Miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 17:29:06 (3079)

1998-01-27 17:29:06# 122. lþ. 52.7 fundur 260. mál: #A miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[17:29]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu að bæta við framsögu 1. flm. þessarar tillögu. Ég tek undir orð hans og hvet til þess að þessi tillaga fái afgreiðslu á þessu þingi. Það mundi styrkja mjög þann farveg sem málið er þegar komið í en það fékk jákvæðar undirtektir við umræðu á síðasta þingi og fjárlagaafgreiðslu í vetur. Þingið hefur tekið jákvætt undir málið með því að samþykkja fjárframlag til þess við síðustu fjárlagagerð eins og kom fram í ræðu hv. 1. flm.

[17:30]

Þetta mál hefur verið í undirbúningi á Austurlandi um nokkurt skeið og er áhugamál skólamanna og sveitastjórnarmanna þar um slóðir. Þeir og samtök þeirra hafa tekið þetta mál og fjölda annarra upp á sína arma. Eins og hefur komið fram er ekki ætlunin að koma upp nýjum háskóla á Austurlandi heldur miðstöð háskóla- og endurmenntunar. Þýðing háskóla- og endurmenntunar fyrir samfélag eins og þar er er gífurlega mikil. Í nútímasamfélagi eru þjóðfélagslegar breytingar miklar, tækniþróun er afar hröð, nýjar hugmyndir koma fram og uppspretta þeirra hugmynda er oft í háskólastofnunum. Það er mjög áríðandi að slíkt umhverfi sé fyrir hendi víðar en í háskólunum sjálfum og ég hygg að háskólamenn séu sammála því. Hugmyndin hefur fengið afar jákvæðar undirtektir hjá þeim háskólastofnunum hér á landi sem hafa fjallað um þetta mál. Ég hygg að umfjöllun menntmn. um tillöguna og sú greinargerð sem fylgir henni, þar sem undirbúningur þessa máls er rakinn, verði gagnleg og málinu til framdráttar. Ég trúi því að málið hljóti áfram jákvæðar undirtektir í Alþingi eins og það hefur gert hingað til. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það að sinni.