Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 15:58:28 (3155)

1998-01-28 15:58:28# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[15:58]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Á næstu mánuðum mun koma í ljós hvort starfsmatið sem verið er framkvæma og sú tilraun sem þar á að gera er leið sem skilar árangri í að bæta launamun kynjanna. Í þessari umræðu hefur verið deilt um hvort hæstv. ríkisstjórn sé á réttri leið hvað það varðar að eyða launamun. Spurningin snýst um það hvort þær aðgerðir og það kerfi sem nú er verið að beita dugi eða hvort það leiði til enn meiri mismununar. Að mínum dómi ræðst það mikið af því hvernig þessu kerfi er beitt, hvort fordómar og hefðin ráði ríkjum eða hvort menn nýti slíkar breytingar til bóta. Reynslan frá öðrum löndum hefur yfirleitt sýnt að þessi kerfi eru konum ekki í hag. Þó er það mismunandi. T.d. í Bandaríkjunum hafa vinnustaðasamningar og minni samningar nýst konum til að bæta launin, en þarna ráða viðhorfin og ýmislegt annað óskaplega miklu.

Ég skildi ummæli hæstv. fjmrh. þannig að ekki væri um stefnubreytingu að ræða. Það er í sjálfu sér ánægjulegt, en það verður að koma í ljós hvaða áhrif þetta nýja launakerfi hefur.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að gera ætti könnun á viðhorfum ríkisstarfsmanna. Ég vildi gjarnan fá að heyra hvað á að nást fram með þeirri könnun, eftir hverju verið er að fiska. Er það viðhorf starfsmanna sjálfra eða er það meira staðan eins og hún er?

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir undirtektir við umræðuna og undirstrika að launamismunur kynjanna er allt of mikill hér á landi. Við höfum fengið athugasemdir frá jafnréttisnefnd Sameinuðu þjóðanna hvað varðar ástandið hér og þetta er einfaldlega þjóðarskömm sem þarf að beita öllum ráðum til að vinna gegn.