Styrktarsjóður námsmanna

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 17:08:55 (3077)

1998-01-27 17:08:55# 122. lþ. 52.6 fundur 245. mál: #A styrktarsjóður námsmanna# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[17:08]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að kynna tillöguna. Eins og fram kemur er markmið hennar að auka framlög til menntamála og fá atvinnulífið enn virkara til stuðnings við menntakerfi í landinu. Við sjáum þó merki þess að atvinnurekendur eru að gera sér betri grein fyrir mikilvægi þessa. Það sjáum við með fjárframlögum Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík til Háskóla Íslands varðandi prófessorsstöður.

Auðvitað er mjög nauðsynlegt að hafa samtengingu við atvinnurekstur, atvinnulífið og skólana í landinu. Það er líka athyglisvert að fylgjast með ýmsum iðngreinum sem hafa verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum sem fólk bar ekki sérstaklega mikla virðingu fyrir fyrir ekki svo allmörgum árum. Þar vil ég kannski fyrst nefna til sögunnar matreiðslumeistara en í raun má segja að matreiðslumeistrar á Íslandi séu að verða nýir sendiherrar í landkynningu. Þeir hafa verið í mjög góðu samstarfi við landbúnaðarframleiðendur og í raun og veru eru engir sem geta kynnt betur íslenskar landbúnaðarvörur en einmitt matreiðslumeistararnir. Þetta skiptir miklu máli. Það hefur einnig verið búið ágætlega að þessum greinum og fyrir það ber að þakka. Sömu sögu er að segja um kjötiðnaðarmenn en það fag er í örri sókn. Ég nefni einnig hárskurð sem iðngrein sem einnig er í mikilli sókn. Ég tel að þessar þrjár iðngreinar hafi rifið sig upp með miklum krafti á undanförnum árum.

Á Íslandi hefur á vissan hátt ríkt ákveðið misrétti til náms, þ.e. framhaldsskólanáms. Þeir sem búa lengst í burtu frá skólum hafa þurft að verja mun meiri peningum til þess að mennta börn sín en í síðustu fjárlögum var ákveðið að verja 50 millj. kr. meira til jöfnunar á námskostnaði en áður hafði verið gert og fyrir því barðist ég, m.a. í fjárln., og vonandi verða þær 50 millj. til að draga úr þessu misrétti sem ég hef oft talað um úr ræðustóli.

Ljóst er að styrktarsjóður sá sem talað er um í þáltill. kemur ekki til með að leysa Lánasjóð ísl. námsmanna af hólmi, þetta hrein og bein viðbót. Það þarf að setja þessum sjóði mjög skýrar reglur. Við flm. þessarar þáltill. gerum okkur grein fyrir því að menntun er fjárfesting til framtíðar og við eigum að gera allt sem við getum til þess að auðvelda ungu og reyndar fólki á öllum aldri að auka menntun sína.