Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:26:03 (3168)

1998-01-29 11:26:03# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., RA
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:26]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Þau þykku þingskjöl sem hér liggja fyrir til umræðu um langtímaáætlun í vegagerð og vegáætlun fyrir næstu fimm ár hlaðin löngum talnarunum verður að skoða í því ljósi að Ísland er vanþróað ríki í vegamálum. Satt best að segja er leitun að þeirri þjóð a.m.k. í þessari heimsálfu sem er eins illa á vegi stödd og við Íslendingar hvað vegamál varðar. Mjög stór hluti okkar vegakerfis er án bundins slitlags með holóttum vegum þannig að vegfarendur eru í stöðugu rykkófi og allt of margir mikilvægir fjallvegir eru ófærir meiri hluta ársins. Auk þess vantar mjög víða bráðnauðsynlegar tengingar sem gætu stytt fjarlægðir milli þéttbýlisstaða og stækkað atvinnusvæði.

Við hljótum því að draga þá ályktun af þeirri staðreynd að fjármagn til vegamála hefur verið langt frá því nægilegt á undanförnum árum. Það hefur ekki verið í neinu samræmi við þær brýnu þarfir sem við blasa og það verður allt of lítið áframhald ef þær áætlanir sem hér eru lagðar fram ná fram að ganga.

Samkvæmt þessum áætlunum eru markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar áfram stórskertir á því ári sem nú er að líða. Það munu vera um 814 millj. sem eru teknar í ríkissjóð þegar tillit er tekið til þess framlags sem ríkið leggur þar á móti. En brúttó er skerðingin, eins og hér hefur komið fram, tæpar 1.200 millj. kr. Í lok þessa árs mun ríkissjóður skulda Vegasjóði einhvers staðar á milli 600--700 millj. kr. og samt á áfram að færa fé úr Vegasjóði með afborgunum af áhvílandi lánum. Áform um að frá árinu 2000 verði allt fé markaðra tekjustofna lagt í Vegasjóð eru vissulega góðra gjalda verð en þau eru tortryggileg úr því að þessu fyrirheiti er skotið á frest yfir á næsta kjörtímabil.

Ég tel það vissulega lofsvert að lögð er fram langtímaáætlun til tólf ára. Það er bráðnauðsynlegt að fá gott yfirlit yfir þau verkefni sem vinna þarf að á næstu árum og slíkt yfirlit auðveldar okkur ákvarðanatökuna á komandi árum og ég þakka hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra fyrir þá vinnu sem í þetta hefur verið lögð. En ég vek á því athygli að reynslan kennir okkur að þegar vegáætlanir eru lagðar fram til nokkurra ára jafnvel aðeins tveggja eða fjögurra ára og þar gefin mikil fyrirheit um stóraukin framlög til vegamála á 3. eða 4. ári, þá hefur því miður niðurstaðan oftast orðið sú þegar til kastanna hefur komið að sú aukning hefur verið skorin niður með stórfelldu fjárnámi af fé Vegasjóðs í ríkissjóð.

[11:30]

Á seinasta ári var fé Vegasjóðs skert verulega, eða um 800 millj. brúttó, líklega einhvers staðar í kringum hálfan milljarð nettó, og svo hefur verið allan þennan áratug að átt hefur sér stað mikill tilflutningur á fé úr Vegasjóði í ríkissjóð þótt þar á móti hafi að vísu komið nokkurt lánsfé til framkvæmdaáætlunar. Ég tel því að nokkurt áróðursbragð sé af vegáætlun, sem er nú lögð fram ári fyrir alþingiskosningar, og felur í sér áframhaldandi stórskerðingu á mörkuðum tekjustofnum á því ári sem er að líða þó að fyrirheit fylgi um bót og betrun eftir næstu alþingiskosningar. Samkvæmt þessari vegáætlun á að verja tæpum 4 milljörðum á ári hverju til uppbyggingar nýrra þjóðvega og brúa og ég legg áherslu á það hér, í upphafi máls míns, að þetta er allt of lítið fjármagn. Þetta er ekki nema rétt um 2,3% af útgjöldum ríkisins eða um 0,7% af vergri landsframleiðslu. Fé til vegamála má vissulega auka margvíslega. Í fyrsta lagi má hverfa frá þeim skerðingaráformum sem er að finna í þessari áætlun. Það má endurgreiða skuld ríkissjóðs við Vegasjóð en eins og menn sjá, sem skoða þessa áætlun, er ekki gert ráð fyrir því að sú skuld sé nokkurn tímann gerð upp. Ég tel líka að kostnað vegna vegtengingar Hvalfjarðarganga ætti að greiða af öðru fé en ekki af vegáætlun. Það er ljóst að ríkissjóður mun hljóta verulegan virðisaukaskatt af því veggjaldi sem þar verður innheimt og mætti verja því fé í því skyni. Ég tel að flóabátarnir eigi ekkert heima í vegáætlun. Þeir eiga að hverfa þaðan út. Það er mál sem þarf að taka sérstökum tökum og endurskoða frá grunni og það mundi létta á vegáætluninni sem nemur tæpum hálfum milljarði á ári hverju á komandi árum og mundi þá verða til að auka nýbyggingar vega sem því nemur. Auk þess má nýta tekjustofna Vegasjóðs miklu betur en gert hefur verið í samræmi við heimildir laga.

Nýja vegáætlunin felur hins vegar í sér verulega stefnubreytingu frá því sem verið hefur. Um langt skeið hefur fé til stofnvega verið skipt samkvæmt sérstakri skiptireglu sem hefur verið miðuð við ástand, kostnað og arðsemi veganna. Síðan var farið að taka einstök verkefni út fyrir sviga, verkefni sem voru sérstaklega erfið eða dýr og fyrstu verkefnin af þessu tagi hygg ég að hafi verið svokallaðir Ó-vegir. Það var Ólafsfjörður, Ólafsvík og Óshlíð. Þetta voru verkefni sem voru tekin út fyrir sviga. En síðan var fylgt í kjölfarið með fleiri og fleiri stórverkefni. Síðan framkvæmdaáætlanir og framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Almennu verkefnin hafa því smám saman orðið æ minni hluti vegafjár og fyrir tveimur árum voru þau orðin aðeins þriðjungur af fé til stofnvega. Á því ári sem nú er að líða stefnir í að þau séu aðeins fjórðungur, 25% af því fé sem veitt er til stofnvega og síðan er ætlunin að á næsta ári, 1999 og á árunum þar á eftir, verði almennu verkefnin aðeins 12% eða 1/8 hlutinn af því fé sem veitt er til nýbyggingar vega. Þar á móti hefur stórverkefnaflokkurinn stækkað mikið og fær þrisvar sinnum meira í framtíðinni en hann hefur fengið í seinni tíð og ljóst er að höfuðborgarsvæðið fær stóraukið fé. Á næstu tólf árum er áformað að verja um 12,5 milljörðum kr. til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu eða u.þ.b. 1/3 af öllu nýbyggingarfé til vega. Því til viðbótar kemur svo tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði til Keflavíkur sem á að kosta um 2,4 milljarða kr. Því miður hafa þingmenn ekki fengið í hendur framkvæmdalistann sem liggur að baki þessum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og því er mjög erfitt að átta sig á langtímaáætlun í heild þegar svo mikilvægan þátt vantar.

Tenging þéttbýlisstaða, sem styttir verulega vegalengdir milli þéttbýlisstaða, er eitt allra brýnasta verkefnið í vegamálum til að stækka atvinnusvæði og þétta dreifðar byggðir. Brýn verkefni af þessu tagi blasa við á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum en þeim er lítt sinnt samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir.

Langtímaáætlunin hlýtur að vera Austfirðingum mikil vonbrigði að þessu leyti en þar er brýn þörf á að mynda samfellt atvinnusvæði frá Seyðisfirði til Fáskrúðsfjarðar með góðri tengingu við Egilsstaði en ekki er að sjá að því verkefni verði sinnt á næstu tólf árum. Sama gildir um tengingu Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Dalvíkur með jarðgöngum og vegi um Héðinsfjörð. Sú tenging yrði mikil lyftistöng fyrir alla þessa staði en nú þegar er mikil samvinna þar á milli í atvinnumálum eins og best sést á samvinnunni milli Ólafsfirðinga og Siglfirðinga í stórfyrirtækinu Þormóður rammi--Sæberg.

Á Vestfjörðum er brýnasta verkefnið jarðgangagerð, að tengja saman norðurfirðina og suðurfirðina með göngum um Dýrafjörð og Arnarfjörð undir Hrafnseyrarheiði en bílferja gæti síðan gengið milli Bíldudals og Hrafnseyrar nokkrum sinnum á dag. Að gefnu tilefni er sérstök ástæða til að vara við því að fólk láti blekkjast af því að í þeim áætlunum sem liggja fyrir er áformað að verja 10 millj. á ári hverju til jarðgangarannsókna. Það er alveg ljóst að með þessari áætlun, ef samþykkt verður, er verið að útiloka jarðgangagerð á næstu tólf árum. Það verður einfaldlega að horfast í augu við þá staðreynd að samkvæmt þessari áætlun verða engin jarðgöng grafin á næstu tólf árum. Að halda öðru fram er ekkert annað en tálvon og blekking.

Hvað Norðurland varðar er þetta alveg sérstaklega undirstrikað með tillögu um 680 millj. kr. vegagerð um Lágheiði á árunum 2003--2010. Ljóst er að jarðgöng verða ekki gerð milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar næstu 20 árin ef 680 millj. kr. verður varið til að byggja upp Lágheiðina. Ég tel það lágmarkskröfu, hvað þessa tengingu varðar, að orðalaginu í langtímaáætluninni sé breytt og þar standi ekki Lágheiði eins og þar er með 680 millj. kr. fjárveitingu, heldur verði liðurinn orðaður svo: Vegtenging milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Þá kæmi það í hlut næstu ríkisstjórnar, á nýju kjörtímabili Alþingis, að móta stefnuna í jarðgangagerð við gerð vegáætlunar fyrir árin 2003--2006 og þeir alþingismenn sem kjörnir verða í næstu alþingiskosningum gætu þá tekið endanlega ákvörðun um það hvort um yrði að ræða lausn í anda nýrrar aldar eða þá vegur þarna um snjóþunga heiði sem verður því miður aldrei talin viðunandi lausn.

Mjög mörg önnur brýn og bráðnauðsynleg verkefni eru skilin eftir í þessum áætlunum. Sem dæmi mætti nefna veginn um Fróðárheiði sem tengir Ólafsvík við suðurhluta Snæfellsness og síðan stystu leið í Borgarnes. Annað dæmi eru vegamálin í Borgarfirði sem eru enn að gjalda fyrir það hvað Borgarfjarðarbrúin var fjárfrek á sínum tíma. Þar eru vegamál í miklum ólestri og ekki sjáanlegt að á þessari áætlun verði þar mikil úrbót gerð.

Enn eitt dæmi er svo vegurinn sem tengja á Blönduós og Skagaströnd við Sauðárkrók um Þverárfjall. Sá vegur styttir leiðina milli Skagastrandar og Sauðárkróks um 70 km, úr 100 km í rúma 30, og verður hluti strandvegarins frá Húnaflóa um Sauðárkrók og Siglufjörð til Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Þetta mikla verkefni hefur þó ekki hlotið náð fyrir augum þeirra sem settu saman langtímaáætlunina og er það miður.

Ég vil líka nefna að margar framkvæmdir eru allt of seint á ferðinni og vil ég sérstaklega nefna norðausturleiðina, þ.e. leiðina frá Húsavík til Þórshafnar sem er ein allra brýnasta vegaframkvæmdin sem við stöndum frammi fyrir. Hún er vissulega mjög dýr og meginþungi þessarar framkvæmdar lendir á seinasta áætlunartímabilinu, þ.e. eftir átta ár. Þarna hefði þurft að hraða verkum meira en áformað er.

Þeir vegir sem ég hef gert að umtalsefni eru svonefndir stofnvegir en það er hringvegurinn ásamt aðalvegum til þéttbýliskjarna, sannkallaðar slagæðar vegakerfisins. En háræðarnar sem út frá þeim ganga um sveitir landsins nefnast tengivegir. Tengivegirnir hafa lengi verið herfilega vanræktir enda öll áhersla lögð á uppbyggingu stofnveganna. Þegar farið er að gera áætlanir um margra milljarða framkvæmdir við Sundahöfn í grennd við höfuðborgina ætti að huga að því hvort ekki sé tímabært að auka framlög til tengiveganna. Vegamálastjóri orðaði það þannig í gærmorgun að verkefnin í tengivegunum væru endalaus og ég get tekið undir það að þau eru auðvitað endalaus meðan allt of lítið fé fæst til að sjái fyrir endann á þessum framkvæmdum.

Herra forseti. Tími minn er þrotinn. Ég segi að endingu: Ísland er stórt land og við verðum einfaldlega að verja miklu meira fé til að byggja upp vegakerfi okkar en gert hefur verið. Það verður að vera tiltækt meira fé þannig að viðunandi lausn fáist á þessum mikla vanda okkar.