Leiklistarlög

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:37:26 (3058)

1998-01-27 15:37:26# 122. lþ. 52.2 fundur 356. mál: #A leiklistarlög# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir ágæt svör hér áðan en ég vildi gjarnan koma að því sem fram hefur komið í umræðunni. Ráðherra gat þess að í lögum okkar hefði hugtakið landshlutaleikhús ekki verið til staðar og því ekkert nýtt að nefna það ekki í þessu frv. En það er nákvæmlega það, herra forseti, sem ég var að gagnrýna. Í gildandi leiklistarlögum er ákvæði um stuðning við Leikfélag Akureyrar. Það má segja að í því sé einmitt vísir að landshlutaleikhúsi. Það hefði verið eðlileg þróun að nota hugtakið landshlutaleikhús í þessu frv., bæði í ljósi þeirrar reynslu og þróunar sem verið hefur en einnig þeirrar skýrslu sem ég gat um í ræðu minni. Hvort tveggja segir okkur hvað það er sem landsbyggðarfólk vill gjarnan sjá í heimahéraði, þ.e. fjölbreytni í menningu og afþreyingu.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir vísaði í 16. gr. og taldi ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af leikhúsi Akureyringa vegna þess að þar væri heimild til að semja. En ég vek athygli á því að þar er einungis talað um tímabundna samninga. Ráðherrann svaraði ekki fyrirspurn minni um þetta efni en ég ímynda mér að um sé að ræða svipaða samninga og gerðir hafa verið við tvö atvinnuleikhús hér á höfuðborgarsvæðinu og eru mjög svo af hinu góða, en ég hlýt að vekja athygli á því að tímabundinn samningur er ekki fullnægjandi fyrir atvinnuleikhús sem starfar eins og leikhúsið á Akureyri hefur gert. Eins og ég gat um áðan hefur leikhúsið á Akureyri sannarlega verið landshlutaleikhús og staðið fyllilega undir nafni hvað slíkt varðar.

Mér fannst það líka, herra forseti, alveg dásamlega reykvískt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur þegar hún sagði okkur frá því hvernig Þjóðleikhúsið hefði boðið leikhópum utan af landi að koma og setja upp verk í Þjóðleikhúsinu. Ég veit að það þykir eftirsóknarverður heiður að fá slíkt boð. En hún sagði okkur líka að svo dýrt væri að fara með leikrit frá Þjóðleikhúsinu út á land að það væri vart gerlegt.

Herra forseti. Svo dásamlega reykvískt sagði ég vegna þess að það einhvern veginn virðist, horft héðan úr Kvosinni í Reykjavík, vera svo miklu ódýrara að koma utan af landi heldur en fara út á landi. Það virðist eiga við um leikhúsin eins og ýmislegt fleira. Ég minnist þess hins vegar í gamla daga þegar ég var lítil stelpa norður á Dalvík að þá sá ég leikrit bæði frá Leikfélagi Reykjavíkur og Þjóðleikhúsinu á hverju einasta sumri að því er mig minnir. Þá fóru leikhúsin út á land og léku í litlu leikhúsunum um landið allt. Langar biðraðir mynduðust ef það var uppihald í síldinni og menn fóru í leikhús. Og þar fékk ég sem barn, að sjá ýmis leikrit sem ég veit að mér hefði aldrei verið hleypt á hér suður í Reykjavík vegna þess að þau flokkuðust kannski frekar sem fullorðinsleikrit en barnaleikrit. En ég tel mig samt hafa haft bæði gagn og gaman af.

Þau sjónarmið sem mér finnst gæta í frv. og komu glögglega fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur eru sjónarmið sem ég vildi gjarnan vísa á bug í þessari umræðu.

Mér hefði fundist það eðlileg þróun að hugtakið landshlutaleikhús kæmi inn í þetta frv. Mér hefði fundist eðlilegt að leikhúsið á Akureyri fengi þann sess sem því ber. Forráðamenn þess og ýmsir forkólfar í menningarlífi fyrir norðan hafa lengi barist fyrir því að leikhúsið fengi traustari grundvöll og litið yrði á það sem alvöruatvinnuleikhús sem fengi ríkisstyrk. Menn hafa beðið þess að litið yrði á það sem alvörulandshlutaleikhús sem væri hægt að gera slíkar kröfur til sem vissulega eru gerðar.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi spurði um hvað ætti að felast í stuðninginum sem fjallað er um í frv. að Þjóðleikhúsið eigi að veita. Allir sem hafa einhver afskipti haft af leikhúsi út um landið vita að samskipti leikhúsanna hafa yfirleitt verið með ágætum. Bæði stóru leikhúsin hér í Reykjavík hafa verið tilbúin til að styðja við þá starfsemi sem fram fer úti á landi og menn hafa notið góðs af. En auðvitað skiptir það sköpum að hafa fagmennskuna í grenndinni, að hafa leikhús fyrir norðan, atvinnuleikhús með fagmönnum. Það mundi skipta sköpum fyrir Austfirði að þar væri stutt við bakið á leikhúsi sem gæti starfað af meiri fagmennsku og síðan smitað út frá sér, stutt önnur leikhús eða leikfélög á því svæði o.s.frv.

Ég held að það sé full ástæða, herra forseti, til að skoða þessi mál mun betur og horfa á þau utan af landi en ekki aðeins héðan frá Reykjavík. Það vill verða einhliða og þó í raun sé það kannski orðin hin viðurkennda sýn. Einstaka sinnum hefur mér samt virst að hér væru teknar rokur, ekki bara af stjórnarandstæðingum heldur af stjórnarliði einnig, vegna þeirrar þróunar sem menn sjá fyrir sér. Kannski vegna þess að sýnin er orðin svo einhliða. Ég held að það sé mikilvægt verkefni að reyna að horfa á hlutina frá öðrum sjónarhól. Ég held að sá sjónarhóll sem lengst af hefur verið notaður hafi einfaldlega ekki dugað og það á við um leikhús og menningarlíf rétt eins og svo margt annað. Ég vænti þess að hv. menntmn. horfi á frv. út frá því að það sé eðlilegt að til séu alvörulandshlutaleikhús sem starfi með stuðningi ríkisins úti á landi en leikhús eins og leikhúsið á Akureyri verði ekki sett á sama stað og þeir atvinnuleikhópar sem starfandi eru hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem Þjóðleikhúsið er starfandi.