Miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 17:38:38 (3081)

1998-01-27 17:38:38# 122. lþ. 52.7 fundur 260. mál: #A miðstöð háskóla- og endurmenntunar á Austurlandi# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[17:38]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Austurl. og hæstv. menntmrh. fyrir þátttöku í umræðu um málið. Ég þarf svo sem ekki að bæta miklu við þótt margt megi segja um málið. Það er afar brýnt eins og hæstv. ráðherra sagði í sínu máli að koma málinu á legg. Málið þarf að gera þokkalega sjálfbært, þó með þeim fjárhagsstuðningi sem verður til að koma og sem ríkisvaldið er skuldbundið til að leggja inn í mál af þessu tagi að svo miklu leyti sem það er háskólastigsmál. Ég er bjartsýnn eftir þær jákvæðu undirtektir sem málið hefur fengið og þá ekki síst frá hæstv. ráðherra menntamála sem hefur sýnt það í ýmsum efnum að hafa mikinn áhuga á því, m.a. að nýta nútímatækni, miðlunartækni, í sambandi við menntun sem er hvergi brýnna en í landi eins og okkar með fámenni víða og dreifðar byggðir. Ég vænti þess að á Austurlandi fáist innan ekki langs tíma reynsla af því að koma slíkum hlutum áfram í reynd. Það er mjög mikilvægt. Þar þurfa margir að leggjast á eitt.

Í framhaldi af því sem ég nefndi áðan um atvinnustarfsemina vil ég að ekki sé misskilið að það sé alls staðar svo háttað að sjávarútvegsfyrirtæki séu ekki með vel menntað fólk á sínum snærum þó að þar skorti verulega á að breið undirstaða sé að því leyti. Í sumum fyrirtækjum í sjávarútvegi, m.a. á Austurlandi, er þessum málum þokkalega fyrir komið. Ég tel einmitt að reynslan hafi sýnt hversu mikilvægt það er að slík þekking sé í fyrirtækjunum og atvinnulífinu og sennilega er hvergi brýnna en þarna að jákvæð breyting verði í undirstöðuatvinnugreinum okkar, þeim sem hafa dugað okkur best til þessa til að ná bættum árangri. Til að undirstrika þetta leyfi ég mér örlitla tilvitnun í eina umsögn frá forstöðumanni eða framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Austurlands sem veitti umsögn um tillöguna á síðasta þingi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Streymi þekkingar frá hinum samþjappaða kjarna mennta-, rannsókna- og tæknistofnana í Reykjavík til Austurlands er óviðunandi tregt. Atvinnulíf og í raun samfélagið á Austurlandi í heild hefur verið í þekkingarsvelti sem hefur verið lamandi fyrir framþróun í landshlutanum eins og endurspeglast í byggðaþróun undanfarinna ára. Horft til framtíðar þá blandast fáum hugur um að þekkingarsvelti í atvinnulífi og byggðum mun hafa öll einkenni bráðdrepandi sjúkdóms. Það er því miður allt of algengt að horfa upp á erfiðleika skapast og umtalsverða fjármuni tapast vegna of takmarkaðrar þekkingar í atvinnulífi á Austurlandi.``

Þetta er örstutt tilvitnun úr lengri umsögn. Mér finnst hún segja heilmikla sögu og þar talar fulltrúi sem er að vinna að atvinnuþróun í landshlutanum en segir jafnframt um tillöguna, með leyfi forseta:

,,Það eykur gildi tillögunnar verulega að í henni felst aðgerð sem hefur allar forsendur til að vera einföld í framkvæmd, skilvirk og umfram allt skjótvirk. Í ljósi áðurnefndra atriða mun Atvinnuþróunarfélagið fúslega taka þátt í vinnu við uppbyggingu fræðslumiðstöðvarinnar verði eftir því leitað.``

Þetta get ég látið nægja um leið og ég ítreka þakkir til þeirra sem hafa léð málinu lið, bæði í umræðum í þinginu og annars staðar. Ég vænti þess að við stöndum fljótlega betur að vígi til að taka á þessum málum í krafti samþykkta og fjármagns sem Alþingi hefur þegar veitt til undirbúnings málsins, svo hægt verði í samvinnu að stíga skref sem geti orðið þessum fjórðungi sem í hlut á til heilla en jafnframt skapist reynsla fyrir ýmsa aðra sem geta þurft að horfa til ekki ólíkra lausna í sambandi við menntun sína.