Vasapeningagreiðslur til lífeyrisþega

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 13:37:17 (3117)

1998-01-28 13:37:17# 122. lþ. 53.2 fundur 374. mál: #A vasapeningagreiðslur til lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[13:37]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn hv. þm. hljóðar svo:

,,Hversu margir ellilífeyrisþegar og öryrkjar sem dvelja á stofnunum hafa fengið greidda vasapeninga ,,utan stofnana`` samkvæmt reglugerð 213/1996 hvert undanfarinna fimm ára?``

Þessari fyrirspurn hefur verið svarað áður í skriflegu svari til þingmannsins á þskj. 586 í desember sl. Spurt var um breytingar á vasapeningagreiðslum til sömu aðila á undanförnum fimm árum og hversu margir þeir væru sem fengju þessa vasapeninga innan og utan stofnana. Svörin voru í stuttu máli á þá leið að nákvæmar tölur voru gefnar upp fyrir þessa hópa hvorn um sig á þessum árum vegna þeirra sem voru innritaðir á stofnanir, en þeir voru í heild í kringum 2.000 á hverju ári. Hvað varðar vasapeningagreiðslur utan stofnana, þá voru svör á þá leið að vasapeningar væru einungis greiddir í mjög litlum mæli utan stofnana en fjöldi þeirra fáu aðila sem undir það falla væri innifalinn í fyrrnefndum tölum, enda væri fyrst og fremst um vistmenn stofnana að ræða.

Hv. þm. var ekki ánægður með þessar útskýringar, eins og fram kom í ræðu hans á undan, og spyr því aftur: Hversu margir hafa fengið vasapeningagreiðslur utan stofnana undanfarin fimm ár samkvæmt reglugerð 213/1996, sem er trúlega prentvilla því að sú reglugerð er varðandi lögreglusamþykkt Siglufjarðarkaupstaðar og ég veit að hv. þm. var ekkert að spyrja um það. Öðru máli gegnir um reglugerð nr. 213/1991 en það er það sem hv. þm. spyr um. Samkvæmt 5. gr. þeirrar reglugerðar er heimilt að greiða vasapeninga sem nemur tvöföldum sjúkradagpeningum fyrir hvern dag sem sjúklingur dvelst tímabundið utan stofnana án þess að útskrifast samkvæmt 6. gr. Gildir þessi reglugerð einnig um þá sem dvelja á stofnunum fyrir aldraða.

Það er tiltölulega einfalt mál að safna upplýsingum um fyrri spurningu þingmannsins, um fjölda vistmanna með vasapeninga. Þær upplýsingar liggja fyrir. En á hinn bóginn eru ekki til neinir sérstakir bókunarlyklar í tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins um vasapeninga sem greiddir eru utan stofnana. Þess vegna eru þeir aðilar sem fá vasapeninga utan stofnana og eru í leyfi heima um helgar eða við önnur tækifæri taldir með vistmönnum stofnana með vasapeninga.

Vegna ítrekaðrar fyrirspurnar hv. þm. um nákvæmari upplýsingar á þessu sviði reyndist nauðsynlegt að kaupa forrit af SKÝRR sem keyrt var út í tæpar 20 stundir til að ná fram umbeðnum upplýsingum. Kostnaður við þetta er á annað hundrað þúsund þannig að ég vona að þessar upplýsingar komi hv. þm. að góðu gagni.

Fjöldi lífeyrisþega með vasapeninga utan stofnana skiptist þá sem hér segir: Ég tek desember sérstaklega út þar sem þá sést hversu margir fara í jólaleyfi á þessum stofnunum þannig að sú fyrirspurn komi þá ekki sérstaklega síðar.

Fyrir árið 1993, í desember: 5 öryrkjar og 1 ellilífeyrisþegi. Allt árið: 25 öryrkjar og 4 ellilífeyrisþegar.

Fyrir árið 1994, í desember: 8 öryrkjar og 1 ellilífeyrisþegi. Allt árið: 26 öryrkjar og 8 ellilífeyrisþegar.

Fyrir árið 1995, í desember: 7 öryrkjar og 1 ellilífeyrisþegi. Allt árið: 25 öryrkjar og 7 ellilífeyrisþegar.

Fyrir árið 1996, í desember: 7 öryrkjar og 1 ellilífeyrisþegi. Allt árið: 82 öryrkjar og 21 ellilífeyrisþegi.

Fyrir árið 1997, í desember: 10 öryrkjar, ellilífeyrisþegar engir. Allt árið: 70 öryrkjar og 25 ellilífeyrisþegar.

Þetta er hin nákvæma greining á skiptingu þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa vasapeninga utan stofnana undanfarin fimm ár af þeim 2.000 vistmönnum sem fá vasapeninga yfirleitt.