Nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 15:57:40 (3066)

1998-01-27 15:57:40# 122. lþ. 52.4 fundur 110. mál: #A nýbygging fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[15:57]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingmáli sem er till. til þál. um nýbyggingu fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu. Það er 110. mál þessa þings og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa tillöguna:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að nýbyggingu fyrir Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu. Hið fyrsta verði á vegum menntamálaráðuneytisins skipuð byggingarnefnd fyrir skólann til að velja honum stað í Hornafirði og hafa forgöngu um hönnun bygginga. Stefnt verði að því að nýr áfangi skólahúss verði tekinn í gagnið við upphaf skólaárs haustið 2000.``

Þessari tillögu fylgir greinargerð til rökstuðnings þessu máli og ég ætla að vitna til nokkurra þátta er hana varða en vil segja í upphafi að hér er um að ræða afar stórt mál bæði í mínum huga og í hugum fólks á suðausturlandi. Þessi skóli, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, sem stofnaður var vorið 1987, hefur starfað í áratug og vissulega aukist að þrótti á þessum tíma og fjöldi nemenda við skólann vaxið úr um 50 í upphafi í um 100 nemendur, fyrir utan yfir 100 starfsnámsnemendur sem hafa tekið þátt í starfsnámi við skólann. Skólinn hefur fengið á þessu tímabili heimild til að útskrifa stúdenta og þótt þeir séu ekki margir hefur hann vaxið af reynslu við það viðfangsefni. Útskrifaðir hafa verið 5--10 stúdentar árlega, í upphafi undir forræði eða í samstarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum.

[16:00]

Afar mikil samstaða er um það í Héraði, í Hornafirði og nágrenni, að um sé að ræða eitt allra stærsta mál þessa landshluta. Ég held að óhætt sé að segja að fyrir utan undirstöður atvinnulífs sé ekkert atriði jafnríkt í huga fólks á þessu svæði og að unnt verði að renna traustum stoðum undir framhaldsskóla á svæðinu, óháð því hvar menn standa í stjórnmálaflokki eða staddir eru í tilverunni að öðru leyti. Forsenda fyrir því er að aðstæður skólans verði betri en nú eru en skólinn starfar við afar þröngan kost hvað snertir húsnæði.

Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni starfar skólinn við bráðabirgðaaðstæður þar sem hann hóf störf í Nesjaskóla við upphaf síns starfs. Þar hefur verið að þrengjast um eftir því sem nemendum hefur fjölgað. Á hvern nemanda koma aðeins 6 m2 í skólahúsnæði. Ég held að öllum sé ljóst sem heimsækja skólann og átta sig á við hvaða aðstæður menn starfa að úrbætur í húsnæðismálum skólans eru knýjandi og mega ekki bíða. Ljóst er að skólinn er farinn að líða og hefur liðið fyrir það á undanförnum árum að búa við þann þrönga ramma sem honum er sniðinn hvað snertir húsnæðismálin og e.t.v. aðra þætti sem varða fjárveitingar til skólans þó ég vilji ekki ræða það eða taka upp sérstaklega. Horfið var frá því að skera niður í þeim mæli sem tillögur voru um hvað snerti rekstrarfé til skólans fyrir nokkru og vel ráðið að ekki var orðið við því.

Samkvæmt því sem stendur í greinargerð er eðlilegt að Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu verði alhliða miðstöð framhaldsmenntunar á Suðausturlandi í góðri samvinnu við aðra framhaldsskóla í kjördæminu. Fyrir liggur samkomulag um samstarf framhaldsskólanna á Austurlandi, gert að frumkvæði hæstv. menntmrh., undirbúið og undirritað þann 5. nóv. sl. Það var ágætur gjörningur og í raun frumraun í slíku samstarfi framhaldsskóla á svo stóru landsvæði sem Austurland er og talsverðar vonir bundnar við að það verði til þess að bæta stöðu nemenda, sem er meginmál, að nemendur fái aðgang að fjölbreyttu námi sem næst heimabyggð, og einnig að nýta fjármuni sem best í sambandi við framhaldsskólastigið á svæðinu. Að þessu er vikið í samstarfssamningnum og einstökum liðum er varða praktískt samstarf skólanna til að ná þessu markmiði. Nokkur fjárveiting er veitt til þessa eða um 2 millj. kr. árlega til að vinna að framkvæmd þessa samstarfs, sem er rekið sem tilraunaverkefni til þriggja ára með árlegu framlagi. Í krafti þess hefur verið ráðinn sérstakur framkvæmda- eða verkefnisstjóri í hlutastarfi sem vinnur að þessum tengslum og að framkvæmd þess sem í samstarfssamningnum er kveðið á um. Þetta er mikilvægur þáttur og tengist með vissum hætti því máli sem hér er um að ræða, þ.e. að tryggt verði að litið verði nokkuð vítt um sviðið þegar ákvarðanir eru teknar varðandi þróun þessa skóla sérstaklega og nýbyggingar fyrir hann sem hér er lögð áhersla á.

Það liggur fyrir og er tíundað í greinargerð með þessu máli að tiltölulega lágt hlutfall fólks, eða aðeins 40% íbúa á aðsóknarsvæði skólans á aldrinum 15--19 ára, stundar þar framhaldsnám. Þetta hlutfall er á landinu í heild 70--80%. Það er því trúlegt að ófullkomnar aðstæður skólans og ófullnægjandi aðbúnaður eigi þátt í hinu lága hlutfalli og nauðsynlega þarf að gera skólanum kleift að breikka sínar undirstöður og að rækta sem best tengslin við það atvinnulíf sem stundað er í héraðinu þannig að um gagnkvæman hag verði að ræða og eflingu skólastarfsins, m.a. á þeim grunni sem starfað er á þessu landsvæði.

Breytingar hafa orðið á þessu svæði í sambandi við starfsemi sveitarfélaga á svæðinu á undanförnum árum og nú síðast alveg nýlega. Sveitarfélög hafa sameinast. Sveitarfélagið Hornafjörður varð til við sameiningu þriggja sveitarfélaga við Hornafjörð fyrir fáum árum eða 1994. Og nýlega gerðist það í almennri atkvæðagreiðslu að þrjú sveitarfélög til viðbótar ákváðu að sameinast sveitarfélaginu Hornafirði og þá verða öll sveitarfélög í því sem áður var Austur-Skaftafellssýsla orðin eitt sveitarfélag. Það styrkir auðvitað undirstöður þó að ágætt samstarf hafi verið um málefni Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, eins og hann heitir, alla tíð óháð því að sveitarfélögin voru aðgreind. Hornafjörður hefur verið reynslusveitarfélag og ágætur árangur fengist að mati heimamanna á ýmsum sviðum að því er varðar það efni. Ég tel að heima fyrir sé prýðilega staðið að málum sem varða samrekstur ríkis og sveitarfélaga og óhætt að treysta fólki þar fyrir verulegum hlut í þessum efnum og afskaplega brýnt að rétta því hönd til að styrkja undirstöðu framhaldsmenntunar á svæðinu og færast í fang það sem eru óskir manna, þ.e. að bæta stöðu skólans með nýbyggingu og nýjum ákvörðunum varðandi hann í tengslum við það.

Tillagan gerir ráð fyrir því að sett verði á fót sérstök byggingarnefnd fyrir skólann. Eins og fram kemur í tillögutextanum er eitt af verkefnum hennar að velja skólanum stað í byggðarlaginu og gera tillögur til ráðuneytis og annarra sem málið varðar um þróun skólans sem forsendur fyrir þeim byggingum sem þyrftu að rísa og yrðu væntanlega áfangaskiptar eins og vikið er að í tillögutextanum.

Ég vil nefna að ég tel mig hafa nokkra reynslu af því að starfa að undirbúningi skólastarfs sem þessa. Ég var í allnokkur ár, líklega í ein sex ár áður en ég kom hér inn á Alþingi, í forustu fyrir byggingarnefnd menntaskóla á Egilsstöðum. Sú skólastofnun var reist alveg frá grunni þar sem engin aðstaða var fyrir til skólahalds. Að því máli var unnið ekki aðeins út frá staðarforsendum heldur í samvinnu við menntmrn. Tengiliður þar var forstöðumaður byggingardeildar ráðuneytisins á þeim tíma, Indriði H. Þorláksson, sem ég og byggingarnefndin að öðru leyti áttum ágætt samstarf við um forsendur fyrir byggingu menntaskóla á Egilsstöðum og þróun þess skóla. En jafnframt var tekið á samstarfi um verkmenntun á svæðinu og ákvarðanir teknar þá þegar um að styrkja iðnmenntun annars staðar, þ.e. í Neskaupstað þar sem Iðnskóli Austurlands hafði verið ákveðinn, sem síðan þróaðist í Verkmenntaskóla Austurlands á þeim stað, sem er einn þriggja framhaldsskóla á svæðinu.

Á þessum tíma, 1973--1974, var tekið fram í fyrstu skýrslu sem byggingarnefnd menntaskólans lét frá sér fara, að á Hornafirði þyrfti að huga að þriðja framhaldsskólanum áður en langt um liði og jafnframt vakin athygli á því að tengja þyrfti með einhverjum hætti Alþýðuskólann á Eiðum eða taka á málefnum hans í tengslum við þessi efni. Þetta nefni ég til þess að benda á að langt er síðan að við blasti að þarna þyrfti að sinna þörfum framhaldsmenntunar á þessu svæði og varð það að ráði með vilja og stuðningi menntmrn. fyrir tíu árum.

Nú þarf að fylkja liði um nýjan þátt í þessu og ég treysti því að núverandi stjórnvöld og hæstv. menntmrh. veiti þessu máli verðugan stuðning. Ég er fullviss um að til hans hafa borist erindi heiman að sem varða málið. Ég held að skipun byggingarnefndar fyrir nýbyggingu við framhaldsskólann væri farsælt skref, og þegar ég tala um byggingarnefnd þá hef ég í huga að slík nefnd þyrfti auðvitað að hyggja að innviðum náms sem þarna þarf að fara fram ekki síður en steinsteypu eða því sem varðar hinn efnislega ramma. Það er fátt, virðulegur forseti, sem getur orðið betur að liði í sambandi við þróun byggðar á Íslandi og til að styrkja þá varnarbaráttu sem fram fer víða um landið en að efla undirstöðu menntunar, auðvitað grunnmenntunar en einnig á framhaldsskóla- og háskólastigi. Því er það mjög eðlilegt og raunar mjög ánægjulegt hversu ríka áherslu Hornfirðingar og nágrannar leggja á úrbætur fyrir þessa stofnun og hversu ríkur skilningur er einmitt á þeim þætti. Ég vænti þess að hann verði einnig frá ríkisvaldinu sem ræður ferðinni í þessum efnum og á Alþingi sem fjárveitingavaldi.