Styrktarsjóður námsmanna

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 17:00:14 (3076)

1998-01-27 17:00:14# 122. lþ. 52.6 fundur 245. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[17:00]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um styrktarsjóð námsmanna. Flm. eru ásamt þeim er hér stendur hv. þm. Arnþrúður Karlsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Vilhjálmur Egilsson. Tillagan er svohljóðandi, herra forseti:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa stofnun styrktarsjóðs námsmanna í samstarfi við ríki, sveitarfélög, félagasamtök, vinnuveitendur, launþegasamtök og samtök námsfólks. Ráðherra leggi frumvarp þess efnis fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 1998.``

Segja má að tillagan hafi tvíþættan tilgang. Annars vegar að auka fé til menntamála, framlög til menntamála og um leið að auka hvatningu til efnilegs námsfólks og leiða saman hið opinbera og það sem í daglegu tali er kallað atvinnulífið, frjáls markaður eða hvað menn vilja kalla það. Hins vegar að tengja saman menntakerfið og atvinnulífið.

Segja má að hér hafi lengi verið plagsiður, og það hefur ítrekað komið fram í umræðum á hv. Alþingi, að þrátt fyrir fögur orð og fögur fyrirheit um að efla tengsl skóla og atvinnulífs hafi lítið orðið úr aðgerðum og efndum. Annað markmið tillögunnar, með því að fyrirtæki og atvinnulífið leggi fram fjármagn til þess að styrkja efnilegt námsfólk, er að tengja beint saman atvinnulíf og skóla. Ég tel, herra forseti, rétt að leggja áherslu á að á engan hátt er verið að ræða um, og er ekki markmið tillögunnar, að styrktarsjóðurinn komi í stað Lánasjóðs ísl. námsmanna heldur er hann þvert á móti hugsaður sem bein viðbót og verið er að ræða um styrktarsjóð námsmanna.

Það er þekkt umræða sem hefur átt sér stað um árabil að framlög hérlendis til menntamála, hvort heldur er frá hinu opinbera eða úr atvinnulífinu, eru með því lægsta sem þekkist innan ríkja OECD. Um það þarf ekki að deila, þær tölur liggja fyrir. Það er áhyggjuefni og það er einn tilgangur tillögunnar að auka fjárframlög til menntamála til þess að auka menntastig þjóðarinnar. Tilgangurinn með því að fjárfesta í menntun er að bæta menntastig þjóðar. Það er vegna þess að með því getum við eygt framfarir í gegnum gott menntakerfi. Það er uppspretta framfara, það er uppspretta bættra lífskjara, það er uppspretta bætts mannlífs og því er eðlilegt að líta á slík fjárframlög sem fjárfestingu.

Ég nefndi áðan og ítreka að sú gagnrýni hefur lengi komið fram og er eðlileg að of fáir nemendur sæki í hagnýtt nám. Stafar það m.a. af skorti á tengslum á milli skóla og atvinnulífs sem svo oft hefur komið til umræðu. Ég legg mikla áherslu á að þessi tengsl séu bætt á allan hátt og þáltill. felur í sér viðleitni til þess að bæta þar úr.

Herra forseti. Víða erlendis er þekkt að fyrirtæki styðji myndarlega efnilegt námsfólk með fjárframlögum og beinum styrkjum. Þau sjá sér hag í því að fjárfesta þannig í sérfræðikunnáttu sem fyrirtækið þarf á að halda og líta á slíkt sem fjárfestingu til framfara fyrir fyrirtækið og þjóðfélagið. Þess eru jafnvel dæmi að ýmsar mjög athyglisverðar nýjungar hafi komið frá styrkþegum slíkra styrkja. Því miður hefur heldur lítið verið gert af því hérlendis. Ástæður eru ugglaust ýmsar en líklegt má telja meginskýringuna þá að íslenskt atvinnulíf hefur lengi verið borið uppi af svonefndri frumframleiðslu þar sem eru ekki gerðar miklar kröfur og nánast engar kröfur um menntun. Á þessu hefur orðið allveruleg breyting í kjölfar breytinga í atvinnulífinu nú á allra síðustu árum og krafan um bætta menntun á öllum sviðum, ekki síður í framleiðslunni, hefur sett vaxandi þrýsting á skólakerfið og menntakerfið. Hins vegar má segja að við þekkjum lítil eða fá dæmi þess að fyrirtæki leggi beinlínis fram styrki til námsfólks. Þó að vissulega séu dæmi um það eru þau ekki algeng. Segja má að vettvanginn skorti til þess að fyrirtæki og einstaklingar geti reitt fram fé í því skyni að efla og veita styrki til efnilegs námsfólks. Það er megintilgangur tillögunnar að skipuð verði nefnd sem móti tillögur um slíkan vettvang þannig að hægt sé að vinna markvisst að því í samstarfi hins opinbera og atvinnulífsins að útvega fé og fjármuni sem auglýsa má undir ýmsum skilyrðum fyrir efnilegt námsfólk í skilgreint nám.

Ég er sannfærður um að vilji er til staðar meðal fyrirtækja og stjórnenda fyrirtækja. Því kynntist ég í fyrra starfi mínu áður en ég hóf störf hér, þ.e. sem skólameistari, að skilningur atvinnulífsins var til staðar þegar til þess var leitað. Þess vegna er mikilvægt að búa til þann vettvang svo að hægt sé að ná þessu samstarfi upp kerfisbundið. Hið opinbera, þ.e. ríkið, þarf að sýna vilja sinn afgerandi í verki og getur gert það á tvennan hátt. Það er annars vegar með því að veita fyrirtækjum og einstaklingum skattafslátt fyrir framlög til menntamála og hins vegar með því að Alþingi eða ríkissjóður leggi fé í slíkan pott. Þannig er verið að tengja saman þessa tvo aðila, þ.e. atvinnulífið og hið opinbera.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að með þessu er hugsunin alls ekki sú að koma upp einhverri þunglamalegri stofnun. Hér er verið að ræða um skilvirkan sjóð sem nefndinni er ætlað að útfæra hvernig er best að koma á. Setja þarf saman reglur um hvernig úthlutanir eiga að vera tengdar skilyrðum fjárfesta, óskum atvinnulífsins, menningarstofnana og þar fram eftir götunum. Þess vegna gæti verið hugsanlegt að slíkur sjóður yrði vistaður innan lánasjóðsins en það er eðlilegt að nefndin, komi til slíkrar skipunar, fjalli um það og komi með tillögur til hæstv. menntmrh.

Með tillögunni er hugsunin sú að auka hvatningu til ungs fólks, hækka þar með menntastig þjóðarinnar og velsæld. Ég legg til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til hv. menntmn. og vona að hún fái farsæla afgreiðslu á Alþingi.