Agi í skólum landsins

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 16:55:15 (3075)

1998-01-27 16:55:15# 122. lþ. 52.5 fundur 186. mál: #A agi í skólum landsins# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[16:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessum ágætu umræðum láta þá skoðun mína í ljós að að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að huga að aga meðal ungs fólks í þjóðfélagi okkar. Í einu fyrsta viðtalinu sem ég veitti sem menntmrh. lýsti ég því yfir að mjög mikilvægt væri einmitt að huga að aga í skólakerfinu. Síðan hef ég á fjölda funda lagt áherslu á, t.d. við endurskoðun námskár fyrir grunn- og framhaldsskóla, að þar ættu menn að hafa í huga þrjú orð: Markmið, árangur og aga. Því að menn ná ekki árangri í skólastarfi nema markmiðin séu skýr og nemendurnir beiti sjálfa sig aga og haldið sé uppi aga innan skólanna. Hins vegar verður að gæta að mörkunum, þ.e. hvenær er gengið of langt og hvenær fara menn að beita aga sem dregur úr sköpunarkrafti og því frelsi sem menn þurfa að hafa til þess að njóta sín.

Ég held að rannsóknir á íslenska skólakerfinu sýni og að það hafi komið í ljós t.d. í TIMSS-rannsókninni svokölluðu að þótt við næðum ekki sama árangri og ýmsar þjóðir í stærðfræði og raungreinum, þá glímum við ekki við sama vanda og þær þjóðir sem náðu einna bestum árangri á því sviði, sem lýsir sér í því að þar telja menn að auka þurfi sköpunarkraft nemendanna og ýta undir hugmyndaauðgi þeirra og frelsi og losa þá undan þeim aga sem leiddi til þess að þeir náðu þessum mikla árangri í TIMSS-könnuninni. Þar standa menn því frammi fyrir öðrum þáttum þegar þeir ræða um sitt skólastarf, þ.e. að þeir hafa með miklum aga náð mjög góðum árangri en velta því nú fyrir sér hvort nemendur sem koma út úr skólanum séu færir til þess að takast á við viðfangsefni daglegs lífs með því frjálsa hugarfari sem er nauðsynlegt til að ná þar verulegum árangri og njóta sín í daglegu lífi. Að þessu meðalhófi þurfum við að huga. En ég tel að við endurskoðun á námskránum sem er núna á fullri ferð, sé hugað að því að markmiðin verði skýrari í skólastarfi. Það kallar einnig á að menn þurfi að laga sig að þeim kröfum sem gerðar eru til þess að markmiðin náist og af því mun væntanlega leiða meiri agi og jákvæður agi frekar en að menn verði steyptir í sama mót eða settir undir járnhæl og eitthvert fyrirskipanakerfi sem sett sé á laggirnar.

Þetta vildi ég segja í þessum umræðum. Hv. menntmn. mun fjalla um tillöguna og ég vona að menn komist þar að sæmilegri sátt, hver sem hún verður. En ég er sammála því sem hér hefur komið fram, þ.e. að stuðla beri að því hugarfari sem knýr menn til sjálfsaga og að fylgja fram skólastefnu innan skólakerfisins sem byggir á aga til að ná árangri.

Það liggur einnig fyrir skýrsla á vegum menntmrn. um eflingu íþróttastarfs. Og fyrir liggja rannsóknir sem sýna að með því að efla þátttöku í íþróttum stuðla menn ekki aðeins að því að rækta líkama og sál heldur kemur í ljós að þeir sem stunda íþróttir ná betri árangri í námi og einnig er líklegt að þeir forðist frekar en hinir hættur sem felast í fíkniefnum og því sem óhollt er á því sviði. Ég tel því að það sé líka liður í því að stuðla að aga og virðingu fyrir því að ná árangri í þjóðfélaginu, að ýta undir almenna íþróttastarfsemi, hvetja ungt fólk til þátttöku í íþróttum og standa vel að íþróttahreyfingunni og stuðla að því að hún fái dafnað og nái þeim árangri sem að er stefnt.

Frv. til nýrra íþróttalaga verður væntanlega lagt fram aftur á Alþingi eins og rætt var um í fyrra og þá geta menn fjallað um íþróttamálefnin. Ég tel að á mörgum sviðum getum við sem löggjafarvald beitt okkur fyrir því að ná árangri í anda þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir en hitt kann að vera nauðsynlegt, ef nefndin og þingmenn álíta svo, að setja á laggirnar sérstaka nefnd til að fjalla um málið en það kemur í ljós eftir meðferð í nefndinni og þegar hún hefur kallað til og fengið þær umsagnir sem eðlilegt er að nefndin fái í málum sem þessum og eftir að hún hefur rætt það í sinn hóp.