Umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 13:51:56 (3125)

1998-01-28 13:51:56# 122. lþ. 53.5 fundur 383. mál: #A umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Á haustþingi lagði ég fram fyrirspurn sem finna má á þskj. 682 og varðaði umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði í Reykholti. Nú hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að þessi fyrirspurn var fram lögð og sumum þeirra spurninga sem hér er að finna hefur í raun þegar verið svarað með framkvæmd ráðuneytisins. Engu að síður vil ég leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að óska eftir skýringum og svörum hæstv. ráðherra um þessi efni þó ekki sé farið nákvæmlega eftir tölusettum spurningum í þessa veru.

Samkvæmt fjölmiðlafréttum hefur hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans þegar tekið ákvörðun um ráðstöfun Reykholts að stærstum hluta og leigt það veitingamönnum til gisti- og veitingahúsareksturs. Við það ætla ég svo sem ekkert að gera neinar sérstakar athugasemdir en vil þó minna á að rekstur af þessum toga hefur gengið upp og niður vítt og breitt um landið. Fá þó þessir aðilar mínar bestu óskir um góðan gang.

Ég vil hins vegar leita eftir því og spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna umsókn Friðar 2000 um friðarháskóla hérlendis hafi ekki komið sterkar til álita en raun ber vitni. Mitt mat er --- og enn vísa ég til fjölmiðlafrétta þar um --- að hér sé sannarlega og sýnilega um alvöruumsókn að ræða. Kreditlistinn einn saman segir okkur allt um það. Þeir sem eru í framkvæmdastjórn þessara áforma eru frá heiminum öllum. Væntanlegir kennarar við skólann eru margir hverjir nafntogaðir og þekktir hver á sínu sviði og óbeinir ráðgjafar eru það ekki síður. Þar er að finna m.a. stjórnmálamenn og forustumenn í þjóðlöndum vítt og breitt um heiminn allan. Þannig að hér virðist ekkert plat á ferðinni og engin ástæða til þess að taka málið sem slíkt. Því spyr ég einfaldlega hvort hæstv. ráðherra finnist ekki ástæða til að gaumgæfa þetta mál enn frekar.

Nú er staðan þannig því miður, og sú hefur verið þróunin, að skólahúsnæði sums staðar annar staðar á landinu hefur tæmst sökum nemendaeklu og því vil ég spyrja í ljósi þessa nýja veruleika málsins hvort hæstv. ráðherra sé reiðubúinn til þess að skoða hvort aðrir möguleikar gætu hugsanlega gagnast áformum um friðarháskóla hér á landi, sem ég held að séu allrar athygli verðar.

Þetta vil ég leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja í púkkið og vonast til þess að hæstv. ráðherra geti svarað þessum spurningum þó að þær séu eðli málsins samkvæmt nokkuð breyttar frá hinum skrifaða texta.