Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:42:59 (3149)

1998-01-28 15:42:59# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:42]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ummæli fjmrh. og túlkun hans á því hvert sé markmiðið með yfirlýstri stefnu ríkis og Reykjavíkurborgar um að jafna launamun karla og kvenna hafa vakið athygli og spurningar um launastefnu ríkisins. Þessi ummæli hans, þar sem hann lýsti því yfir að ekki væri markmiðið að jafna laun á milli stétta, aðeins innan stétta, vekja auðvitað athygli hjá hefðbundnum kvennastéttum. Þessi ummæli vekja líka athygli, sérstaklega í ljósi jafnréttislaga, en með þeim er ætlunin að tryggja að laun karla og kvenna sem starfa hjá sama atvinnurekanda séu ákvörðuð á sama hátt og að þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum feli ekki í sér mismunun.

Um 100 stofnanasamningar hafa nú verið gerðir í kjölfar samninga um nýtt launakerfi. Það vekur athygli að aðeins tveimur stofnanasamningum á heilbrigðisstofnunum er lokið nú nokkrum dögum áður en nýtt launakerfi tekur gildi hjá fjölmennustu stétt heilbrigðisstarfsmanna, hjúkrunarfræðingum. Margar ríkisstofnanir binda A-ramma, þann lægsta í launakerfinu, aðeins við störf nema, störf á reynslutíma og tímabundin störf. Nokkur dæmi eru um slíkt. Utanrrn. raðar t.d. starfsmönnum í A-ramma í mesta lagi í sex mánuði. Fasteignamat ríkisins notar alls ekki A-rammann og það sama er að segja um margar borgarstofnanir. Hjúkunarfræðingar raðast hins vegar mjög neðarlega í ramma A og eru þar mun lengur en virðist tíðkast hjá öðrum ríkisstofnunum.

Ein af meginástæðum þess að betur hefur gengið að ganga frá samningum utan heilbrigðisstofnana er væntanlega sú að þar hafa yfirborganir tíðkast áður, enda er fullyrt að samningar hafi ekki leitt til aukins launakostnaðar. Af þessu má draga þá ályktun að ríkisstofnanir utan heilbrigðiskerfisins fái meira fjármagn til starfsemi sinnar og þar með talið til launa starfsmanna en heilbrigðisstofnanir. Almennir hjúkrunarfræðingar og aðrar kvennastéttir innan heilbrigðiskerfisins á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) njóta ekki yfirborgana. Einfaldur samanburður á kjörum karla og kvenna með háskólamenntun og svipaða ábyrgð í starfi á heilbrigðisstofnunum er konum augljóslega í óhag.

Virðulegi forseti. Ég hef alls ekki lokið máli mínu en ég geri hlé á því núna og óska eftir því að koma í stól aftur.

(Forseti (GÁ): Það verður tekið til greina.)