Launastefna ríkisins

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 16:00:49 (3156)

1998-01-28 16:00:49# 122. lþ. 54.91 fundur 180#B launastefna ríkisins# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[16:00]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að þegar minnst er á svokallaðar kvennastéttir þá er stundum minnt á hjúkrunarfræðinga og kennara. Ég held að þegar við lítum nokkur ár aftur í tímann megi halda því fram, eins og hefur verið gert, að þessar stéttir hafi fengið tiltölulega meira út úr kjarasamningum en aðrir. En ég skal viðurkenna að síðustu læknasamningarnir sem gerðir voru í skjóli kennarasamninganna gáfu læknum talsvert umfram aðra, en þó minni ég á að sumt af því sem þar kemur fram er að yfirvinna og bílapeningar eru færðir inn í grunnlaunin. Svo er kannski lán í óláni í þessari umræðu að meiri hluti útskrifaðra árganga í læknisfræði eru konur um þessar mundir og svo virðist vera sem það verði í vaxandi mæli þegar fram líða stundir. Þar bætist þá við ný kvennastétt.

Í öðru lagi á nýja launakerfið ekki að gera neinn mun á stofnunum eftir því í hvaða geira þær eru. Ég minni á að kjarasamningar eru greiddir út en stofnanasamningarnir áttu ekki að kosta ríkissjóð nýja fjármuni. Varðandi það að á ferðinni sé einstaklingsbundin launastefna, þá er það misskilningur. Það var heimild í lögum en sú heimild er ekki notuð vegna sérstaks samkomulags formanns BSRB og fjmrh. að grípa ekki til þess lagaákvæðis. Í staðinn koma stofnanasamningar sem eru gagnsæir og byggjast upp á samningum þar sem stéttarfélagið kemur að málum ásamt stofnunum og starfsmönnunum. (Gripið fram í: En það er ekki gagnsætt.) Það er rétt hjá hv. þm. að úrskurður tölvunefndar hefur gengið í þá átt að ekki megi birta almenna launalista.

Ekki er hægt að skoða afleiðinguna af hinu nýja launakerfi fyrr en líklega á næsta ári og í könnun ráðuneytisins er verið að kanna viðhorf ríkisstarfsmannanna.

Loks, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) gera menn ekki kraftaverk á augabragði. Áhersla ríkisstjórnarinnar mun hér eftir sem hingað til vera á því að vekja stjórnendur til vitundar um hlutverk sitt sem þeir þurfa að rækja í þessu mikilvæga máli.