Lögbinding lágmarkslauna

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:14:58 (3135)

1998-01-28 14:14:58# 122. lþ. 54.92 fundur 181#B lögbinding lágmarkslauna# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:14]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég styð þá ósk að þetta mál komist sem fyrst á dagskrá og verði tekið til afgreiðslu m.a. með þeim rökstuðningi að Alþingi hefur fjallað um sambærileg mál í mjög langan tíma. Fyrst var frv. um lágmarkslaun lagt fram á Alþingi fyrir mörgum árum af þingflokki Alþfl. og þeim sem hér stendur. Hv. þm. Stefán Jónsson lagði einnig fram slík frv. á Alþingi fyrir mörgum árum. Eins og komi fram hjá hv. þm. sem talaði áðan á vegum þingflokks jafnaðarmanna, Gísla S. Einarssyni, hafa lágmarkslaun verið lögleidd í mörgum löndum. Eins og hann skýrði ljóslega frá hafa verið gerðar fræðilegar úttektir á þýðingu lágmarkslauna þar sem gert er miklu meira úr þeirri lausn en menn hafa fengist til að viðurkenna á Íslandi. Um þetta hefur mikið verið rætt, bæði á Alþingi og utan þess, en þó enn meira verið skrifað um það af erlendum fræðimönnum og eru þau skrif Íslendingum ekki nægilega vel kunnug.

Ég ítreka þá ósk sem kom fram hjá hv. þm. Gísla S. Einarssyni að málið komi sem fyrst á dagskrá og að sú þingnefnd sem fær málið leggi vinnu í að kynna sér hvað hefur verið gert í þeim málum í fjölmörgum löndum og hvernig sú reynsla hefur verið.