Almannatryggingar

Þriðjudaginn 27. janúar 1998, kl. 19:45:26 (3114)

1998-01-27 19:45:26# 122. lþ. 52.10 fundur 108. mál: #A almannatryggingar# (tannlækningar) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur

[19:45]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið því að klukkuna vantar 14 mín. í átta að kvöldi og við höfum nú verið að í allan dag. Ég vil samt koma með smáinnlegg í umræðuna um málið og benda á hversu mikil áhrif greiðsluþátttaka almannatrygginga hefur á komur til tannlækna og hvað það getur verið afgerandi fyrir tannheilsu þjóðarinnar til framtíðar hver greiðsluþátttaka almannatrygginga er í kostnaði við tannlækningar.

Eins og hv. flm. Ögmundur Jónasson hefur skýrt hér í ítarlegu máli hafa orðið breytingar á þessum þætti almannatrygginganna á undanförnum árum og greiðsluþátttakan hefur minnkað hjá börnum, unglingum og öldruðum. Árið 1995 lagði ég fram fyrirspurn í þinginu um þetta mál þar sem ég spurðist fyrir um komur barna til tannlæknis eftir að reglum var breytt í almannatryggingakerfinu, eftir að foreldrum var gert að greiða hluta tannlækninga barna sinna. Og fram kom í svari frá hæstv. heilbrrh. að 10% skólabarna í Reykjavík skiluðu sér ekki til tannlæknis eftir að foreldrar þeirra þurftu að fara að greiða fyrir komur til tannlæknisins. Eitt af hverjum tíu börnum í Reykjavík skilaði sér ekki til tannlæknis. Þetta er mjög alvarlegt mál og á örugglega eftir að koma fram síðar í athugun á tannheilsu.

Annað kom einnig fram sem vert er að benda á, þ.e. að vanskil hjá skólatannlæknum urðu þó nokkur á þessu tímabili. Vanskil voru 10% skólaárið 1992--1993 og 19% fyrri hluta skólaársins 1993--1994. Þetta er auðvitað sama umræðan og farið hefur fram hér í dag um það að alltaf hefur einhver hópur ekki efni á því að sækja þessa þjónustu, sérstaklega eftir að greiðsluþátttakan hefur verið aukin.

Ég þekki það einnig að fjöldi aldraðra leitaði ekki tannlæknaþjónustu eftir að kostnaðarhlutdeild þeirra var aukin. Þeir láta tannlækningar mæta afgangi. Og iðulega þegar aldraðir sem eiga erfitt fjárhagslega koma til mín í viðtöl þá telja þeir upp að þeir leyfi sér lítið, þeir fái sér varla flík og fari alls ekki til tannlæknis. Þetta er því mjög alvarlegt mál og menn ættu að huga að því nú þegar betur árar í samfélaginu að breyta þeim reglum sem gilda um þetta efni og huga að því að búa að bættri tannheilsu.

Vissulega eigum við að taka Norðurlandaþjóðirnar okkur til fyrirmyndar. Komið hefur fram hér í máli frummælanda hver þeirra þáttur er í tannlækningum og það kemur einmitt fram í greinargerð með þessu máli. Vissulega eigum við að taka þær okkur til fyrirmyndar því það mun hafa veruleg áhrif á tannheilsu þjóðarinnar til framtíðar ef ekki verður bætt úr þessu ástandi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en ég býst við að þetta mál komi til umfjöllunar í hv. heilbr.- og trn. þar sem ég á sæti og get komið frekar að málinu.