Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 11:52:03 (3173)

1998-01-29 11:52:03# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[11:52]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér mikilvægan málaflokk sem er vegáætlun og langtímaáætlun til næstu tólf ára. Ef litið er á tekjuhlið tillögunnar um langtímaáætlun þá er gert ráð fyrir auknu fjármagni til vegamála á áætlunartímabilinu. Með sífellt aukinni umferð er raunhæft að gera ráð fyrir því að markaðir tekjustofnar skili auknum tekjum til Vegasjóðs. Hins vegar er mikilvægt að verja hina mörkuðu tekjustofna þannig að fjármagnið sem þeir mynda renni til Vegasjóðs og þeirra verkefna sem þeim er ætlað að fjármagna.

Sá liður í tillögunni sem helst er litið til eru áætlanir um nýframkvæmdir í hinum ýmsu vegflokkum. Sú grundvallarbreyting er gerð á ráðstöfun fjármagns til stofnvega að sett er fram stórverkefnaáætlun sem miðast við ákveðin og afmörkuð verkefni á landsvísu. Gert er ráð fyrir ákveðnu fjármagni til höfuðborgarsvæðisins og einnig til almennra verkefna. Þar með eru eldri aðferðir við skiptingu fjármagns eftir kjördæmum lagðar af eins og fram hefur komið hér hjá hæstv. samgrh.

Sú tillaga um langtímaáætlun stórverkefna sem hér er til umræðu byggir á framkvæmdamarkmiðum sem fram koma í greinargerð tillögunnar. Þar ber fyrst að nefna að ljúka á að leggja hringveginn bundnu slitlagi og vegi af honum til þéttbýlisstaða með yfir 200 íbúa. Í mínum huga er þetta mjög mikilvægt markmið því mjög margir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni eru án slíks vegasambands í dag og það hlýtur að teljast sjálfsögð og eðlileg krafa þjóðarinnar allrar að þetta markmið gangi eftir. Sem dæmi má nefna að á Vesturlandi eru aðeins tveir þéttbýlisstaðir tengdir við hringveginn með bundnu slitlagi. Það eru Akranes og Borgarnes. Það ætti því ekki að þurfa að eyða mörgum orðum í það hve sjálfsagt er að þéttbýlisstaðirnir á Snæfellsnesi og Búðardalur tengist hringveginum á þennan hátt.

Auk þessa markmiðs er miðað við að tengja saman með uppbyggðum vegi og slitlagi nálæga byggðakjarna með fleiri en 1.000 íbúum á hvorum stað.

Bundið slitlag verður lagt á ferðamannaleiðir með sumarumferð yfir 200 bíla á dag. Á helstu flutningaleiðum verða endurbyggðar brýr sem ekki þola fullan þunga og vegir með mikla umferð verða breikkaðir þannig að flutningsgeta og umferðaröryggi verði ekki vandamál. Vegkaflar með mikla umferð, þ.e. yfir 500 bíla á dag, sem hafa reynst hættulegir þar sem bundið slitlag var lagt á gamla vegi án endurbóta, verða endurbyggðir. Loks er lagt til að einbreiðar brýr á hringveginum, sem hafa yfir 400 bíla umferð, verði breikkaðar. Þetta eru þau helstu framkvæmdamarkmið sem koma fram í geinargerð með tillögunni um langtímaáætlun.

Mín skoðun er að sú hugmyndafræði sem tillagan byggir á sé rökrétt. Hún kemur heim og saman við þá umræðu um byggðamál sem verið hefur undanfarna mánuði. Tillagan miðar að því að á áætlunartímabilinu verði sérstök áhersla lögð á uppbyggingu vega á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja í byggðaþróuninni enda eru þar flest verkefni óunnin í vegamálum. Þessi tillaga um langtímaáætlun er því mikilvægt innlegg sem aðgerð til að treysta byggð í landinu.

Það er ljóst að skiptar skoðanir eru um einstök verkefni á einstökum landsvæðum. Þannig hefur það alltaf verið í umræðum um vegáætlanir og þannig mun það alltaf verða meðan svo mikið er óunnið í uppbyggingu vegakerfisins í landinu. Víða er mikil þörf og mikið óunnið alls staðar á landinu. Nærri liggur að kostnaður vegna verkefna sem óunnin eru á stofnvegum sé um eða yfir 40 milljarðar. Miðað við þessa tillögu verða líklega óunnin verkefni sem nema yfir 15 milljörðum eftir að áætlunartímabilinu lýkur.

Auk tillögu um stórverkefnaáætlun er gert ráð fyrir verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og við almenn verkefni á landsbyggðinni eins og ég hef áður vikið að. Áætlun um almenn verkefni gerir ráð fyrir að hvert kjördæmi hafi til umráða um 64 millj. kr. árlega til annarra verkefna á stofnvegum en gert er ráð fyrir í stórverkefnaáætlun. Það er mikilvægt að leggja áherslu á þetta þar sem mörg verkefni eru óunnin víða á stofnvegum og reyndar í öðrum vegflokkum.

Í greinargerð með tillögu um langtímaáætlun er gert ráð fyrir að skapaðir séu möguleikar til að tímabundið megi færa til fjármagn allt að 200 millj. kr. innan hvers kjördæmis á áætlunartímabilinu. Tilfærslan getur verið milli verkefna á stórverkefnalistanum eða verkefna á mikilvægum stofnvegum milli nálægra þéttbýlisstaða sem ekki eru á listanum og falla því undir almenn verkefni. Ég tel reyndar að þetta eigi ekki að vera bundið við mikilvæga stofnvegi milli nálægra þéttbýlisstaða heldur einnig mikilvæg verkefni á stofnvegum sem ekki er gert ráð fyrir í stórverkefnaáætlun. Ég mun, við meðferð málsins í hv. samgn., leggja áherslu á að um þetta verði fjallað sérstaklega.

Í langtímaáætluninni er gert ráð fyrir að Vegasjóður endurgreiði lán vegna framkvæmda við vegtengingar við Hvalfjarðagöng. Endurgreiðslan falli til á árunum 1999--2003 og er um að ræða 400 millj. kr. auk fjármagnskostnaðar. Þetta er helmingur kostnaðarins við verkefnið, hinn helmingurinn verður fjármagnaður af vegtollum sem Spölur hf. mun innheimta af umferð um göngin. Ég tel rök fyrir því að taka upp umræðu um að a.m.k. hluti af þessari endurgreiðslu sem Vegasjóði hefur verið ætluð verði fjármögnuð með tekjum ríkissjóðs af virðisaukaskatti af veggjöldum sem innheimt verða af umferðinni gegnum göngin. Ég legg til að þetta mál verði tekið til sérstakrar umfjöllunar í hv. samgn. við meðferð málsins og ég hef reyndar þegar fjallað um þetta mál í nefndinni.

En ég vil, herra forseti, leyfa mér að fjalla sérstaklega um þau verkefni sem tillagan gerir ráð fyrir í stórverkefnaáætlun fyrir Vesturland. Þar er gert ráð fyrir að ljúka yfirstandandi framkvæmdum við Gilsfjarðarbrú. Framkvæmdir í Búlandshöfða eru áætlaðar á fyrsta tímabili. Varðandi þetta verkefni er rétt að rifja það upp að verkefnið Búlandshöfði nær yfir uppbyggingu vega í Búlandshöfða og uppbyggingu vega sitt hvorum megin við Búlandshöfðann sjálfan. Á síðustu þremur árum hafa framkvæmdir staðið yfir og hefur kostnaðarhluti Vesturlandskjördæmis í framkvæmdinni nú verið fjármagnaður af vegáætlun. Það sem eftir er verður fjármagnað af stórverkefnasjóði. Þar er um að ræða framkvæmdir í Búlandshöfðanum en þetta verkefni er mjög mikilvægur áfangi við að efla samgöngur milli þéttbýlisstaða á norðanverðu Snæfellsnesi. Sveitarstjórnir hafa um árabil lagt megináherslu á þetta verkefni.

Tillagan gerir ráð fyrir uppbyggingu vegarins í Kolgrafarfirði og með tilkomu verkefnanna tveggja verður vegur milli þéttbýlisstaðanna á norðanverðu Snæfellsnesi byggður með bundnu slitlagi. Það er ein helsta forsendan fyrir viðgangi byggðanna á svæðinu sem er eitt atvinnu- og þjónustusvæði með yfir 4.000 íbúa.

Gert er ráð fyrir nýjum vegi um Vatnaheiði sem komi í stað núverandi fjallvegar um Kerlingarskarð. Sá vegur er afar lélegur malarvegur og eru ekki margir stofnvegir í kjördæminu í lakara ástandi.

Tillagan gerir ráð fyrir endurbyggingu vegarins um Bröttubrekku og í Svínadal en þetta skiptir sköpum fyrir Dali og reyndar einnig fyrir samgöngur við Vestfirði um Gilsfjörð.

Hálsasveitarvegur að Húsafelli telst vera fjölfarinn ferðamannavegur og er gert ráð fyrir uppbyggingu hans með bundnu slitlagi.

Loks er gert ráð fyrir endurbyggingu þjóðvegar 1 í Stafholtstungum og breikkun brúa í kjördæminu.

[12:00]

Þau stórverkefni sem koma fram í tillögunni samrýmast að mestu þeim áherslum sem sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi hafa sett fram en eins og á öðrum landsvæðum er þó hvergi nærri komið til móts við allar óskir þar um. Reikna má með að þegar stórverkefnaáætlun og langtímaáætlun lýkur verði óunnin verkefni á stofnvegum á Vesturlandi sem nemur einhvers staðar nálægt 3,5 milljörðum kr. Aðeins Austurland mun samkvæmt þessu eiga meira óunnið í uppbyggingu stofnvega.

Stórverkefnaáætlun langtímaáætlunar segir ekki allt um vegaframkvæmdir næstu ára því fjármagn til almennra verkefna er ætlað til þess að önnur verkefni verði unnin á stofnvegum. Í þessu sambandi er vert að nefna þá umfjöllun sem verið hefur í fjölmiðlum um þessi mál, en í nokkrum tilfellum hefur hún verið villandi og röng. Þar hefur því verið haldið fram að einstök verkefni sem ekki koma fram í stórverkefnaáætlun séu ekki á dagskrá og er þar um að ræða verkefni sem mikil áhersla er lögð á af heimamönnum á viðkomandi svæðum. Um þetta nefni ég sérstaklega tvö verkefni sem fjölmiðlar hafa fjallað um á þennan hátt á Vesturlandi, þ.e. uppbyggingu vegarins um Fróðárheiði og uppbyggingu Borgarfjarðarbrautar. Þótt þessi verkefni séu ekki á stórverkefnaáætlun, þá munu þau verða fjármögnuð sem almenn verkefni og það er rangt sem fram hefur komið í fjölmiðlum að þessi verkefni séu ekki á dagskrá. Hins vegar eiga þingmenn eftir að fjalla nánar um hin almennu verkefni og því er ekki tímabært að hafa uppi frekari yfirlýsingar um þessi efni að svo stöddu. Eins hefur ekki verið tekin afstaða til margra annarra verkefna sem óunnin eru í kjördæminu en umfjöllun um þau mun fara fram á næstu vikum við vinnslu vegáætlunar næstu fimm ára.

Ég hef aðeins, herra forseti, fjallað um afmarkaðan hluta þessa máls sem hér er til umfjöllunar en að sjálfsögðu eru margir aðrir og mikilvægir liðir í áætluninni sem í raun eru ekki síður mikilvægir en nýframkvæmdir á stofnvegum. Um þá aðra liði áætlunarinnar mun ég nánar fjalla við umfjöllun málsins í hv. samgn.

Við afgreiðslu fjárlaga ársins 1998 fyrir síðustu jól voru einstakir hv. þm. stjórnarandstöðunnar með upphrópanir og fullyrðingar um að fram undan væri stórfelldur niðurskurður á vegáætlun fyrir árið 1998 sem samþykkt var sl. vor. Þessar fullyrðingar komu fram vegna þess að í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að háar fjárhæðir af mörkuðum tekjustofnum Vegasjóðs rynnu í ríkissjóð. En samkvæmt þeim tillögum um vegáætlun sem hér liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir að áður samþykkt vegáætlun um framkvæmdir verði skert. Þessar upphrópanir eiga því ekki við rök að styðjast samkvæmt því sem hér liggur fyrir.

Við undirbúning fjárlagafrv. á síðasta ári var útlit fyrir að lagt yrði til að vegáætlun 1998 yrði skert vegna tilfærslu markaðra tekjustofna frá Vegasjóði í ríkissjóð. Ég gerði við þetta athugasemdir og lýsti því að ég væri andvígur þessum áformum um skerðingu vegáætlunar. Í nefndaráliti samgn. við fjárlagafrv. lýsti nefndin öll óánægju með að markaðir tekjustofnar rynnu í ríkissjóð. Þetta hefur reyndar komið fram hér hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og er rétt fram komið.

Fyrst og fremst kom þetta fram vegna mikilla þarfa við vegaframkvæmdir í landinu sem hér hefur verið fjallað um. Þessi afstaða samgn. stendur út af fyrir sig óhögguð í mínum huga. Hins vegar fellst ég á þá niðurstöðu sem er í fjárlögunum þar sem sýnt var að framkvæmda- og vegáætlun 1998 yrði ekki skorin niður og taldi mikilvægt að ríkissjóður nyti hluta markaðra tekjustofna til Vegasjóðs að þessu sinni til þess að ná mikilvægum markmiðum um hallalaus fjárlög sem skiptir þjóðfélagið allt mjög miklu máli, ekki síst heimilin í landinu.

Herra forseti. Samgöngur eru grundvallarbyggðamál hvort sem er á landsbyggðinni eða í þéttbýlinu og gegnir vegakerfið þar lykilhlutverki. Þetta er mikilvægur málaflokkur sem alltaf verða mjög skiptar skoðanir um, sérstaklega þegar kemur að því að forgangsraða verkefnum. Ég lýsi ánægju með það að þessi langtímaáætlun er komin fram og til umfjöllunar í hv. Alþingi. Það er mikilvægt að áætlunin verði afgreidd á yfirstandandi þingi og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða.