Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:47:12 (3171)

1998-01-29 11:47:12# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. í síðari ræðu sinni þá vil ég taka fram að auðvitað er Vegasjóður og framlög til vegamála hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins í heild sinni. Nú er það metið svo að ekki séu skilyrði til að leggja frekara fé fram til vegamála en hér er gert, að teknu tilliti til þeirra miklu framkvæmda sem nú eru í Hvalfirði. Það verður að sjálfsögðu að líta á allt í samhengi þegar við erum að meta heildarfjárfestingu í vegamálum.

Ég vil jafnframt minna á að það er nokkuð liðið síðan við Sverrir Sveinsson, rafveitustjóri á Siglufirði, fluttum á Alþingi tillögu um að athugað yrði hvort rétt væri að fara í jarðgangagerð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Hann var þá varaþm. Framsfl. Ef ég man rétt þá treysti enginn þingmaður Norðurl. v. sér til að taka undir þessa skoðun á þeim tíma. Ég hef á hinn bóginn löngum barist fyrir bættum samgöngum milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Ég er ekki úrtölumaður í þeim efnum en þar sem þingmenn Norðurl. v. hafa mjög áfellst mig fyrir það að taka ekki jarðgöng inn milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar þá minni ég á að þeim jafnkunnugt um það og mér að það er ekki samstaða um það á Alþingi í hvaða jarðgöng skuli næst ráðist ef af verður. Hér er gert ráð fyrir því að fara í jarðgangarannsóknir á næstu árum. Um það var samkomulag í stjórnarflokkunum. En ég geri mér líka grein fyrir því að þingmenn Norðurl. v. munu þrýsta mjög á að fá jarðgöng á Norðurlandi og hið sama munu þingmenn á Austurlandi að sjálfsögðu gera varðandi jarðgöng þar eystra.