Ferill 467. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 467 . mál.


1330. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um opinberar framkvæmdir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur verið farið út í opinberar framkvæmdir á vegum ríkisins þar sem ekki hafa legið fyrir áætlanir um hvenær viðkomandi fjárfestingar yrðu teknar í notkun?
    Ef svo er, um hvaða framkvæmdir er að ræða, hvenær hófust þær, hve mikið hefur þegar verið fjárfest, hver er áætluð heildarfjárfesting og hver er áætlaður árlegur rekstrarkostnaður eftir að framkvæmdum er lokið?
    Svar óskast miðað við framkvæmdir þar sem áætlaður heildarkostnaður er meiri en 100 millj. kr. á verðlagi ársins 1997.


    Fjármálaráðuneytið hefur í samvinnu við Framkvæmdasýslu ríkisins, ráðuneyti og byggingarnefndir tekið saman yfirlit um opinberar framkvæmdir sem ráðist hefur verið í eftir 1988 þar sem áætlaður heildarkostnaður er meiri en 100 m.kr. Ástæða þess að árið 1988 er valið í þessu svari er að ómælda vinnu hefði kostað að finna áfallinn kostnað vegna verka sem hafin voru fyrir þann tíma.
    Yfirlit þetta er meðfylgjandi. Þar kemur fram um hvaða verk er að ræða og raunkostnaður vegna þess á verðlagi í maí 1997. Enn fremur kemur þar fram áætlaður kostnaður á verðlagi í maí 1997, áætlaður verktími og raunverulegur verktími þar sem þessar upplýsingar liggja fyrir.
    Í langflestum tilfellum liggur fyrir hvenær taka á viðkomandi mannvirki í notkun og í mjög mörgum þeirra, eins og hjá menntamálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, er það ákveðið með samningum við sveitarfélög. Nokkur þessara verkefna eru viðhaldsverkefni og er mannvirki þá yfirleitt í notkun meðan á framkvæmdinni stendur.
    Ekki eru handbærar upplýsingar um árlegan rekstrarkostnað þegar framkvæmdum er lokið og er illmögulegt að áætla hann.

Graphic file . with height 445 p and width 395 p Center aligned