Almannatryggingar

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:53:35 (3145)

1998-01-28 14:53:35# 122. lþ. 54.11 fundur 271. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:53]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni og samflutningsmönnum hans að þessu frv. fyrir að vekja þetta mál til umræðu á Alþingi. Vonandi sjáum við alþingismenn til þess að það fái brautargengi og verði samþykkt. Mig langar til að fara nokkrum orðum um frv. Ég tel það verulega til bóta ef slíkar breytingar eru gerðar á samsetningu tryggingaráðs sem hér eru lagðar til, þ.e. að fulltrúar hagsmunasamtaka, bæði eldri borgara og fatlaðra, fái þar aðild. Eins og kom fram í máli hv. flm. hefur þetta oftlega verið reynt en aldrei fengið jákvæðar undirtektir á Alþingi.

Af þessu tilefni langar mig til að ræða örlítið um samsetningu tryggingaráðs og verkefni ráðsins í ljósi nútímasjónarmiða varðandi t.d. góða stjórnsýslu og réttindagæslu borgaranna.

Ég hef verið ein af þeim sem gagnrýnt hafa samsetningu tryggingaráðs oftlega og vil ég reyna að rökstyðja það hér af hverju ég hef talið að það þyrfti að gera gagngera breytingu á ráðinu.

Tryggingaráð er, eins og kom fram í máli flm. frv., skipað af Alþingi og stjórnmálaflokkarnir tilnefna þar sína fulltrúa. Verkefni tryggingaráðs er í rauninni fjölþætt. Það fer með stjórn Tryggingastofnunar ríkisins og í ljósi þess eru tryggingaráðsmenn jafnframt í rauninni yfirmenn starfsmanna Tryggingastofnunar. Ég hef talið það fara illa saman að vera í forsvari fyrir stofnun, í stjórn hennar og vera þá um leið yfirmaður starfsmanna og eiga að úrskurða í málefnum viðskiptavina eða sjúklinga sem til stofnunarinnar leita, kannski með ágreiningsmál sem hafa komið upp í samskiptum þeirra við starfsmenn stofnunarinnar. Sérfræðiaðstoð tryggingaráðs í slíkum málum hefur að mestu leyti verið byggt á sérfræðingum stofnunarinnar og þannig er tryggingaráð í raun að úrskurða í ágreiningsmálum sjúklinga og starfsmanna Tryggingastofnunar á grundvelli reglna sem ráðið hefur sjálft sett. Þetta hlutverk ráðsins er að mínu viti alveg úr takt við nútímastjórnsýsluhætti og þyrfti að skoða rækilega. Umboðsmaður Alþingis hefur m.a. bent ráðinu á að það þyrfti í auknum mæli að leita eftir sérfræðiaðstoð utan við stofnunina, meira en gert er dag.

Virðulegi forseti. Mig langar til þess líka að fá að vekja athygli á því að ítrekað hafa verið gerðar tilraunir til þess að endurskoða lög um almannatryggingar. Síðasta nefndin sem átti að gera þetta var skipuð í upphafi stjórnartíðar núv. ríkisstjórnar. Þessi nefnd var fjölskipuð. Þar voru fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á Alþingi og jafnframt voru tilnefndir fulltrúar eldri borgara, fatlaðra og þeirra sem hagsmuna höfðu að gæta í þessu máli. Það er heldur dapurlegt að þurfa að segja það hér að þessi nefnd hefur aðeins verið kölluð saman tvívegis á tveimur árum og hefur manni ekki fundist mikill áhugi vera fyrir því í heilbrrn. að fara í þá endurskoðun sem var boðuð með skipun þessarar nefndar. Ég vil nota þetta tækifæri og skora á hæstv. heilbrrh. að kanna hvort ekki væri ráð að endurvekja þessa nefnd, blása í hana lífi á nýjan leik og fara fram með þá gagngeru endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni sem veruleg þörf er á.

Ég vil að lokum þakka aftur hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir að vekja þetta mál upp og koma fram með frv. þar sem gert er ráð fyrir því að hagsmunaaðilar geti komið sínum málum að í tryggingaráði. Ég tel þetta vera jákvætt skref. Ég tel þetta vera skref til bóta á meðan við bíðum eftir því að gagnger endurskoðun fari fram á þessari löggjöf. Og ég vil taka undir orð hans þar sem hann vék að þeim sem kannski ættu að koma að þessu máli og tel nauðsynlegt að fleiri komi þarna að. Ég vek athygli á því að í samræmi við lög um málefni fatlaðra þá eru tvenn heildarhagsmunasamtök þeirra hér á landi, þ.e. Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp. Auk þess vil ég beina því í umræðuna sem væntanlega fer fram í heilbr.- og trn., og ég skora á nefndarmenn, að skoða hvort samtök eins og Umhyggja, sem eru samtök vegna langveikra barna, ættu ekki að eiga þarna aðild að líka.