Endurgreiðsla sérfræðikostnaðar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:43:17 (3014)

1998-01-27 13:43:17# 122. lþ. 52.1 fundur 164#B endurgreiðsla sérfræðikostnaðar# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég ítreka spurningu mína til ráðherrans. Hún svaraði ekki spurningu minni um hvort hugmyndir séu uppi um að auka hlutdeild sjúklinga í lækniskostnaði. Eins og ég nefndi hér áðan vísa ég til fréttar þess efnis í DV.

Það er mjög ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra hefur breytt um skoðun frá því fyrir nokkrum vikum þegar hún lagðist gegn því að lögum yrði breytt. Ég mótmæli hins vegar því sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra með að sjúklingar fái ekki endurgreidda reikninga frá sérfræðingum sem ekki nást samningar við. Ég tel að það sé brot á lögum um réttindi sjúklinga. Það er einnig brot á stjórnarskránni þar sem kveðið er á um að öllum sem þurfa skuli í lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika. Þetta brýtur í bága við lög um réttindi sjúklinga sem kveða á um að óheimilt sé að mismuna sjúklingum vegna efnahags. Ég tel því að hæstv. ráðherra þurfi að endurskoða þá afstöðu sína að sjúklingar sem leitað hafa til sérfræðinga sem ekki nást samningar við skuli ekki fá neina endurgreiðslu. Ég ítreka sérstaklega spurningu mína til ráðherra: Er fyrirhugað að auka hlutdeild sjúklinga í lækniskostnaði?