Lögbinding lágmarkslauna

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:19:37 (3138)

1998-01-28 14:19:37# 122. lþ. 54.92 fundur 181#B lögbinding lágmarkslauna# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:19]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa kvatt sér hljóðs og tekið undir það mál sem ég er að vekja athygli á og tekið undir að þetta mál fái ákveðna flýtimeðferð. Ég beini þeim orðum til hæstv. forseta að forsætisnefnd skoði mjög nákvæmlega hvort ekki sé ástæða til í þessu tilviki að mál fái flýtimeðferð þar sem svona háttar til að þetta er í þriðja skipti sem málið er lagt fram og kemur til umræðu. Það liggja fyrir umsagnir um málið sem byggjast á röngum forsendum.

Með leyfi forseta vitna ég í bók sem heitir ,,Spásögn og staðreyndir: um hagfræði lágmarkslauna.`` Þar segir m.a. að það komi á óvart að hækkun lágmarkslauna virðist ekki valda minnkun fríðinda. Það kemur einnig fram að þveröfugt við kreddur skila hækkanir lágmarkslauna hlutfallslega mestu til einstaklinga í láglaunafjölskyldum. Í ríkjum þar sem hækkanir á lágmarkslaunum hafa orðið og þar sem þær hafa mest áhrif sést að tekjur aukast mest hjá fjölskyldum neðst í launastiganum.

Í fjórða lagi tilheyra þeir sem þiggja lágmarkslaun ekki endilega hópi fátækra. Margir þeirra fátæku tengjast einmitt ekki vinnumarkaðnum. Þetta eru athugasemdir sem ég vil gjarnan að komi fram.

Herra forseti. Ég vil að lokum benda á að niðurstöður ILO eða International Labor Office benda eindregið til þess að lögbundin lágmarkslaun auki hagsæld í þjóðfélagi sérstaklega fyrir einstaklinga og þá ekkert síður fyrir aðra og sú bók sem ég hef vitnað til áður, herra forseti, er bókin eftir David Card og Alan B. Krueger sem eru prófessorar í Princeton-háskóla þar sem þeir leggja fram rökstuðning og tölulegar staðreyndir um áhrif lágmarkslauna á hagkerfi þjóðanna.