Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:19:43 (3165)

1998-01-29 11:19:43# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst það síðasta. Það er deginum ljósara að framkvæmdaátakinu er lokið og við skulum vera algerlega sammála um það. Átaki hæstv. samgrh. í samgöngumálum og vegamálum er lokið. Við skulum kasta rekunum yfir þetta átak hér og nú. Ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna staðreyndir og það er ljóst að ég og hæstv. ráðherra erum sammála um það. Því átaki, sem Alþfl. beitti sér fyrir og gat dregið hæstv. ráðherra út í á sínum tíma, er lokið. Nú tekur hversdagsleikinn við. Það sem er verra er að hæstv. ráðherra er að skila í ríkissjóð ekki eingöngu einhverju lánsfé, eins og hann nefnir, heldur verulegum fjármunum öðrum á yfirstandandi kjörtímabili. Um það þurfum við þá ekki að deila og er það fagnaðarefni.

Hæstv. samgrh. spyr mig: Hvaða jarðgöng vill þingmaðurinn? Kemur hér með áætlun til næstu tólf ára sem hann er búinn að vinna að væntanlega hin síðari ár og spyr stjórnarandstöðuna: Hvaða jarðgöng viljið þið? Við viljum og hefðum talið eðlilegt að hæstv. samgrh., hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn stjórnarliða hefðu unnið heimavinnuna sína í þessum efnum og haft raunverulega valkosti í jarðgangagerð bæði norðan og austan heiða. En því er ekki að heilsa. Það hafa engir fjármunir farið til þessa málaflokks í tíð núv. ríkisstjórnar. Það gerir það að verkum að menn eru ekki í stakk búnir til þess hér og nú, og ekki ætla ég að kveða upp dóma um það í hvaða röð, hvernig og undir hvaða formerkjum það eigi að gerast, enda liggja engar upplýsingar fyrir um það. En það er merkilegt að hæstv. ráðherra hefur ekki nokkrar hugmyndir um málið og það ættu þingmenn þessara tveggja kjördæma að íhuga, þingmenn á borð við Jón Kristjánsson og Hjálmar Jónsson.

(Forseti (GÁ): Háttvirta þingmenn.)

Í lokin þetta. Það var athygli vert að hæstv. ráðherra nefndi skuggagjöld í samhengi við Reykjanesbrautina og stórverkefni á höfuðborgarsvæðinu. Þar liggur hans hugur þegar þessar (Forseti hringir.) sértæku fjármögnunarleiðir eru farnar. Það er ljóst.