Textun íslensks sjónvarpsefnis

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:39:12 (3143)

1998-01-28 14:39:12# 122. lþ. 54.10 fundur 196. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., Flm. SJóh
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:39]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið upp og lýst stuðningi við þetta mál og vona að málið fái brautargengi í hv. menntmn. Því mun verða vísað þangað. Menntmrh. ætlaði að vera viðstaddur umræðuna en því miður, af því hún tafðist sökum ófyrirsjáanlegra atburða, varð hann að fara burt en lofaði að fylgjast með málinu. Ég bind því miklar vonir við að tillagan verði afgreitt.

Þegar ég fór að kynna mér þetta mál kom mér á óvart hve lítið hefur verið gert þar sem það snertir stóran hóp. Hér er um að ræða nær 30 þúsund manns á Íslandi, íslenskumælandi fólk sem sökum heyrnarskerðingar getur ekki fylgst með efni í sjónvarpi. Í raun virðist manni einfalt að ráða á þessu bót en það hefur bara ekki verið gert nema að örlitlu leyti. En ég held t.d. að þegar það liggur fyrir að fréttir hafa verið slegnar inn á tölvu og eru til og meira að segja fréttamennirnir lesa þær af sjónvarpsskjá, þá sé ekkert einfaldara en setja þær inn á textavarpið líka þannig að heyrnarskertir geti kallað þær fram á sínum skjá. Aðrir þurfa ekkert að þvælast með það. Mér finnst þetta vera mannréttindamál sem einfalt er að bæta úr. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið undir þetta mál og vona að það fái farsæla afgreiðslu í hv. menntmn.