Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1248, 121. löggjafarþing 364. mál: stofnun Vilhjálms Stefánssonar.
Lög nr. 81 26. maí 1997.

Lög um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða.


1. gr.

     Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.
     Stofnunin er samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða hér á landi og er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði.
     Stofnunin hefur aðsetur á Akureyri.

2. gr.

     Stofnun Vilhjálms Stefánssonar skal leitast við að ná markmiðum sínum með því að:
  1. safna og miðla upplýsingum um málefni norðurslóða,
  2. stuðla að því að umhverfisrannsóknir á norðurslóðum séu samræmdar og gera tillögur um forgangsröð þeirra,
  3. miðla fræðslu um málefni norðurslóða til skóla og almennings,
  4. vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða, einkum umhverfisvernd og sjálfbæra þróun,
  5. annast samstarf við sambærilegar stofnanir erlendis, t.d. um rekstur fjölþjóðlegra verkefna,
  6. skapa aðstöðu fyrir fræðimenn sem stunda rannsóknarstörf á fræðasviði stofnunarinnar og
  7. sinna öðrum verkefnum samkvæmt ákvörðun ráðherra.


3. gr.

     Umhverfisráðherra skipar Stofnun Vilhjálms Stefánssonar þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn.
     Formaður samvinnunefndar um málefni norðurslóða, sbr. 5. gr., skal vera formaður stjórnar, en einn skal tilnefndur af samvinnunefndinni og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Stjórnin fjallar um stefnu og starfsáætlanir stofnunarinnar.

4. gr.

     Umhverfisráðherra skipar forstöðumann Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Forstöðumaður skal hafa háskólamenntun og hafa stundað rannsóknir sem tengjast fræðisviði stofnunarinnar.
     Forstöðumaður fer með daglega stjórn stofnunarinnar og hefur umsjón með rekstri hennar. Hann skal í samráði við stjórn annast stefnumótun og áætlanagerð og hafa umsjón með fjáröflun.
     Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn.

5. gr.

     Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um málefni norðurslóða til fjögurra ára í senn. Í nefndinni skulu eiga sæti aðilar tilnefndir af stofnunum og samtökum sem hafa með höndum verkefni er tengjast norðurslóðarannsóknum. Um fjölda nefndarmanna og samsetningu fer samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Umhverfisráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar.
     Hlutverk nefndarinnar er að leitast við að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og málefni stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

6. gr.

     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum samvinnunefndar um málefni norðurslóða, sett reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.