Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 10:35:19 (3158)

1998-01-29 10:35:19# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[10:35]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á síðasta þingi var samþykkt tillaga að vegáætlun sem tók einungis til tveggja ára, þ.e. áranna 1997 og 1998. Þá var því lýst yfir að tillaga að nýrri vegáætlun yrði lögð fram á yfirstandandi þingi og skyldi sú tillaga taka til ársins 1998 og næstu ára. Þegar farið var að vinna að þeirri áætlun sl. haust varð ljóst að æskilegt væri að leggja einnig fram tillögu að langtímaáætlun, þ.e. 12 ára áætlun.

Tillaga að langtímaáætlun felur í sér umtalsverðar breytingar bæði á tekjuhlið og nýbyggingarliðum gjaldahliðar. Með hliðsjón af því að vegáætlun 1998 lá fyrir og þar var búið að úthluta öllu nýbyggingarfé til ákveðinna verkefna var eðlilegt að fyrsta tímabil langtímaáætlunar hæfist 1999. Hvert tímabil er fjögur ár og fyrsta tímabili lýkur þá 2002.

Tenging vegáætlunar og langtímaáætlunar er nauðsynleg því að vegáætlunin er nánari útfærsla á fyrsta tímabili langtímaáætlunar. Með það í huga er nauðsynlegt að vegáætlun taki til fimm ára, þ.e. til ársins 1998 og svo fyrsta tímabils langtímaáætlunar, þ.e. áranna 1999--2002. Verður nú vikið að innihaldi þessara áætlana og þá fyrst að langtímaáætluninni og farið nokkrum orðum um þá stefnubreytingu sem þar kemur fram.

Um langt skeið hefur tíðkast að skerða markaða tekjustofna sem renna eiga til vegamála. Hluti þeirra hefur þá farið í ríkissjóð. Á síðustu árum hefur komið framlag úr ríkissjóði á móti og hefur það dregið úr skerðingunni. Samkvæmt tillögunni verður millifærslum hætt og hinir mörkuðu tekjustofnar renna alfarið til vegamála að undanskildu umsýslugjaldi sem nemur hálfu prósentustigi af tekjunum. Ríkisframlög falla þá einnig niður.

Gert er ráð fyrir að tekjustofnar hækki um 3,5% til 1. júní 1998 og eftir það í samræmi við verðlag auk 2% hækkunar til viðbótar 1. júní 1998. Gert er ráð fyrir að umferð vaxi áfram og verður reiknað með að tekjur aukist af þeim sökum um 1,6% á ári á fyrsta tímabili, 1,2% á öðru tímabili og 1% á því þriðja. Með þessum forsendum mun ráðstöfunarfé aukast umtalsvert á allra næstu árum en fara síðan hægt vaxandi í samræmi við aukningu umferðar.

Á síðasta ári fyrsta tímabils langtímaáætlunar, þ.e. á árinu 2002, verður ráðstöfunarfé til vegamála tæplega 9 milljarðar kr. og er það meira fjármagn en áður hefur farið til vegáætlunar. Það ár fara tæplega 4 millj. kr. til nýrra þjóðvega en á síðustu 20 árum eru það einungis árin 1993--1995 sem sýna hærri tölur til nýrra þjóðvega í vegáætlun, en þessi ár voru í gangi sérstök átök, m.a. vegna ástands í atvinnumálum.

Rétt er að geta þess að ekki er reiknað með að breyting á lögum um þungaskatt sem taka á gildi um nk. áramót hafi áhrif á fjáröflunina enda er ein meginforsendan fyrir breytingunni að hún hafi ekki áhrif á heildarupphæð tekjustofnsins sem rennur til vegamála.

Skipting útgjalda á liði er með svipuðu sniði og verið hefur í vegáætlun undanfarin ár að öðru leyti en því að verulegar breytingar eru á skiptingu fjár til stofnvega. Gildandi meginreglur um úthlutun fjár til stofnvega eru orðnar mjög gamlar og hafa ekki tekið miklum breytingum í tímans rás.

Hlutföll milli kjördæma eru reiknuð út frá kostnaði, ástandi og arðsemi vega í framtíðarkerfi sem er svo umfangsmikið að jafnan tæki það upp undir 30 ár að ljúka verkefninu eins og það hefur verið skilgreint á hverjum tíma. Þegar litið er til svo langs tíma verður óvissa í skilgreiningu verkefnisins mjög mikil, hvað skuli tekið með og hverju sleppt.

Ekki verður komist hjá misræmi á milli kjördæma. Þessir vankantar komu ekki mikið að sök meðan vegakerfi landsins var í heild þurfandi fyrir úrbætur og kom þannig inn í dæmið. Eftir því sem vegakerfið hefur tekið framförum hafa gallar aðferðarinnar vaxið. Nokkur síðustu árin hefur hluta fjár til stofnvega verið skipt í hlutfalli við íbúatölu. Að öllu samanlögðu hafa verið miklar deilur um skiptinguna hér í þinginu eins og kunnugt er og því ærin ástæða til breytinga.

Á undanförnum árum hafa vaxið mjög kröfur um aukin framlög til vegamála. Þær kröfur koma jafnt frá landsbyggðinni sem höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni lúta þessar kröfur að því að leysa það sem mætti kalla frumþarfir byggðarlaga en það er að vegur með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi tengi öll stærri þéttbýli landsins. Þá þarf einnig að tengja saman nálæga þéttbýlisstaði til að auka samvinnu og samnýtingu. Ferðaþjónusta er atvinnuvegur í örum vexti og þarf á því að halda að bundið slitlag sé lagt á fjölförnustu ferðamannaleiðir. Loks má nefna kröfur um aukið umferðaröryggi og hefur ríkisstjórnin mótað þá stefnu að fækka umferðarslysum.

Með hliðsjón af þessu var reynt að skilgreina nokkur framkvæmdamarkmið á vegakerfinu sem ljúka skyldi við á gildistíma langtímaáætlunar og er gerð grein fyrir þeim í athugasemdum með tillögunni. Verkefni þau sem falla undir framkvæmdamarkmiðin eru metin alls á tæplega 20 milljarða kr. og eru því skilgreind sem stórverkefni í tillögunni. Þessi verkefni eru talin upp í athugasemdum og í tillögunni sjálfri er þeim raðað á tímabil innan langtímaáætlunar.

Ekki er fjallað um jarðgöng í þessari langtímaáætlun. Ef til slíkra framkvæmda kemur á áætlunartímabilinu er gert ráð fyrir að það verði samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnvalda þar sem einnig verði tekin afstaða til fjármögnunar. Lagt er þó til að veita nokkurt fé til jarðgangarannsókna á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum.

Eins og áður sagði tekur hinn nýi stórverkefnalisti til þeirra verkefna sem falla undir framkvæmdamarkmiðin. Nú er ljóst að ýmis verkefni falla utan ramma þeirra auk þess sem ýmis ný verkefni bætast við á svo löngum tíma sem hér er til umræðu og verður að sjá fyrir fjármagni í þessu skyni. Fjárveiting til almennra verkefna á stofnvegum nýtist til þess að leysa þessi verkefni en rúmlega fimmti hluti alls fjármagns til stofnvega utan höfuðborgarsvæðisins fer til almennra verkefna. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þessu fjármagni sé skipt jafnt á milli kjördæma annarra en höfuðborgarsvæðisins.

Á höfuðborgarsvæðinu snýr þörfin einkum að því að auka umferðaröryggi auk þess sem ný byggðahverfi kalla á nýjar aðfærsluæðar. Mörg brýn verkefni bíða þegar úrlausnar á þessu svæði og íbúaþróun í mörg undanfarin ár hefur sem kunnugt er verið slík að þörf fyrir úrbætur á stofnvegakerfi svæðisins hefur vaxið hröðum skrefum. Reynt er að mæta þessu að nokkru í tillögunni með auknum fjárveitingum en þær hækka í sömu hlutföllum og fjármagn til stofnvega utan höfuðborgarsvæðisins. Ef íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins vex áfram með svipuðum hraða og undanfarið má þó búast við að fjármagn samkvæmt tillögunni dugi ekki til. Kemur þá til greina að beita óhefðbundnum aðferðum við fjármögnun vegaframkvæmda á svæðinu. Slíkar aðferðir hafa verið skoðaðar lauslega og sýnast framkvæmanlegar. Ef til kemur að fara óhefðbundnar leiðir við fjármögnun verða þau mál lögð fyrir Alþingi.

[10:45]

Viðhaldsliðir fara nokkuð vaxandi á tímabilinu og á það við um þá alla. Síauknar kröfur eru gerðar um þjónustu á vegakerfinu og verður að kosta nokkru til ef koma á til móts við þær. Þá vex verðmæti vegakerfisins stöðugt og fjárþörf til viðhalds verðmætinu vex þá einnig. Þetta er sama þróun og orðið hefur í öðrum löndum en hún er þó skemmra á veg komin hér.

Á seinni hluta áætlunartímabilsins er í fyrsta sinn gert ráð fyrir að viðhaldsliðirnir nemi hærri upphæðum en útgjöld til nýrra framkvæmda. Verður nú nánar vikið að vegáætlun en eins og áður sagði tekur hún til 1998 og síðan fjögurra ára að auki.

Tillagan fyrir 1998 gengur út frá gildandi vegáætlun fyrir það ár. Endanleg tala er að vísu 9 millj. kr. lægri og örlitlar tilfærslur eru á einstökum liðum útgjalda. Framlög til allra stóru liðanna, viðhalds og nýframkvæmda, eru þó hin sömu og í gildandi áætlun. Tekjuhliðin 1998 er með svipuðu sniði og undanfarin ár. Hluti af mörkuðum tekjum til vegamála er færður í ríkissjóð. Á móti kemur framlag og lánsfé úr ríkissjóði sem dregur úr skerðingu ráðstöfunarfjár. Ríkissjóður lagði mikið lánsfé til vegamála vegna átaks í atvinnumálum sem hófst 1993. Segja má að millifærslur undanfarinna ára hafi farið til endurgreiðslu þessa lánsfjár. Miðað við tillöguna lýkur endurgreiðslunni á þessu ári og raunar rúmlega það.

Frá og með árinu 1999 verður sú áðurnefnda breyting að markaðir tekjustofnar renna alfarið til vegamála að frádregnu hálfu prósentustigi sem greiðist í ríkissjóð. Með þessu einfaldast tekjuhliðin því að ríkisframlag og lán úr ríkissjóði falla einnig niður.

Á árinu 1999 er greitt af lánum vegna Skeiðarársands og framkvæmdaátaksins sem hófst 1995. Lán til vegtenginga við Hvalfjarðargöng verður greitt niður á árunum 1999--2003.

Ráðstöfunarfé til vegamála vex samkvæmt tillögunni umtalsvert árin 1999--2000 en síðan er vöxturinn eingöngu tengdur eðlilegri stækkun tekjustofna. Framlög til nýframkvæmda á stofnvegum hækka þegar 1999 en haldast síðan nokkuð stöðug. Útgjöld til þessa liðar 1999 markast nokkuð af því að þá var veitt fé til að greiða lán vegna framkvæmdaátaksins, svo og til að ljúka endurbyggingu hringvegarins um Skeiðarársand. Á því ári og hinu næsta eru einnig fjárveitingar til að bæta vegasamband við Þingvelli vegna kristnihátíðarinnar. Að öðru leyti fer fjármagnið til stórverkefna og almennra verkefna utan höfuðborgarsvæðisins eins og áður var getið, svo og til höfuðborgarsvæðisins.

Tengivegir og brúargerð fá aukið framlag eftir því sem líður á tímabilið og er mikil þörf fyrir hvort tveggja. Margir tengivegir bera mikla umferð sem kallar á uppbyggingu þeirra með bundnu slitlagi. Þá mun breikkun brúa stuðla að auknu umferðaröryggi.

Viðhald þjóðvega er annar stærsti útgjaldaliður veg\-áætlunar. Þar fara allir liðir vaxandi út áætlunartímabilið. Vegagerðin hefur reynt að meta fjárþörf hinna ýmsu liða viðhaldsins. Matið gefur hærri tölur en nemur fjárveitingum á öllum liðum. Þessi flokkur verkefna mun taka til sín meira fé á næstu árum eins og nefnt var í tengslum við langtímaáætlun.

Tillagan gerir ráð fyrir að kostnaður við stjórn og undirbúning fari vaxandi á tímabilinu. Undanfarin ár hefur þessi liður verið lækkaður frá því sem hann var frá árunum í kringum 1990. Á þessum tíma hafa verkefni á þessu sviði orðið æ viðameiri og Vegagerðinni hafa verið falin ýmis ný verkefni. Verður ekki hjá því komist að hækka þennan lið og er miðað við að hann verði svipaður í lok tímabilsins og hann var á árunum kringum 1990. Framlög til safnvega, landsvega, styrkvega og reiðvega fara vaxandi út tímabilið. Þessir liðir eru ekki stórir en undir þá falla mikilvæg verkefni sem snerta búsetu í hinum dreifðu byggðum, ferðamennsku og öryggismál.

Samkvæmt tillögunni fara milli 400 og 500 millj. til flóabáta. Tekur sú upphæð bæði til rekstrar ferja og greiðslu vaxta og afborgana af stofnkostnaði þeirra. Miðað er við að smíðað verði nýtt skip til siglinga milli Hríseyjar og Árskógssands og kostnaður við það sé greiddur á tímabilinu. Þá er reiknað með að rekstrarstyrkur til Akraborgar falli niður með tilkomu Hvalfjarðarganga.

Herra forseti. Ég legg til að báðum þessum tillögum verði vísað til samgn. og síðari umr. Ég legg áherslu á að nefndin hraði störfum sem kostur er, þó ekki á kostnað þess að vel og vandlega sé hugað að einstökum atriðum í tillögunum.