Agi í skólum landsins

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:46:13 (3073)

1998-01-27 16:46:13# 122. lþ. 52.5 fundur 186. mál: #A agi í skólum landsins# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:46]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að þakka þessa tillögu sem flutt er af hv. þm. Framsfl., Hjálmari Árnasyni, Guðna Ágústssyni og Ólafi Erni Haraldssyni. Ég tel reyndar ekki að þessi mál verði leyst með þáltill., þó samþykkt kynni að verða hér á þingi. En ég tel mjög þarft að færa umræðu um þetta mál sem er grunnvandamál í íslensku samfélagi, inn í þingsali þannig að það sé rætt af mikilli alvöru því ég tel að einmitt það sem þessi tillaga kemur inn á sé kannski meginvandamálið og það erfiðasta sem við eigum við að etja í íslensku samfélagi og hefur því miður ekki farið batnandi eins og maður vonaði þó fyrir nokkrum árum.

Þetta er mikið samfélagslegt vandamál. T.d. er talað mikið um að sumum börnum gangi ekki nógu vel þegar þau byrja í skóla, sérstaklega eigi drengir erfitt uppdráttar í grunnskóla. Ég get lýst því hér sem minni reynslu eftir áratuga kennslustarf að það eru fyrst og fremst þau börn sem hafa farið á mis við að vera öguð á heimilum sínum sem lenda í aðlögunarvandræðum í skóla. Og því miður vilja slík vandamál vinda upp á sig.

Ég held að það sé mjög erfitt að eiga við þetta mál og ég tel að þetta hafi að hluta til versnað á undanförnum árum vegna þess að við erum með færri börn á hverju heimili þannig að ekki er lögð eins mikil áhersla á að ala þau upp, kenna þeim að haga sér, eins og var áður þegar fleiri börn voru í fjölskyldu. Ég get vitnað í fyrirlestur sem ég fór á í desember hjá fjölskyldumálaráðherra Kína sem lýsti því að það væri vaxandi vandamál í Kína hve mikið agaleysi væri að koma upp í skólum. Hún sagði að þetta væri ranghverfan á eins barns kerfinu sem þeir væru búnir að koma á. Það væri látið svo mikið með þessi börn og það væri svo mikið af fullorðnu fólki í kringum þau að dást að þeim og mæla allt upp í þeim sem þau gerðu að þetta væri hreinlega að verða óviðráðanlegt vandamál og kínverska ríkisstjórnin er farin af stað með starf út um allt land þar sem eru eins konar uppeldisskólar sem ungir foreldrar geta sótt og fengið leiðsögn í hvernig þeir eigi að aga börnin sín þannig að þau verði ánægðir, hamingjusamir og nýtir þjóðfélagsþegnar. Við eigum því auðvitað ekki ein í þessu vandamáli en þó hefur maður á tilfinningunni að þetta sé frekar slæmt á Íslandi miðað við það sem maður hefur séð annars staðar.

Ég er alls ekki að tala um að hér verði tekinn upp heragi og að börn megi ekki tala, t.d. við kennarann sinn þegar þau þurfa að tala við hann og slíkt heldur að þau viti hvenær þau mega tala og hvenær þau eiga að þegja þannig að þau séu ekki alltaf að verða fyrir skömmum og áreiti af því að þau kunna ekki að haga sér.

Ég veit að í íþróttahreyfingunni þar sem ég þekki til er þetta líka vandamál. Maður sem hefur fengist við þjálfun hefur sagt mér að hann hafi fengið nokkra efnilega unga menn til að æfa körfubolta sem hann gat hreinlega ekki notað af því ekki var hægt að kenna þeim þann aga sem þurfti að viðhafa til að leika eðlilegan leik. Og hann taldi að þetta vandamál færi versnandi.

Ég vildi aðallega þakka flutning þessarar tillögu og vona að í framhaldinu verði umræður um þetta mál og að reynt verði að leita lausna á þessu mikla þjóðfélagsvandamáli okkar Íslendinga og reyndar annarra.