Umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:01:49 (3128)

1998-01-28 14:01:49# 122. lþ. 53.5 fundur 383. mál: #A umsókn Friðar 2000 um leigu á skólahúsnæði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Það fer að verða regla frekar en undantekning að hæstv. ráðherrar snúi út úr og eyði megninu af tíma sínum í útúrsnúninga og leiðindi. Hér byrjar hæstv. menntmrh. þann söng sinn að hann hafi ekki verið undir það búinn að svara efnislegum spurningum um þetta mál. Frekar vill hann lesa upp úr bréfinu sínu á internetinu eða úr fréttatilkynningu ráðuneytisins sem öllum þingmönnum barst fyrir fleiri vikum. Hvers konar forakt er þetta gagnvart hinu háa Alþingi. Eðlilega spyr ég um mál eins og þau standa á hverjum tíma og hæstv. ráðherra segist hafa verið betur búinn undir það í gær en í dag að svara efnislegum spurningum um málið. Hann kýs auðvitað að fara hina hefðbundnu leið að svara því sama og hann hefur þegar skrifað í sendibréf sín á netinu. Hann svarar með því sem hann hefur sent út sem fréttatilkynningu frá ráðuneytinu og allir hafa séð. Það er orðin hefðbundin leið hjá hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar að forakta þingið svona gersamlega.

Yfirskrift fyrirspurnar minnar laut að friðarháskólanum fyrst og síðast. Ég þarf engar útlistingar á því nákvæmlega upp á hvaða býti þessir veitingamenn tóku við Reykholti.

Ég tek einnig undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar að þetta metnaðarleysi er auðvitað til skammar á hinu forna höfuðbóli.

Spurningar mínar lutu að því, hæstv. ráðherra, hvers vegna það hafi verið og hvað það hafi verið sem réði því að þessar háu hugmyndir um friðarsetur þarna efra hafi ekki náð fram að ganga. Hvað réði því? Í þessum skrifaða texta er spurt, vilji hæstv. ráðherra halda sig við hann: Hvers vegna var ekki samið? Hver er ástæðan? Því hefur ekki verið svarað einu orði en vísað til þess að hann ætli að svara bréfum umboðsmanns Alþingis þegar að því komi. Að svara hinu háa Alþingi var ekki um að ræða. Þetta er orðið gersamlega óþolandi, herra forseti, og verður auðvitað ekki við unað.