Lögbinding lágmarkslauna

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:11:56 (3133)

1998-01-28 14:11:56# 122. lþ. 54.92 fundur 181#B lögbinding lágmarkslauna# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:11]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Full ástæða er til að taka undir ábendingar hv. þm. Gísla S. Einarssonar um það efni sem hann ræddi, þ.e. að taka hið fyrsta til 1. umr. og síðan til umfjöllunar í félmn. það stórpólitíska og mikilvæga mál sem frv. hans og fleiri þingmanna felur í sér um lögbindingu lágmarkslauna. Það er alveg ljóst að tíminn hefur unnið með málinu, upplýsingar sem eru nýjar af nálinni sýna það og sanna. Það er ekki síst mikilvægt nú á tímum hins svonefnda góðæris að við grípum til þeirra úrræða sem þörf er á til þess að tryggja að hið svonefnda góðæri sem menn hampa gjarnan skili sér til þess fólks sem helst þarf á að halda. Mér sýnist í fljótu bragði fáar leiðir aðrar færar a.m.k. undir stjórn þessarar ríkisstjórnar en að fara löggjafarleiðina og binda í lög að hér verði lágmarksframfærslumöguleikar fjölskyldna í landinu verði tryggðir, með öðrum orðum að binda í lög hver verði lágmarkslaun. Ég tek því eindregið undir þessar ábendingar og vænti þess að þingheimur sé því sammála að þetta mál komist á dagskrá eins fljótt og kostur er.