Kjaradeila sérfræðinga sem starfa utan sjúkrahúsa

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 13:51:50 (3022)

1998-01-27 13:51:50# 122. lþ. 52.1 fundur 165#B kjaradeila sérfræðinga sem starfa utan sjúkrahúsa# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[13:51]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það kerfi þar sem sérfræðilæknar búa um sig hver í sínu virki og senda þaðan reikninga á almannatryggingar hefur verið að þróast hér á landi á undanförnum árum á sama tíma og dreginn hefur verið máttur úr sjúkrahúsunum í landinu með óraunhæfum sparnaðaraðgerðum. Það hefur sýnt sig erlendis þar sem slíkt kerfi hefur fengið að blómstra að það leiddi til mun hærri útgjalda hins opinbera til heilbrigðisþjónustu en þar sem sjúkrahús hafa markvisst verið byggð upp með fullkomnum göngudeildum þar sem vel launaðir sérfræðingar gera sams konar aðgerðir og eru gerðar á einkastofum úti í bæ. Benda má á reynslu Svía í þessu sambandi. Þeir hafa hörfað aftur út úr einkastofukerfinu því það reyndist samfélaginu of dýrt. Það er von mín að menn nái áttum í þessu máli og snúi sér frá þessu kerfi í þeim mæli sem viðgengst hér á landi.