Þjónustugjöld í heilsugæslu

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:05:44 (3100)

1998-01-27 19:05:44# 122. lþ. 52.9 fundur 41. mál: #A þjónustugjöld í heilsugæslu# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi misheyrst eitthvað. Ég sagði áðan að sú hækkun sem orðið hefur í heilsugæslunni sé 100 kr. Það átti sér stað um áramótin 1995--1996 og við þurfum ekki að togast meira á um það. Þannig er það og þarf hvorki að gera meira né minna úr því. Síðan hafa þessi gjöld ekki verið hreyfð.

Varðandi það sem hv. þm. sagði hafa verið rætt í ríkisstjórninni í dag, þetta matargjald sem hefur verið til umræðu, þá var það ekki rætt í ríkisstjórn og hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn. Þeir fulltrúar sem stýra sjúkrahúsum eru auðvitað að leita leiða til að halda sig innan ramma fjárlaga. Og það er ýmislegt sem um er fjallað eins og hv. þm. veit innan stjórna. Ég veit ekki til að búið sé að taka neina ákvörðun um þetta en kannski veit hv. þm. meira um það en ég.