Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 29. janúar 1998, kl. 12:11:39 (3178)

1998-01-29 12:11:39# 122. lþ. 55.1 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál., 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[12:11]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í máli hv. þm. að hann upplýsti okkur um að ekki væri gert ráð fyrir að skera niður vegáætlun fyrir yfirstandandi ár, 1998. Ég vil rifja það upp svo að það falli ekki í gleymsku að þegar er búið að skera niður vegáætlun fyrir árið 1998 einu sinni og það ekki um neinar smáfjárhæðir. Mörg hundruð millj. kr. voru skornar af samþykktri vegáætlun og fjárhæðir lækkaðar sem því nemur. Það sem gerðist á sl. hausti var að ríkisstjórnin með stuðningi hv. þm. Magnúsar Stefánssonar lagði til við Alþingi að skerða þessi framlög í annað sinn en frá því var fallið. Hvernig? Jú, með því að hækka bensíngjald. Engu að síður tókst hæstv. fjmrh. með stuðningi þingmanna Framsfl. að ná auknum peningum í ríkissjóð umfram áætlaðar skerðingar því að menn fundu það út að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar mundu skila tekjum um 120 millj. kr. umfram það sem áætlað var og spurningin var: Áttu þá ekki þessir peningar að renna til Vegagerðar? Nei, það gerðist nefnilega ekki. 20 millj. fóru til að endurgreiða þungaskatt hjá sérleyfishöfum í dreifbýlinu sem halda uppi áætlunarferðum en 100 millj. runnu í ríkissjóð. Engar af þessum nýju tekjum fóru til vegagerðar.