Agi í skólum landsins

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:40:36 (3072)

1998-01-27 16:40:36# 122. lþ. 52.5 fundur 186. mál: #A agi í skólum landsins# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:40]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Þess eru dæmi að fyrstu hljóð sem börn á Íslandi mynda séu ískur, ýlfur og ýmislegt sem kemur beint af vídeóspólunum eða úr sjónvarpinu, vegna þess að það er svo létt að setja litlu skinnin í barnastólana fyrir framan sjónvarpið, kveikja á, spenna þau í barnastólana. Þetta er ekki bara í Bandaríkjunum, Svíþjóð eða einhvers staðar annars staðar, heldur á Íslandi. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál. Þau mynda ekki hljóð eins og mama og baba og þessi fyrstu orð sem börn læra að segja. Þetta er engum öðrum en foreldrunum að kenna. Auðvitað er þetta ekki algilt. Fjölmargir foreldrar passa vel upp á það að kenna börnum sínum og ala þau vel upp en þetta er engu að síður hræðileg dæmi sem ég er hér að nefna. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að ræða þetta í þingsölum. Agaleysi er ákveðið samfélagslegt vandamál á Íslandi sem birtist okkur í mjög mörgum myndum í þjóðfélaginu. Við sjáum það í umferðinni, við sjáum að menn eru mjög tillitslausir t.d. í umferð í höfuðborginni. Það er strax skárri umferð þegar komið er út á landsbyggðina. Við getum borið saman Akureyri annars vegar og Reykjavík hins vegar. Það er eins og dagur og nótt og við finnum þetta líka þegar við erum í erlendum borgum hve miklu meira tillit er tekið til vegfarenda, hvort sem menn eru gangandi, hjólandi eða akandi og agaleysið birtist okkur svona í mýmörgum myndum. Við sjáum líka agaleysi á götum borgarinnar þegar skyggja tekur og menn eru vart óhultir um helgar, t.d. í Austurstrætinu, og nánast um hverja einustu helgi er ráðist að fólki. Við sjáum þetta líka í ránum og ránstilraunum sem gerðar eru vítt og breitt þannig að það er full ástæða til að ræða málið og reyna að finna viðhlítandi lausnir þótt léttara að tala um þessi mál úr ræðustóli en að finna einhverjar patentlausnir í þessum efnum.

Það er staðreynd, ég þekki það sem fyrrverandi kennari, að börn vilja aga og ákveðnar reglur. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að við erum alls ekkert að tala um einhvern heraga eða járnaga. Ég er mjög mótfallinn slíku en ungt fólk vill að ákveðnar reglur gildi sem farið er eftir í þjóðfélaginu. Ég hef einnig starfað sem starfsmannstjóri í stóru fyrirtæki og það er nákvæmlega sama með hina fullorðnu. Fullorðnir vilja hafa ákveðnar reglur til að fara eftir og við þurfum að stýra þjóðfélagi okkar út á þessar brautir. Ég held við getum hugsanlega gert þetta með samstarfi, t.d. samstarfi leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, íþróttahreyfingarinnar, framhaldsskólanna og foreldra því að foreldrar eru alltaf lykilfólkið í þessum efnum.

Ég átti þess kost rétt fyrir jólin að fara inn í húsnæði í Kópavogi sem heitir Krossinn þar sem reknar eru Krossgötur. Þar gekk ég um með ágætum forstöðumanni sem sýndi mér húsnæðið og þá starfsemi sem þar er. Ég sá þar ungan strák á krossgötum, líklega 17--18 ára gamlan, og hann ráfaði þar um herbergin og ég spurði: Hvað er að þessum unga manni? Hann hafði farið alheilbrigður og hraustur á útihátíð, Uxann ef ég man rétt, fyrir nokkrum árum og étið þrjár helsælupillur og soðið í sér heilann eins og forstöðumaðurinn kallaði það. Síðan ráfar þessi ungi maður þarna um í Krossinum og Krossgötum og á sér ekki viðreisnar von.

[16:45]

Auðvitað eru þetta átakanleg dæmi. Sjálfsagt getum við aldrei komið í veg fyrir svona lagað en það er jafnhræðilegt og það er jafnsorglegt að horfa upp á þetta. Það er líka jafnsorglegt að horfa upp á unglinga sem ekki hafa viðfangsefni við hæfi og hv. flm. þessarar þáltill., Hjálmar Árnason, nefndi hið mikilvæga starf íþróttahreyfingarinnar í þessum málum, hið mikla og góða starf íþróttahreyfingarinnar að uppeldismálum. Ég fagna tilkomu þessarar þáltill. Mjór er mikils vísir, segir einhvers staðar. Vonandi verður tillagan til þess að hjálpa til við að auka aga í samfélagi okkar.