Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:04:28 (3174)

1998-01-29 12:04:28# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:04]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til þess að maður geti áttað sig á því hvað hv. þm. var að fara. Hann vísaði til þess sem rétt er og ég hef nefnt áður í umræðunni að í desember samþykkti hv. þm. Magnús Stefánsson, varaformaður samgn., ályktun sem var samþykkt samhljóða í samgn. þess efnis að samgn. lýsti óánægju sinni með þá niðurstöðu að um væri að ræða 6% lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda frá vegáætlun þeirri sem samþykkt var sl. vor, þ.e. vorið 1997. Nefndin nefndi það líka til sögunnar að hún lýsti óánægju sinni með þá lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda sem var á árinu 1997 sem nam 18--19%.

Nú vill hv. þm. hins vegar ætla að ekkert hafi verið að marka þetta þó að sjá megi í þessari þáltill. að þessar tölur ganga auðvitað hér eftir, enda verður ekki meiru varið til vegamála en fjárlög hvers árs segja fyrir um. Það er mergurinn málsins. Því vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé í hjarta sínu, eftir reynslu sína sem liðsmaður núv. ríkisstjórnar, mjög bjartsýnn á að þær tölur og áform sem er að finna í skammtíma- og langtímaáætlun til vegagerðar komi til með að standast tímans tönn, a.m.k. ef við búum við áframhaldandi meirihlutasamstarf Framsfl. og Sjálfstfl. inn í næstu öld. Er ástæða til þess? Er hann trúaður á það í hjarta sínu að þessar tölur sem er að finna hér á blaðinu séu trúverðugar í ljósi þess niðurskurðar sem hann hefur sjálfur samþykkt á síðustu þremur árum við hið háa Alþingi þegar veruleiki máls rís upp við fjárlagagerð hvers hausts?