Almannatryggingar

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:41:40 (3144)

1998-01-28 14:41:40# 122. lþ. 54.11 fundur 271. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:41]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar.

Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Málið fjallar um tryggingaráð og kveður á um lagabreytingu þess eðlis að fjölgað verði í tryggingaráði þannig að Landssamband eldri borgara tilnefni til tveggja ára einn aðalmann í tryggingaráð og annan til vara. Öryrkjabandalag Íslands tilnefni jafnframt til tveggja ára einn aðalmann í tryggingaráð og annan til vara. Þetta er efni frv.

Herra forseti. Þegar málinu var frestað í gær eftir samkomulagi við heilbr.- og trmrh. var nefnt að málið yrði hér á dagskrá og hún mundi verða viðstödd. Ég sé hana ekki hér í salnum en vil spyrjast fyrir um hvar hún gæti verið.

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. ráðherra komi í salinn en ráðherrann er í húsinu.)

Ég þakka fyrir. Í trausti þess að ráðherra komi innan skamms og geti þá bæði hlustað á, tekið þátt í umræðunni og svarað fyrirspurnum ætla ég að leyfa mér að halda áfram með framsögu mína.

Hugmyndin á bak við það að fjölga í tryggingaráði úr fimm í sjö, er að taka mið af eðli starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Eldri borgarar og öryrkjar eru meðal helstu viðskiptavina stofnunarinnar. Verkefni Tryggingastofnunar er að annast lífeyristryggingar og sjá um slysa- og sjúkratryggingar. Forstjóri Tryggingastofnunar, skipaður af ráðherra, fer hins vegar með stjórn stofnunarinnar samkvæmt lögum og reglugerð. Í lögum segir að tryggingaráð skuli hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar og gæta þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Stjórnarfyrirkomulagið í tryggingaráði er þannig að Alþingi kýs á fyrsta þingi eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm manns í tryggingaráð úr hópi hinna kjörnu aðalmanna. Þessi eftirlitsstofnun, þ.e. tryggingaráð, hefur því mótast af samsetningu Alþingis hverju sinni og endurspeglað pólitískan styrkleika eftir hverjar kosningar en í tryggingaráð hafa að öllu jöfnu valist sérhæfðir aðilar á þessu sviði. Tryggingaráð hefur afskipti af ýmsum þáttum í starfsemi stofnunarinnar auk almenns eftirlits.

[14:45]

Ýmsa þætti ber að bera sérstaklega undir tryggingaráð. Eftir því sem ég veit best þá virkar þetta stjórnarfyrirkomulag, þ.e. ráðherra, forstjóri og tryggingaráð og ég veit ekki til þess að í sjálfu sér séu nein vandkvæði varðandi það stjórnarfyrirkomulag. Vitaskuld getur komið til greina að þessu stjórnarfyrirkomulagi verði breytt og þá verða menn að taka mið af því. En eins og þetta frv. er sett upp þá er fullkomlega eðlilegt að þessir aðilar komi að málinu þó það væri ekki nema til þess að gæta almennt að upplýsingagjöf og þekkingu þeirra sem hér eru til nefndir, þ.e. eldri borgara og öryrkja.

Ég vil geta þess sérstklega, herra forseti, að sambærileg mál hafa verið flutt áður á hinu háa Alþingi, nú síðast af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni en áður af fyrrv. hv. þm. Helga Seljan og Karli Steinari Guðnasyni. Svo háttar reyndar til að Karl Steinar Guðnason er nú forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins en Helgi Seljan starfar á sviði þessara málaflokka hjá Öryrkjabandalaginu. Þessi hugmynd sem hér er gert ráð fyrir hefur því komið fram áður án þess að hafa náð fram að ganga.

Ég vil sérstaklega taka fram, herra forseti, að það er vitaskuld álitamál þegar stjórn er víkkuð út á þennan hátt. Í frv. er talað um að Landssamband eldri borgara tilnefni einn og síðan Öryrkjabandalag Íslands annan. Ég vil beina því úr ræðustól til hv. þingnefndar sem fær málið til meðferðar að skoða vandlega hvort ekki ættu fleiri að koma að tilnefningu, annaðhvort sérstakri eða í samvinnu. Þar vil ég sérstaklega nefna Landssamtökin Þroskahjálp sem eru ein virkustu samtökin í þessum málaflokkum. Fordæmi eru fyrir sameiginlegri tilnefningu Öryrkjabandalagsins og Þroskhjálpar í tilteknum málaflokkum. Mér finnst fyllilega koma til greina, herra forseti, að þetta verði skoðað vandlega í þingnefndinni þó svo að þetta frv. sé sett hér upp á einfaldari hátt eins og ég lýsti áður.

Mikilvægi þess að eldri borgarar komi að þessum málum markast einnig af því að þeir eru nú í vaxandi mæli farnir að gæta bæði hagsmuna sinna og veita upplýsingar um sín mál miklu meira en gert hefur verið á undanförnum missirum. Núna eru starfandi 45 félög eldri borgara víðs vegar um landið. Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er stærst og allir þekkja til starfsemi sérstaks hóps eldri borgara, Aðgerðarhóps aldraðra, sem hefur mjög barist fyrir málefnum þeirra. En heildarsamtök þeirra eru Landssamband eldri borgara og gert er ráð fyrir því í frv. að þeir tilnefni einn fulltrúa í tryggingaráð.

Mikilvægi þessa markast einnig af því að mjög áríðandi er að í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins liggi fyrir góð þekking á málefnum aldraðra og öryrkja, m.a. vegna þess að heildarútgjöld okkar til aldraðra og öryrkja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er langlægst hér á Norðurlöndunum, þ.e. allir opinberir aðilar og þar með taldir lífeyrissjóðir. Við verjum til aldraðra og öryrkja ekki nema tæpum 8% af landsframleiðslu á meðan Danmörk er ver um 16%, Finnland um 15%, Noregur um 13% og Svíþjóð um 17%. Þetta segir okkur að hér vantar upp á 7--8 prósentustig af landsframleiðslu, en hvert prósentustig í landsframleiðslu er 5 milljarðar. Þetta eru alveg sambærilegar tölur við þær sem birtust í staðtölum almannatrygginga sem kynntar voru á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins fyrir skömmu. Ég hef kynnt mér vandlega hvort þetta sé ekki á einhvern hátt sambærilegt og svo er. Þetta eru fyllilega sambærilegar tölur.

Þess má geta, herra forseti, vegna þess að málefni Tryggingastofnunar tengjast náttúrlega almennt félags- og heilbrigðismálum, að þar eru framlög opinberra aðila og lífeyrissjóða einnig langlægst hér á landi sé allt talið með sem hlutfall af landsframleiðslu eða hér um 19% á sama tíma og í Noregi er það 27%, Danmörku 34%, Finnlandi 33% og Svíþjóð 36%. Menn sjá því að ef varið yrði t.d. sambærilegri upphæð til félags- og heilbrigðismála hér á landi og er segjum t.d. í Noregi eða í Danmörku, þá þyrfti að auka framlögin til þessa málaflokks um eina 50 milljarða af verðmætasköpuninni í þjóðarbúinu. Við erum ekki að tala um neinar smátölur. Við erum mjög langt á eftir, herra forseti, hvað varðar fjárframlög til þessara málaflokka, þ.e. heilbrigðismála, öldrunarmála og öryrkja hér á landi. Við erum langt á eftir Norðurlöndunum. Það tengist að vitaskuld ekki nema hluta þessa frv. en það er mjög mikilvægt að mati okkar flm. að gerð verði sú endurbót á lögunum um Tryggingastofnun að fjölga á þennan hátt í tryggingaráði og að inn í tryggingaráð komi aðilar sem tengjast eldri borgurum og öryrkjum skýrar en verið hefur. Það getur, herra forseti, ekki orðið annað en gagn að því að fjölga fulltrúunum. Að vísu má alltaf segja að e.t.v. sé verra að sjö séu á fundi en fimm en það skiptir nú engu máli í þessum málaflokki. Hér erum við fyrst og fremst að fylgja eftir hinni gömlu stefnumörkun sem lögð var fram af hálfu þingmannanna sem ég nefndi áðan, Helga Seljans, Karls Steinars Guðnasonar og Kristins H. Gunnarssonar, og hinni gömlu hugmyndafræði um samskipti viðskiptavina og ríkiskerfisins, þ.e. að útfæra það í því frv. sem hér liggur fyrir.

Ég vona að hæstv. heilbrrh., sem er í salnum, geti tekið undir þessar röksemdir og vonast til þess að hún lýsi yfir stuðningi við þetta frv. þannig að við getum unnið málið þannig að það fái hraða og örugga afgreiðslu í gegnum þingið. Ég held að mjög brýnt sé að taka tillit til þessara nýju sjónarmiða og samráðs við þá aðila sem hér hafa verið nefndir, bæði aldraðra og öryrkja og endurtek að lokum ábendingar mínar eða ósk um að þingnefndin sem fær málið til meðferðar skoði vandlega hvort aðrir eða fleiri ættu að koma að þessari tilnefningu eins og ég lýsti hér áðan þegar ég nafngreindi sérstaklega Landssamtökin Þroskahjálp og gat þess að mér fyndist það mjög vel koma til álita en það er vitaskuld þingnefndarinnar að kveða á um það.

Að lokum, herra forseti, hvet ég þingheim til að fylgja máli vel eftir og styðja það. Þetta hefur ekki í för með sér nein útgjöld af hálfu ríkisins en mundi tryggja betri starfsrækslu á einu mikilvægasta sviði velferðarkerfis okkar, þ.e. starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins.

Að svo mæltu óska ég eftir að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. heilbr.- og trn.