og
    minnist ákvæða Samþykktar og Tillögu um vinnueftirlit frá 1947, Tillögu um vinnueftirlit með náma- og flutningaverkamönnum frá 1947 og Samþykktar um lágmarkskröfur á kaupskipum frá 1976, og
    minnist gildistöku Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, 16. nóvember 1994, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun á Tillögu um vinnueftirlit með sjómönnum frá 1926, sem er fyrsta mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar, sem einungis komi til framkvæmda í þeim ríkjum þar sem skip eru skráð,
    gerir þingið í dag, 22. október 1996, eftirfarandi samþykkt sem nefna má Samþykkt um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja, 1996.
    

I. Gildissvið og skilgreiningar


1. gr.

    1. Nema annað sé sérstaklega tekið fram tekur samþykkt þessi til allra haffærra skipa í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem skráð eru í einhverju þeirra aðildarríkja þar sem samþykkt þessi er í gildi og stunda vöru- eða farþegaflutninga í atvinnuskyni eða eru notuð á annan hátt í ábataskyni. Samkvæmt samþykkt þessari skal skip, sem skráð er í tveim aðildarríkjum, aðeins teljast á skrá í því ríki sem leggur því til fána.
    2. Lög og reglugerðir hvers ríkis skulu skera úr um hvaða skip geti talist haffær samkvæmt samþykkt þessari.
    3. Samþykkt þessi tekur til haffærra dráttarbáta.
    4. Samþykkt þessi tekur ekki til skipa undir 500 brúttólestum að stærð né heldur til fljótandi fara sem ekki eru notuð til siglinga, svo sem olíuborpalla og annarra borpalla. Það skal vera á valdi yfirstjórnar siglingamála, í samráði við helstu samtök útgerðarmanna og skipverja, að ákveða hvaða fljótandi för skuli falla undir þessa málsgrein.
    5. Ákvæði samþykktar þessarar skulu taka til skipa sem stunda fiskveiðar í ábataskyni, að svo miklu leyti sem yfirstjórn siglingamála, að höfðu samráði við fulltrúa samtaka útgerðarmanna og sjómanna, telur að því verði við komið.
    6. Leiki minnsti vafi á hvort tiltekin skip geti talist stunda siglingar eða fiskveiðar í ábataskyni, samkvæmt samþykkt þessari, skal yfirstjórn siglingamála úrskurða í málinu að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna, farmanna og fiskimanna.
    7. Í samþykkt þessari:
    táknar hugtakið „yfirstjórn siglingamála“ ráðherra, ráðuneyti eða annað opinbert stjórnvald sem annast útgáfu og hefur umsjón með framkvæmd reglugerða, fyrirmæla eða annarra leiðbeininga sem hafa lagagildi hvað snertir aðbúnað skipverja á öllum skipum sem skráð eru í aðildarríki;
    táknar hugtakið „eftirlitsmaður“ hvern þann starfsmann eða embættismann á vegum hins opinbera sem annast eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja í víðasta skilningi, svo og hvern þann mann annan sem hefur tilskilin leyfi til að sinna eftirlitsstörfum á vegum stofnunar eða samtaka sem yfirstjórn siglingamála viðurkennir, í samræmi við 2. gr., 3. mgr.;
    felur hugtakið „lagaákvæði“ í sér, auk laga og reglugerða, gerðardómsúrskurði og heildarsamninga sem hafa öðlast lagagildi;
    táknar hugtakið „skipverji“ mann sem ráðinn er til starfa um borð í haffæru skipi sem samþykkt þessi tekur til. Leiki minnsti vafi á því hvort einhver hópur manna teljist skipverjar, samkvæmt samþykkt þessari, skal yfirstjórn siglingamála úrskurða í málinu að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök skipaeigenda og skipverja;
    táknar hugtakið „aðbúnaður og kjör skipverja“ það hvernig búið er að skipverjum hvað varðar viðhald og hreinlæti um borð í skipi, bæði í vistarverum og á vinnusvæði, lágmarksaldur, samkomulagsgreinar, fæði, rými fyrir áhöfn, skráningu, mönnun, hæfniskröfur, vinnutíma, læknisskoðanir, varnir gegn atvinnusjúkdómum, heilsugæslu, sjúkra- og slysabætur, félagslega velferð og skyld málefni, flutning aftur til heimalands, ráðningarkjör og -skilmála, sem heyra undir lög og reglugerðir hvers ríkis og félagafrelsi, eins og það er skilgreint í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1948 um félagafrelsi og verndun þess.

II. Skipulagning eftirlits


2. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki þar sem Samþykkt þessi hefur tekið gildi skal halda uppi kerfi til eftirlits með aðbúnaði og kjörum skipverja.
    2. Yfirstjórn siglingamála skal samræma skoðunaraðgerðir, sem að hluta eða öllu leyti varða aðbúnað og kjör skipverja, og setja grundvallarreglur sem ber að virða.
    3. Yfirstjórn siglingamála skal í öllum tilvikum vera ábyrg fyrir eftirliti með aðbúnaði og kjörum skipverja. Hún getur falið opinberum stofnunum, eða öðrum stofnunum sem hún álítur færar um það og óháðar, að annast eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja í umboði sínu. Hún skal halda skrá yfir slíkar stofnanir og sjá um að slík skrá sé aðgengileg almenningi.

3. gr.


    1. Sérhvert aðildarríki skal tryggja að öll skip, sem skráð eru í hlutaðeigandi ríki, séu skoðuð ekki sjaldnar en með þriggja ára millibili og helst árlega, ef því verður við komið, svo votta megi að þau uppfylli lög og reglugerðir hvers ríkis um aðbúnað og kjör skipverja um borð í skipum.
    2. Ef aðildarríki berst kvörtun eða fær sannanir fyrir því að skip, skráð á yfirráðasvæði þess, fullnægi ekki lögum og reglugerðum um aðbúnað og kjör skipverja skal aðildarríkið gera ráðstafanir til þess að skipið verði skoðað svo fljótt sem því verður við komið.
    3. Verði verulegar breytingar á byggingu eða tilhögun vistarvera skal skoða skipið áður en þrír mánuðir eru liðnir frá breytingum.

4. gr.


    Sérhvert aðildarríki skal tilnefna eftirlitsmenn, sem eru menntaðir til að gegna þeim skyldum sem þeim er ætlað, og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fullvissa sig um að þeir séu nægilega margir til að uppfylla kröfur samþykktar þessarar.

5. gr.

    1. Líta skal á eftirlitsmenn sem þjónustustétt til að tryggja að þeir séu óháðir breytingum í ríkisstjórn og ótilhlýðilegum áhrifum utan frá.
    2. Eftirlitsmenn með viðeigandi skilríki skulu hafa heimild til:
    að fara um borð í skip skráð í aðildarríki og athafna sig eins og þeir þurfa til fullnægjandi skoðunar;
    að gera hverja þá rannsókn sem þeim kann að þykja nauðsynleg til að fullvissa sig um að lagaákvæði séu virt í hvívetna;
    að krefjast úrbóta á ágöllum; og
    þar sem þeir hafa ástæðu til að ætla að ágallar feli í sér verulega hættu fyrir heilsu og öryggi skipverja, að kyrrsetja skip í höfn uns nauðsynlegar ráðstafanir hafa verið gerðar, án þess þó að tafir verði á skipinu eða ferðum þess seinkað óhóflega lengi; heimilt skal að kæra kyrrsetninguna til dómsyfirvalda eða stjórnsýsluaðila.

6. gr.


    1. Meðan skoðun fer fram, eða þegar gripið er til aðgerða samkvæmt samþykkt þessari, skal eftir megni reynt að komast hjá því að skip verði fyrir óhóflegum töfum.
    2. Verði skip fyrir óhóflegum töfum skal eigandi skipsins eða útgerðaraðili eiga heimtingu á bótum vegna þess tjóns sem hann verður fyrir. Þegar um meintar óhóflegar tafir er að ræða skal sönnunarbyrðin hvíla á eiganda skipsins eða útgerðaraðila.

III. Viðurlög


7. gr.

    1. Lög og reglugerðir hvers ríkis skulu kveða á um hæfileg viðurlög við brotum gegn þeim lagaákvæðum sem eftirlitsmenn framfylgja og við því að hindra eftirlitsmenn við skyldustörf, og þeim viðurlögum skal beita á skilvirkan hátt.
    2. Eftirlitsmenn skulu koma fram af háttvísi og skulu vara við og ráðleggja fremur en að grípa til eða mæla með málarekstri.

IV. Skýrslur


8. gr.

    1. Yfirstjórn siglingamála skal halda skýrslur yfir eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja.
    2. Hún skal gefa út árlega skýrslu um aðgerðir í þeim efnum, þar á meðal skrá yfir stofnanir með umboð til að annast eftirlit. Skýrslan skal gefin út áður en mjög langt er liðið frá lokum þess árs sem hún nær til og eigi síðar en sex mánuðum frá árslokum.

9. gr.


    1. Eftirlitsmenn skulu skila skýrslu um hverja skoðun til yfirstjórnar siglingamála. Skipstjóri skipsins skal fá eitt eintak af skýrslunni, á ensku eða því tungumáli sem notað er um borð, og annað eintak skal hengt á tilkynningatöflu skipsins, hlutaðeigandi skipverjum til upplýsingar, eða sent fulltrúum þeirra.
    2. Þegar skoðun er gerð eftir meiri háttar atvik skal skila skýrslu eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en einum mánuði eftir að skoðun lýkur.

V. Lokaákvæði


10. gr.

    Samþykkt þessi leysir af hólmi Tillögur um vinnueftirlit með sjómönnum frá 1926.

11. gr.


    Formlegar fullgildingar samþykktar þessarar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.
    

12. gr.


    1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

13. gr.


    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en getur síðan sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

14. gr.


    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

15. gr.


    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

16. gr.


    Þegar stjórn alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir Allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd samþykktar þessarar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

17. gr.


    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir samþykkt þessari að öllu eða nokkru leyti, og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg, skal:
    fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn samþykktar þessarar, þrátt fyrir ákvæði 13. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist;
    aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda samþykkt þessa eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað snertir form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

18. gr.


    Enskur og franskur texti samþykktar þessarar eru jafngildir.



Fylgiskjal III.


Samþykkt nr. 179, um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að ákvæðum Samþykktar um skiprúmssamninga sjómanna frá 1926, Samþykktar um félagafrelsi og verndun þess frá 1948, Samþykktar og Tillögu um skipulag vinnumiðlunar frá 1948, Samþykktar um rétt til að stofna félög og semja sameiginlega frá 1949, Tillögu um ráðningu sjómanna á erlend skip frá 1958, Samþykktar um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs frá 1958, Tillögu um ráðningu sjómanna (tækniþróun) frá 1970, Samþykktar um lágmarksaldur frá 1973, Samþykktar og Tillögu um atvinnuöryggi farmanna frá 1976, Samþykktar um lágmarkskröfur á kaupskipum frá 1976, Samþykktar um heimsendingu skipverja (endurskoðuð) frá 1987 og Samþykktar um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja frá 1996, og
    minnist gildistöku Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, hinn 16. nóvember 1994, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun á Samþykkt um ráðningu sjómanna í skiprúm frá 1920, sem er þriðja mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 22. október 1996, eftirfarandi samþykkt sem nefna má Samþykkt um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm, 1996.

1. gr.


    1. Í samþykkt þessari:
    táknar hugtakið „réttmætt stjórnvald“ ráðherra, þar til skipaðan embættismann, ráðuneyti eða annað stjórnvald sem hefur umboð til að gefa út reglugerðir, fyrirmæli eða leiðbeiningar sem hafa lagagildi um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm;
    táknar hugtakið „skráningar- og ráðningarþjónusta“ hverja þá persónu, hlutafélag, stofnun, umboðsskrifstofu eða annað fyrirtæki, opinbert eða einkarekið, sem tekur að sér, fyrir hönd atvinnurekenda, að skrá skipverja til vinnu eða finna þeim skiprúm hjá atvinnurekendum;
    táknar hugtakið „skipseigandi“ eiganda skipsins eða hvert það fyrirtæki eða persónu, svo sem framkvæmdastjóra, umboðsmann eða þurrleigutaka sem hefur tekið að sér að gera skipið út fyrir eiganda þess og þar með samþykkt að taka á sig allar skyldur og alla ábyrgð sem því er samfara;
    táknar hugtakið „sæfarandi“ hverja þá persónu sem uppfyllir tilskilin skilyrði til að vera ráðinn til einhverra starfa um borð í haffærum skipum, öðrum en skipum á vegum hins opinbera sem þjóna hernaðarhlutverki eða öðru hlutverki sem ekki tengist viðskiptum.
    2. Réttmætt stjórnvald má láta ákvæði samþykktar þessarar ná til fiskimanna eða farmanna, að því marki sem það er talið framkvæmanlegt, að höfðu samráði við fulltrúa samtaka eigenda fiskiskipa og samtök fiskimanna eða samtök eigenda farskipa í millilandasiglingum og samtök farmanna, eftir því sem við á.

2. gr.


    1. Ekkert í ákvæðum samþykktar þessarar skal teljast:
    koma í veg fyrir að aðildarríki haldi uppi frjálsri almennri skráningar- og ráðningarþjónustu fyrir skipverja, innan ramma þeirrar stefnu að koma til móts við þarfir skipverja og skipaeigenda, hvort sem sú þjónusta er hluti af eða samræmd almennri ráðningarþjónustu fyrir alla launþega og atvinnurekendur;
    leggja aðildarríki þá skyldu á herðar að það komi á kerfi til einkarekinnar starfsemi á sviði skráningar- og ráðningarþjónustu.
     2. Þar sem komið hefur verið á, eða fyrirhugað er að koma á, einkarekinni ráðningar- og skráningarþjónustu skal slík starfsemi aðeins heimil í hverju aðildarríki samkvæmt sérstöku leyfi, vottorði eða með annarri reglusetningu. Slíku kerfi skal aðeins komið á, viðhaldið eða breytt að höfðu samráði við samtök skipaeigenda og skipverja. Ekki skal ýta undir óhóflega fjölgun aðila sem reka slíka skráningar- og ráðningarþjónustu.
    3. Ekkert í samþykkt þessari skal hafa áhrif á rétt aðildarríkis til að beita gildandi lögum og reglum ríkisins, um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm, gagnvart þeim skipum sem sigla undir fána þess.

3. gr.


    Ekkert í samþykkt þessari skal með neinum hætti gera sæfaranda erfitt fyrir að neyta grundvallarmannréttinda, þar á meðal réttinda sem félagi í verkalýðsfélagi.

4. gr.

    1. Aðildarríki skal, með landslögum eða viðeigandi reglugerðum:
    tryggja að sæfarandi þurfi ekki að greiða þóknun eða önnur gjöld, hvorki beint né óbeint, að hluta né öllu leyti, fyrir skráningu eða útvegun vinnu; því skal kostnaður vegna lögbundinnar læknisskoðunar, vottorða, persónulegra ferðaskjala og sæferðabókar ekki teljast „þóknun eða önnur gjöld fyrir skráningu“.
    ákvarða hvort og með hvaða skilyrðum skráningar- og ráðningarþjónusta má skrá skipverja og ráða í skiprúm erlendis;
    ákveða, með tilliti til friðhelgi einkalífs og nauðsynjar þess að gæta trúnaðar, með hvaða skilyrðum aðilar í skráningar- og ráðningarþjónustu mega vinna úr persónuupplýsingum um skipverja, þar með talið söfnun, geymsla, samantekt og miðlun slíkra upplýsinga til þriðja aðila;
    ákvarða skilyrði fyrir því að fresta megi eða afturkalla útgáfu leyfis, vottorðs eða annarrar slíkrar heimildar til skráningar- og ráðningarþjónustu ef viðeigandi lög og reglur hafa verið brotnar; og
    ákveða hvaða skilyrði skuli uppfylla til að starfrækja skráningar- og ráðningarþjónustu, þar sem reglusetningin felst í einhverju öðru en útgáfu leyfa og vottorða, og jafnframt setja ákvæði um viðurlög ef þau skilyrði eru ekki virt.
    2. Aðildarríki skal tryggja að réttmætt stjórnvald:
    fylgist grannt með þeim sem reka skráningar- og ráðningarþjónustu;
    gefi út eða endurnýi leyfi, vottorð og þess háttar heimildir ekki fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að viðkomandi skráningar- og ráðningarþjónusta fullnægi þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir hvers ríkis setja;
    geri kröfur um að yfirstjórn og starfsfólk í skráningar- og ráðningarþjónustu fyrir skipverja hafi fullnægjandi menntun og þekkingu á helstu þáttum siglingamála;
    banni aðilum í skráningar- og ráðningarþjónustu að beita aðferðum, kerfum eða skrám í þeim tilgangi að hindra eða hamla því að sæfarandi verði ráðinn til vinnu;
    krefjist þess að aðilar í skráningar- og ráðningarþjónustu geri ráðstafanir til að tryggja, svo sem við verður komið, að atvinnurekandi sé í stakk búinn til að varna því að skipverjar verði strandaglópar í erlendri höfn; og
    tryggi að komið verði á sérstöku verndarkerfi, með vátryggingum eða sambærilegum ráðstöfunum eftir því sem við á, til að bæta skipverjum fjárhagslegt tjón sem þeir kunna að verða fyrir ef skráningar- og ráðningarþjónusta stendur ekki við skuldbindingar sínar.


5. gr.

     1. Allir aðilar í skráningar- og ráðningarþjónustu skulu halda skrá yfir þá skipverja sem verið hafa á skrá og ráðnir í skiprúm á vegum þeirra og veita réttmætu stjórnvaldi aðgang að henni til skoðunar.
    2. Allir aðilar í skráningar- og ráðningarþjónustu skulu tryggja að:
    sérhver sæfarandi sem skráður er eða ráðinn í skiprúm á vegum þeirra uppfylli hæfniskröfur og eigi í fórum sínum þau skjöl sem nauðsynleg eru vegna hlutaðeigandi starfs;
    ráðningarsamningar og samkomulagsgreinar séu í samræmi við viðeigandi lög, reglugerðir og heildarsamninga;
    skipverjar séu fræddir um réttindi sín og skyldur samkvæmt ráðningarsamningum og samkomulagsgreinum áður en eða á meðan gengið er frá ráðningu.
    viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að skipverjar geti skoðað ráðningarsamninga sína og samkomulagsgreinar fyrir og eftir undirritun þeirra og að þeir fái í hendur eintak af ráðningarsamningnum.
    3. Ekkert í 2. gr. hér að ofan skal túlkað þannig að það dragi úr skyldum og ábyrgð skipseiganda eða skipstjóra.

6. gr.


    1. Réttmætt stjórnvald skal tryggja að fyrir hendi sé viðhlítandi kerfi og starfsaðferðir til að rannsaka, ef þörf gerist, kvartanir vegna starfsemi aðila í skráningar- og ráðningarþjónustu, með þátttöku fulltrúa skipaeigenda og skipverja eftir því sem við á.
    2. Allir aðilar í skráningar- og ráðningarþjónustu skulu taka kvartanir vegna starfsemi þeirra til skoðunar og bregðast við þeim og jafnframt tilkynna réttmætu stjórnvaldi um óútkljáð kvörtunarmál.
    3. Verði aðilar í skráningar- og ráðningarþjónustu áskynja um kvartanir vegna aðbúnaðar og kjara skipverja um borð í skipum skulu þeir koma slíkum kvörtunum á framfæri við viðeigandi stjórnvald.
    4. Ekkert í samþykkt þessari skal aftra skipverjum frá því að bera hvaða kvartanir sem vera skal upp milliliðalaust við réttmætt stjórnvald.

7. gr.


    Samþykkt þessi er endurskoðun á Samþykkt um ráðningu sjómanna í skiprúm frá 1920.

8. gr.


    Formlegar fullgildingar samþykktar þessarar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

9. gr.


     1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.
    4. Fullgilding samþykktar þessarar, frá og með þeim degi er fullgildingin tekur gildi, jafngildir uppsögn á Samþykkt um ráðningu sjómanna frá 1920.

10. gr.


    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en getur síðan sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

11. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
     2. Þegar forstjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á því hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

12. gr.


    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

13. gr.


     Þegar stjórn alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir Allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd samþykktar þessarar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

14. gr.


    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir samþykkt þessari að öllu eða nokkru leyti, og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg, skal:
    fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn samþykktar þessarar, þrátt fyrir ákvæði 10. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist;
    aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda samþykkt þessa eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað varðar form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

15. gr.


    Enskur og franskur texti samþykktar þessarar eru jafngildir.



Fylgiskjal IV.


Samþykkt nr. 180, um vinnutíma skipverja og mönnun skipa.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að ákvæðum Samþykktar um lágmarkskröfur á kaupskipum frá 1976 og bókunar við hana frá 1996 og ákvæðum Samþykktar um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja frá 1996, og
    minnist mikilvægra ákvæða í eftirfarandi gerðum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar: Alþjóðasamþykkt um öryggi á hafinu frá 1974, með breytingum, Alþjóðasamþykkt um staðla um þjálfun, löggildingu og vaktavinnu skipverja frá 1978, með breytingum frá 1995, Þingsályktun A 481 (XII) frá 1981 um Grundvallarreglur um örugga mönnun, Þingsályktun A 741 (18) frá 1993 um Alþjóðareglur um örugga stjórnun skipa og um mengunarvarnir (ISM-Code), og Þingsályktun A 772 (18) frá 1993 um þátt ofþreytu varðandi mönnun og öryggi, og
    minnist gildistöku Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, hinn 16. nóvember 1994, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun á Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mönnun skipa (endurskoðuð) frá 1958 og Tillögu um vinnulaun, vinnutíma og mönnun skipa frá 1958, sem er annað mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 22. október 1996, eftirfarandi samþykkt, sem nefna má Samþykkt um vinnutíma skipverja og mönnun skipa, 1996.

I. Gildissvið og skilgreiningar


1. gr.

    1. Samþykkt þessi tekur til allra haffærra skipa, í eigu opinberra aðila eða einkaaðila, sem skráð eru í einhverju þeirra aðildarríkja þar sem samþykkt þessi er í gildi og alla jafna stunda siglingar í ábataskyni. Samkvæmt samþykkt þessari skal skip, sem skráð er í tveim aðildarríkjum, aðeins teljast á skrá í því ríki sem leggur því til fána.
    2. Að því marki sem því verður við komið, að höfðu samráði við fulltrúa samtaka eigenda fiskiskipa og fiskimanna, skal réttmætt stjórnvald láta ákvæði samþykktar þessarar ná til fiskveiða í sjó í ábataskyni.
    3. Leiki vafi á hvort tiltekin skip skuli teljast, samkvæmt samþykkt þessari, haffært skip eða skip sem stundar siglingar í ábataskyni eða skip sem stundar fiskveiðar í sjó í ábataskyni, skal réttmætt stjórnvald úrskurða í málinu að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök skipaeigenda, farmanna og fiskimanna.
    4. Undir samþykkt þessa falla ekki tréskip með hefðbundnu lagi, svo sem arabísk/afrísk seglskip og djúnkur.

2. gr.


    Í samþykkt þessari:
    táknar hugtakið „réttmætt stjórnvald“ ráðherra, ráðuneyti eða annað opinbert stjórnvald sem fer með umboð til að gefa út reglugerðir, fyrirmæli eða aðrar leiðbeiningar sem hafa lagagildi hvað snertir vinnu- og hvíldartíma skipverja eða mönnun skipa;
    táknar hugtakið „vinnutími“ þann tíma sem sæfaranda er ætlað að vera að störfum í þágu skipsins;
    táknar hugtakið „hvíldartími“ þann tíma sem ekki telst vinnutími; stutt hlé frá störfum falla ekki undir þetta hugtak;
    táknar hugtakið „sæfarandi“ sérhvern sem þannig er skilgreindur í lögum og reglugerðum hvers ríkis eða í heildarsamningum og er ráðinn til einhverra starfa um borð í haffæru skipi sem samþykkt þessi tekur til;
    táknar hugtakið „skipseigandi“ eiganda skipsins eða hvers kyns fyrirtæki eða persónu, svo sem framkvæmdastjóra eða þurrleigutaka, sem hefur tekið að sér að gera skipið út fyrir eiganda þess og þar með samþykkt að taka á sig allar skyldur og alla ábyrgð sem því er samfara;

II. Vinnu- og hvíldartími skipverja


3. gr.


    Innan þeirra marka sem fram koma í 5. gr. skal skilgreina annaðhvort hámarksfjölda vinnustunda, sem óheimilt er að fara fram úr á tilteknu tímabili, eða lágmarksfjölda hvíldarstunda sem mönnum skal tryggður á tilteknu tímabili.

4. gr.


    Aðildarríki sem hefur fullgilt samþykkt þessa viðurkennir að reglur um venjulegan vinnutíma skipverja, líkt og annarra launþega, skuli grundvallast á átta klukkustunda vinnudegi, með einum frídegi í viku og hvíld á opinberum frídögum. Það skal samt sem áður ekki hindra að aðildarríki hafi sínar aðferðir til að löggilda eða bóka heildarsamkomulag sem kveður á um venjulegan vinnutíma skipverja sem sé ekki síður hagstæður en þessi viðmiðun.

5. gr.


    1. Mörk vinnutíma og hvíldartíma skulu vera sem hér segir:
    hámarksfjöldi vinnustunda sé ekki meiri en:
         i.    14 klukkustundir á 24 stunda tímabili; og
         ii.    72 klukkustundir á sjö daga tímabili;
eða
    lágmarksfjöldi hvíldarstunda sé ekki innan við:
         i.    tíu klukkustundir á 24 stunda tímabili; og
         ii.    77 klukkustundir á sjö daga tímabili.
    2. Óheimilt er að skipta hvíldartíma niður á fleiri en tvö tímabil, og skal annað gefa a.m.k. sex klukkustunda hvíld, og á milli tveggja hvíldartímabila skulu aldrei líða meira en 14 klukkustundir.
    3. Útkalls-, bruna- og björgunaræfingar, og aðrar æfingar sem mælt er fyrir um í lögum og reglugerðum hvers ríkis og alþjóðalögum, skal halda með þeim hætti að þær valdi sem minnstri röskun á hvíldartíma og leiði ekki til ofþreytu.
    4. Að því er varðar aðstæður þar sem sæfarandi er til taks, svo sem þegar enginn er í vélarrúmi, skal hlutaðeigandi fá fullnægjandi uppbót á hvíldartíma ef venjulegur hvíldartími hefur raskast vegna útkalls til vinnu.
    5. Ef enginn heildarsamningur eða gerðardómsúrskurður er fyrir hendi, eða ef réttmætt stjórnvald ákveður að ákvæði í samningi eða úrskurði séu ófullnægjandi hvað varðar 3. og 4. mgr., skal réttmætt stjórnvald setja slík ákvæði til að tryggja hlutaðeigandi skipverjum nægilega hvíld.
    6. Ekkert í 1. og 2. mgr. skal koma í veg fyrir að aðildarríki hafi lög eða reglugerðir eða aðferð til þess að réttmætt stjórnvald geti löggilt eða bókað heildarsamninga sem heimila undanþágur frá þeim mörkum sem sett eru fram. Slíkar undanþágur skulu, svo sem mögulegt er, fylgja mörkuðum stöðlum, en þó er heimilt að í þeim sé gert ráð fyrir tíðari eða lengri leyfum eða að veitt sé uppbótarleyfi til skipverja sem ganga vaktir eða skipverja sem starfa um borð í skipum í stuttum ferðum.
    7. Aðildarríki skal krefjast þess að tafla yfir vinnufyrirkomulag áhafnar hangi uppi á aðgengilegum stað og skal hún geyma eftirfarandi upplýsingar fyrir hverja stöðu, hið minnsta:
    tímaáætlun yfir þjónustu á sjó og þjónustu í höfn; og
    hámarksfjölda vinnustunda og lágmarksfjölda hvíldarstunda samkvæmt lögum, reglugerðum eða heildarsamningum í fánaríkinu.
    8. Taflan sem vitnað er til í 7. mgr. skal vera með stöðluðu sniði, á því tungumáli eða tungumálum sem notuð eru í hlutaðeigandi skipi og á ensku.

6. gr.


    Enginn sæfarandi undir 18 ára aldri skal vinna að nóttu til. Í þessari grein merkir „nótt“ tímabil sem nær yfir níu samfelldar klukkustundir, þar á meðal tímann frá miðnætti fram til klukkan fimm að morgni. Ekki er nauðsynlegt að beita þessu ákvæði þegar það gæti spillt árangri þjálfunar ungra skipverja, á aldrinum 16 til 18 ára, sem unnið er að samkvæmt ákveðnum áætlunum.

7. gr.


    1. Ekkert í samþykkt þessari skal teljast veikja rétt skipstjóra til að fara fram á að sæfarandi vinni á hvaða tíma sem vera skal þegar öryggi skipsins, fólks eða farms um borð í því er í húfi, eða þegar aðstoða þarf önnur skip eða fólk í sjávarháska.
    2. Samkvæmt 1. mgr. getur skipstjóri fellt áætlanir yfir vinnu- og hvíldarstundir úr gildi um stundarsakir og farið fram á að sæfarandi vinni eins og nauðsyn krefur þar til eðlilegt ástand hefur komist á að nýju.
    3. Eins fljótt og því verður við komið, eftir að eðlilegt ástand hefur komist á að nýju, skal skipstjóri tryggja að sérhver sæfarandi sem hefur unnið á áætluðum hvíldartíma fái fullnægjandi hvíld.

8. gr.


    1. Aðildarríki skal krefjast þess að haldnar séu skrár yfir daglegan vinnu- og hvíldartíma skipverja svo að hægt sé að fylgjast með hvort farið er að ákvæðum í 5. gr. Sæfarandi skal fá eintök af skrám sem varða hann og skulu þau árituð af skipstjóra, eða öðrum sem skipstjóri gefur umboð til þess, og af sæfaranda.
    2. Réttmætt stjórnvald skal ákveða hvaða háttur skal hafður á slíku skýrsluhaldi um borð, þar á meðal hversu langt má líða milli skráningar upplýsinga. Réttmætt stjórnvald skal ákveða form skráa yfir vinnu- og hvíldartíma skipverja, og skal hafa til hliðsjónar fáanlegar leiðbeiningar frá Alþjóðavinnumálastofnuninni eða nota staðlað form sem stofnunin leggur til. Það skal vera á því tungumáli eða þeim tungumálum sem kveðið er á um í 8. mgr. 5. gr.
    3. Afrit af þeim ákvæðum í löggjöf hvers ríkis sem máli skipta og varða samþykkt þessa og af þeim heildarsamningum sem mestu varða skulu vera um borð í skipum, þar sem skipverjar hafa aðgang að þeim.

9. gr.


    Réttmætt stjórnvald skal fara yfir og árita skrárnar, sem fjallað er um í 8. gr., með hæfilegu millibili til að ganga úr skugga um að farið sé að þeim ákvæðum sem mæla fyrir um vinnu- og hvíldartíma og setja samþykkt þessa í gildi.

10. gr.


    Ef skrárnar eða önnur gögn gefa vísbendingar um brot á ákvæðum um vinnu- og hvíldartíma skal réttmætt stjórnvald fara fram á að gerðar verði ráðstafanir til að komast hjá slíkum brotum í framtíðinni, þar á meðal að mönnun skipsins verði endurskoðuð ef nauðsyn krefur.

III. Mönnun skipa


11. gr.


    1. Á sérhverju skipi, sem samþykkt þessi tekur til, skulu starfa nægilega margir menn svo að öryggi og skilvirkni sé tryggð, í samræmi við gerð varðandi lágmarksreglur um örugga mönnun eða annað sambærilegt réttmætt stjórnvald hefur gefið út.
    2. Þegar kröfur um mönnun eru settar, samþykktar eða endurskoðaðar, skal réttmætt stjórnvald hafa í huga:
    nauðsyn þess að komast hjá óhóflegri stjórnvinnu eða halda henni í lágmarki, að svo miklu leyti sem því verður við komið, til að tryggja nægilega hvíld og takmarka ofþreytu; og
    þær alþjóðlegu gerðir sem raktar eru í inngangsorðum.

12. gr.


    Enginn undir 16 ára aldri skal vinna um borð í skipi.

IV. Ábyrgð skipaeigenda og skipstjóra


13. gr.

    Eigandi skips skal tryggja að skipstjóra sé séð fyrir því sem nauðsynlegt er til að uppfylla skuldbindingar samþykktar þessarar, þar með taldar þær sem varða hæfilega mönnun skipsins. Skipstjóri skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé að kröfum samþykktar þessarar um vinnu- og hvíldartíma skipverja.

14. gr.


    Aðildarríki, sem fullgildir samþykkt þessa, skal vera ábyrgt fyrir því að ákvæðum hennar sé beitt með lögum og reglugerðum, nema þar sem henni er hrundið í framkvæmd með heildarsamningum, úrskurði gerðardóms eða dómstóls.

15. gr.


    Aðildarríki skal:
    gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, þar á meðal með viðeigandi þvingunum eða öðrum aðgerðum til úrbóta, til að tryggja skilvirka framkvæmd á ákvæðum samþykktar þessarar;
    halda uppi viðeigandi eftirliti til að hafa umsjón með þeim aðgerðum sem beitt er við framkvæmd samþykktar þessarar og leggja fram nauðsynlegt fjármagn til þeirra; og
    að höfðu samráði við samtök skipaeigenda og skipverja, fylgja ákveðnum reglum við að rannsaka kvartanir varðandi þau málefni sem samþykkt þessi fjallar um.

VI. Lokaákvæði


16. gr.

    Samþykkt þessi er endurskoðun á Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mönnun skipa (endurskoðuð) frá 1958, Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (endurskoðuð) frá 1949, Samþykkt um vinnutíma og mannafla á skipum frá 1946 og Samþykkt um vinnutíma og stærð áhafnar frá 1936. Frá og með þeim gildistökudegi samþykktar þessarar er ekki lengur hægt að fullgilda ofangreindar samþykktir.

17. gr.

    Formlegar fullgildingar samþykktar þessarar skulu sendar forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.

18. gr.


    1. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjórann skrá fullgildingar sínar.
    2. Hún gengur í gildi sex mánuðum eftir að fullgildingar fimm aðildarríkja, þar af þriggja sem hvert um sig ræður yfir skipastól sem er a.m.k. ein milljón brúttólesta, hafa verið skráðar hjá forstjóranum.
    3. Síðan gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

19. gr.


    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.
    2. Sérhvert aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, en getur síðan sagt henni upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar

20. gr.


    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar skilyrðum 2. mgr. 18. gr. er fullnægt skal forstjórinn vekja athygli aðildarríkja stofnunarinnar á því hvaða dag samþykktin gangi í gildi.

21. gr.


    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

22. gr.


    Þegar stjórn alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir Alþjóðavinnumálaþingið skýrslu um framkvæmd samþykktar þessarar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

23. gr.


    1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir samþykkt þessari að öllu eða nokkru leyti, og sú samþykkt mælir ekki fyrir um á annan veg, skal:
    fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn samþykktar þessarar, þrátt fyrir ákvæði 19. gr. hér að framan, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma þegar það gerist;
    aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda samþykkt þessa eftir að hin nýja samþykkt hefur öðlast gildi.
    2. Samþykkt þessi skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu hvað varðar form og efni í þeim aðildarríkjum sem hafa fullgilt hana en ekki hina nýju samþykkt.

24. gr.


    Enskur og franskur texti samþykktar þessarar eru jafngildir.



Fylgiskjal V.

Tillaga nr. 184, um heimastörf.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 83. þingsetu sinnar í Genf 4. júní 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    minnist þess að margar alþjóðlegar samþykktir og tillögur, þar sem kveðið er á um almenna staðla varðandi aðbúnað fólks á vinnustöðum, geta átt við fólk sem starfar heima, og
    gefur gaum að því að vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem einkenna heimastörf er æskilegt að aðlaga þessar samþykktir og tillögur betur þörfum fólks sem starfar heima og bæta inn í þær stöðlum sem taka tillit til sérstöðu slíkra starfa, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar varðandi heimastörf, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi alþjóðasamþykktar,
    gerir þingið í dag, 20. júní 1996, eftirfarandi tillögu sem nefna má Tillögu um heimastörf, 1996.

I. Skilgreiningar og gildissvið


    1. Í þessari tillögu:
    táknar hugtakið „heimastörf“ störf sem svonefndur heimastarfsmaður innir af hendi og eru unnin:
        i.        innan veggja heimilisins eða á einhverjum öðrum stað, sem hlutaðeigandi heimastarfsmaður kýs sjálfur, utan vinnustaðar atvinnurekanda;
         ii.         gegn endurgjaldi;
         iii.    með þeim árangri að til verður vara eða þjónusta sem atvinnurekandi skilgreinir, óháð því hver leggur til búnað, efni eða annað sem notað er, nema hlutaðeigandi hafi svo mikið sjálfsforræði og fjárhagslegt sjálfstæði að hann geti, samkvæmt landslögum, reglugerðum eða dómsúrskurði, talist sjálfstæður starfsmaður;
    verða þeir sem hafa stöðu atvinnurekanda ekki heimastarfsmenn í skilningi þessarar tillögu þótt þeir sinni einhverjum störfum heima hjá sér stöku sinnum fremur en á sínum venjulega vinnustað;
    táknar hugtakið „atvinnurekandi“ aðila, einstakling eða lögaðila, sem í krafti starfsemi sinnar felur mönnum að vinna heimastörf, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu annars manns, hvort sem gert er ráð fyrir slíkum milligöngumanni í landslögum eða ekki.
    2. Tillaga þessi tekur til allra sem stunda heimastörf í þeim skilningi sem fram kemur í 1. gr.

II. Almenn ákvæði


    (1) Hvert aðildarríki skyldi, í samræmi við lög og venjur ríkisins, útnefna stjórnvald eða stjórnvöld til að setja fram og framkvæma stefnu ríkisins á sviði heimastarfa, sem greint er frá í 3. gr. samþykktarinnar.
        (2) Við mótun og framkvæmd þessarar stefnu skyldi, að því marki sem unnt er, nýta þríhliða stofnanir eða samtök atvinnurekenda og launafólks.
        (3) Sé engum hagsmunasamtökum heimastarfsmanna til að dreifa, né heldur samtökum atvinnurekenda heimastarfsmanna, skyldi stjórnvaldið eða stjórnvöldin, sem nefnd eru í tölulið (1), gera viðeigandi ráðstafanir til að hlutaðeigandi starfsmenn og atvinnurekendur geti lýst skoðunum sínum á stefnu ríkisins og aðgerðum til að framkvæma hana.
    Taka skyldi saman nákvæmar upplýsingar, þar á meðal gögn sem flokkuð eru eftir kyni, um umfang og eðli heimastarfa, og sjá um að þær upplýsingar séu ávallt réttar, svo byggja megi stefnu hvers ríkis varðandi heimastörf á þeim og aðgerðir til að framkvæma hana. Þessar upplýsingar skyldu gefnar út og gerðar aðgengilegar almenningi.
    (1) Heimastarfsmönnum skyldi gerð grein fyrir starfskjörum sínum skriflega eða með öðrum þeim hætti sem samrýmist lögum og venjum hvers ríkis.
        (2) Í þeim upplýsingum skyldi einkum koma fram:
         
    
    nafn og póstfang atvinnurekanda og milligöngumanns, ef um hann er að ræða;
         
    
    launataxti eða launaflokkur og aðferðir við útreikning launa; og
         
    
    tegund starfs sem vinna á.

III. Eftirlit með heimastörfum


    Hlutaðeigandi stjórnvald á vegum ríkis og, þar sem það á við, í einstökum byggðarlögum eða á hverjum stað, skyldu sjá um að skrásetja atvinnurekendur heimastarfsmanna og allra milligöngumanna í þjónustu þeirra. Í þeim tilgangi skyldi stjórnvaldið tilgreina hvers konar upplýsingar atvinnurekendum er ætlað að leggja fram eða veita yfirvöldum aðgang að.
    (1) Þess skyldi krafist af atvinnurekendum að þeir tilkynni hlutaðeigandi stjórnvaldi þegar þeir fela manni heimastörf í fyrsta sinn.
        (2) Atvinnurekendur skyldu halda skrá yfir alla heimastarfsmenn sem þeir fá til starfa, og flokka hana eftir kyni.
        (3) Atvinnurekendur skyldu enn fremur halda skrá yfir þau verkefni sem heimastarfsmanni eru falin, þar sem fram kemur:
         
    
    tíminn sem ætlaður er til verksins;
         
    
    launaflokkur;
         
    
    kostnaður sem heimastarfsmaður verður fyrir, ef um slíkt er að ræða, og hversu mikið hann fær endurgreitt;
         
    
    allur frádráttur sem reiknaður er samkvæmt lögum og reglugerðum hvers ríkis; og
         
    
    heildarfjárhæð launa og útborguð laun, ásamt útborgunardegi.
        (4) Heimastarfsmönnum skyldi séð fyrir afriti af skrá þeirri sem vitnað er til í tölulið(3).
    Að því marki sem slíkt samrýmist lögum og venjum hvers ríkis um friðhelgi einkalífsins skyldi starfsmönnum vinnueftirlits eða öðrum embættismönnum, sem gert er að framfylgja lagaboðum varðandi heimastörf, vera heimilt að fara inn á þá staði á heimili eða öðru einkaathafnasvæði þar sem störfin eru unnin.
    Við alvarleg eða endurtekin brot gegn lögum og reglugerðum, sem taka til heimastarfa, skyldi grípa til viðeigandi ráðstafana í samræmi við lög og venjur hvers ríkis, svo sem hugsanlega að banna ráðningu fólks til heimastarfa.

IV. Lágmarksaldur


    Lög og reglugerðir hvers ríkis um lágmarksaldur fólks til að ráða sig í vinnu skyldu taka til heimastarfa.

V. Réttur til að bindast samtökum og semja sameiginlega


    Greina skyldi og ryðja úr vegi lagalegum eða stjórnunarlegum takmörkunum eða öðrum hömlum gegn því að:
         
    
    heimastarfsmenn neyti réttar síns til að stofna eigin samtök eða gerist félagar í samtökum launafólks, að eigin vali, og taki þátt í starfi slíkra samtaka; og
         
    
    samtök heimastarfsmanna neyti réttar síns til að gerast aðilar að bandalögum stéttarfélaga.
    Gerðar skyldu ráðstafanir til að stuðla að því að samið sé um kaup og kjör heimastarfsmanna í heildarsamningum.


VI. Laun


    Ákvarða skyldi lágmarkslaun fyrir heimastörf í samræmi við lög og venjur hvers ríkis.
    (1) Kauptaxtar heimastarfsmanna skyldu, ef mögulegt er, ákvarðaðir í heildarsamningum, eða, ef þeim er ekki til að dreifa:
         
    
    ákveðnir af hlutaðeigandi stjórnvaldi, að höfðu samráði við fjölmennustu samtök atvinnurekenda og launafólks og enn fremur við hagsmunasamtök heimastarfsmanna og samtök atvinnurekenda heimastarfsmanna, eða, séu tvenn síðastnefndu samtökin ekki til, við fulltrúa heimastarfsmanna og fulltrúa atvinnurekenda heimastarfsmanna; eða
         
    
    ákveðnir af viðeigandi aðila, sem sér um að ákvarða laun, á vegum ríkis, byggðarlaga eða einstakra staða.
        (2) Þar sem kauptaxtar eru ekki ákvarðaðir með einhverri þeirra aðferða sem tilgreindar eru í tölulið (1) hér að ofan skyldu heimastarfsmenn og atvinnurekendur þeirra koma sér saman um þá.
    Fyrir sértæka vinnu, þar sem greitt er fyrir hvert unnið verk, skyldu heimastarfsmanni greidd laun sem eru sambærileg þeim launum sem starfsmaður í fyrirtæki atvinnurekandans nýtur, eða, ef ekki er um slíkan starfsmann að ræða, starfsmaður í öðru fyrirtæki með sömu starfsemi og á sama svæði.
    Heimastarfsmenn skyldu fá greitt sérstaklega vegna:
         
    
    kostnaðar sem þeir verða fyrir í tengslum við starfið, svo sem vegna vatns- og orkunotkunar, fjarskipta og viðhalds véla og tækja; og
         
    
    tíma sem fer í viðhald véla og tækja, skipti á verkfærum, flokkun, pökkun og annað þess háttar.
    (1) Lög og reglugerðir hvers ríkis sem varða launavernd skyldu taka til heimastarfsmanna.
        (2) Lög og reglugerðir hvers ríkis skyldu tryggja að forsendur til að draga frá launum séu skilgreindar fyrir fram og skyldu vernda heimastarfsmenn fyrir óréttmætum launafrádrætti vegna ófullnægjandi vinnu eða skemmdra efna.
        (3) Greiða skyldi heimastarfsmönnum laun annaðhvort þegar þeir skila fullunnu verki eða með reglulegu millibili, mánaðarlega hið minnsta.
    Þegar um milligöngumann er að ræða skyldu hann og atvinnurekandi, sameiginlega og hvor um sig, bera ábyrgð á að greiða heimastarfsmönnum þau laun sem þeim ber, í samræmi við lög og venjur hvers ríkis.

VII. Öryggi og heilbrigði á vinnustað


    Hlutaðeigandi yfirvald skyldi sjá um að dreifa leiðbeiningum um þær reglur og varúðarráðstafanir varðandi öryggi og heilbrigði á vinnustað sem atvinnurekendum og heimastarfsmönnum ber að virða. Þar sem því verður við komið skyldi þýða leiðbeiningarnar á þau tungumál sem heimastarfsmenn skilja.

    Þess skyldi krafist af atvinnurekendum:
         
    
    að þeir upplýsi heimastarfsmenn um hverja þá hættu sem atvinnurekanda er eða ætti að vera kunnugt um og tengist störfum þeirra og um þær varúðarráðstafanir sem gerðar skulu, og sjái þeim fyrir nauðsynlegri þjálfun þar sem það á við;
         
    
    að þeir tryggi að réttur öryggisbúnaður sé á vélum, verkfærum og öðrum búnaði, sem heimastarfsmönnum er lagður til, og geri sitt til að tryggja eðlilegt viðhald á þeim; og
         
    
    að þeir sjái heimastarfsmönnum fyrir öllum nauðsynlegum hlífðarbúnaði endurgjaldslaust.
    (1) Þess skyldi krafist af heimastarfsmönnum:
         
    
    að þeir framfylgi þeim ráðstöfunum um öryggi og heilbrigði sem mælt er fyrir um;
         
    
    að þeir geri sitt til að gæta eigin öryggis og heilbrigðis, sem og annarra sem kunna að verða fyrir áhrifum af gjörðum þeirra og yfirsjónum í starfi, þ.á m. með réttri meðferð efna, véla, verkfæra og annars búnaðar sem þeir hafa til umráða.
    (1) Heimastarfsmaður sem neitar að vinna verk, sem hann hefur rökstudda ástæðu til að telja að stofni öryggi hans eða heilsu í alvarlega hættu, skyldi njóta verndar gagnvart óhæfilegum afleiðingum þess, svo sem samræmist aðstæðum og venjum hvers ríkis. Heimastarfsmaður skyldi tafarlaust gera atvinnurekanda grein fyrir ástandinu.
        (2) Í þeim tilvikum þegar öryggi og heilsu heimastarfsmanns, fjölskyldu hans eða almennings er stofnað í alvarlega hættu, samkvæmt úrskurði starfsmanns vinnueftirlits eða annars opinbers fulltrúa um öryggismál, skyldi banna áframhald heimastarfa uns viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta ástandið.

VIII. Vinnutími, hvíldartími og leyfi


    Þótt sett séu ákveðin tímamörk til að ljúka verki skyldi ekki svipta heimastarfsmann möguleikanum á daglegri og vikulegri hvíld sambærilegri þeirri sem aðrir starfsmenn njóta.
    Binda skyldi í lög og reglugerðir hvers ríkis ákvæði um það við hvaða aðstæður heimastarfsmenn skyldu, eins og aðrir launamenn, eiga rétt til launaðs leyfis á almennum frídögum, árlegs orlofs á launum og veikindaleyfis á launum.

IX. Almannatryggingar og mæðravernd


    Heimastarfsmenn skyldu njóta verndar almannatrygginga. Henni mætti koma á með því að:
         
    
    færa út lagaákvæði um almannatryggingar þannig að þau taki til heimastarfsmanna;
         
    
    aðlaga almannatryggingakerfi þannig að þau nái yfir heimastarfsmenn; eða
         
    
    stuðla að myndun sérstakra kerfa eða sjóða fyrir heimastarfsmenn.
    Lög og reglugerðir hvers ríkis á sviði mæðraverndar skyldu taka til heimastarfsmanna.

X. Vernd gagnvart uppsögnum


    Heimastarfsmenn skyldu njóta sömu verndar og aðrir starfsmenn með tilliti til uppsagna.
    Lögmæt yfirvöld skyldu tryggja að til séu leiðir til að leysa deilur milli heimastarfsmanns og atvinnurekanda eða þess milligöngumanns sem hann kann að hafa í þjónustu sinni.

XI. Áætlanir sem varða heimastörf


    (1) Hvert aðildarríki skyldi, í samvinnu við samtök atvinnurekenda og starfsmanna, kynna og styðja áætlanir sem:
         
    
    upplýsa heimastarfsmenn um réttindi þeirra og hvers konar aðstoð þeim stendur til boða;
         
    
    vekja athygli á málefnum sem varða heimastörf á vettvangi samtaka atvinnurekenda og starfsmanna, innan frjálsra félagasamtaka og meðal alls almennings;
         
    
    auðvelda heimastarfsmönnum að bindast samtökum um hvern þann félagsskap sem þeir kjósa sér, þar á meðal samvinnufélög;
         
    
    sjá heimastarfsmönnum fyrir þjálfun í þeim tilgangi að auka færni þeirra (þar með talda færni á óhefðbundnum sviðum, í stjórnun og samningaviðræðum), afköst, möguleika til starfa og tekjumöguleika;
         
    
    sjá heimastarfsmönnum fyrir þjálfun sem þeir geta nýtt sér eins nærri heimili sínu og við verður komið og þar sem ekki eru gerðar ónauðsynlegar formlegar hæfniskröfur;
         
    
    bæta öryggi og heilbrigði heimstarfsmanna, m.a. með því að skapa þeim greiðan aðgang að búnaði, tækjum, hráefnum og öðrum nauðsynlegum efnum, þar sem öryggi og gæði eru tryggð;
         
    
    auðvelda stofnun miðstöðva og netkerfa fyrir heimastarfsmenn í þeim tilgangi að sjá þeim fyrir upplýsingum og þjónustu og draga úr einangrun þeirra;
         
    
    auðvelda aðgang að lánsfé, bættu húsnæði og barnagæslu; og
         
    
    stuðla að því að heimastörf njóti viðurkenningar sem fullgild starfsreynsla.
        (2) Tryggja skyldi heimastarfsmönnum í dreifbýli aðgang að þessum áætlunum.
         (3) Samþykkja skyldi sértækar áætlanir til að útrýma barnavinnu við heimastörf.

XII. Aðgangur að upplýsingum


    Þar sem því verður við komið skyldi séð svo um að heimastarfsmenn hafi aðgang að upplýsingum sem varða réttindi og vernd heimastarfsmanna og skyldur atvinnurekenda gagnvart þeim, svo og að þeim áætlunum sem vitnað er til í 29. gr., á þeim tungumálum sem heimastarfsmenn skilja.



Fylgiskjal VI.


Tillaga nr. 185, um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja.


    Þar eð Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun á Tillögu um vinnueftirlit með sjómönnum frá 1926, sem er fyrsta mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi tillögu, sem kemur til viðbótar við alþjóðsamþykkt um vinnueftirlit með sjómönnum frá 1996,
    gerir þingið í dag, 20. júní 1996, eftirfarandi tillögu sem nefna má Tillögu um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja, 1996.

I. Samstarf og samræming


    1. Yfirstjórn siglingamála skyldi gera viðeigandi ráðstafanir til að efla árangursríkt samstarf milli opinberra stofnana og annarra stofnana sem láta sig aðbúnað og kjör skipverja varða.
    2. Til að tryggja samstarf milli eftirlitsmanna, skipaeigenda, skipverja og viðkomandi samtaka þeirra og til að viðhalda eða bæta aðbúnað skyldi yfirstjórn siglingamála hafa samráð við fulltrúa slíkra samtaka með reglulegu millibili, eftir þeim leiðum sem vænlegastar eru til árangurs. Yfirstjórn siglingamála skyldi ákveða tilhögun þessa samráðs eftir að hafa ráðfært sig við samtök skipaeigenda og skipverja.

II. Skipulag eftirlits


    3. Yfirstjórn siglingamála, og hver sá þjónustuaðili eða hvert það stjórnvald annað sem sinnir eftirliti með aðbúnaði og kjörum sjómanna, einvörðungu eða meðfram öðru, skyldi ráða yfir nægum fjármunum til að rækja hlutverk sitt.
    4. Eftirlitsmenn skyldu vera nægilega margir til að tryggt sé að þeir ræki skyldur sínar fljótt og vel: Þegar fjöldi þeirra er ákveðinn skyldi hafa í huga:
    mikilvægi þeirra skyldustarfa sem eftirlitsmönnum er ætlað að inna af hendi, einkum fjölda, gerð og stærð skoðunarskyldra skipa og þann fjölda margslunginna lagaákvæða sem framfylgja ber;
    þá fjármuni sem eftirlitsmenn hafa til ráðstöfunar; og
    þær aðstæður sem verða að vera fyrir hendi þegar eftirlitsstörf fara fram til þess að þau skili árangri.
    5. Kerfi um eftirlit með aðbúnaði og kjörum skipverja skyldi heimila eftirlitsmönnum:
    að gera yfirstjórn siglingamála viðvart um sérhverja ágalla og illa meðferð, sem lagaákvæði taka ekki sérstaklega á, og koma með tillögur til úrbóta á lögum og reglugerðum; og
    að fara um borð í skip og athafna sig óhindrað, án þess að boða komu sína, á öllum tímum sólarhringsins.
    6. Yfirstjórn siglingamála skyldi:
    koma á einföldum starfsháttum sem gera henni kleift að taka við trúnaðarupplýsingum, sem varða hugsanleg brot á lagaákvæðum, beint frá skipverjum eða frá fulltrúum þeirra, og sem gera eftirlitsmönnum kleift að rannsaka slík mál strax;
    gera skipstjórum, skipverjum eða fulltrúum skipverja kleift að fara fram á skoðun þegar þeir telja hennar þörf; og
    sjá skipaeigendum og skipverjum, sem og hlutaðeigandi hagsmunasamtökum, fyrir tæknilegum upplýsingum um skilvirkustu leiðir til að framfylgja ákvæðum laga og bæta aðbúnað og kjör skipverja.

III. Staða, skyldur og vald eftirlitsmanna


    7. (1) Með fyrirvara um skilyrði sem lög og reglugerðir kunna að kveða á um, varðandi kvaðningu manna til opinberrar þjónustu, skyldu eftirlitsmenn hafa menntun og fullnægjandi þjálfun til að rækja skyldur sínar og, eftir því sem mögulegt er, vera menntaðir eða hafa reynslu á sviði siglinga. Þeir skyldu búa yfir nægilegri þekkingu á aðbúnaði og kjörum skipverja og kunnáttu í ensku.
         (2) Yfirstjórn siglingamála skyldi ákvarða með hvaða hætti gengið er úr skugga um að þessar hæfniskröfur séu uppfylltar.
    8. Gerðar skyldu ráðstafanir til að sjá eftirlitsmönnum fyrir viðeigandi endurmenntun í starfi.
    9. Sérhvert aðildarríki skyldi gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að hægt sé að kveðja til hæfa tæknilega sérfræðinga, eftir því sem þörf er á, til að aðstoða eftirlitsmenn við störf.
    10. Eftirlitsmönnum skyldu ekki lagðar á herðar skyldur, sem, sökum þess hve margar eða hvers eðlis þær eru, kynnu að standa í vegi fyrir skilvirkri skoðun eða skerða vald þeirra eða hlutleysi í samskiptum við skipaeigendur, skipverja eða aðra hagsmunaaðila.
    11. Öllum eftirlitsmönnum skyldi séð fyrir vinnuaðstöðu á heppilegum stað, búnaði og fullnægjandi farartæki svo þeir geti rækt skyldur sínar fljótt og vel.
    12. (1) Eftirlitsmenn með tilskilin skilríki skyldu hafa umboð til:
    að yfirheyra skipstjóra, skipverja eða hvern sem vera skal, þar með talið skipseiganda eða fulltrúa hans, um hvaðeina sem fellur undir ákvæði laga, í viðurvist vottar ef hlutaðeigandi fer fram á það;
    að krefjast þess að fá að sjá hvers kyns bækur, dagbækur, skráningarskjöl, skírteini eða önnur skjöl eða upplýsingar, sem tengjast beint þeim málum sem eru til skoðunar, til að ganga úr skugga um að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laga;
    að framfylgja því að viðvaranir, sem krafist er í lögum, séu færðar til bókar; og
    að taka sýnishorn af framleiðslu, flutningi, drykkjarvatni, vistum og efnum sem notuð eru eða meðhöndluð, svo hægt sé að greina þau.
         (2) Skipseiganda eða fulltrúa hans, og sæfaranda þegar það á við, skyldi gert viðvart um sýnishorn sem tekið hefur verið, samkvæmt tölulið 1), a-lið, eða fá að vera viðstaddur þegar það er tekið. Eftirlitsmaður skyldi skrá nákvæmlega allt sem fólgið er í sýnishorninu.
    13. Þegar eftirlitsmenn hefja skoðun skips skyldu þeir gera skipstjóra eða öðrum sem fer með stjórn um borð og, þegar það á við, skipverjum eða fulltrúum þeirra, viðvart um nærveru sína.
    14. Yfirstjórn siglingamála skyldi tilkynnt um öll vinnuslys eða atvinnusjúkdóma, sem skipverjar verða fyrir, séu tilvikin með þeim hætti sem lög og reglugerðir kunna að kveða á um.
    15. Eftirlitsmönnum skyldi:
    bannað að hafa nokkur hagsmunatengsl, bein eða óbein, við nokkra af þeirri starfsemi sem þeim er falið að hafa eftirlit með;
    óheimilt, að viðlagðri refsingu eða öðru lagaúrræði, að skýra frá atvinnuleyndarmálum, leynilegum starfsaðferðum eða persónulegri vitneskju sem þeir kunna að búa yfir vegna starfs síns, og á það jafnt við þótt þeir séu hættir störfum;
    gert að halda trúnað við heimildarmann, þegar upp koma kvartanir vegna meintrar hættu eða ágalla í tengslum við aðbúnað og kjör skipverja eða meints brots á lagaákvæðum, og ekki gefa skipseiganda, fulltrúa skipseiganda eða útgerðaraðila neins konar vísbendingu um að skoðun hafi farið fram í kjölfar slíkrar kvörtunar; og
    gert að sýna háttvísi og, að skoðun lokinni, gera skipseiganda, útgerðaraðila eða skipstjóra þegar í stað grein fyrir þeim ágöllum sem kunna að hafa áhrif á heilsu og öryggi fólks um borð í hlutaðeigandi skipi.

IV. Skýrslur


    16. Í árlegri skýrslu, sem yfirstjórn siglingamála gefur út, skv. 2. mgr. 8. gr. samþykktarinnar, skyldi einnig vera að finna:
    skrá yfir gildandi lög og reglugerðir varðandi aðbúnað og kjör skipverja og breytingar á þeim sem komið hafa til framkvæmda á árinu;
    einstök atriði varðandi skipulag eftirlitskerfisins, sem vitnað er til í 2. gr. samþykktarinnar;
    tölfræðilegar upplýsingar um skip og önnur skoðunarskyld athafnasvæði og um skip og önnur athafnasvæði sem eru raunverulega skoðuð;
    tölfræðilegar upplýsingar um skipverja sem lúta skulu þeim lögum og reglugerðum sem fram koma í a-lið hér að ofan.
    tölfræðilegar upplýsingar um brot á lögum, viðurlög sem beitt hefur verið og tilvik þar sem skip hafa verið kyrrsett í höfn; og
    tölfræðilegar upplýsingar um vinnuslys og atvinnusjúkdóma sem skipverjar verða fyrir.
    17. Skýrslurnar, sem nefndar eru í 9. gr. samþykktarinnar, skyldu teknar saman og fjalla um málefni með þeim hætti sem yfirstjórn siglingamála kann að mæla fyrir um.



Fylgiskjal VII.


Tillaga nr. 186, um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm.


    Þar eð allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun á Samþykkt um ráðningu sjómanna í skiprúm frá 1920, sem er þriðja mál á dagskrá þessa þings, og
     þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi tillögu sem kemur til viðbótar Alþjóðasamþykkt um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm 1996,
    gerir þingið í dag, 22. október 1996, eftirfarandi tillögu sem nefna má Tillögu um skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm, 1996.
    1. Réttmætt stjórnvald skyldi:
    gera nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að árangursríku samstarfi milli aðila sem annast skráningar- og ráðningarþjónustu, opinberra aðila jafnt sem einkaaðila;
    taka tillit til þarfa siglinga sem atvinnugreinar, jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi, þegar mótaðar eru áætlanir í menntunarmálum skipverja með þátttöku skipaeigenda, skipverja og viðkomandi menntastofnana;
    búa í haginn fyrir samvinnu fulltrúa samtaka skipaeigenda og skipverja við skipulagningu og rekstur skráningar- og ráðningarþjónustu, þar sem slík þjónusta er fyrir hendi;
    halda uppi sérstöku fyrirkomulagi við söfnun og greiningu upplýsinga um allt sem máli skiptir um vinnumarkaðinn varðandi siglingar, þar með talið:
         i.        núverandi og fyrirsjáanlegt framboð á skipverjum eftir aldri, kyni, stöðu og menntun og þörf atvinnugreinarinnar, og er söfnun upplýsinga um aldur og kyn þá aðeins leyfileg í tölfræðilegum tilgangi eða til að vinna sérstaklega gegn því að fólki sé mismunað eftir aldri eða kynferði;
         ii.        aðgangur að störfum á innlendum og erlendum skipum;
        iii.    lengd samfellds ráðningartíma;
         iv.    skiprúm fyrir lærlinga, herskólanema og aðra nema; og
         v.        starfsráðgjöf fyrir verðandi skipverja;
    tryggja að þeir starfsmenn sem eiga að hafa yfirumsjón með skráningar- og ráðningarþjónustu séu nægilega menntaðir og búi yfir þeirri þekkingu á siglingum sem máli skiptir;
    mæla fyrir um eða samþykkja rekstrarstaðla fyrir skráningar- og ráðningarþjónustu og hvetja til þess að starfseminni verði settar siðareglur; og
    stuðla að áframhaldandi eftirliti byggðu á kerfi gæðastaðla.
    2. Rekstrarstaðlarnir, sem nefndir eru til í 1. gr., f-lið, skyldu hafa að geyma ákvæði um:
    þær hæfnis- og menntunarkröfur sem yfirstjórn og starfsmenn í skráningar- og ráðningarþjónustu verða að uppfylla, en þær skyldu fela í sér þekkingu á siglingamálum, sérstaklega á löggiltum skjölum um menntun á sviði siglinga sem eru í alþjóðanotkun, vottorðum og vinnustöðlum;
    skráningu skipverja sem sækjast eftir starfi á sjó; og
    málefni sem lúta að læknisskoðunum, bólusetningum, skjölum skipverja og öðru sem kann að vera sett sem skilyrði fyrir ráðningu á skip.
    3. Rekstrarstaðlar, sem nefndir eru til í 1. gr., f-lið, skyldu kveða á um að hver aðili í skráningar- og ráðningarþjónustu:
    með tilhlýðilegri virðingu fyrir friðhelgi einkalífsins og nauðsyn þess að gæta trúnaðar, haldi fullkomna skrá yfir skipverja sem þjónusta þeirra nær til og skyldi hún hafa að geyma, en þó ekki einskorðast við, upplýsingar um:
         i.         menntun sæfaranda;
         ii.         fyrri störf;
         iii.    persónulega hagi sem máli skipta vegna ráðningar;
         iv.    læknisfræðilegar staðreyndir sem máli skipta vegna ráðningar;
    haldi skrá, sem endurnýjuð er eftir þörfum, yfir áhafnir þeirra skipa sem hann útvegar vinnuafl og tryggja að hægt sé að ná sambandi við skráningar- og ráðningarþjónustuna í neyðartilvikum hvenær sólarhringsins sem er;
    fylgi formlegum reglum til að tryggja að skrifstofan eða einstakir starfsmenn hennar notfæri sér ekki skipverja í sambandi við framboð á vinnu á tilteknum skipum eða hjá tilteknum skipafélögum;
    fylgi formlegum reglum til að koma í veg fyrir að tækifæri til misnotkunar á skipverjum skapist vegna hvers kyns fjárhagslegra samninga milli atvinnurekanda og sæfaranda sem skráningar- og ráðningarþjónustan hefur milligöngu um;
    auglýsi með skýrum hætti hvaða kostnað sæfarandi ber vegna læknisskoðunar og útvegunar skjala;
    tryggi að skipverjum sé sagt frá öllum sérskilmálum sem geta átt við um það starf sem þeir hyggjast ráða sig til og sérstökum stefnumálum atvinnurekenda í tengslum við ráðningu þeirra;
    fylgi formlegum reglum, í samræmi við grundvallarreglur um eðlilegt réttlæti, þegar takast þarf á við vanhæfni eða agaskort, svo sem lög og venjur hvers ríkis segja til um, og, þar sem það á við, í samræmi við heildarsamninga;
    fylgi formlegum reglum til að tryggja, að því marki sem því verður við komið, að hæfnisvottorð og læknisvottorð skipverja, sem lögð eru fram vegna ráðningar, séu nýútgefin og þeirra hafi ekki verið aflað með sviksamlegum hætti, og að meðmæli séu staðfest;
    fylgi formlegum reglum til að tryggja að þegar fjölskyldur skipverja óska upplýsinga eða ráðlegginga meðan þeir eru á sjó sé tekið á málinu tafarlaust og af skilningi og fjölskyldunni að kostnaðarlausu; og
    hafi það fyrir stefnu að útvega einungis þeim atvinnurekendum mannskap sem bjóða skipverjum ráðningarskilmála og -kjör sem samræmast viðeigandi lögum og reglugerðum eða heildarsamningum.
    4. Ýta skyldi undir alþjóðlega samvinnu milli aðildarríkja og viðkomandi stofnana og gæti hún falið í sér:
    kerfisbundin skipti á upplýsingum um siglingar og vinnumarkaðinn á tvíhliða svæðisbundnum og marghliða grunni;
    skipti á upplýsingum um þá vinnulöggjöf sem lýtur að siglingum;
    samræmingu á stefnu, starfsaðferðum og löggjöf sem fylgt er við skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm;
    úrbætur í framkvæmd og skilyrðum fyrir alþjóðlegri skráningu skipverja og ráðningu í skiprúm; og
    áætlanir um vinnuafl við siglingar þar sem tekið er tillit til framboðs og eftirspurnar eftir skipverjum og þarfa atvinnugreinarinnar.



Fylgiskjal VIII.


Tillaga nr. 187, um laun og vinnutíma


skipverja og mönnun skipa.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að ákvæðum Samþykktar um vernd vinnulauna frá 1949, Samþykktar um ákvörðun lágmarkslauna frá 1970, Samþykktar um árlegt orlof farmanna með launum frá 1976, Samþykktar um lágmarkskröfur á kaupskipum frá 1976, Samþykktar um heimsendingu skipverja (endurskoðuð) frá 1987, Samþykktar um verndun launakrafna við gjaldþrot atvinnurekanda frá 1992 og Alþjóðasamþykktar um sjóveð frá 1993, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun á Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (endurskoðuð) frá 1958 og Tillögu um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum frá 1958, sem er annað mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi tillögu sem kemur til viðbótar við Samþykkt um vinnutíma skipverja og mönnun skipa, 1996,
    gerir þingið í dag, 22. október 1996, eftirfarandi tillögu, sem nefna má Tillögu um laun og vinnutíma skipverja og mönnun skipa, 1996.

I. Gildissvið og skilgreiningar


    1.     (1) Þessi tillaga tekur til allra haffærra skipa, í eigu opinberra aðila eða einkaaðila, sem skráð eru í aðildarríki og alla jafna stunda siglingar í ábataskyni.
         (2) Að því marki sem því verður við komið, að höfðu samráði við fulltrúa samtaka eigenda fiskiskipa og fiskimanna, skyldi réttmætt stjórnvald láta ákvæði þessarar samþykktar ná til fiskveiða í sjó í ábataskyni.
         (3) Leiki vafi á því hvort tiltekið skip skuli, samkvæmt þessari tillögu, teljast haffært skip eða skip sem stundar siglingar í ábataskyni eða skip sem stundar fiskveiðar á sjó í ábataskyni, skyldi réttmætt stjórnvald úrskurða í málinu að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök skipaeigenda, farmanna og fiskimanna.
         (4) Tréskip með hefðbundnu lagi, svo sem arabísk seglskip og djúnkur, falla ekki undir þessa tillögu.
    2. Í þessari tillögu:
    táknar hugtakið „grunnlaun“ þau laun, hvernig sem þau eru samsett, sem greidd eru fyrir venjulegan vinnutíma;
    táknar hugtakið „réttmætt stjórnvald“ ráðherra, ráðuneyti eða annað opinbert stjórnvald sem fer með umboð til að gefa út reglugerðir, fyrirmæli eða aðrar leiðbeiningar sem hafa lagagildi hvað snertir laun og vinnu- og hvíldartíma skipverja eða mönnun skipa;
    táknar hugtakið „samræmd laun“ grunnlaun, hvort sem þau eru greidd vikulega eða mánaðarlega, og aðrar tengdar greiðslur; samræmd laun geta falið í sér greiðslur fyrir alla yfirvinnu og allar aðrar launagreiðslur eða aðeins tilteknar launagreiðslur og er þá um að ræða samræmd laun að hluta;
    táknar hugtakið „vinnutími“ þann tíma sem sæfaranda er ætlað að vera að störfum í þágu skipsins;
    táknar hugtakið „yfirtíð“ unnar vinnustundir umfram venjulegan vinnutíma;
    táknar hugtakið „sæfarandi“ sérhvern þann sem þannig er skilgreindur í lögum og reglugerðum hvers ríkis eða í heildarsamningum og er ráðinn til einhverra starfa um borð í haffæru skipi sem þessi tillaga tekur til;
    táknar hugtakið „skipseigandi“ eiganda skipsins eða hvers kyns fyrirtæki eða persónu, svo sem framkvæmdastjóra eða þurrleigutaka, sem hefur tekið að sér að gera skip út fyrir eiganda þess og þar með samþykkt að taka á sig allar skyldur og alla ábyrgð sem því er samfara.

II. Laun skipverja


    3. Að því er varðar skipverja sem fá greitt sérstaklega fyrir unna yfirtíð:
    skyldi, vegna útreiknings fastra launa, fjöldi dagvinnustunda á sjó og í höfn ekki fara yfir átta klukkustundir á dag;
    skyldi, vegna útreiknings launa fyrir yfirtíð, mælt fyrir um fjölda dagvinnustunda til grunnlauna í lögum og reglugerðum hvers ríkis eða í heildarsamningum, en þær skyldu ekki vera fleiri en 48 stundir á viku; heildarsamningar mega mæla fyrir um aðra meðferð en ekki óhagstæðari;
    skyldi mælt fyrir um launataxta fyrir yfirtíð í lögum eða reglugerðum hvers ríkis eða í heildarsamningum, og skyldu þeir ekki vera lægri en 1,5 sinnum grunnlaun á tímann; og
    skyldi skipstjóri, eða einhver sem hann felur það hlutverk, halda skrá yfir alla unna yfirtíð og skal sæfarandi skrifa upp á hana með reglulegu millibili.
    4. Að því er varðar skipverja sem fá greidd laun sem eru að hluta eða öllu leyti samræmd:
    skyldi skýrt kveðið á um launafjárhæð til sæfaranda í heildarsamningi, samkomulagsgreinum, ráðningarsamningi og ráðningarbréfi og, þar sem það á við, einnig um fjölda vinnustunda sem honum er ætlað að skila fyrir þau laun, og hvers konar dagpeninga sem kunna að bætast ofan á samræmd laun og við hvaða aðstæður;
    skyldi, í þeim tilvikum þar sem greitt er tímakaup fyrir allar unnar stundir umfram þær sem samræmd laun ná yfir, taxti tímakaups ekki vera lægri en sem svarar 1,5 sinnum grunntímakaup í dagvinnu eins og hún er skilgreind í 3. mgr.; sama regla skyldi notuð varðandi yfirvinnustundir innifaldar í samræmdum launum;
    sá hluti samræmdra launa sem greiddur er fyrir dagvinnu, eins og hún er skilgreind í 3. mgr., a-lið, skyldi ekki vera lægri en viðeigandi lágmarkslaun; og
    skyldi haldin skrá yfir alla unna yfirtíð þeirra skipverja sem fá greidd samræmd laun að hluta og hún árituð eins og kveðið er á um í 3. mgr., d-lið.
    5. Heimilt er að hafa ákvæði í lögum og reglugerðum hvers ríkis eða heildarsamningum um að mönnum skuli bætt upp yfirtíð eða vinna sem unnin er á vikulegum hvíldardegi og opinberum frídögum, og skal sú uppbót fela í sér a.m.k. jafnlangan tíma frá störfum, í landi, viðbótarleyfi í stað greiðslu eða annað.
    6. Lög og reglugerðir hvers ríkis, sem samþykkt eru að höfðu samráði við fulltrúa samtaka skipverja og skipaeigenda, eða, þar sem við á, heildarsamningar, skyldu taka mið af eftirfarandi reglum:
    allir skipverjar, sem starfa á sama skipi, skyldu njóta sömu launa fyrir jafnverðmæt störf, án mismununar vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða þjóðfélagslegs uppruna;
    samkomulagsgreinar eða aðrir samningar, sem tilgreina viðeigandi laun eða launataxta, skyldu vera um borð í hverju skipi; hver sæfarandi skyldi hafa aðgang að upplýsingum um launa- og taxtafjárhæðir, annaðhvort með því að fá í hendur a.m.k. eitt undirritað eintak af þeim upplýsingum sem varða hann, á því tungumáli sem hann skilur, eða með því að eintak af samkomulaginu hangi uppi á stað sem skipverjar hafa greiðan aðgang að eða með einhverjum öðrum hætti;
    laun skyldu greidd í löglegum gjaldmiðli; þar sem það á við má greiða þau með bankamillifærslu, bankaávísun, póstávísun eða peningaávísun;
    laun skyldu greiðast mánaðarlega eða með öðru reglulegu millibili og við uppsögn skyldu öll gjaldfallin laun greidd án verulegra tafa;
    réttmætt stjórnvald skyldi beita hæfilegum viðurlögum eða öðrum viðeigandi úrræðum þegar skipaeigendur draga úr hófi eða láta undir höfuð leggjast að standa skil á gjaldföllnum launum;
    laun skyldu greidd beint til sæfaranda eða inn á bankareikning, sem sæfarandi tiltekur, nema hlutaðeigandi setji fram skriflegar óskir um annað;
    með fyrirvara um h-lið skyldi skipseigandi ekki skerða frelsi sæfaranda til að ráðstafa launum sínum;
    því aðeins skyldi heimilt að draga frá launum sæfaranda ef:
        i.        lög eða reglugerðir hvers ríkis eða viðeigandi heildarsamningar fela í sér skýr ákvæði þar að lútandi;
         ii.        réttmætt stjórnvald hefur greint sæfaranda frá skilyrðum fyrir slíkum frádrætti, með þeim hætti sem telst viðeigandi; og
         iii.    samanlagður frádráttur fer ekki yfir þau mörk sem sett hafa verið í lögum eða reglugerðum hvers ríkis eða heildarsamningum eða úrskurðum dómstóla um slíkan frádrátt;
    ekki skyldi draga frá launum sæfaranda vegna ráðningar og endurráðningar.
    réttmætt stjórnvald skyldi hafa umboð til að skoða verslanir og aðra þjónustu um borð til að tryggja að þar sé sanngjarnt verð, til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi skipverja; og
    að því marki sem laun og aðrar gjaldfallnar kröfur skipverja á hendur vinnuveitenda þeirra eru ekki tryggðar með ákvæðum Alþjóðasamþykktar um sjóveð frá 1993 skyldu slíkar kröfur verndaðar samkvæmt Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um verndun launakrafna við gjaldþrot atvinnurekanda frá 1992.
    7. Aðildarríki skyldi, að höfðu samráði við samtök skipaeigenda og skipverja, fylgja föstum reglum við rannsókn á kvörtunum varðandi hvert það málefni sem fjallað er um í þessari tillögu.

III. Lágmarkslaun


    8. (1) Án þess að skerða grundvallarréttinn til frjálsra samninga skyldi aðildarríki, að höfðu samráði við helstu samtök skipaeigenda og skipverja, koma á aðferðum til að ákvarða lágmarkslaun til skipverja. Helstu samtök skipaeigenda og skipverja skyldu taka þátt í að fylgja þeim aðferðum eftir.
         (2) Þegar slíkum aðferðum er komið á og þegar lágmarkslaun eru ákveðin skyldi tekið tillit til alþjóðlegra vinnustaðla um ákvörðun lágmarkslauna og jafnframt til eftirtalinna grundvallarreglna:
    hafa skyldi í huga hvers eðlis störf til sjós eru, hversu vel skip eru mönnuð og hver er venjulegur vinnutími skipverja; og
    hækka skyldi lágmarkslaun til samræmis við breytingar á framfærslukostnaði og þörfum skipverja.
    (3) Réttmætt stjórnvald skyldi tryggja:
    með sérstöku eftirlitskerfi og þvingunaraðgerðum að ekki séu greidd lægri laun en taxti eða taxtar segja til um; og
    að sérhverjum sæfaranda, sem hefur fengið greidd laun sem eru undir lágmarkslaunum, sé gert kleift að heimta það sem vangoldið er eftir greiðum leiðum, lagalegum eða öðrum, og án mikils tilkostnaðar.

IV. Lágmarksgrunnlaun á mánuði eða


launafjárhæð fyrir fullgilda háseta


    9. Í þessum kafla táknar hugtakið „fullgildur háseti“ sérhvern sæfaranda sem telst hæfur til að gegna þeim störfum sem undirmaður á dekki skal sinna, að undanskildum þeim störfum sem stjórnandi eða sérhæfðir undirmenn gegna, eða sérhvern sæfaranda sem skilgreindur er sem fullgildur háseti samkvæmt lögum, reglugerðum eða venjum hvers ríkis eða heildarsamningum.
    10. Grunnlaun fullgilds háseta fyrir starf í einn almanaksmánuð skyldu ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem Sameinaða siglinganefndin ákveður reglulega, eða annar aðili sem stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar veitir umboð til þess. Í kjölfar ákvörðunar stjórnarnefndarinnar skal forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar tilkynna aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um breytta launafjárhæð. Frá og með 1. janúar 1995 nam þessi fjárhæð 385 bandaríkjadölum samkvæmt ákvörðun Sameinuðu siglinganefndarinnar.
    11. Ekkert í þessum kafla skyldi teljast hafa áhrif á það fyrirkomulag sem samist hefur um milli skipaeigenda eða samtaka þeirra annars vegar og samtaka skipverja hins vegar að því er varðar breytingar á venjulegum lágmarkskjörum; þó er tilskilið að réttmætt stjórnvald hafi viðurkennt þau kjör.

V. Áhrif á fyrri tillögu


    12. Þessi tillaga leysir af hólmi Tillögu um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum frá 1958.



Fylgiskjal IX.

Bókun 1996 við samþykkt nr. 147, um


lágmarkskröfur á kaupskipum.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem kom saman til 84. þingsetu sinnar í Genf 8. október 1996 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar,
    gefur gaum að ákvæðum 2. gr. Samþykktar um lágmarkskröfur á kaupskipum frá 1976 (hér að neðan nefnd „aðalsamþykktin“), þar sem m.a. segir:
    „Sérhvert aðildarríki sem fullgildir þessa samþykkt skuldbindur sig til að —
    setja lög og reglugerðir, fyrir þau skip sem skráð eru í hlutaðeigandi ríki, þar sem kveðið er á um —
         i.        öryggisstaðla, þar á meðal staðla um hæfni, vinnutíma og mönnun, til að tryggja öryggi fólks um borð í skipum;
         ii.    viðeigandi ráðstafanir í almannatryggingamálum; og
         iii.    starfskjör og lífshætti á sjó, að því marki sem aðildarríki telur ákvæði um slíkt skorta í heildarsamninga eða úrskurði réttmætra dómstóla þannig að jafnbindandi sé fyrir hlutaðeigandi skipaeigendur og skipverja;
    og fullvissa sig um að ákvæði slíkra laga og reglugerða séu í meginatriðum jafngild þeim samþykktum eða samþykktargreinum sem vitnað er til í viðauka með þessari samþykkt, þ.e. sé aðildarríki ekki skuldbundið til að hrinda viðkomandi samþykktum í framkvæmd með öðrum hætti“; og
    gefur einnig gaum að ákvæðum 1. mgr. 4. gr. aðalsamþykktarinnar, þar sem segir:
    „Ef skip hefur viðdvöl í höfn aðildarríkis, sem hefur fullgilt þessa samþykkt, í venjulegum viðskiptaerindum eða af rekstrarástæðum, og hlutaðeigandi aðildarríki berast kvartanir eða fær sönnur fyrir því að skipið uppfylli ekki kröfur þessarar samþykktar, eftir að hún hefur tekið gildi, er því heimilt að taka saman skýrslu og senda stjórnvöldum þess ríkis þar sem skipið er skráð, ásamt eintaki til forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, og enn fremur að gera nauðsynlegar ráðstafanir til úrbóta séu aðstæður um borð þannig að þær augljóslega stofni öryggi og heilsu manna í hættu“; og
    minnist Samþykktar um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs frá 1958, 1. mgr. 1. gr., þar sem segir:
    „Í þessari samþykkt felur hugtakið „misrétti“ í sér —
    hvers kyns greinarmun, útilokun eða ívilnun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða þjóðfélagslegs uppruna, sem leiðir til þess að jafnrétti til ráðningar og starfa er haft að engu eða skert;
    hvern þann greinarmun annan, útilokun eða ívilnun, sem leiðir til þess að jafnrétti til ráðningar og starfa er haft að engu eða skert og hlutaðeigandi aðildarríki kann að kveða á um, að höfðu samráði við samtök atvinnurekenda og launþega, þar sem slík samtök eru til, og aðra viðeigandi aðila“; og
    minnist gildistöku Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1982, hinn 16. nóvember 1994, og
    minnist Alþjóðasamþykktar um staðla um þjálfun, löggildingu og vaktavinnu skipverja frá 1978, með breytingum frá 1995, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin gaf út, og
    þar eð þingið hefur samþykkt tilteknar ábendingar sem varða endurskoðun að hluta á aðalsamþykktinni, sem er fjórða mál á dagskrá þessa þings, og
    þar eð þingið hefur ákveðið að þessar ábendingar skuli gerðar í formi bókunar við aðalsamþykktina,
    gerir þingið í dag, 22. október 1996, eftirfarandi bókun, sem nefna má Bókun 1996 við Samþykkt um lágmarkskröfur á kaupskipum frá 1976.

1. gr.


    1. Sérhvert aðildarríki, sem staðfestir þessa bókun, skal bæta við lista þeirra samþykkta sem er að finna í viðauka með aðalsamþykktinni, þannig að hann innihaldi samþykktir í A-hluta aukaviðaukans og þær af samþykktunum, sem taldar eru upp í B-hluta þess viðauka, sem hlutaðeigandi ríki samþykkir, ef einhverjar eru, sbr. 3. gr. hér á eftir.
    2. Viðbætur við þá samþykkt sem skráð er í A-hluta aukaviðaukans, sem hafa ekki tekið gildi, skulu ekki koma til framkvæmda fyrr en sú samþykkt öðlast gildi.

2. gr.


    Aðildarríki getur fullgilt þessa bókun um leið og, eða hvenær sem vera skal eftir að, það fullgildir aðalsamþykktina og skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar formlega fullgildingu til skrásetningar.

3. gr.


    1. Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa bókun, skal eftir því sem við á, í yfirlýsingu með fullgildingarskjalinu, tilgreina hvaða samþykkt eða samþykktir B-hluta aukaviðaukans það samþykkir.
    2. Aðildarríki, sem hefur ekki samþykkt allar samþykktir í B-hluta aukaviðaukans, getur sent forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar yfirlýsingu síðar, þar sem það tilgreinir hvaða aðra samþykkt eða samþykktir það fellst á.

4. gr.


    1. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. og 3. gr. þessarar bókunar skal réttmætt stjórnvald fyrst ræða við hagsmunasamtök skipaeigenda og skipverja.
    2. Réttmætt stjórnvald skal, svo fljótt sem auðið er, láta hagsmunasamtökum skipaeigenda og skipverja í té upplýsingar varðandi fullgildingar, yfirlýsingar og uppsagnir sem tilkynningar hafa borist um frá forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, skv. 1. mgr. 8. gr. hér að neðan.

5. gr.

    Í þessari bókun er litið svo á að Samþykkt um heimsendingu skipverja (endurskoðuð) frá 1987 komi, í þeim aðildarríkjum sem hafa samþykkt hana, í stað Samþykktar um heimsendingu sjómanna frá 1926.

6. gr.


    1. Þessi bókun skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hafa látið forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skrá fullgildingar sínar.
    2. Þessi bókun gengur í gildi 12 mánuðum eftir að fullgildingar fimm aðildarríkja, þar af þriggja sem hvert um sig ræður yfir skipastól sem er a.m.k. 1 milljón brúttólesta, hafa verið skráðar.
    3. Síðan gengur bókunin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

7 . gr.


    Aðildarríki, sem fullgilt hefur bókun þessa, getur sagt henni upp um leið og heimilt verður að segja aðalsamþykktinni upp, skv. 7. gr. hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en ár er liðið frá skrásetningardegi hennar.

8. gr.


    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar skilyrðum, sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. að ofan, hefur verið fullnægt skal forstjórinn vekja athygli aðildarríkja Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á því hvaða dag bókunin gangi í gildi.

9. gr.


    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar, skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.

10. gr.


    Þegar stjórn alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt skal hún leggja fyrir Alþjóðavinnumálaþingið skýrslu um framkvæmd þessarar bókunar og athuga jafnframt hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins endurskoðun hennar allrar eða hluta hennar.

11. gr.


    Ef þessi bókun verður endurskoðuð og ekki lengur heimilt að fullgilda hana skulu ákvæði 11. gr. aðalsamþykktarinnar gilda að breyttu breytanda.

12. gr.


    Enskur og franskur texti þessarar samþykktar eru jafngildir.


Aukaviðauki.

A-hluti.
Samþykkt um vistarverur skipverja (viðaukaákvæði), 1970 (nr. 133)
og
Samþykkt um vinnutíma skipverja og mönnun skipa, 1996 (nr. 180)

B-hluti.

Samþykkt um persónuskilríki sjómanna, 1958 (nr. 108)
Samþykkt um trúnaðarmenn starfsmanna, 1971 (nr. 135)
Samþykkt um heilsuvernd og læknishjálp handa skipverjum, 1987 (nr. 164)
Samþykkt um heimflutning skipverja (endurskoðuð), 1987 (nr. 166).


Fylgiskjal X.

Skipan stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kjörtímabilið 1996–99.



Fulltrúar ríkisstjórna.


Fastafulltrúar sem eru tilnefndir af eftir-


töldum tíu aðaliðnaðaríkjunum:



    Bandaríkin
    Brasilía
    Frakkland
    Indland
    Ítalía
Japan
Kína
Rússland
Sambandslýðveldið Þýskaland
Stóra-Bretland

Aðildarríki sem eru kjörin til að
nefna aðalfulltrúa:


    Bangladess
    Egyptaland
    Gínea
    Kongó
    Kólumbía
    Máritíus
    Nígería
    Kanada
    Panama
    Pólland
    Sádi-Arabía
    Síle
    Suður-Kórea
    Súrínam
    Svasíland
    Tæland
    Tyrkland
    Ungverjaland
Aðildarríki sem eru kjörin til að tilnefna varafulltrúa:

    Alsír
    Argentína
    Austurríki
    Eþíópía
    Filippseyjar
    Finnland
    Fílabeinsströndin
    Indónesía
    Íran
    Jórdanía
    Kostaríka
    Króatía
    Kúba
    Malasía
    Mexíkó
    Mið-Afríkulýðveldið
    Mongólía
    Namibía
    Pakistan
    Perú
    Senegal
    Slóvakía
    Spánn
    Suður-Afríka
    Svíþjóð
    Sýrland
    Úganda
    Úkraína

Fulltrúar atvinnurekenda.



Aðalfulltrúar:

J. Aka Anghui (Fílabeinsströndin)
I.P. Anand (Indland)
A.S. Dahlan (Sádi-Arabía)
J. De Regil Gómez Muriel (Mexíkó)
F. Díaz Garaycoa (Ekvador)
D.A. France (Bretland)
E. Hoff (Noregur)
A. Katz (Bandaríkin)
J.-J. Oechslin (Frakkland)
M.A. Ould Sidi Mohamed (Máritanía)
T.D. Owuor (Kenía)
T. Suzuki (Japan)
A.K. Tan (Filippseyjar)
R. Thüsing (Þýskaland)

Varafulltrúar:

Aboughae-Obame (Gabon)
P.I. Beye (Senegal)
J.W. Botha (Suður-Afríka)
N.H. Cho (Kórea)
A.J. Donato (Brasilía)
W. Durling (Panama)
D. Funes de Rioja (Argentína)
I.C. Imoisili (Nígería)
A. Jeetun (Máritíus)
V.P. Kolmogorov (Rússland)
J.M. Lacasa (Spánn)
J. Lawson (Kanada)
S. Marshall (Nýja-Sjáland)
A. M´Kaissi (Túnís)
B. Noakes (Ástralía)
B. Robinson (Jamaíka)
L. Sasso Mazzufferi (Ítalía)
A.W. Tabani (Pakistan)
J. van Holm (Belgía)

Fulltrúar launafólks.



Aðalfulltrúar:

B. Brett (Bretland)
U. Edström (Svíþjóð)
U. Engelen-Kefer (Þýskaland)
R. Falbr (Tékkland)
C. Gray (Bandaríkin)
S. Ito (Japan)
Kikongi Di Mwinsa (Saír)
W. Mansfield (Ástralía)
S. Mookherjee (Indland)
J.-C. Parrot (Kanada)
F. Ramírez León (Venesúela)
I. Sahbani (Túnis)
S. Sanchez Madariaga (Mexíkó)
G. Sibanda (Simbabve)


Varafulltrúar:

E. Abou-Rizki (Líbanon)
C.A. Agyei (Gana)
K. Ahmed (Pakistan)
C. Angco (Filippseyjar)
A. Baldassini (Argentína)
M. Blondel (Frakkland)
Y. Kara (Ísrael)
A. Lettieri (Ítalía)
I. Mayaki (Níger)
D. Mokgalo (Suður-Afríka)
B.P. Mpangala (Tansanía)
P. O´Donovan (Írland)
M. Rozas (Síle)
M.V. Shmakov (Rússland)
L. Sombes (Kamerún)
P. Sundaram (Srí Lanka)
C.L. Trotman (Barbadoseyjar)
T. Wójcik (Pólland)
R. Zainal (Malasía)


Fylgiskjal XI.

Skýrsla um starf nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar


og framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1996.


    Þríhliða samstarf á milli ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins skapar Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) sérstöðu þegar skipulag hennar er borið saman við skipulag annarra stofnana sem starfa innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. ILO hefur með ýmsum hætti reynt að hafa áhrif á ríkisstjórnir aðildarríkjanna í þá átt að þau taki upp hliðstæða samvinnu við samtök atvinnurekenda og launafólks um málefni vinnumarkaðarins. Dæmi um þetta er alþjóðasamþykkt nr. 144, um samstarf ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, sem Ísland fullgilti árið 1981. Í anda samþykktar nr. 144 var skipuð 16. apríl 1982 samstarfsnefnd ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins sem fjallar um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina. Á árinu 1996 skipuðu eftirtaldir nefndina: Fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Ástráður Haraldsson, lögræðingur ASÍ, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ, og fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og jafnframt formaður nefndarinnar, Gylfi Kristinsson deildarstjóri.
    Verkefni nefndarinnar á árinu 1994 voru svipuð og næstu ár á undan, þ.e. að fara yfir drög að skýrslum til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf um framkvæmd fullgiltra alþjóðasamþykkta, svara spurningaskrám sem skrifstofan sendir aðildarríkjunum þegar undirbúin eru drög að nýjum samþykktum og fjalla um athugasemdir sem sérfræðinganefnd ILO gerir við framkvæmd á alþjóðasamþykktum. Nefndin ræðir einnig framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu.
    Nefnd um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina hélt á árinu 1996 samtals 13 fundi. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru:

a.     Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði vinnumála.
    Samkvæmt 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er aðildarríki skylt að gefa stofnuninni skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Þessi skylda er tvíþætt. Í fyrsta lagi skulu aðildarríkin gefa ILO reglulega skýrslur um framkvæmd þeirra samþykkta sem þau hafa fullgilt. Í öðru lagi getur stjórnarnefnd ILO falið alþjóðavinnumálaskrifstofunni að óska eftir skýrslum frá aðildarríkjunum um framkvæmd ákvæða í öðrum samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Lagt er til í 5. gr. tillögu nr. 152, um samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála, að stjórnvöld hafi samráð við aðila vinnumarkaðarins um samningu þessara skýrslna.
    Á árinu 1996 undirbjó ILO-nefndin skýrslur ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
                  Samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu eða skylduvinnu.
         Samþykkt nr. 87. um félagafrelsi og verndun þess.
         Samþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.
         Samþykkt nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs.
         Samþykkt nr. 122, um stefnu í atvinnumálum.
                  Samþykkt nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með krabbameinsvaldandi efnum.
    Að auki undirbjó nefndin skýrslu um framkvæmd á einni alþjóðasamþykkt sem Ísland hefur ekki fullgilt. Um er að ræða samþykkt nr. 150, um stjórn vinnumála: hlutverk starfsemi og skipulag. Þess skal getið samkvæmt 19. gr. stofnskrár ILO getur alþjóðavinnumálaskrifstofan óskaði eftir skýrslum um framkvæmd samþykkta sem ekki hafa verið fullgiltar.

b.     Fullgilding alþjóðasamþykkta.
    Nefndin fjallaði á seinni hluta ársins um hugsanlega fullgildingu Íslands á eftirtöldum samþykktum:
         Samþykkt nr. 175, um réttindi þeirra sem vinna hlutastörf.
         Samþykkt nr. 174, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir meiri háttar iðnaðarslys.
         Samþykkt nr. 173, um verndun launakrafna starfsmanna við gjaldþrot atvinnurekanda.
    Samanburði á skuldbindingum sem felast í samþykktunum og ákvæðum í íslenskum lögum og samningum var ekki lokið í árslok 1996.

c.     Skýrsla um 82. Alþjóðavinnumálaþingið 1995.
    Aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni fylgir sú skylda að kynna löggjafarsamkomu þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingin hafa afgreitt. Á Íslandi er þetta ákvæði uppfyllt með þeim hætti að félagsmálaráðherra gefur Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin. Í skýrslunum eru birtar í íslenskri þýðingu þær samþykktir, tillögur og ályktanir sem þingin hafa afgreitt. Á árinu 1996 var haft samráð við ILO-nefndina um skýrslu félagsmálaráðherra um 82. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var 1995. Það þing afgreiddi nýja alþjóðasamþykkt um aðgerðir til að tryggja öryggi og hollustuhætti í námum.
    82. Alþjóðavinnumálaþingið lauk fyrri umræðu um drög að nýrri alþjóðasamþykkt um heimastörf.
    Í skýrslunni er birt niðurstaða nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fjallar um félagafrelsi í kærumáli ASÍ vegna setningar laga nr. 15/1993, um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.

d.     Undirbúningur fyrir þátttöku í 83. og 84. Alþjóðavinnumálaþinginu 1996.
    ILO-nefndin fjallaði á fundum sínum fyrri hluta árs 1996 um dagskrármál 83. Alþjóðavinnumálaþingsins. Á fundunum var farið yfir drög að alþjóðasamþykkt um réttindi þeirra sem vinna heimastörf. Enn fremur var farið yfir skýrslur sem alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði tekið saman til undirbúnings umræðum um helstu dagskrármál vinnumálaþingsins.
    Málefni 84. Alþjóðavinnumálaþingsins, sem haldið var dagana 8.–22. október 1996, komu til umfjöllunar ILO-nefndarinnar í júní 1996. Á dagskrá þingsins var m.a.: Endurskoðun alþjóðasamþykktar nr. 29 um slysavarnir skipverja (1929). Endurskoðun alþjóðasamþykktar nr. 109 um vinnulaun, vinnutíma og mönnun skipa (1958). Endurskoðun alþjóðasamþykktar nr. 9 um ráðningu sjómanna í skiprúm (1920). Endurskoðun hluta af samþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum (1976).

e.     Félagsmálasáttmáli Evrópu.
    
Með erindisbréfi félagsmálaráðherra, dags. 5. maí 1988, var ILO-nefndinni falið að fjalla um framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu. Mörg ákvæði í félagsmálasáttmálanum eiga sér hliðstæðu í samþykktum ILO. Það er því að ýmsu leyti hagkvæmt að sama nefndin fjalli um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu og alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

     Skýrsla um framkvæmd ákvæða sáttmálans.
    Í byrjun árs 1996 afgreiddi nefndin skýrslu um framkvæmd eftirtalinna greina sáttmálans:
         11. gr., um rétt til heilsuverndar.
         12. gr., um rétt til félagslegs öryggis.
         13. gr., um rétt til félagslegrar aðstoðar og læknishjálpar.
         14. gr., um rétt til að njóta góðs af félagslegri velferðarþjónustu.
         18. gr., um rétt til að stunda arðbært starf í landi annars samningsaðila.

     Athugasemdir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmálans.
    Í byrjun febrúar bárust félagsmálaráðuneytinu athugasemdir sem nefnd óháðra sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins gerir við framkvæmd Íslands á ákvæðum félagsmálasáttmála Evrópu á árunum 1991 og 1994 (European Social Charter: Committee of Independent Experts, Conclusions XIII-3). Í nóvember barst skýrsla sérfræðinganna um framkvæmd Íslands á nokkrum greinum sem fyrst og fremst fjalla um félagslega aðstoð og heilbrigðis og tryggingarmál (European Social Charter: Committee of Independent Experts, Conclusions XIII-4). Nefndin fór yfir athugasemdir sérfræðinganna. Gerð verður grein fyrir athugasemdunum í viðauka við skýrslu félagsmálaráðherra um 85. Alþjóðavinnumálaþingið sem kemur út í byrjun næsta árs.
Neðanmálsgrein: 1
    Hér er um að ræða niðurstöðu nefndar ILO um félagafrelsi í kærumáli ASÍ vegna setningar laga nr. 15/ 1993, um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi. Niðurstöður nefndarinnar eru birtar í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um 82. Alþjóðavinnumálaþingið, bls. 45–55. Félagsmálaráðuneytið í maí 1996.
Neðanmálsgrein: 2
    Setu- og atkvæðisrétt á Alþjóðavinnumálaþinginu eiga fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Í því skyni að jafna áhrif þessara þriggja hópa eru greidd atkvæði margfölduð með ákveðnum stuðli sem tekur mið af fjölda fulltrúa hvers hóps um sig á þinginu eða í hlutaðeigandi þingnefnd. Af þessari ástæðu virðast atkvæðatölur vera í litlu samræmi við fjölda þingfulltrúa.