Ummæli ráðherra í fyrirspurnatíma

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 13:47:33 (3121)

1998-01-28 13:47:33# 122. lþ. 53.93 fundur 182#B ummæli ráðherra í fyrirspurnatíma# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[13:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það sem fram kom af hálfu hæstv. heilbrrh. í meintum svörum hennar við fsp. hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Hún gerði það að efni máls að þessi hv. þm. hefði haft með höndum tiltekin störf áður og hefði af þeim sökum best getað leitað sér upplýsinga öðruvísi en að spyrja beint í þingsölum. Enn fremur bætti hún því við í meintum svörum sínum að þessi hv. þm. væri í leyfi frá fyrri störfum sínum. Oft hefur maður heyrt hér undanslátt og útúrsnúninga af ýmsum toga en þetta tekur öllu fram, virðulegi forseti. Ég hlýt að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og óska þess að hæstv. forseti setji ofan í við hæstv. ráðherra í þessu efni.