Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 14:40:19 (3051)

1998-01-27 14:40:19# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[14:40]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. menntmrh. og einnig er getið um í greinargerð frv. er hér um styttingu og einföldun á lögum um þjóðleikhús að ræða. Þau verða síðan felld út og verða hluti af leiklistarlögum. Sömuleiðis er um ákveðna einföldun, en þó einnig margvíslegar tæknilegar breytingar að ræða hvað varðar núgildandi leiklistarlög sem einnig verða felld út þannig að ef þetta frv. verður að lögum þá munu ein lög gilda um alla leiklist í landinu.

Að mörgu leyti er frv. til bóta hvað varðar tæknilegar útfærslur en við hljótum hins vegar að spyrja um pólitíkina í því. Hvaða breytingar eru það sem boðaðar eru miðað við það ástand sem nú er og af hverju taka þær mið?

Ég hlýt að horfa á þetta frv. m.a. með tilliti til þess hvort menningu úti á landi sé gert jafnhátt undir höfði og því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslu sem Félagsvísindastofnun Háskólans vann um ástæður flutninga fólks úr dreifbýli í þéttbýli og úr smærra þéttbýli í stærra, ekki síst hingað á höfuðborgarsvæðið, kemur fram að það sem fólk horfir ekki hvað síst til eru möguleikar til menningar og afþreyingar. Við hljótum því að horfa til þess hvernig hægt sé að styrkja þessa þætti á landsbyggðinni.

Ef við lítum hins vegar til frv. til leiklistarlaga og horfum á þær breytingar sem munu eiga sér stað, þá sjáum við að Leikfélag Akureyrar sem í gildandi leiklistarlögum á að fá ríkisstyrk, er komið út, þ.e. í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir slíkum styrk. Um langt árabil hefur verið þríhliða samkomulag milli Akureyrarbæjar, ríkisins og leikfélagsins um þennan styrk enda má segja að Leikfélag Akureyrar sé sannkallað landshlutaleikhús, eina atvinnuleikhúsið utan höfuðborgarsvæðisins. Ég velti því fyrir mér af hverju þetta ákvæði er tekið út einmitt nú þegar menn þykjast þó gera sér betur grein fyrir því hvers landsbyggðin þarf við. Í greinargerð frv. kemur reyndar fram að mig minnir, a.m.k. er það staðreynd mála, að í gangi er reynsluverkefni Akureyrarbæjar og ríkisins um menningarmál, og leikhúsið er hluti af því reynsluverkefni. Því reynsluverkefni er hins vegar lokið árið 1999 og mér finnst satt að segja, herra forseti, mikil veiking á starfsemi þessa eina landshlutaleikhúss utan höfuðborgarsvæðisins, eina atvinnuleikhússins, að þess skuli ekki getið heldur skuli það rétt eins og önnur atvinnu- eða áhugaleikhús fellt undir almenn ákvæði frv. Við þetta hlýt ég að gera athugasemd og ég mun beita mér fyrir því að á þessu verði breyting á vettvangi hv. menntmn.

Í umfjöllun um Þjóðleikhúsið í frv. kemur fram að það á að vera, rétt eins og segir í gildandi lögum um Þjóðleikhúsið, leikhúslífi á Íslandi til styrkar á ýmsan hátt eins og þar er talið upp. Ég vil að það komi fram, herra forseti, að landshlutaleikhúsið fyrir norðan hefur með nákvæmlega sama hætti verið leikhúslífi á landsbyggðinni, ekki síst á Norðurlandi, til mikillar styrktar. Þannig að með því að veikja það leikhús á einhvern hátt, þá eru menn að veikja leikhúslíf á öllu svæðinu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. og hæstv. menntmrh. hafi veitt því athygli hversu öflugt leikhúslíf er á Norðurlandi og ég get fullyrt að svo er ekki síst vegna þess að leikhúsin á svæðinu hafa notið góðs varðandi ýmiss konar stuðning og faglega aðstoð af leikfélaginu á Akureyri, þessu eina atvinnuleikhúsi sem er á landsbyggðinni.

[14:45]

Herra forseti. Ég ákvað að hefja mál mitt á umfjöllun um þetta vegna þess að þetta er stórt atriði sem stingur í augu þegar maður les frv. til nýrra leiklistarlaga og horfir á það sem er að gerast og ekki síst vegna þess að skýrslan sem ég gat um í upphafi míns máls segir okkur að ef við viljum beita okkur til að treysta byggð úti um allt land, þá verðum við að horfa til menningarinnar fyrst og fremst. Þar vill fólk hafa fjölbreytni og aðgang, þar vill fólk eiga möguleika. Þess vegna, herra forseti, er svo mikilvægt að leiklistin úti á landi sé styrkt, engu síður en annað menningarlíf.

Eins og við gerum einlægt í umræðu um ýmis mál hér á hv. Alþingi hljótum við að líta til þess hvernig hin Norðurlöndin hafa þessi mál. Á hinum Norðurlöndunum eru starfrækt svokölluð landshlutaleikhús sem fá opinbera styrki. Þar er líka hluti af skyldum sumra þjóðleikhúsanna að starfa á landsbyggðinni. Í ágætri skýrslu frá í desember, um samkeppnisstöðu frjálsra leikhópa gagnvart opinberu leikhúsunum, kemur m.a. fram að sænska Ríkisleikhúsið er farandleikhús. Hlutverk þess er að setja upp leikverk í samvinnu við aðra og á eigin vegum á landsvísu. Ég held, herra forseti, að við þurfum að huga betur að þessum málum heldur en mér virðist gert í því frv. sem hér er til umfjöllunar.

Ég vil hins vegar beina nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh. um efni þessa frv. Hér er ýmislegt sem ég held að væri gott að kæmi fram strax við 1. umr. vegna þeirrar vinnu sem á eftir að fara fram þegar frv. fer í nefnd.

Í fyrsta lagi varðandi markmið laganna. Í 1. gr. stendur að markmiðið sé að efla íslenska leiklist og aðrar sviðslistir og búa þeim hagstæð skilyrði. Ég vil gjarnan að hæstv. menntmrh. segi hvað þetta merkir. Er hér fyrst og fremst um frómar óskir að ræða eða getur hæstv. menntmrh. bent á eitthvað í frv., og hefur það þá farið fram hjá mér, sem vísar til þess að verið sé að búa leiklistinni í landinu hagstæðari skilyrði en verið hafa? Ég hef þegar rakið þau skilyrði sem eina atvinnuleikhúsinu á landsbyggðingi verða búin ef þetta frv. nær fram að ganga. Það er sett á sama bekk og önnur leikhús en Þjóðleikhúsið. Hvað er það hér sem ekki er í gömlu lögunum sem vísar til þess að þetta frv. komi til með að efla íslenska leiklist eða búa leiklistinni hagstæðari skilyrði? --- eins og segir í 1. gr.

Í öðru lagi er í 7. gr. fjallað um þjóðleikhúsráð. Fróðlegt væri að fá að vita af hverju sérlegir fulltrúar ráðherrans, meiri hluti nefndarinnar, eiga að víkja úr sæti eða hætta í ráðinu þegar viðkomandi ráðherra hættir. Ber að líta svo á að þeir þrír, meiri hluti þjóðleikhúsráðs, séu fulltrúar þeirrar persónu sem skipar embætti ráðherra? Verður það skylda þeirra að framfylgja stefnu þessarar persónu? Af hverju á gildistími setu þessara þriggja manna að fylgja gildistíma viðkomandi ráðherra? Ég skil ekki tilganginn með því. Ég get vel skilið að viðkomandi stjórnvöld, þ.e. meiri hluti á Alþingi á hverjum tíma telji sig hafa rétt til áhrifa í krafti meiri hluta síns en að meiri hluti ráðsins skuli fylgja persónu viðkomandi ráðherra, það skil ég ekki og óska eftir að fá útskýrt af hverju þetta lag er haft á hlutunum.

Í þriðja lagi kemur í 16. gr. fram að ráðherra verði heimilt, verði frv. að lögum, að gera tímabundinn samning við rekstraraðila atvinnuleikhúss og hlutaðeigandi sveitarfélög um fjárstuðning við leikhúsið. Ég velti því fyrir mér ástæðu þess að þetta er sett í 16. gr. Hæstv. ráðherra hefur almenna heimild samkvæmt fjárreiðulögunum til að gera samning af þessu tagi. Hann hefur nýtt þá heimild eins og fram kom í umræðum fyrir jól þegar hann gerði samning við Verslunarháskólann. Af hverju er þessi árétting inni í lögunum? Hefur hún einhvern ákveðinn tilgang? Er ráðherrann með ákveðið mál í huga eða er hann einungis að treysta heimildir sínar? Þetta vildi ég gjarnan fá fram hér strax við 1. umr., herra forseti.